Fréttabréf Grænna skrefa
Fræðsla, nýjustu fréttir, viðbætur á heimasíðuna og fleira.
Umhverfisvæn jól Það hefur mun stærra kolefnisspor í för með sér að flytja inn lifandi tré en að kaupa íslenskt. Að kaupa íslenskt viðheldur áfram góðri skógrækt, og að líftíma trésins loknum er það kurlað niður í stígagerð. Win-win. | Grænmetisjól Ein af þeim stærstu aðgerðum sem við sem einstaklingar getum gert í loftslagsmálum er að draga verulega úr kjötáti. Grænmetisfæði er líka ódýrara og léttara í maga. | Kertajól Veljum svansvottuð kerti og svo er sniðugt að nota usb hleðslukveikjara, hann er allavega margnota en ekki einnota eins og flestir gaskveikjarar. |
Umhverfisvæn jól
Grænmetisjól
HVAÐ ER AÐ FRÉTTA?
Það var rólegt í viðurkenningum síðasta mánuð en þrír staðir hafa fengið viðurkenningu. Það voru Þjónustumiðstöð borgarlandsins, Stórhöfða, sem kláraði skref 4; Leikskólinn Heiðarborg sem fékk viðurkenningu fyrir skref 3 og leikskólinn Hulduheimar sem fékk viðurkenningu fyrir skref 2. Við óskum þeim öllum til hamingju með árangurinn!
HRINGRÁSIN
Hringrásarhagkerfið er nýtt hugtak en hefur fengið þónokkra umfjöllun upp á síðkastið og nú keppast fleiri og fleiri við að finna sér hillu í þessu hagkerfi. En hvað þýðir þetta og til hvers er hringrásarhagkerfið?
Hringrásarhagkerfið er hagkerfi þar sem leitast er við að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi. Markmiðið er að lágmarka auðlindanotkun og þar með úrgangsmyndun. Hugmyndafræðin snýst um það að í stað þess að framleiða hluti sem verður hent þá framleiðum við hluti sem geta allir átt sér framhaldslíf að notkun lokinni. Það er tvíþætt:
1) Að hver einasta arða hins framleidda hlutar geti nýst í eitthvað annað þegar hlutverki hans er lokið. Þannig yrði alltaf tryggt að hægt verði að endurvinna og endurnýta allt hráefni og ekkert fari til spillis.
2) Að hver framleiddur hlutur verði endingarbetri þannig að hann nýtist öðrum áfram og áfram og fari þannig alltaf í hring í hagkerfinu í stað þess að enda sem úrgangur. Þarna liggur ábyrgðin líka hjá framleiðendum og seljendum, sem verða að skuldbinda sig til þess að vera með viðgerðarþjónustu, taka við hlutnum aftur, eða selja þjónustu í stað hluta (t.d. að leigja út þvottavélar og rukka fyrir þjónustu í stað þess að selja vélarnar sjálfar).
Hér er tengill á góða skýringarmynd hjá Umhverfisstofnun um þetta efni. Hringrásarhagkerfið verður ekki innleitt í einu skrefi heldur tekur þetta tíma. Reykjavíkurborg er byrjuð að taka þessi skref og hringrásarhagkerfið er hluti af markmiðunum bæði í Loftslagsáætluninni og Græna planinu.
Ein birtingarmynd Hringrásarhagkerfisins eru skiptimarkaðir hér og þar. Fataskiptimarkaðir, efnismiðlun Góða Hirðisins o.fl. Hér er tengill á frétt frá Sorpu þar sem jólaskrautsskiptimarkaður fór fram síðustu helgi. Þar segir rekstrarstjórinn að það sé hugsunarhátturinn, um það hvað við erum að henda, sem skipti máli.
Áhugavert í fjölmiðlum Ég hvet alla til þess að sjá heimildarmyndina Ljót leyndarmál tískuiðnaðarins. Blaðakonan sem kannar umhverfisáhrif tískuiðnaðarins gerir það á hreinskilinn, fræðandi og áhugaverðan hátt. Myndina má sjá á Rúv https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/ljot-leyndarmal-tiskuidnadarins/28634/8h2ct1 | Græn skref í framhaldsskólum Hér er áhugavert viðtal í Samfélaginu á Rás 1 við fyrrverandi rektor Menntaskólans við Sund um Græn skref ríkisstofnana og hvernig framhaldsskólinn hefur getað fótað sig í þessu verkefni. https://www.ruv.is/utvarp/spila/samfelagid/23617/7hl5o1/mar-vilhjalmsson-fv-rektor | Nýtt á heimasíðu Grænna skrefa Eruð þið komin í jólaskap? Viljið þið fá fleiri hugmyndir um það hvernig jólin geta orðið aðeins umhverfisvænni? Ég setti inn stutta fræðslumola á heimasíðuna, sem þið getið skoðað hér https://graenskref.reykjavik.is/almennt-um-graenu-skrefin/ymsar-upplysingar/jolahugmyndir-myndbond/ |