Fréttabréf Grænna skrefa

Fræðsla, nýjustu fréttir, viðbætur á heimasíðuna og fleira.

HVAÐ ER AÐ FRÉTTA?

Fjöldi þátttakenda í Grænu skrefunum hefur heldur betur tekið kipp í nóvember og desember, því 30-40 nýir staðir hafa bæst við frá því síðasta fréttabréf var gefið út. Flestallir staðirnir eru á Velferðarsviði, en þar var gert átak í því að fjölga þátttökustöðum innan sviðsins. Við bjóðum alla nýju staðina velkomna í Grænu skrefin.


Það var rólegt í viðurkenningum síðasta mánuð en þrír staðir hafa fengið viðurkenningu. Það voru Þjónustumiðstöð borgarlandsins, Stórhöfða, sem kláraði skref 4; Leikskólinn Heiðarborg sem fékk viðurkenningu fyrir skref 3 og leikskólinn Hulduheimar sem fékk viðurkenningu fyrir skref 2. Við óskum þeim öllum til hamingju með árangurinn!

HRINGRÁSIN

Hringrásarhagkerfið er nýtt hugtak en hefur fengið þónokkra umfjöllun upp á síðkastið og nú keppast fleiri og fleiri við að finna sér hillu í þessu hagkerfi. En hvað þýðir þetta og til hvers er hringrásarhagkerfið?

Hringrásarhagkerfið er hagkerfi þar sem leitast er við að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi. Markmiðið er að lágmarka auðlindanotkun og þar með úrgangsmyndun. Hugmyndafræðin snýst um það að í stað þess að framleiða hluti sem verður hent þá framleiðum við hluti sem geta allir átt sér framhaldslíf að notkun lokinni. Það er tvíþætt:

1) Að hver einasta arða hins framleidda hlutar geti nýst í eitthvað annað þegar hlutverki hans er lokið. Þannig yrði alltaf tryggt að hægt verði að endurvinna og endurnýta allt hráefni og ekkert fari til spillis.

2) Að hver framleiddur hlutur verði endingarbetri þannig að hann nýtist öðrum áfram og áfram og fari þannig alltaf í hring í hagkerfinu í stað þess að enda sem úrgangur. Þarna liggur ábyrgðin líka hjá framleiðendum og seljendum, sem verða að skuldbinda sig til þess að vera með viðgerðarþjónustu, taka við hlutnum aftur, eða selja þjónustu í stað hluta (t.d. að leigja út þvottavélar og rukka fyrir þjónustu í stað þess að selja vélarnar sjálfar).


Hér er tengill á góða skýringarmynd hjá Umhverfisstofnun um þetta efni. Hringrásarhagkerfið verður ekki innleitt í einu skrefi heldur tekur þetta tíma. Reykjavíkurborg er byrjuð að taka þessi skref og hringrásarhagkerfið er hluti af markmiðunum bæði í Loftslagsáætluninni og Græna planinu.


Ein birtingarmynd Hringrásarhagkerfisins eru skiptimarkaðir hér og þar. Fataskiptimarkaðir, efnismiðlun Góða Hirðisins o.fl. Hér er tengill á frétt frá Sorpu þar sem jólaskrautsskiptimarkaður fór fram síðustu helgi. Þar segir rekstrarstjórinn að það sé hugsunarhátturinn, um það hvað við erum að henda, sem skipti máli.