Fréttabréf Grenivíkurskóla
10. tbl. 3. árg. - desember 2022
Kæra skólasamfélag
Þá er desember genginn í garð og jólaundirbúningur kominn á fullt, hér í skólanum sem annars staðar. Framundan eru skemmtilegar árlegar hefðir á borð við laufabrauðsdag og kyndlagöngu, og þann 16. desember er svo komið að litlu jólunum, en nánari upplýsingar um skiplag þeirra berast með tölvupósti síðar.
Laufabrauðsdagurinn verður miðvikudaginn 7. desember næstkomandi og ágætt að minnast á það hér að þennan dag þurfa nemendur að hafa nesti með í skólann, þar sem eldhúsið verður undirlagt í laufabrauðssteikingu.
Heilmargt skemmtilegt var á dagskránni í nóvember og má þar til að mynda nefna skemmtilegar menningarferðir til Akureyrar, baráttudag gegn einelti og ýmislegt fleira, en um það má lesa neðar í fréttabréfinu.
Þá er virkilega gaman að segja frá því að skólinn fékk veglega styrki á dögunum. Annars vegar var það kvenfélagið Hlín sem styrkti skólann til kaupa á nýjum saumavélum, en þær gömlu voru farnar að láta á sjá og virka illa. Þá styrktu fyrirtækin Darri ehf., Sparisjóður Höfðhverfinga og Gjögur skólann til kaupa á nýjum bókakosti fyrir skólann og það má með sanni segja að jólabókaflóðið hafi komið með skemmtilegum hvelli í skólann. Við þökkum styrkveitendum kærlega fyrir höfðinglega styrki.
Síðasti kennsludagur fyrir jólafrí er föstudagurinn 16. desember og sem fyrr segir verða einnig litlu jól þann dag. Að þeim loknum halda nemendur í jólafrí, en skóli hefst svo aftur að loknu jólafríi þriðjudaginn 3. janúar.
Njótið aðventunnar og hátíðanna, kæru vinir og vandamenn!
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Menningarferðir til Akureyrar
Þessu til viðbótar fóru nemendur á yngsta stigi að sjá tvær leiksýningar í mánuðinum, aðra í Hofi og hina í Valsárskóla. Hvort tvegga vel heppnaðar og skemmtilegar sýningar.
Afar fróðlegar ferðir og vonandi höfðu nemendur bæði gagn og gaman af.
Lestrarátak og Skáld í skólum
Í nóvember var blásið til lestrarátaks í skólanum og ýmislegt gert til að vekja áhuga nemenda á þeim fjársjóði sem lestur bóka innifelur. Þann 14. nóvember komu rithöfundarnir Arndís Þórarinsdóttir og Ævar Þór Benediktsson í heimsókn og ræddu við nemendur um bókaskrif og gerðu í leiðinni hávísindalega tilraun um það hvernig barnabækur eiga að, og mega, vera.
Næsta dag fengum við svo senda sérlega kveðju frá rithöfundinum og leikaranum David Walliams, en hann var staddur á landinu í tilefni af bókmenntahátíðinni Iceland Noir. Walliams sendi kveðjuna á íslensku og hugmyndin var að fá hann til að segja Grenivíkurskóli einhvers staðar, en það reyndist fullþungt orð, og því varð kveðjan til okkar á almennum nótum. En virkilega gaman að hann skyldi vera til í þetta með okkur! Hér má sjá kveðjuna.
Næstu daga á eftir lásum við svo saman frammi á Svæði bókina Kennarinn sem fuðraði upp, sem vakti nokkra lukku, enda hörkuspennandi bók. Gaman væri að endurtaka leikinn og lesa þá jafnvel næstu bók í þessari bókaröð!
Rúsínan í pylsuendanum var svo þegar við fengum veglegan styrk frá Darra ehf., Sparisjóði Höfðhverfinga og Gjögri, sem nýttur var til að kaupa fjölmargar nýjar og skemmtilegar bækur, sem biðu nemenda undir lok nóvember á nýjum bókavegg sem settur var upp. Virkilega skemmtilegt og fá styrkveitendur bestu þakkir fyrir.
Baráttudagur gegn einelti
Þann 23. nóvember var haldinn sérstakur baráttudagur gegn einelti í skólanum. Safnast var saman um morguninn og horft á myndbönd þar sem fjallað var um hve mikilvægt það sé að við ákveðum öll að vera saman í baráttuliðinu gegn einelti og nemendur fengu tækifæri til að ræða málin almennt. Að því loknu hengdu nemendur og starfsfólk hin ýmsu form, sem þau höfðu föndrað, á græna kallinn okkar. Markmiðið er að minna okkur öll á mikilvægi þess að taka skýra afstöðu og leggja okkar af mörkum í baráttunni gegn einelti.
Síðar um morguninn söfnuðumst við svo saman úti á skólalóð og mynduðum svokallaða kærleikskveðju og létum falleg orð og faðmlög berast eftir keðjunni. Inga Rakel, íþróttakennari, mætti með dróna og tók gjörninginn upp og afraksturinn var þetta glæsilega myndband sem er virkilega fallegt og skemmtilegt!
Skemmtilegur dagur og mikilvægt að halda þessu málefni reglulega á lofti og vinna markvisst að forvörnum gegn einelti.
Heimsóknir í MA og VMA
Í byrjun nóvember var nemendum í 9. og 10. bekk boðið að fara til Akureyrar og kynna sér framhaldsskólana og heimavistina. Dagurinn byrjaði á kynningu á heimavistinni þar sem þau fengu meðal annars að kíkja í stutta heimsókn til fyrrum nemenda skólans sem þar búa. Að þeirri heimsókn lokinni var rölt yfir í Verkmenntaskólann, þar sem nemendur fengu örkynningu á flestum ef ekki öllum þeim brautum sem skólinn býður upp á.
Í hádeginu var haldið í pizzuveislu á Greifanum áður en síðasti áfangastaður dagsins var heimsóttur, en það var Menntaskólinn á Akureyri. Þar fengu krakkarnir einnig kynningu á þeim námsbrautum sem boðið er upp á við skólann, og sáu nemendur Menntaskólans að miklu leyti um kynningarnar. Ferðin var virkilega skemmtileg að venju, nemendur voru sér og sínum til sóma og nokkuð ljóst af því hvað krakkarnir voru áhugasamir í ferðinni að margir þeirra stefna til Akureyrar í áframhaldandi nám að útskrift lokinni!
Nýjar saumavélar
Eins og kom fram hér að ofan fékk skólinn myndarlegan styrk frá Kvenfélaginu Hlín sem gerði okkur kleift að kaupa tvær nýjar saumavélar í handavinnustofuna. Þær sem voru í notkun voru orðnar heldur lúnar og því kominn tími á uppfærslu og erum við kvenfélaginu afar þakklát fyrir þennan góða stuðning. Á meðfylgjandi mynd má sjá uppfærða saumaaðstöðu, sem er orðin hin besta eftir þessa uppfærslu.
Heilsueflandi skóli
Dagatal Velvirk fyrir þennan mánuð ber yfirskriftina "Hlýhugur í desember". Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Grænfáninn
Við vitum að fólk hér í sveitarfélaginu er almennt duglegt að flokka, en okkar langar að hvetja ykkur enn frekar til dáða og gæta sérlega vel að þessu á komandi vikum, þar sem mikið fellur til af ýmis konar pappa og plastrusli í tengslum við jólagjafir og þvíumlíkt. Enn betra er auðvitað að endurhugsa neysluna og reyna að takmarka það rusl sem fellur til, en það rusl sem verður til hvetjum við ykkur til að koma í réttar tunnur eða gáma.
Myndir úr skólastarfinu - nóvember
- 9.-10. bekkur í heimsókn í MA og VMA - 2. nóvember 2022
- Hreyfistund 4. nóvember - kokkurinn o.fl.
- Leiksýningar hjá 1.-4. bekk
- Blakleikur gegn Valsárskóla - 17. nóvember
- Menningarferðir til Akureyrar - 28., 29. og 30. nóvember
- Dagur gegn einelti - 23. nóvember
- Samskóladagur í Valsárskóla - 24. nóvember
- Valgreinar - nóvember
- Lestrarátak og Skáld í skólum
Á döfinni í desember
- 1. desember: Fullveldisdagurinn
- 7. desember: Laufabrauðsdagur
- 13. desember: Kyndlaganga (gæti breyst ef veður verður óhagstætt)
- 16. desember: Síðasti kennsludagur fyrir jól. Litlu jól seinni partinn.
- 23. desember: Þorláksmessa
- 24. desember: Aðfangadagur
- 25. desember: Jóladagur
- 26. desember: Annar í jólum
- 31. desember: Gamlársdagur
Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla