Fréttabréf Grenivíkurskóla

6. tbl. 2. árg. - ágúst 2021

Kæra skólasamfélag

Nú styttist heldur betur í skólabyrjun og er undirbúningur skólaársins í fullum gangi. Við hlökkum til að taka á móti nemendum ferskum og endurnærðum eftir gott sumarfrí.


Eins og ég nefndi lítillega á skólaslitunum í haust ætlum við að gera ákveðnar breytingar á skipulagi skólastarfsins í vetur. Mig langar að nefna hér það helsta sem mun taka breytingum, en einnig verður kallað til fundar fyrir áhugasama síðar í haust þar sem þessar breytingar verða útskýrðar nánar og fólki gefst tækifæri á að spyrja spurninga o.s.frv. Vonum að veirufjandinn fresti þessum fundi ekki of lengi.


Fyrir það fyrsta ber að nefna að skóladagur allra nemenda, frá 1.-10. bekk, verður eins. Allir nemendur fá 35 kennslustundir (kst) á viku og unglingastigið fær svo 2 kst til viðbótar í utanskólavali. Skóli hefst kl. 8:20 að morgni og er skóla lokið kl. 14:00 alla daga vikunnar. Þetta þýðir að nemendur í 1.-4. bekk fá 5 kst umfram það sem áður var og er lögbundið lágmark. Þessa “aukatíma” ætlum við að nota í leik og sköpun ásamt því að reyna að styrkja enn frekar almennt nám á yngsta stigi.


Í öðru lagi ætlum við að færa okkur í auknum mæli yfir í teymiskennslu og teymisvinnu. Það þýðir að nokkrir kennarar mynda kennsluteymi utan um hóp nemenda, bera sameiginlega ábyrgð á þeim hópi og kenna að einhverju leyti saman. Kostir teymiskennslu og teymisvinnu eru margir og ótvíræðir og reynsla þeirra skóla sem hafa farið þessa leið nær undantekningarlaust jákvæð. Samvinna kennara hefur í för með sér fjölbreyttari nálgun á nám og kennslu og sameiginleg ábyrgð á nemendahópi er styrkur fyrir nemendur jafnt sem kennara.


Til þess að ná fram kostum teymisvinnunnar í okkar litla skóla þurfum við að vinna með fleiri árganga í hverju kennsluteymi. Af því leiðir að í vetur verða í grunninn þrír námshópar í skólanum, einn á hverju stigi (yngsta stig, miðstig og unglingastig).


  • 1.-4. bekkur er saman í námshóp. Í kennarateymi þessa hóps eru Heiða Björk Pétursdóttir, Kolbrún Hlín Stefánsdóttir, Elsa María Guðmundsdóttir og Svala Fanney Njálsdóttir. Heiða og Kolbrún eru umsjónarkennarar.

  • 5.-7. bekkur er saman í námshóp. Í kennarateymi þessa hóps eru Hólmfríður Björnsdóttir, Oddný Jóhannsdóttir, Guðrún Árnadóttir og Inga Rakel Ísaksdóttir. Hólmfríður og Oddný eru umsjónarkennarar.

  • 8.-10. bekkur er saman í námshóp. Í kennarateymi þessa hóps eru Inga María Sigurbjörnsdóttir, Sigríður Diljá Vagnsdóttir og Edda Björnsdóttir. Inga María og Sigríður Diljá eru umsjónarkennarar.


Þótt hóparnir séu í grunninn til með þessum hætti er ekki þar með sagt að nemendur séu ávallt allir saman í kennslustundum. Nemendum er skipt í smærri hópa í t.d. sundi og list- og verkgreinum sem og íþróttum á yngsta stigi. Þá hefur hvert kennsluteymi sveigjanleika til að skipuleggja hópaskiptingu í bóklegum greinum eftir þörfum nemenda og viðfangsefnum hverju sinni. Áfram verður áhersla á einstaklingsmiðað nám og er það trú okkar að teymiskennslan hjálpi okkur þar með auknum sveigjanleika og sameiginlegri ábyrgð á nemendum.


Í þriðja lagi ætlum við að byrja alla morgna (nema á fimmtudögum) á morgunhreyfingu og yndislestri í fyrstu kennslustund dagsins. Við gerðum tilraunir með hreyfivikur síðastliðinn vetur og gáfust þær vel að mati bæði nemenda og starfsfólks. Því langar okkur að prófa að setja þetta inn sem fastan lið í skólastarfið. Oftast verður hreyfingin í formi göngu- eða hlaupatúrs, en þó er stefnan að reyna að bjóða upp á fjölbreytta hreyfingu eins og útileiki, jóga, stöðvaþjálfun, dans, sund o.s.frv. Á fimmtudögum verður samvera í fyrsta tíma, en þann dag eru allir nemendur í sundi og fá því hreyfingu þá daga sem aðra. Að loknum fyrsta tíma, kl. 9:00, verður svo boðið upp á morgunmat alla daga.


Í fjórða lagi er stefnan sett á að bjóða upp á hádegismat á föstudögum sem ekki hefur tíðkast hingað til. Þetta er þó ekki endanlega komið á hreint og hugsanlega þurfa nemendur áfram að koma með nesti á föstudögum. Ég mun láta vita hvernig þetta verður um leið og það liggur fyrir.


Þetta er svona í grófum dráttum það helsta í þeim breytingum og skólaþróun sem við stefnum að því að fara í á komandi skólaári. Þær koma til að vel ígrunduðu máli og eru til þess fallnar að gera gott skólastarf enn betra. Starfsfólk skólans er spennt fyrir því að prófa þessar nýjungar og við vonum að nemendur og aðstandendur líti þær einnig jákvæðum augum.


Að lokum er vert að nefna að nýr kennari, Inga Rakel Ísaksdóttir, kemur til starfa í haust, en hún leysir Steinunni af í fæðingarorlofi. Þá er Oddný Halla Haraldsdóttir nýr skólaliði hjá okkur, en hún kemur í stað Ollu sem hætti störfum í vor eftir 40 ára starf við skólann. Þá mun koma kennari frá Tónlistarskóla Eyjafjarðar og kenna tónmennt í 1.-4. bekk og marimbur í 6. bekk. Við bjóðum þau öll hjartanlega velkomin til starfa.


Með kveðju úr skólanum,

Þorgeir Rúnar Finnsson

skólastjóri Grenivíkurskóla

Skólaslit

Grenivíkurskóla var slitið við hátíðlega athöfn þann 1. júní síðastliðinn. Þrír nemendur útskrifuðust, þær Karen Fatima, Sigríður Edda og Sigurlaug Anna og óskum við þeim velfarnaðar í framtíðinni. Þá voru þær Ásta Flosadóttir og Ólína Helga Friðbjörnsdóttir kvaddar og þakkað fyrir þeirra mikla framlag til skólastarfsins í gegnum árin og áratugina.


Hér má sjá nokkrar myndir frá skólaslitunum.

Útivistardagar - myndir

Síðastaliðið vor vorum við með tvo útivistardaga í blíðskaparveðri þar sem ýmislegt var brasað. Göngu-, hjóla- og sjóferðir ásamt gróðursetningu og fleiru. Hér má sjá nokkrar myndir frá þessum skemmtilegu dögum.


Myndir frá útivistardögum.

Á döfinni í ágúst

  • 16.-20. ágúst: Undirbúningsdagar starfsfólks.
  • 23. ágúst: Skólasetning og útivistardagur.
  • 24. ágúst: Útivistardagur.
  • 25. ágúst: Kennsla hefst skv. stundaskrá.


Nánari upplýsingar um skólasetningu og fyrstu skóladaga nemenda verða sendar með tölvupósti þegar nær dregur.

Grenivíkurskóli

Útgefandi: Grenivíkurskóli

Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla