Fréttamolar

Haust 2018

Kæra starfsfólk

Tíminn líður hratt í skólanum enda alltaf mikið um að vera. Þetta haustið hefur verið annasamt, við höfum fengið heimsóknir frá skólafólki sem hefur sýnt skólanum okkar sérstakan áhuga og það er gaman að segja frá okkar góða starfi. Nú síðast kom fólk frá Snæfellsnesi sem var svo heppið að sjá lífið í skólanum í aðdraganda árshátíðar. Það er augljóst að starfsfólk og nemendur eru að leggja mikið á sig fyrir þennan viðburð. Við búum við mikinn mannauð í skólanum okkar og það er frábært að upplifa samvinnu allra og áhuga fyrir því að láta allt ganga upp.

Við eigum von á fleiri góðum heimsóknum, nú fer að líða að því að við fáum rithöfunda í skólann sem ætla að kynna nýjar bækur, spjalla og lesa fyrir nemendur okkar. Það er líka von á nýjum bókum á bókasafnið okkar og skulum við vera dugleg að hvetja krakkana til að gefa þeim gaum.


Við skulum ekki gleyma okkur sjálfum, hugum vel að heilsunni og njótum tímans framundan við kertaljós og kósýheit:-) Við viljum þakka fyrir ánægjulega ferð austur í Sjóböðin og hlökkum til að gera meira saman í vetur. Ef við höfum gaman í vinnunni okkar þá verður allt miklu léttara í annars mjög svo krefjandi störfum í skólanum.


Með góðri kveðju, Jóhanna, Aðalheiður og Sigga

Námsmat í Mentor

Nú ætti að vera búið að merkja í einhver markmið í öllum fögum á hæfnikortum nemenda. Ef vel er að þessu staðið getur þetta gefið góðar upplýsingar um námsgengi nemenda. Við minnum á að milliviðtölum á að vera lokið 23. nóvember og þá senda kennarar upplýsingar heim til hvers og eins nemanda um námslega og félagslega stöðu.

Símafrí

Í undirbúningi er að hafa símafrí frá 19. nóvember fram að jólafríi. Í næstu viku verður fundað með nemendaráði og skólaráði þar sem þetta verður kynnt, foreldrum sendur póstur og umsjónarkennarar taka bekkjarfund með sínum nemendum þar sem þetta verður til umræðu.

Söngvaflóð í Hofi

Mánudagur 19. nóvember.

Kl. 9:30-10:10 1. bekkur

Kl. 10:40-11:20 2. bekkur

Þriðjudagur 20. nóvember.

Kl. 9:30-10:10 3. bekkur

Kl. 10:40-11:20 4. bekkur

Miðvikudagur 21. nóvember

Kl. 9:30-10:10 5. og 6. bekkur

Kl. 10:40-11:20 7. og 8. bekkur

Rithöfundar í heimsókn

Gunnar Helgason 19. nóvember kl. 8:15

Bókin í ár heitir Siggi sítróna og er framhald af Ömmu best sem var framhald af Pabba prófessor sem var framhald af Mömmu klikk! Lesturinn tekur um 40 mínútur en getur verið lengur eða skemur... samt ekki mikið skemur:-) Gunnar mun lesa úr bókinni, spjalla við krakkana um hana og Víti í Vestmannaeyjum eða Veiðikofann eða hvað sem þau vilja og auðvitað hvetja þau til að lesa meira og taka þátt í Sögum þar sem þau geta skrifað sínar eigin sögur og sent í samkeppnina sem verður í gangi í vetur. Þetta verður gaman! Lesturinn er miðaður við 4. - 7. bekk.


Ævar vísindamaður 23. nóvember kl. 9:15

Ævar mun lesa upp úr bókinni Þitt eigið tímaferðalag sem er fimmta bókin í Þín eigin bókaröðinni.

Upplesturinn mun taka um 25 mínútur og getur orðið mjög spennandi því krakkarnir geta ákveðið hvernig sagan endar. Ævar mun nýta þetta tækifæri til að kynna lestrarátak Ævars vísindamanns sem hefst 1. janúar 2019. Lesturinn er miðaður við 4. - 7. bekk.


Unnið er að því að fá rithöfund fyrir 8. - 10. bekk og ef þið vitið af einhverjum sem gæti komið og rætt við yngstu börnin okkar þá eru ábendingar vel þegnar:-)

Fullveldi 1918

Árið 1918 er merkilegt í sögu þjóðarinnar og vert að nota þetta afmælisár til að fræðast um sögu og sjálfstæðisbaráttu Íslands. Á vefnum: www.fullveldi1918.is má finna mikinn fróðleik um söguna, kennsluhugmyndir og myndbönd sem hægt er að nota í kennslu með börnum. Við hvetjum alla kennara til að gefa þessu rými í kennslu og leggjum svo til að vera með sparifatadag föstudaginn 30. nóvember 2018. Það væri líka gaman að sýna afrakstur vinnunnar á veggjum og göngum skólans.