Fréttabréf Grenivíkurskóla

2. tbl. 2. árg. - febrúar 2021

Kæra skólasamfélag

Þá er janúar á enda runninn, þorrinn genginn í garð og framundan er febrúar með ýmsum skemmtilegum dögum og uppákomum. Við í skólanum erum afar þakklát fyrir að hafa fengið að halda úti eðlilegu skólastarfi frá því í upphafi árs og vonum að þannig fái það að vera sem lengst. Rýmkun á reglum um skólastarf hefur gert okkur kleift að fara í vettvangsferðir, hafa samverustundir og viðhafa hefðbundið skipulag í hádeginu svo fátt eitt sé nefnt. Aðeins um þessar ferðir og fleira má lesa í fréttabréfinu hér að neðan.


Kannski er það fylgifiskur þess að fá að snúa aftur í hefðbundið skólastarf eftir takmarkanir haustannar, en okkur í skólanum hefur fundist heldur mikill óróleiki og ærslagangur í skólanum að undanförnu. Leiðir það óþarflega oft til árekstra á milli nemenda og þá eru brögð að því að nemendur hlýði illa fyrirmælum og sýni starfsfólki og hvert öðru ákveðið virðingarleysi. Mig langar til þess að biðja ykkur, kæru foreldrar og forráðamenn, að ræða við ykkar börn heima um mikilvægi þess að bera virðingu fyrir skólafélögum, starfsfólki, eigum og munum og ekki síst sjálfum sér. Við munum svo að sjálfsögðu einnig taka þessa umræðu hér í skólanum.


Mig langar einnig að minna á að samkvæmt starfsáætlun Grenivíkurskóla opnar skólinn dyr sínar fyrir nemendum kl. 8:00 á morgnana. Nokkuð er um að nemendur séu mættir töluvert fyrr og er það ekki æskilegt þar sem skólaliði á morgunvakt sinnir öðrum verkefnum en nemendaumsjón til kl. 8:00. Því biðla ég til ykkar að gæta að því að nemendur mæti ekki allt of snemma í skólann.


Ég minni á að á öskudaginn, 17. febrúar, er frí í skólanum. Fimmtudaginn 18. febrúar er svo starfsdagur í skólanum en þá er frí hjá nemendum. Föstudaginn 19. febrúar er svo komið að foreldraviðtölum. Nánara skipulag á þeim verður sent út síðar.


Hér að neðan eru annars ýmsar fréttir og myndir úr skólastarfinu sem er um að gera að kíkja á.


Með kveðju úr skólanum,

Þorgeir Rúnar Finnsson

skólastjóri Grenivíkurskóla

Samrómur

Líkt og þið sjálfsagt öll vitið að þá fór Grenivíkurskóli með sigur af hólmi í C-flokki í lestrarkeppni grunnskólanna sem Samrómur stóð fyrir. Nemendur, starfsfólk, aðstandendur og velunnarar skólans lásu samtals 129.075 setningar á einni viku sem verður að teljast ótrúlegur árangur.


Keppnin í C-flokki var gríðarlega spennandi, en frá fyrsta degi var ljóst að tveir skólar þar voru staðráðnir í að sigra, Grenivíkurskóli og Höfðaskóli á Skagaströnd. Skólarnir skiptust á um að hafa forystu og ljóst að það var mikil hvatning fólgin í þessari spennandi keppni á milli skólanna. Svo fór að Grenivíkurskóli náði að síga nokkuð fram úr á síðustu dögum keppninnar og endaði með ágætt forskot í sínum flokki. Skólinn fékk að launum viðurkenningarskjal ásamt Sphero Bolt forritunarkúlum sem munu vafalaust nýtast vel.


Við í Grenivíkurskóla viljum þakka öllum þeim sem tóku þátt í keppninni fyrir hönd skólans kærlega fyrir sitt framlag. Þetta var afar spennandi og skemmtileg vika og frábært að sjá samheldnina og þrautseigjuna í okkar ágæta samfélagi.


Nemendur lásu um allan skóla á meðan keppninni stóð. Sjá nokkrar myndir hér: https://photos.app.goo.gl/GZvnDX6hpPMEUchY8

Ferð í Hof og skautaferð

Með rýmkandi samkomutakmörkunum hefur nemendum skólans gefist tækifæri til þess að fara í skemmtilegar vettvangsferðir frá áramótum. Nemendur í 5.-6. bekk fóru þannig í Hof þann 18. janúar og sáu tónlistarsýninguna Stúlkan í turninum, en það var afar vel heppnuð ferð. Þá bauð Skautafélag Akureyrar nemendum í 1.-4. bekk á skauta í skautahöllinni 28. janúar síðastliðinn. Nemendur skemmtu sér konunglega á svellinu í þessari skemmtilegu ferð.


Myndir frá skautaferðinni má sjá hér: https://photos.app.goo.gl/9pRwGpw1PL9aJ9xT9

Leiklistarval - leiksýning

Nemendur í 8.-10. bekk hafa á undanförnum vikum verið í leiklistarvali á föstudögum undir dyggri stjórn Hóbbu. Hópurinn gerði sér lítið fyrir og setti á svið leiksýninguna "Rauðhetturugl" en sýningin fór fram þann 15. janúar síðastlinn. Óhætt er að segja að leiksigrar hafi verið unnir á sviðinu og áhorfendur höfðu virkilega gaman af. Nú er leiklistarvalinu lokið en hreyfival/skólahreysti hefur tekið við.


Myndir frá sýningunni má sjá hér: https://photos.app.goo.gl/cZTZeNmaAe2bcX768

Grænfáninn

Í janúar fundaði umhverfisnefnd skólans en í henni sitja fulltrúar úr hverjum námshópi ásamt kennurum og skólastjóra. Eftir fundinn fyllti hver nemendahópur út gátlista vegna Grænfánaverkefnisins, en þemað þennan veturinn er "Úrgangur og neysla". Útfylling listanna gekk vel og komu nemendur með hugmyndir að verkefnum sem hægt er að vinna að á vorönn.


Grenivíkurskóli stefnir að því að sækja um Grænfánann í sjöunda sinn í vor, en til þess að hljóta endurnýjun þarf skólinn að vinna áfram markvisst að góðu starfi hvað varðar umhverfismennt og halda umhverfismálum á lofti í skólastarfinu.

Heilsueflandi skóli

Í janúar höfðum við hreyfiviku í skólanum, en þá fóru allir nemendur út í göngu- eða hlaupatúr að morgni og gæddu sér svo á ljúffengum hafragraut að því loknu. Veðrið var raunar aðeins að stríða okkur þessa vikuna svo við enduðum á því að nýta einhverja daga í Samrómsverkefnið í staðinn og sjáum ekki eftir því!


Núna fyrstu vikuna í febrúar erum við svo með jógaviku á dagskránni, en þá hefjast allir dagar á jógarútínu, slökun og svo er boðið upp á morgunmat. Það verður spennandi að prófa þetta og vonandi hafa allir gaman af að prófa.

Útiskóli í febrúar

  • 5.-6. bekkur: Grenndarkennsla, nærsamfélagið, talnarýni og útivera
  • 1.-4. bekkur: Höfuðáttirnar og útivera

Á döfinni í febrúar

  • 15. febrúar: Bolludagur
  • 16. febrúar: Sprengidagur
  • 17. febrúar: Öskudagur - frí í skólanum
  • 18. febrúar: Starfsdagur - frí hjá nemendum
  • 19. febrúar: Foreldraviðtöl
  • 21. febrúar: Konudagur
Big picture

Grenivíkurskóli

Útgefandi: Grenivíkurskóli

Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla