Fréttabréf Síðuskóla

5. bréf - janúar - skólaárið 2022-2023

Kæru foreldrar, nemendur og starfsfólk!

Gleðilegt nýtt ár 2023!

Við höfum nú kvatt árið 2022 og förum inn í nýtt ár full bjartsýni og tilbúin að takast á við þau verkefni sem bíða okkar.

Fyrir áramót voru keyptar margar nýjar bækur á bókasafnið og færði FOKS okkur peningagjöf til að kaupa bækur, við erum afskaplega þakklát fyrir það. Það er mikilvægt að geta boðið nemendum upp á nýjar og áhugaverðar bækur og við þurfum að sameinast í því að hvetja börnin til dáða í lestrinum.

Nýtt skóladagatal fyrir skólaárið 2023-2024 er í vinnslu. Búið er að ákveða að skólasetning verður 22. ágúst, haustfrí verður dagana 23. og 24. október og vetrarfrí 15. og 16. febrúar (2024). Þessar dagsetningar eru sameiginlegar fyrir alla grunnskóla á Akureyri.

Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að gera starfið í skólanum okkar sem árangursríkast, því saman lærum við, náum árangri og gleðjumst.


Við þökkum ykkur fyrir samstarfið á liðnu ári og megi nýtt ár verða okkur öllum gott.


Með góðri kveðju,

Ólöf, Malli og Helga

Síðuskóli er Réttindaskóli UNICEF

Á haustönninni gerðist Síðuskóli Réttindaskóli UNICEF. Búið er að mynda Réttindaráð innan skólans, sem í eru fulltrúar 2. - 10. bekkjar og starfsfólk og sér þessi hópur um innleiðinguna.


Réttindaskólar UNICEF byggja á hugmyndafræði að alþjóðlegri fyrirmynd, sem innleidd hefur verið í þúsundum skóla um allan heim með góðum árangri. Réttindaskólar vinna markvisst að því að börn, starfsfólk skóla, foreldrar og aðrir sem tengjast skólunum þekki réttindi barna og beri virðingu fyrir þeim. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er lagður til grundvallar í starfi skólanna og unnið er að því að skapa umhverfi sem byggir á þátttöku barna, jafnrétti, lýðræði og virðingu. Hér má finna bréf til foreldra og forráðamanna sem skýrir betur innleiðingarferlið og skýrir verkefnið betur. Á myndinni sem fylgir má sjá Réttindaráðið þegar það hittist fyrst núna í desember.

Á döfinni

4. janúar

Fundur í skólaráði

5. janúar

8. bekkur - ábyrgð og þrautseigja

2. og 3. febrúar

Foreldraviðtöl

Big picture

Spurningakeppni Síðuskóla

Spurningakeppni unglingastigs er haldin í desember ár hvert í Síðuskóla. Fyrirkomulagið er þannig að keppnin skiptist í hraðaspurningar, bjölluspurningar, vísbendingaspurningar og leik. Keppnin var spennandi í ár en það var lið 9. bekkjar sem bar sigur úr býtum. Í liðinu voru þau Gunnar Brimir, Ívan Þór og Sóley Eva. Keppendur stóðu sig allir vel og voru flottir fulltrúar sinna bekkja. Hér eru nokkrar myndir frá keppninni.
Big picture

Samræmdar reglur um skólasókn í grunnskólum Akureyrarbæjar

Góð mæting í skóla er viðamikill þáttur í farsælli skólagöngu og vellíðan barna og unglinga. Miklar fjarvistir úr skóla geta verið kvíðavaldandi fyrir börn og unglinga og haft áhrif á námsárangur.

Í grunnskólum Akureyrarbæjar eru fjarvistir og óstundvísi skráðar í Mentor og þar safnast upp stig sem segja til um ástundun nemandans. Umsjónarkennari upplýsir nemanda/foreldra vikulega um ástundun. Ef nemandi/foreldri gera ekki strax athugasemdir við ástundunarfærsluna skoðast hún samþykkt.

✓ Fyrir seinkomu fær nemandi 1 stig.

✓ Fyrir fjarvist úr kennslustund fær nemandi 2 stig.

✓ Fyrir brottrekstur úr kennslustund fær nemandi 3 stig.

Ef nemandi er kominn með 10 stig ræðir umsjónarkennari við nemandann og sendir upplýsingar um skólasókn til foreldra/ forráðamanna. Ef nemandi er kominn með 20 stig ræðir kennarinn aftur við nemandann, leitar orsaka fyrir vandanum og leitar lausna með honum. Haft er samband við foreldra. Ef nemandi er kominn með 30 stig eru foreldrar boðaðir á fund með umsjónarkennara og stjórnanda þar sem er leitað að leiðum til úrbóta. Ef nemandi fer yfir 40 stig er málinu vísað til nemendaverndarráðs skóla sem m.a. getur óskað eftir aðstoð fræðslu- og velferðarsviðs. Fagfólk þessara sviða vinnur áfram með málið í samstarfi við skóla. Málastjóri skipaður úr röðum félags- eða skólaþjónustu. Fari nemandi yfir 60 stig tekur barnavernd við málinu.


Um veikindi eða fjarvistir sem ekki eiga sér augljósar skýringar (læknisvottorð eða aðrar upplýsingar sem fyrir liggja)

▪ Umsjónarkennari / skólahjúkrunarfræðingur kallar eftir læknisvottorði fari veikindi fram yfir 10 daga samfellt.

▪ Umsjónarkennari vísar máli nemenda til nemendaverndarráðs fari veikindin yfir 15 daga á önn. Þar er metið til hvaða aðgerða skuli grípa og niðurstaðan skráð. Ef nemandi hefur sögu um veikindi í hverri viku skal fundað með forráðamönnum, umsjónarkennara og stjórnanda og farið yfir stöðuna og næstu skref ákveðin.

▪ Haldi ítrekuð veikindi áfram og viðunandi skýringar fást ekki skal nemendaverndarráð taka ákvörðun um hvort málinu verði vísað áfram til HSN og/eða tilkynnt til barnaverndar.


Leyfi nemanda í lengri tíma s.s. vegna æfinga eða ferðalaga

Umsókn um lengri leyfi nemanda þarf að vera skriflegt og samþykkt af skólastjóra. Taka þarf fram ábyrgð foreldra á námi barnsins og að þeir tryggi að nemandinn haldi námsáætlun skóla.

Big picture