Fréttabréf Grenivíkurskóla

3. tbl. 2. árg. - mars 2021

Kæra skólasamfélag

Þá hefur febrúar runnið sitt skeið og sömuleiðis þorrinn. Góan komin með hækkandi sól, bjartari morgnum og vonandi heldur veðrið áfram að leika við okkur líkt og undanfarnar vikur. Þá hefur verið létt umtalsvert á takmörkunum á skólastarfi f.o.m. 24. febrúar. Þýðir það t.d. að við getum boðið foreldra velkomna á viðburði í skólanum - að ákveðnum skilyrðum uppfylltum - og fögnum við því.


Í febrúar hóf nýr starfsmaður störf í Grenivíkurskóla en það er hann Guðni Sigþórsson. Guðni verður áfram hjá okkur að leysa af í kennslu, mestmegnis í íþróttum, ásamt því að sjá um skólavistun á fimmtudögum. Við bjóðum Guðna hjartanlega velkominn í hópinn.


Í mars er fjölmargt á dagskránni hjá okkur og er fyrsta vikan sérlega viðburðarík. Þá verða tónleikar hjá nemendum Tónlistarskóla Eyjafjarðar, Upplestrarkeppni hjá 7.-8. bekk, skíðadagur og hreyfivika. Þá eru framundan samræmd próf í 9. bekk, samskólahittingur hjá 7.-10. bekk og ýmislegt fleira.


Þó er vert að nefna að Vorskemmtun skólans, sem samkvæmt skóladagatali á að vera í lok mars hefur verið frestað þar til í lok apríl. Það verður því meira og minna hefðbundið skólastarf fram að páskafríi, en svo verður apríl að öllum líkindum undirlagður vorskemmtunarundirbúningi.


Páskafrí hefst í lok mars, en síðasti kennsludagur fyrir páskafrí er föstudagurinn 26. mars. Nemendur koma svo aftur í skólann að loknu fríi þriðjudaginn 6. apríl.


Með kveðju úr skólanum,

Þorgeir Rúnar Finnsson

skólastjóri Grenivíkurskóla

Svefn og skjátími

Líkt og fram kom í tölvupósti til foreldra um daginn viljum við ítreka mikilvægi þess að nemendur fái nægan svefn. Svefnþörf okkar er ólík, bæði eftir aldri og einnig einstaklingum, en þó er t.d. almennt talið að börn og ungmenni þurfi að jafnaði lengri svefn en þau sem eldri eru. Hér má sjá hversu miklum svefni mælt er með eftir aldri, en þar kemur t.d. fram að 6-13 ára börn þurfa almennt 9-11 klst svefn og 14-17 ára börn þurfa 8-10 klst svefn. Stundum verðum við í skólanum vör við að börn komi þreytt og illa sofin í skólann og það getur haft slæm áhrif á frammistöðu þeirra og líðan.


Þá er vert að nefna að skjánotkun fyrir háttatíma getur haft áhrif á bæði lengd og gæði svefns. Ljósin frá tækjunum hafa áhrif á heilastarfsemina og valda því að erfiðara verður að sofna og einnig getur reynst erfiðara að ná fram djúpsvefni, sem er okkur afar mikilvægur. Því er talið ráðlagt að hætta skjánotkun vel fyrir áætlaðan háttatíma, t.d. 1-2 klukkustundum fyrr. Þá er upplagt að prófa að hafa tækin ekki í svefnherbergjum yfir nóttina, þar sem oft eiga margir erfitt með að hunsa áreiti sem kemur frá slíkum tækjum. Hér má sjá ráðleggingar um börn og skjátíma.

Símalausir mánudagar

Starfsfólk Grenivíkurskóla, í samráði við nemendaráð skólans, hefur ákveðið að framvegis verði mánudagar símalausir hjá nemendum skólans. Þessa daga eru nemendur hvattir til þess að nýta frímínútur í "raunheimaspjall", leiki og spil eða annað skemmtilegt. Það var ánægjulegt að sjá hvað nemendaráð og nemendur almennt tóku vel í þessa tillögu og ágætt að gefa símunum frí a.m.k. einn dag í viku.


Annars má hér að neðan sjá reglur skólans um farsíma- og snjalltækjanotkun.


- Nemendur í 7.-10.bekk mega nota síma og snjalltæki í skólanum. Sími er þó ekki notaður í kennslustundum nema með leyfi kennara.

- Nemendur bera sjálfir ábyrgð á tækjum í persónulegri eigu

- Símar sjást ekki í matsalnum á matartíma.

- Við tökum ekki upp hljóð, myndbönd eða myndir nema með leyfi.

- Ef reglur þessar eru brotnar skal nemandi afhenda starfsmanni skólans tækið og sækja það til skólastjóra að loknum skóladegi. Atvikið skal tilkynnt foreldrum.

Sænes styrkir skólann

Fyrir jól fékk Grenivíkurskóli veglegan styrk frá Sænesi ehf., sem gerði okkur kleift að kaupa spjaldtölvur fyrir nemendur í 1.-4. bekk.


Spjaldtölvurnar eru nú komnar í notkun og virkilega skemmtilegt og spennandi að bæta þeim við í námi og kennslu hjá þessum nemendum. Fjóla Stefánsdóttir og Jóhann Ingólfsson frá Sænesi komu til okkar á samveru í febrúar og afhentu spjaldtölvurnar formlega, en það var Bella Guðjónsdóttir, nemandi í 1. bekk, sem veitti þeim móttöku.


Við þökkum Sænesi kærlega fyrir þennan veglega styrk!

112 dagurinn - heimsókn frá slökkviliðinu

112 dagurinn er haldinn um allt land í dag, en að þessu sinni er sjónum beins sérstaklega að öryggi og velferð barna og unglinga. Í tilefni dagsins kom slökkviliðið í heimsókn til okkar á slökkviliðsbílnum og leyfði nemendum að prófa að sprauta vatni úr honum. Höfðu nemendur gaman af.


Að því loknu var haldið inn á svæði og þar fékk Ari Logi Bjarnason afhent verðlaun, en hann var einn þeirra sem sendi inn svör við spurningum í tengslum við eldvarnarátakið Loga og Glóð sem nemendur í 3.-4. bekk tóku þátt í fyrir jól. Ari fékk að launum veglegan vinning frá Spilavinum og óskum við honum til hamingju með það.


Að lokum horfðu nemendur og starfsfólk saman á myndskeið þar sem fjallað er um heimilisofbeldi og mikilvægi þess að börn segi frá ef þau búa við slíkt. Áhrifaríkt og gott myndband sem hægt er að horfa á hér.


Myndir frá deginum.

Grænfáninn

Í febrúar sátu kennarar skólans landshlutafund Grænfánaverkefnisins en þar voru til dæmis kynnt ýmis áhugaverð og skemmtileg verkefni úr skólum víða um land. Sérstaka athygli okkar vakti átthagafræði sem sinnt er af miklum metnaði í Grunnskóla Snæfellsbæjar. Þar hefur verið útbúin námskrá fyrir alla bekki sem snýr að heimahögum nemenda út frá ýmsum vinklum; náttúru, landafræði, sögu, samfélagi o.s.frv.


Þótti okkur þetta afar áhugavert og kviknaði sú hugmynd að taka jafnvel upp sambærilegt verkefni í Grenivíkurskóla. Saga og náttúra okkar ágæta sveitarfélags býður í það minnsta upp á fjölmarga möguleika í þeim efnum.


Áhugasamir geta kynnt sér verkefnið á Snæfellsnesinu hér.

Heilsueflandi skóli

Við höldum áfram að prófa okkur áfram með hreyfivikur í skólanum, en vikuna 1.-5. mars ætlum við að hefja alla daga á hreyfingu. Að þessu sinni verður hún með aðeins breyttu sniði, en hér að neðan má sjá planið fyrir vikuna:


1. mars: Jóga í íþróttasalnum. Ávextir að því loknu.

2. mars: Ganga/skokk/hlaup úti. Grautur og ávextir að því loknu.

3. mars: Jóga í íþróttasalnum. Grautur og ávextir að því loknu.

4. mars: Ganga/skokk/hlaup úti. Grautur og ávextir að því loknu.

5. mars: Just Dance í íþróttasalnum. Grautur og ávextir að því loknu.


Þau sem eiga kost á mega gjarnan hafa með sér æfinga-/jógadýnu að heiman.

Útiskóli í mars

  • 5.-6. bekkur: Eyðibýli í Grýtubakkahreppi
  • 1.-4. bekkur: Fjölbreytt fuglaverkefni

Á döfinni í mars

  • 1.-5. mars: Hreyfivika - jóga/hlaup/Just Dance
  • 1. mars: Tónleikar hjá nemendum í Tónlistarskóla Eyjafjarðar kl. 9:00
  • 1. mars: Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk- undankeppni í Grenivíkurskóla kl. 12:40
  • 3. mars: Skíðadagur
  • 8.-10. mars: Samræmd próf í 9. bekk
  • 9. mars: Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk - lokahátíð í MA
  • 11. mars: Samskólahittingur fyrir 7.-10. bekk í Grenivíkurskóla
  • 14. mars: Dagur stærðfræðinnar
  • 26. mars: Síðasti kennsludagur fyrir páskafrí.
  • 27. mars - 5. apríl: Páskafrí
Big picture

Grenivíkurskóli

Útgefandi: Grenivíkurskóli

Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla