

Foreldrabréf Hraunvallaskóla
Skólaárið 2023-2024
Ágúst og september
Skólaárið 2023-2024
Ég treysti því að allir hafi lagt sig fram við að viðhalda lestrarfærni sinni með því að lesa reglulega í sumar en ef þið hafið gert það þá komið þið vel undirbúin inn í komandi vetur. Höfum í huga að tungumálið okkar er töfrum líkast. Nokkurs konar mannlegur ofurkraftur. Kraftur sem gerir okkur kleift að segja sögur, tjá hugsanir og skoðanir, skilja aðra, miðla þekkingu, hrósa eða benda á það sem betur má fara. En eins og með aðra góða ofurkrafta þarf að læra að fara með þá svo maður geti nýtt þá til góðra verka. En hvernig verður maður ótrúlega góður í tungumálinu? Hvernig þjálfar maður ofurkraftinn svo hann nýtist manni vel á lífsleiðinni?
Svarið er í raun einfalt.
• Æfðu þig! Lestu! Lærðu ný orð!
• Hlustaðu! Talaðu! Skrifaðu!
• Búðu til ný orð!
• Leiktu þér með tungumálið!
Æfingin skapar meistarann og aukaæfingin býr til snillinga. Það er mikilvægt að vera einbeittur og vinnusamur í námi og starfi. Hafa hugarfar sigurvegarans að leiðarljósi. Ég get, ég skal og ég vil! Því nemendum í Hraunvallaskóla er ekkert ómögulegt. Höfum það hugfast þegar við göngum inn í komandi vetur og tökumst á við verkefnin okkar.
Lars Jóhann Imsland Hilmarsson
Skólastjóri
INNLEIÐING VAXTARHUGARFARS
Öflugir einstaklingar í öruggu umhverfi
Hraunvallaskóli er heilsueflandi grunnskóli og hefur því skuldbundið sig til að efla heilsu nemenda og starfsfólks. Geðrækt skipar þar stóran sess og er vægi þess í heilsu ótvírætt. Efling vaxtarhugarfars getur verið veigamikill liður í að bæta heilsulíkur því það eflir seiglu og bjartsýni. Með innleiðingu vaxtarhugarfars í Hraunvallaskóla er miðað að því að skapa lærdómssamfélag sem einkennist af trausti, jákvæðu hugarfari, sjálfsöryggi einstaklinga og góðum tengslum meðal nemenda og starfsfólks. Með öflugu hugarfari verða allir betur í stakk búnir til að takast á við verkefni sín og áskoranir í námi og starfi. Allt miðar þetta að aukinni velferð og betri árangri.
Hugarfar fólks einkennist ýmist af vexti eða festu. Með kenningunni um vaxtar- og festuhugarfar er því haldið fram að gáfur, sköpunarhæfileikar og hæfni séu ekki meðfæddir eiginleikar eða fasti, heldur breytanlegir ef unnið er með þá. Fólk með festuhugarfar forðast áskoranir og að gera mistök og fer því á mis við að læra af reynslu sinni. Hinsvegar trúir fólk með vaxtarhugarfar því að það geti bætt hæfileika sína með því að leggja hart að sér og þiggja aðstoð frá öðrum þegar þess þarf. Það tekst á við áskoranir af sjálfsöryggi og er óhrætt við að gera mistök, áherslan er í staðinn á að efla sig og bæta.
Árangur í skólastarfi stendur og fellur með kennurum og öðru starfsfólki hvers skóla. Þess vegna er vel hugað að innleiðingu vaxtarhugarfars í skólanum með því að verja nokkrum árum í hana. Síðastliðinn vetur fékk allt starfsfólk fræðslu um vaxtarhugarfar sem miðaði að því að efla þekkingu og skilning þess og vægi þess fyrir bætta líðan og gengi í starfi og með nemendum. Á komandi skólaári fær starfsfólk tækifæri til að nýta þá þekkingu í lífi og starfi m.a. með verkfærum núvitundar. Með þá reynslu getur starfsfólk verið betur í stakk búið til að fræða nemendur um vaxtarhugarfar skólaárið 2024-2025 og hjálpað þeim að nýta sér það í námi og lífinu almennt.
Kynjafræði
Ný nálgun í kynfræðslu í Hafnarfirði
Hafnarfjarðarbær mun frá og með þessu hausti efla kynfræðslu og kynjafræði í grunnskólum Hafnarfjarðar. Verkefnið, sem leitt er af Kristínu Blöndal Ragnarsdóttur kynjafræðingi og kennara, er meðal annars tilkomið vegna áskorunar ungmennaráðs Hafnarfjarðar, foreldraráðs, Kennarasambands Íslands og mikillar umræðu um mikilvægi aukinnar kynfræðslu og jafnréttisfræðslu hjá börnum og ungmennum ásamt því sem framtakið uppfyllir markmið lögbundinna forvarnarteyma í skólum. Alhliða kynfræðsla og kynjafræðikennsla verður innleidd í alla 8. – 10. bekki í grunnskólum Hafnarfjarðar auk sköpunar á námsskrá sem felur í sér hæfniviðmið fyrir 1. – 10. bekk í kynfræðslu og kynjafræði. Nemendur í unglingadeild í Hraunvallaskóla eru núna með skráðan tíma í kynjafræði í sinni stundatöflu og munu Guðbjörg Harpa og Jón Teitur kennarar í unglingadeild sjá um kennsluna.
Tilgangur og markmið nýrrar nálgunar og aukinnar kennslu er að auka þekkingu og færni ungs fólks á kynheilbrigði, virðingu, mörkum, samskiptum, samþykki og öðrum grunnþáttum. Þar vegur þungt að ungt fólk þekki sjálft réttindi sín og mikilvægi þess að virða réttindi og mörk annarra auk þess að þekkja muninn á heilbrigðum og óheilbrigðum samböndum og samskiptum. Andlegt og líkamlegt ofbeldi meðal ungs fólks virðist fara vaxandi og mikilvægt að bregðast við og nálgast börn og ungmenni sem fyrst með uppbyggjandi fræðslu og samtali.
SKÓLAKYNNINGAR
Skólakynningar í 2.-10. bekk
Skólakynningar eru sem hér segir:
13. sept. Skólakynning í 8. bekk
14. sept. Skólakynning í 9. bekk
15. sept. Skólakynning í 10. bekk
18. sept. Skólakynning í 4. bekk
19. sept. Skólakynning í 2. bekk
20. sept. Skólakynning í 7. bekk
21. sept. Skólakynning í 5. bekk
22. sept. Skólakynning í 6. bekk
25. sept. Skólakynning í 3. bekk
Kynningarnar í 2.-7. bekk hefjast kl. 08:10 en hjá 8.-10. bekk kl. 08:50. Kynningarnar fara fram á heimasvæðum árganganna.
Nemendur í 1.-4. bekk mæta á sínum venjulega tíma í skólann og fá önnur verkefni á meðan á kynningunni stendur. Nemendur í 6.-10. bekk mæta í skólann kl. 09:10 og 8.-10. bekkur kl. 10:10. Nemendur í 5. bekk mæta kl. 08:10 og byrja á smiðjum eins og stundataflan segir til um.
Skólafærninámskeið fyrir 1. bekk 13. sept.
Miðvikudaginn 13. september er skólafærninámskeið fyrir foreldra/forsjáraðila nemenda í 1. bekk frá kl. 17:30-20:00. Þar munu umsjónarkennarar fara yfir helstu áherslur vetrarins einnig fer fram kynning á starfsemi skólans eins og t.d. hvernig Hraunsel starfar, kynning á SMT skólafærni og farið yfir mikilvægi lesturs fyrir nemendur. Við hvetjum alla foreldra/forsjáraðila í 1. bekk til að mæta. Þetta er líka kjörin vettvangur til þess að hitta aðra foreldra/forsjáraðila og styrkja böndin þar sem nemendur eru að fara vera saman næstu 10 árin. Nánari upplýsingar verða sendar á foreldra/forsjáraðila þegar nær dregur en endilega takið frá daginn.
VIÐBURÐIR
Viðburðarskóladagatal
Á hverju skólaári setjum við upp viðburðarskóladagatal um helstu viðburði sem eiga sér stað hér í skólanum. Hér er það og mælum við með því að þið forsjáraðilar hafi það á góðum stað því þannig getið þið séð tímanlega hvað er framundan.
Lífsleiknidagar
Fyrstu tvo dagana þ.e. 24. og 25. ágúst ætlum við að leggja ofuráherslu á lífsleikni með nemendum þar sem við ætlum meðal annars að:
- Kynnast hvert öðru
- Vera með hópefli, þétta hópinn –
- Vinna með einkunnarorðin okkar "Vinátta – Samvinna - Ábyrgð"
- Ræða um hvernig við viljum hafa samskiptin, samvinnu, umgengni, framkomu o.s.frv. í vetur
- Skipuleggja bekkjarfundi eins og við viljum hafa þá í vetur þ.e. semja bekkjarfundareglur og ákveða fyrirkomulagið með nemendum
- Semja saman bekkjarreglur og/eða gera bekkjarsáttmála
- Fara yfir hvert er hlutverk kennarans, nemandans og annarra
- Rifja upp SMT og fara yfir reglu vikunnar
- Umræður um símalausan skóla
- Fara yfir skipulag á svæðum og gera "huggulegt" í kringum okkur.
Við ætlum með gleði og þrautseigju inn í veturinn og ef skipulagið er gott og allir vita hvað sitt hlutverk þá gerast ótrúlegir hlutir.
Dagur læsis 8. sept.
Ólympíuhlaup ÍSÍ 12. sept.
Hið árlega Ólympíuhlaup ÍSÍ verður þriðjudaginn 12. sept. Nemendur hlaupa mismarga hringi í hverfinu allt eftir vilja og aldri hvers og eins. Í yngstu hópunum fer starfsfólk með nemendum hringinn þannig að allir viti nú hvert á að fara. Á leiðinni verður starfsfólk með stuttu millibili og hvetur nemendur áfram. Við ætlum að hafa tónlist á víð og dreif í hringnum til að skemmta okkur ennþá meira. Við viljum hvetja foreldra/forsjáraðila til að koma og hlaupa með og/eða hvetja nemendur áfram.
Hlaupið byrjar á eftirtöldum tímum eftir árgöngunum:
kl. 09:20 1.-4. bekkur
kl. 09:30 5.-7. bekkur
kl. 09:40 8.-10. bekkur
Dagur íslenskrar náttúru 16. sept.
Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur 16. september ár hvert og eru skólar hvattir til þess að hafa daginn í huga í starfsemi sinni. Skólar eru hvattir til að gera deginum hátt undir höfði og nýta sér verkefni í tengslum við daginn sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Landvernd og Miðstöð útivistar og útináms hjá Reykjavíkurborg hafa lagt til.
Á Degi íslenskrar náttúru fögnum við mikilfengleika og mikilvægi íslenskrar náttúru. Um leið höldum við upp á tilvist náttúru allrar jarðarinnar, því náttúran er alls staðar og á sér engin landamæri. Í byggð hefur náttúrunni verið umbreytt, hún manngerð og mótuð að þörfum manna og smekk en víða er stutt í tiltölulega lítt röskuð svæði.
Kennarara munu hafa þetta í huga og brydda upp á verkefnum sem tengjast deginum.
Sjóræningadagurinn 19. september
Þriðjudaginn 19. september er sjóræningadagurinn eða "Talk like að pirate day" en sú hefð hefur skapast í skólanum að við höldum þennan dag hátíðlegan. Bókasafnið verður skreytt í tilefni dagsins og finnst nemendum mjög gaman að heimsækja bókasafnið á þessum degi. Nemendur í yngri deild eru sérstaklega hvattir til þess að mæta í sjóræningafötum og hefur starfsfólk einnig tekið þátt með því að mæta í fullum skrúða. Umsjónarkennarar gera síðan eitthvað skemmtilegt með nemendum í tilefni dagsins.
SAMSTARF HEIMILIS OG SKÓLA
Bekkjartenglastarfið fer af stað
MIKILVÆG SKILABOÐ
Símalaus skóli
Af hverju símalaus skóli?
Það er alveg ljóst að það eru skiptar skoðanir um þetta mál. Reynsla okkar af símalausum dögum síðasta vetur var mjög góð og nemendur og kennarar eru sammála um að ágæti þeirrar reynslu. Í grunninn snýst þetta um að við viljum að börnin okkar sinni náminu af óskertri athygli á meðan þau eru í skólanum. Með símann í vasanum, í kjöltunni, í töskunni eða jafnvel undir stílabókinni á borðinu getur verið erfitt að einbeita sér að náminu. Rannsóknir hafa sýnt að tengsl eru á milli streitu og kvíða og mikillar netnotkunar sem er einna helst í gegnum símann. Sími sem tæki hefur heldur ekkert kennslufræðilegt gildi einn og sér því nemendur skólans hafa aðgang að Ipad og þar með snjalltækninni sem er mikilvæg í nútíma skólastarfi. Við erum því ekki að fara aftur í tímann eða afneita nútímakennsluaðferðum og vinnubrögðum, heldur eingöngu að styrkja námsumhverfi okkar, skapa ró og efla félagsleg samskipti nemenda okkar í raunheimum.
Agaferill SMT
Í vetur ætlum við að starfa eftir endubættum agaferli SMT og hefur hann tekið smávægilegum breytingum sem ætti að auðvelda bæði okkur starfsfólkinu og nemendum vinnuna. Nú er skýrar hvernig við bregðumst við þegar við viljum leiðrétta óæskilega hegðun og hjálpa þannig nemendum að fara eftir reglunum. Endilega skoðið ferilinn vel og farið yfir hann með ykkar barni þannig að allir séu upplýstir um viðbrögð við óæskilegri hegðun í skólanum. Umsjónarkennarar munu líka fara yfir ferilinn með nemendum. Hér undir er sjónræn uppsetning af agaferlinum en einnig er hægt að nálgast hann á heimasíðu skólans hraunvallaskoli.is.
Nesti nemenda og hafragrautur
Okkur langar til þess að biðja ykkur foreldra/forsjáraðila í unglingadeild að koma með okkur í lið með að hvetja nemendur til þess að koma með nesti í stað þess að fara í Krónuna. Of mikið hefur borið á því að nemendur fara í Krónuna í frímínútum og hádegi. Ef við hjálpumst að þá erum við viss um að við getum snúið við þessari þróun.
Einnig viljum við minna á hafragrautinn hjá okkur á morgnana sem er nemendum að kostnaðarlausu. Hollt og gott að byrja í hafragraut og mæta vel nærður upp á heimsvæði.
Hér til hliðar eru ráðleggingar frá Embætti landlæknis um hollt og næringarríkt nesti.
Skólamatur
"Fyrir mikilvægasta fólkið“ eru einkunnarorðin okkar hjá Skólamat en við viljum að barnið þitt njóti góðrar næringar í amstri dagsins. Á hverjum degi bjóðum við upp á tvo næringarríka aðalrétti, þar af er annar ávallt vegan. Meðlætisbar er í boði daglega og á honum má finna fjölbreytt úrval af fersku grænmeti og ávöxtum.
Á heimasíðu Skólamatar, www.skolamatur.is, finnur þú upplýsingar um matseðla, innihaldslýsingar og næringarútreikning allra máltíða. Þar geturðu einnig skráð þig á póstlista og fengið matseðilinn í tölvupósti.
Við erum dugleg að deila upplýsingum og öðrum fróðleik á samfélagsmiðlunum okkar. Þú getur fylgt okkur þar:
Instagram: @skolamatur_ehf
Facebook: @skolamatur
Skráning í mataráskrift hefst þriðjudaginn 22. ágúst kl. 09:00 á www.skolamatur.is. Mikilvægt er að skrá rétt bekkjarheiti þegar skráð er.
Hjólareglur
Nú er tilvalið að rifja upp hjólareglur skólans þar sem nemendur eru duglegir að koma á hjólum, hlaupahjólum, rafmagshlaupahjólum eða vespum í skólann. Við viljum biðja ykkur um að rifja þessar reglur upp með börnunum ykkar svo allir séu á sömu blaðsíðunni. Við viljum sérstaklega benda á reglurnar um léttu bifhjólin þar sem það er stranglega bannað að vera á þeim á skólalóðinni.
Reglur:
- Samkvæmt lögum er öllum undir 16 ára aldri, á hjólum, hlaupahjólum, línuskautum og léttum bifhjólum, skylt að nota öryggishjálma og viðeigandi öryggisbúnað. Endurskinsmerki skal nota í skammdeginu og hjólin þurfa að vera með ljósum og glitaugum og öðrum þeim öryggisbúnaði sem gerir þau lögleg.
- Hjól skulu vera læst á skólatíma og bera nemendur ábyrgð á hjólum sínum.
- Hjólreiðar til og frá skóla eru alfarið á ábyrgð foreldra.
- Nemendur sem velja að koma á hlaupahjólum í skólann gera það á eigin ábyrgð og læsa skal hlaupahjólum rétt eins og reiðhjólum fyrir utan skólann.
- Hjólin má ekki nota á skólatíma (frímínútur falla undir skólatíma) en heimilt er að fara stystu leið út af og inn á skólalóð ef farið er á hjóli í Ásvallalaug eða á Ásvelli. Þó er heimilt er að nota hlaupahjól og hjólabretti á hjólabrettavelli á skólatíma.
- Samkvæmt 44 grein umferðarlaga má barn yngra en 7 ára ekki hjóla á akbraut nema undir leiðsögn og eftirliti einstaklings sem náð hefur 15 ára aldri. Því óskum við þess að nemendur í 1. bekk komi ekki á hjólum í skólann nema undir eftirliti fullorðinna.
- Nemendur í 2.–4 bekk mega koma á hjólum í skólann fari þeir að settum umferðarlögum, með hjálma og læsi hjólum sínum við hjólagrindur eða aðra viðurkennda staði (grindverk) á skólalóðinni. Nemendum í 2.–3. bekk er ekki heimilt að hjóla til og frá Ásvallalaug.
- Nemendum í 4.–10. bekk er heimilt að koma á hjólum í skólann fari þeir að settum umferðalögum með hjálma og læsi hjólum sínum við hjólagrindur eða aðra viðurkennda staði (grindverk) á skólalóðinni. Nemendum í 4.–10. bekk er heimilt að hjóla til og frá Ásvallalaug og að Ásvöllum og skal þá farið stystu leið út af og inn á skólalóð.
Létt bifhjól
Nemendum sem eru orðnir 13 ára er heimilt að koma á léttu bifhjóli í flokki 1 í skólann svo fremi sem farið er að reglum sem gilda um notkun slíkra hjóla. Létt bifhjól eru aldrei leyfð á skólalóð. Þeim skal lagt á skilgreint svæði sem sérstaklega er ætlað léttum bifhjólum. Nánar um létt bifhjól má lesa hér: https://eplica.samgongustofa.is/media/umferd/Lett-bifhjol-i-flokki-I.2017.3.pdf.
Reglur um létt bifhjól
- Ég nota ávallt hjálm
- Ég tek aldrei farþega
- Ég tek tillit til gangandi vegfaranda og gæti að mér í umferðinni.
- Ég legg hjólinu á réttan stað
- Ég fer stystu leið inn á og út af skólalóð
- Ég keyri aldrei á léttu bifhjóli á skólalóð
FRÍSTUNDASTARFIÐ
Hraunsel
Hlutverk frístundaheimila er að bjóða upp á fjölbreytt frístunda- og tómstundastarf án aðgreiningar fyrir börn á aldrinum 6-9 ára eftir að kennslu lýkur. Markmið starfsins er að efla sjálfstraust og félagsfærni. Starfsemi frístundaheimila hefur áhrif á félagsþroska barna og er vettvangur þar sem þau æfa sig í vináttu og samskiptum. Börnin læra gagnkvæma virðingu, traust og umburðarlyndi í gegnum leik og starf. Umhverfi frístundaheimila einkennist af öryggi og fagmennsku. Aðstæður eiga að einkennast af jákvæðum samskiptum og lýðræðislegum starfsháttum. Í frístundaheimilinu er hlustað, rætt saman og ekki síst er pláss fyrir allar tilfinningar.
Hér er dagskrá Hraunsels fyrir ágúst og september.
Mosinn - miðdeild
Mosinn opnar mánudaginn 28. ágúst og verður opinn á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum í vetur frá kl. 17:00-19:00. Við hvertjum alla nemendur í miðdeild til þess að mæta og taka þátt. Við skorum á ykkur foreldra/forsjáraðila til þess að hvetja nemendur til þess að mæta og vera með. Þarna kynnast nemendur öðrum nemendum og annan hátt en í skólanum og byggja tengsl sem nýtast líka á skólatíma.
Hér er dagskrá Mosans fyrir ágúst og september.
Mosinn - unglingadeild
Mosinn opnar mánudaginn 28. ágúst og verður opinn á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum í vetur frá kl. 19:30-22:00. Við hvertjum alla nemendur í miðdeild til þess að mæta og taka þátt. Við skorum á ykkur foreldra/forsjáraðila til þess að hvetja nemendur til þess að mæta og vera með. Þarna kynnast nemendur öðrum nemendum og annan hátt en í skólanum og byggja tengsl sem nýtast líka á skólatíma.
Hér er dagskrá Mosans fyrir ágúst og september.
https://www.facebook.com/felagsmidstodinmosinn
Instagram - Mosinn
HHH félagsmiðstöð
Í vetur verður áfram hinsegin hittingur í Hafnarfirði. Við erum ekki komin með upplýsingar um hvenær hann hefst en munum setja þær hér inn um leið og þær berast. Annars er líka hægt að "follow" bæði á Facebook og Instagram, sjá hér undir:
https://www.facebook.com/hinseginhittingurihfj
Instagram - hinseginhittingurihfj