Fréttabréf Naustaskóla

9. tbl 11. árg. 1.nóvember 2019

Kæra skólasamfélag

Nóvembermánuður verður helgaður afmæli Naustaskóla. Búið er að skipuleggja skemmtilegt afmælisþema dagana 13. – 15. nóvember þar sem hefðbundið skólastarf verður lagt niður og stöðvar með fjölbreyttum viðfangsefnum settar upp víðsvegar um skólann. Þessa daga höfum við opna viku fyrir foreldra og bjóðum þeim að koma í heimsókn og fylgjast með skólastarfinu. Tíu ára afmæli Naustaskóla fögnum við föstudaginn 22. nóvember með hátíðarhöldum sem standa munu fram eftir degi. Við hlökkum mikið til þessara viðburða og höfum yfir mörgu að gleðjast saman. Á afmælisdaginn sjálfan verður opið hús frá kl. 15:00 – 17:00 fyrir þá sem vilja koma að skoða skólann og gleðjast með okkur, fá sér kaffisopa og fylgjast með viðburðum sem boðið verður uppá.

Hlökkum til að fá ykkur í heimsókn.

Bryndís skólastjóri

Á döfinni í nóvember

1. nóvember - nemendadagurinn (frjálst nesti, ekki nammi og gos)

6. nóvember - Ævar vísindamaður með upplestur úr nýrri bók fyrir 1.-7.bekk

8. nóvember - Blár dagur

11. nóvember - Skipulagsdagur ( frístund lokuð f.h. )

13.-15. nóvember - Íslensku þemadagar tengdir afmæli Naustaskóla (foreldrar velkomnir í heimsókn)

16. nóvember - Dagur íslenskrar tungu

20. nóvember - Dagur mannréttinda barna

22. nóvember - Afmælisdagur Naustaskóla (Opið hús 15:00-17:00) Kaffihúsastemning

Friðbergur forseti

Árni Árnason rithöfundur las upp úr nýrri bók sinni 31.október fyrir nemendur í 4.-7.bekk. Nemendur hlustuðu vel á Árna og spurðu hann ótal spurninga um bókina og hann sjálfan.

Ævar vísindamaður

Á þessum árstímum koma margir rithöfundar í heimsókn og lesa fyrir nemendur. Krökkunum finnst mjög gaman að heyra í þeim lesa upp úr sínum eigin bókum. Ævar mun lesa upp úr sinni bók ,,Þinn eigin tölvuleikur" 6. nóvember fyrir 1.-7.bekk.

Heimsókn frá Teresu Lasala

Við fengum skemmtilega heimsókn Teresu Lasala frá Bandaríkjunum sem er oft talin vera ,,móðir" jákvæðs aga í heiminum. Kennslustíll hennar er grípandi og færir hún hlýju, kímni og eldmóð í kennslu sinni um jákvæðan aga. Hún fylgdi Anítu Jónsdóttur kennara um skólann og fylgdist með í 2-3 daga bæði kennsluháttum og hvernig við notuðum jákvæðan aga í okkar skólastarfi. Hún spjallaði síðan við stjórnendur skólans og ræddi um skólann og margt fleira. Henni fannst margt mjög spennandi að gerast í skólanum og sá svo sannarlega mikinn mun frá árinu 2011 þegar hún kom síðast í heimsókn í Naustaskóla. Vonandi fáum við hana í heimsókn fljótlega aftur.

Öryggi í umferðinni

Kæru foreldrar og forráðamenn, nú þegar það er farið að dimma er MJÖG mikilvægt að börnin og reyndar við öll notum endurskinsmerki eða endurskinsvesti þegar við erum í umferðinni. Í myrkri sjást gangandi og hjólandi vegfarendur illa þrátt fyrir götulýsingu. Útsýni ökumanna er allt annað en þeirra sem eru gangandi eða hjólandi. Gangandi eða hjólandi vegfarendur ættu því ætíð að nota viðeigandi öryggisbúnað s.s. endurskin, ljósabúnað og hjálm. Við beinum því til ykkar að yfirfara hjólabúnað og yfirhafnir barnanna og ganga úr skugga um að endurskinsmerki séu á yfirhöfnum og glitaugum og ljós á reiðhjólum. Verum vel upplýst og örugg í umferðinni! Hér má sjá gott myndband um endurskinsmerkjatilraun

https://www.youtube.com/watch?v=tIq7VBCoMsw

Afmælisþemadagar og afmæli

Nóvember mánuður verður aldeilis spennandi fyrir nemendur og starfsfólk Naustaskóla. Við hefjum afmælisundirbúning með þremur skemmtilegum þemadögum 13.-15.nóv. Meðal annars verða handverksstöðvar, þrautastöðvar, jákvæðs aga stöð, bakstursstöðvar, útistöðvar, íslenskustöðvar og margt fleira. Einnig munum við skreyta skólann fyrir afmælishátíðina sem verður föstudaginn 22. nóvember. Foreldrar eru velkomnir í heimsókn þessa daga að kíkja á krakkana sína. Nánari útskýringar koma í vikupóstum í vikunni fyrir þemadagana.
Big picture