Fréttabréf Kópavogsskóla

apríl 2017

Frá skólastjóra

Skólastarfið í vetur hefur að vanda verið fjölbreytt og margt skemmtilegt að gerast. Þó skólinn sé með eigin Facebooksíðu og heimasíðu eru þær aðallega notaðar til að setja inn styttri fréttir og upplýsingar. Til að halda foreldrum upplýstum eru hér nokkur atriði ykkur til kynningar, sumt er nýtt og annað hefur verið að þróast undanfarin ár.


Rafrænt umhverfi er stöðugt að þróast og samskiptamöguleikarnir eru fjölbreyttari en áður. Fréttabréf þetta er í vefformi sem er mjög einfallt í vinnslu og uppsetningu. Skólinn stefnir að auka nýtingu þess og vonandi verður það aðgengilegt og óbjagað í öllum gerðum tækja.

Rithöfundar framtíðarinnar?

Þorgrímur Þráinsson rithöfundur og borgarlistamaður Reykjavíkur 2013 hefur til fjölda ára heimsótt nemendur unglingastigs Kópavogsskóla og rætt við þá um forvarnir og mikilvægi jákvæðrar sjálfsmyndar. Þorgrímur er eins og flestir vita með vinsælustu barnabókahöfundum landsins og hefur verið það mjög lengi. Síðastliðið haust þegar Þorgrímur kom í sína árlegu heimsókna var orðuð við hann sú hugmynd að hann kæmi með einhverjum hætti að því að aðstoða kennara við að auka áhuga nemenda á ritun. Þorgrímur tók því vel og eftir nokkra undirbúningsvinnu hans og skólastjórnenda var samkomulag um að Þorgrímur myndi fræða nemendur í 7.-9 . bekk um það verklag sem hann notar við ritun bóka sinna. Ákveðið var að hann hitti hvern nemendahóp í þrjú skipti og leiðbeindi þeim við hvað gagnlegt væri að hafa í huga við frjálsa ritun. Óhætt er að segja að heimsóknir Þorgríms hafi tekist vonum framar og margt fróðlegt og leiðbeinandi kom fram í samtölum hans við nemendur.


Við skipulag heimsóknanna var lagt upp með að þetta væri tilraun sem yrði metin með tilliti til áframhaldandi samstarfs. Við mat á hvernig til tókst kom í ljós að sumir nemendur áttu mjög auðvelt með að setja sig í spor rithöfunda en aðrir síður. Þar benda ákveðin atriði til þess að heillavænlegra sé að byrja með nemendum á miðstigi í stað unglingastigs þar sem þeir séu að öllu jöfnu móttækilegri og ófeimnari við að skrifa af fingrum fram. Á næsta skólaári verður áframhald á samstarfinu og þá er ætlunin að vinna með yngri börn og skoða hvort þau séu enn móttækilegri en unglingarnir. Þáttur ritunar í lestrarnámi er mjög mikilvægur og forvitnilegt að sjá hvaða áhrif heimsókn víðlesins og vinsæls barnabókahöfundar hefur að segja fyrir nemendur.

Facebooksíður árganga

Á morgunfundum skólastjórnenda með foreldrum kom fram að foreldrar í nánast öllum árgöngum eru með Facebooksíður sem þeir nota til samskipta. Síðurnar eru stofnaðar af foreldrum og þeir eru með ,,admin“ réttindi á síðurnar. Í fæstum tilvikum voru umsjónarkennarar bekkja meðlimir á viðkomandi síðum en það getur verið mjög óheppilegt. Skólastjórnendur ræddu þetta á reglubundnum fundum sem þeir eiga með stjórn foreldrafélagsins og óskuðu eftir því að umsjónarkennarar fengju að gerast meðlimir að síðum ,,síns“ árgangs enda hefur SAMKÓP hvatt til þess. Ástæðan fyrir ósk skólastjórnenda er að það hafa komið upp tilvik þar sem umræða á síðu hefur byggst á misskilningi eða vanþekkinu sem umsjónarkennari hefði getað leiðrétt strax í byrjun ef hann hefði haft aðgang. Skólinn hefur að sjálfsögðu ekkert ákvörðunarvald í þessu en vonandi skilja umsjónarmenn síðanna þetta og bjóða umsjónarkennurum aðgang eins og eðlilegt er.

Samræmd könnunarpróf

Í upphafi skólaársins 2016-2017 urðu verulegar breytingar á fyrirkomulagi samræmdra könnunarprófa. Prófin eru nú eingöngu rafræn og eru lögð fyrir nemendur í 4. og 7. bekk í september ár hvert og nemendur 9. bekkjar taka prófin í mars. Fram til þessa hafa þau verið lögð fyrir nemendur í 10. bekk í september en nú hefur orðið breyting á því.


Framkvæmd sjálfra prófanna hefur gengið vonum framar en allir nemendur hafa tekið þau á spjaldtölvur. Þeir fara inn á læstar síður Menntamálastofnunar með einstaklingskóða og prófin lokast eftir að tímamörkum er náð. Á meðan á próftöku stendur er sérstakur veflás virkjaður svo nemendur geta ekki gert neitt á spjaldtölvuna nema svara prófunum. Eftir sem áður er hægt að sækja um frávik og lengri tíma en það er gert á forsendum hvers barns og er kynnt viðkomandi foreldrum þegar prófdagur nálgast. Öll frávik verða að vera undirrituð af foreldrum.


Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á prófunum sjálfum og þau hafa fengið á sig töluverða gagnrýni í fjölmiðlum. Margt af því sem þar hefur komið fram er hægt er að taka undir. M.a. var ritunarþáttur íslenskuprófsins tekinn út og því ekki prófað í þeim mikilvæga þætti. Sú breyting sem verður veigamest á næstu árum er að prófin verða sniðin að hverjum einstaklingi og því hæpið að tala um þau sem samræmd með sama hætti og áður. Einstaklingsmiðunin verður þannig að ef nemandi svarar spurningu rangt fær hann í kjölfarið léttari spurningu en sá nemandi sem svarar spurningunni rétt. Markmiðið er að afmarka betur þau atriði sem viðkomandi nemandi flaskar á sem á þá að gefa kennaranum betri yfirsýn yfir getu hvers og eins. Á heimasíðu Menntamálastofnunar er að finna mjög viðamiklar upplýsingar um prófin og skólinn mælir með því að foreldrar barna sem taka prófin á næsta ári kynni sér þær upplýsingar. Þær er að finna hér.

Skólabyrjun í Kópavogsskóla fyrir 5 (að verða 6) ára nemendur haustið 2017.

Um þessar mundir standa yfir heimsóknir leikskólabarna sem hefja grunnskólagöngu sína haustið 2017. Leikskólanemendurnir koma í þrjár heimsóknir þar sem þau kynnast skólahúsnæðinu, prófa að borða í matsal, læra að þekkja skólalóðina, heimsækja skólastjórann og fara í íþróttatíma svo eitthvað sé nefnt. Á vordögum verður síðan boðið upp á tveggja daga Vorskóla þar sem nemendur fá að spreyta sig á tveimur stuttum kennsludögum.

Foreldrafundur verður boðaður annan Vorskóladaginn þar sem foreldrum og forráðamönnum gefst kostur á að spyrjast fyrir um skólastarfið, skipulag þess. og undirbúning grunnskólagöngunnar.

Innritaðir nemendur eru þegar þetta er skrifað 33 og miðað við reynslu undanfarinna ára má reikna með einhverjum breytingum á þeirri tölu.

Big image

Útileikhús

Fyrir nokkrum árum var ákveðið að nemendur 5. bekkjar ynnu að uppsetningu leikrits sem sýnt yrði í skóginum við Digraneskirkju. Í fyrsta skipti sem þetta var gert renndum við blint í sjóinn með í raun allt. Það kom fljótt í ljós að krakkarnir höfðu mikla ánægju af öllum undirbúningnum, sem fólst í búningagerð, leikmunagerð og leikæfingum, og ekki síður sjálfri sýningunni þar sem mömmur og pabbar, afar og ömmur og skólafélagar fylgdust með öllum herlegheitunum. ,,Síðan eru liðin mörg ár“ og enn ein sýningin er í undirbúningi með tilheyrandi spenningi. Eggert Kaaber leikstjóri er að vinna með nemendum núverandi 5. bekkjar að uppsetningu leikrits sem sýnt verður í byrjun júní. Umsjónarkennarar og listgreinakennarar koma einnig að undirbúningnum sem gengur vel enda töluverð reynsla til staðar. Markmiðið með þessu öllu er að styrkja nemendur í að koma fram og vinna saman að sameiginlegu verkefni sem er unnið með allt öðrum hætti en hefðbundið nám í kennslustofu. Hópurinn er spenntur og undirbúningur gengur vel. Það stefnir allt í skemmtilega sýningu og nú er bara að vona að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir á sýningardaginn.

Skiptir daglegur lestur í alvöru einhverju máli?

Á hverju ári er lestarskimin lögð fyrir nemendur sem eiga í erfiðleikum með lestur. Í nokkrum tilfellum kemur í ljós að nemendur eru með lesblindu (dyslexiu) og þurfa því sérstaka nálgun að námsefninu. En nú er sú breyting að verða að upp undir helmingur nemenda sem ákveðið er leggja skimunarpróf fyrir fá þá niðurstöðu að þeir eru ekki með lesblindu, þá skorti eingöngu lestrarþjálfun og eiga af þeim sökum í töluverðum námserfiðleikum. Þetta er mikið áhyggjuefni því nemandi sem er illa læs í grunnskóla er líklegur til að lenda í erfiðleikum í framhaldsskóla og framtíðarlífsgæði hans get orðið önnur en efni stóðu til.


Hér í Kópavogsskóla hefur töluvert verið rætt um með hvaða hætti hægt er að efla lestrarfærni nemenda og tryggja að sú þjálfun sem nauðsynleg er náist. Ákveðið var að fara í samstarf við Guðmund B. Kristmundsson frv. dósent við Háskóla Íslands en hann er sérfræðingur í öllu er viðkemur læsi. Guðmundur er búnn að hitta kennara skólans og benda á þætti sem mikilvægt er að leggja áherslu á og einnig var hann með erindi fyrir foreldra á opnum fundi skólaráðs í lok febrúar. Því miður mættu ekki margir til að hlýða á og ræða við Guðmund um þær leiðir sem heimili geta farið. Skólastjóri fór þess því á leit við Guðmund að hann skrifaði þrjár hugvekjur til foreldra barna á yngsta stigi, miðstigi og elsta stigi skólans sem yrðu sendar foreldrum með jöfnu millibili til vors og hann gekkst inn á það. Þegar þetta er skrifa er fyrsta hugvekjan til foreldra barna á yngsta stigi og á miðstigi farin og fyrsta hugvekja til foreldra barna á unglingastigi í undirbúningi. Skólastjóri vill hvetja foreldra til að lesa hugvekjur Guðmundar og bregðast við því sem í þeim stendur til að styrkja sitt barn. Lestrarfærni skiptir verulegu máli og öll umræða á heimilum um orð og merkingu þeirra styrkir lestrarnám og lestrarfærni barna. Styðjum börnin sem best við getum því það eru þau sem hafa mestan hag af umræðunni og þjálfuninni.

Enn af forritunarkennslu

Fyrir fjórum árum hófst samstarf Kópavogsskóla við Rakel Sölvadóttur hjá Skema um forritunarkennslu barna. Fyrsta veturinn var unnið með nemendur í þáverandi 4. bekk og árið eftir var aftur unnið með 4. bekk og einnig börnin í 5. bekk sem þá voru orðin árinu eldri. Forritunarkennslan hefur síðan verið fastur líður í námi nemendanna og nú er forritun kennd í 4.-7. bekk skólans. Núverandi 7. bekkur er því á fjórða ári í forritunarfræðunum og nú erum við svo heppin að þau eru öll með sína spjaldtölvu og vinna verkefnin á hana. Það er auðvitað frábært að vera ekki bundin við borðtölvu í tölvustofu og geta þess í stað unnið í raun hvar sem er. Óhætt er að segja að krakkarnir séu komnir með góða innsýn í heim forritunarinnar og mörg hver töluvert fær á því sviði.


Þegar verkefnið hófst á sínum tíma var meginmarkmiðið að efla rökhugsun nemendanna því ef gerð er villa í forrituninni kemur hún strax fram og viðkomandi nemandi þarf að finna hana og leiðrétta svo rétt virkni náist. Forritunin sem slík var því ekki stærsta atriðið, aðeins leið að því. Verkefnin hafa þyngst ár frá ári með auknum þroska nemenda og nú er verið að skoða framhaldið. Hugsanlegt er að frá og með 8. bekk verði nemendum gefinn kostur á að velja forritun sem valgrein og hún verði því ekki skylda eins og hún hefur verið undanfarin ár. Það skýrist fyrir skólalok í vor.

Valgreinar á unglingastigi

Á hverju vor velja nemendur sem eru að fara í 8., 9. og 10. bekk þrjú valfög fyrir komandi skólaár. Nemendur fá fljótlega eftir páska aðgang að bæklingi sem inniheldur lýsingar á þeim valfögum sem verða í boði skólaárið 2017-2018. Nemendur velja þrjú fög sem aðalfög og tvö til vara. Ef ekki næst næg þátttaka í einhverju valfagi fellur það niður. Miðað er við að í hverju valfagi verði 10 – 20 nemendur. Ef nemendur stunda tómstundir utan skóla geta þeir fengið þær metnar inn sem val. Ef æfingarnar eru 8 klukkustundir á viku eða minna er það metið inn sem eitt valfag ef þeir stunda tómstundir í meira en 8 klukkustundir á viku er það metið sem tvö valfög. Þeir nemendur sem vilja láta meta tónlist/tómstundir utan skóla sem val verða að skila inn eyðublaði í upphafi næsta skólaárs þar sem kemur fram hvað þau eru að æfa og hve oft í viku. Það þarf að staðfest með undirskrift foreldra og þjálfara. Nemendur fá kynningu á því í byrjun skólaársins.