Grunnskóli Hornafjarðar

Fréttir úr skólanum

Skólastarfið að hefjast

Eftir vel heppnuð skólasetningarviðtöl eru starfsmenn skólans spenntir að hefja skólastarfið. Allir vona innilega að Covid-19 trufli eðlilegt skólastarf sem minnst en áfram verður hvatt til persónulegra smitvarna sem fyrst og fremst felast í handþvotti, að vera með spritt á hliðarlínunni og hjá okkur fullorðna fólkinu að passa fjarlægðarmörk. Þá biðjum við foreldra um að senda ekki börn í skólann ef þau eru með flensueinkenni.


Bílslys sem nokkrir nemendur lentu í um helgina minnti okkur áþreifanlega á hvað skiptir miklu máli að við hugum að eigin öryggi eins og þessir nemendur gerðu. Þeir voru allir í öryggisbeltum og sluppu því ótrúlega vel miðað við aðstæður. Flestir Hornfirðingar eru sennilega búnir að vera með hugann hjá strákunum, bílstjóranum og fjölskyldum þeirra en hér vil ég nota tækifærið og minna á að hjálmar eru jafn mikilvægt öryggistæki þegar við erum á hjólum og belti eru í bílum. Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að nota eigið vélarafl þegar þeir koma í skólann og ganga eða hjóla en nota hjálma á hjólum og virða umferðarreglur.


Við hlökkum til að vinna með ykkur öllum í vetur.

Starfsfólk Grunnskóla Hornafjarðar

Nokkrar myndir úr berjaferðinni í Haukafell

Kynningafundir

Á haustin er venja að halda bekkjarfundi í öllum árgöngum. Vegna Covid-19 verður kynningarfundunum frestað þar til við megum boða foreldra í stórum hóp inn í skólann. Nú í skólabyrjun minnum við þó á að samheldni foreldra léttir bæði þeim og börnunum lífið.


 • Gefið barninu rými og tíma til að læra heima.
 • Aðstoðið það við heimanámið eftir þörfum.
 • Talið alltaf vel um skólann, kennarana, þjálfarana eða aðra sem barnið eyðir tíma sínum með.
 • Komið í skólann og ræðið við starfsfólk þar ef þið hafið athugasemdir eða áhyggjur.
 • Hvetjið barnið til að setja sér markmið og aðstoðið það við að ná þeim.
 • Virðið útivistarreglur.
 • Hafið reglur á snjalltækja- og tölvunotkun og reynið að hafa þær sambærilegar innan bekkja.
 • Sjáið til þess að barnið ykkar fái nægan svefn.
 • Hvetjið til hreyfingar og bjóðið upp á hollt mataræði.
 • Verið góð hvert við annað.
 • Greind er ekki meðfæddur hæfileiki heldur getum við aukið hana eða dregið úr henni.
 • Munið að velgengni í lífinu er langhlaup og þar er það þrautseigjan sem skiptir meira máli en meðfæddir hæfileikar.

Skólareglur eru til að hjálpa okkur og eiga að auka öryggi. Endilega kynnið ykkur þær.

Á hverju hausti ber okkur að kynna skólareglurnar fyrir nemendum og foreldrum. Skólareglurnar setja ákveðinn ramma í samskiptum sem er mikilvægt að allir þekki og virði og það er líka mikilvægt að fólk viti hvað gerist ef farið er út fyrir rammann.

Skólareglur Grunnskóla Hornafjarðar einkennast af því að tekið er tillit til þess að nemendur eru börn og það er eðlilegt að þeim mistakist. Lögð er áhersla á almenna kurteisi, tillitssemi og virðingu og að við lærum að lifa og vinna með allskonar fólki í sátt og samlyndi.

Fleiri myndir úr Haukafelli

Að róa í sömu átt

Það skiptir máli fyrir uppalendur barns að vera sammála um hvaða leiðir á að fara í uppeldinu. Það eykur öryggi barns og foreldra og dregur úr togstreitu. Í Grunnskóla Hornafjarðar vinnum við með uppeldi til ábyrgðar og það að hafa sameiginlega uppeldisstefnu hefur hjálpað okkur gríðarlega á síðustu árum í að gera skólann okkar barnvænni og notalegri bæði fyrir nemendur og starfsmenn. Endilega kynnið ykkur stefnuna á linknum hér fyrir ofan.

Myndir úr gönguferðinni inn í Geitafell

Karlmennskan og fávita 7. september

Fyrirlestrar fyrir nemendur í 7. - 10. bekk á skólatíma, samtal við kennara og fræðsla til foreldra síðdegis. Þorsteinn V. Einarsson og Sólborg Guðbrandsdóttir halda fyrirlestur undir heitinu #karlmennskan og #fávitar sem þau hafa hlotið lof fyrir víða um land. Sólborg ræðir um kynferðislega áreitni og ofbeldi sem fólk verður fyrir á samfélagsmiðlum og Þorsteinn um víðtækar hugmyndir um karlmennsku í samfélaginu og neikvæða pressu sem margir verða fyrir vegna þeirra. Vegna fjöldatakmarkana verður fræðslan til foreldra send út á Teams en skilaboð um frekara fyrirkomulag koma síðar.