Skólastarfið í Hraunvallaskóla

Vinátta - Samvinna - Ábyrgð

Október

Kæru foreldrar/forsjáðilar

Eins og þið munið þá höfum við verið að senda út mánaðarlegt upplýsingabréf til ykkar. Við höfum ákveðið að setja það í nýjan búning og er þetta fyrsta slíka bréfið. Þetta gefur okkur tækifæri á því að setja inn myndir og jafnvel video með. Skólastarfið verður sýnilegra enda margt að segja frá enda er skólinn fullur af dásamlegum einstaklingum sem allir hafa fullt af styrkleikum sem vert er að gefa gaum. Við minnum á samstarf heimilis og skóla og hvetjum ykkur til þess að vera í sambandi sem mest.

Í bréfi þessa mánaðar eru viðburðir og tilkynningar sem okkur langar til að koma til ykkar.

Takk fyrir að leyfa okkur að umgangast ykkar frábæru börn á hverjum degi. Það gefur svo sannarlega lífinu gildi.

Gulldrekalottó

Í október er mikið um að vera hjá okkur eins og alltaf. Við byrjum mánuðinn í GULLDREKALOTTÓ sem er afar skemmtilegur leikur sem gengur út á það að fá nemendur til að fara eftir SMT reglum á opnum svæðum. Heppnir nemendur fá GULLDREKA fyrir og komast í svokallaðan pott sem gæti fært þeim verðlaun. Með þessu erum við að styrkja jákvæða hegðun og hvetja nemendur til að fara eftir skólareglum.

Vika bannaðra bóka 27.-1. okt.

Tilgangur alþjóðlegrar viku bannaðra bóka er að vekja athygli á þeim verkum sem hafa verið bönnuð, fjarlægð eða aðgangur að þeim takmarkaður á einhvern hátt, aðallega í skólum og bókasöfnum í Bandaríkjunum.

Meginmarkmið vikunnar er að fagna lestrarfrelsinu – rétti einstaklingsins til að velja sér lesefni án ritskoðunar.

Bókasafn skólans er búið að stilla upp mörgum "bönnuðum bókum" á áberandi hátt og fá nemendur að taka þær að láni og lesa.

Dagskrá Mosans í mið- og unglingadeild

Í október eru frábærir viðburðir í félagsmiðstöðinni Mosanum. Við viljum hvetja nemendur í mið- og unglingadeild að mæta og taka þátt. Þátttaka í félagsstarfi er styrkjandi og "geggjað" skemmtilegt. Hér fyrir neðan er dagskráin:
Big picture

Skólafærninámskeið fyrir foreldra/forsjáraðila í 1. bekk

Nú þegar barnið ykkar er að hefja nám í grunnskóla er mikilvægt að leggja grunn að góðum samskiptum heimilis og skóla. Við bjóðum því foreldrum/forsjáraðilum í 1. bekk að sækja námskeið um skólastarf, foreldrafélag og hlutverk foreldra í skólastarfi. Námskeiðið verður miðvikudaginn 6. okt. kl. 17:30-20:00. Nánari upplýsingar verða sendar til þeirra sem við á.

Bleika slaufan 2021

Við í Hraunvallaskóla ætlum að vekja athygli á bleika deginum þriðjudaginn 12. okt. þar sem við erum í vetrarfríi þann 15. okt. Á Bleika deginum hvetjum við nemendur og starfsfólk til að bera slaufuna, klæðast bleiku og lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma svo allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni stuðning okkar og samstöðu. Við veljum "bleikasta" árganginn og gerum okkur glaðan dag og hugsum til þeirra kvenna sem greinst hafa með krabbamein.

Skipulagsdagur og vetrarfrí

Miðvikudagurinn 13. október er skipulagsdagur. Þá gefst kennurum tækifæri til skipulagningar á skólastarfinu ásamt endurmenntun. Nemendur eru í fríi þennan dag í skólanum en Hraunsel er opið fyrir alla nemendur í 1.-4. bekk. Skráning er í Hraunsel fyrir þá sem eru með daglega vistun þar og verður opnað fyrir skráningar í gegnum „Völu“ miðvikudaginn 29. okt. Þeir nemendur sem ekki eru með daglega vistun í Hraunseli geta sent tölvupóst á sarap@hraunvallaskoli.is og óskað eftir vistun á þessum degi. Sá vistunartími er frá kl. 08:00-13:20. Lokað verður fyrir skráningar á miðnætti fimmtudagskvöldið 7. okt.

Vetrarfrí er fimmtudaginn 14. og föstudaginn 15. okt. Þá eru nemendur í fríi í skólanum og Hraunsel er lokað.

Við sjáumst svo hress og endurnærð mánudaginn 18. október.

Samtalsdagur

Miðvikudaginn 20. okt. er samtalsdagur. Þar fara foreldrar/forsjáraðilar, kennari og barn saman yfir stöðu nemanda í leik og starfi. Eins og allir vita þá hafa samtalsdagarnir verið rafrænir undanfarið eitt og hálfa ár. Við erum að vona að við getum boðið ykkur inn í hús á þessum degi en það mun koma í ljós þegar nær dregur. Við sendum ykkur nánari upplýsingar fljótlega.

Það er opið í Hraunseli á þessum degi fyrir nemendur í 1.-4. bekk sem eru með daglega vistun þar. Skráningar er þörf í Völu og er opnað fyrir skráningu 29. sept. og skráningu lýkur á miðnætti fimmtudagskvöldið 14. okt.

Blakmót Hafnarfjarðar fyrir 4.-6. bekk

Blaksambandið í samstarfi við UMFÍ, ÍSÍ og CEV (Confederation European Volleyball) stendur fyrir Grunnskólamóti í blaki. Þann 22. október verður haldið mót fyrir nemendur í 4.-6. bekk hér í Hafnarfirði nánar tiltekið í Risanum.


Markmiðið með verkefninu er:

 • Auka þekkingu og sýnileika á blakíþróttinni
 • Aukin færni kennara til kennslu á blaki
 • Námskeið/fræðsla
  • Hópefli og skemmtun fyrir nemendur
  • Allir fá verkefni við hæfi

  Áætlað er að viðburðurinn standi yfir í um 1,5 - 2 klst fyrir hvern skóla en skólunum er skipt niður í mismunandi tímaramma.


  Íþróttakennarnir okkar ætla að fara með nemendum á mótið. Íþróttakennarar eru byrjaðir að undirbúa nemendur og í framhaldi senda þeir tölvupóst á ykkur foreldra/forsjáraðila til að fá leyfi fyrir þá nemendur sem vilja taka þátt. Nemendur fara á mótið í rútu héðan frá skólanum og koma einnig þannig til baka.


  Þetta er frábært tækifæri til að víkka sjóndeildarhring okkar frábæru nemenda varðandi hreyfingu og tómstundir.

  Reykir 7. bekkur

  Vikuna 25.-29. okt. fer 7. bekkur í skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði. Þessi árlega ferð 7. bekkjar er mikið tilhlökkunarefni fyrir nemendur og kennara. Í þessari ferð kynnast nemendur enn betur og kennarar fá að kynnast nemendum á annan hátt. Nánari upplýsingar verða sendar á foreldra/forsjáraðila í 7. bekk þegar nær dregur.

  Alþjóðlegi bangsadagurinn

  Miðvikudaginn 27. okt. er alþjóðlegi bangsadagurinn. Mörg skólasöfn og almenningssöfn halda Bangsadaginn hátíðlegan. Það er einkar viðeigandi að tengja bangsa og bókasöfn á þennan hátt því bangsar eru söguhetjur margra vinsælla barnabóka. Dagurinn sem haldið er upp á er 27. október ár hvert en það var afmælisdagur Teddy Roosevelt forseta Bandaríkjanna. Nemendur mega koma með bangsa í skólann og það verður húllumhæ á bókasafni skólans.

  Segjum nei við sælgæti og gosi

  Það hefur borið aðeins á því að nemendur í unglingadeild hafa verið að fara út í Krónu og versla sér óhollan millibita og gos/orkudrykki. Okkur langar til að fá ykkur foreldra/forsjáraðila í lið með okkur og að þið ræðið við ykkar börn um mikilvægi hollustu og vatnsdrykkju. Reglur skólans eru skýrar, það er ekki í boði að vera með sælgæti eða ígildi sælgætis eða gos í skólanum á skólatíma. Einnig eru orkudrykkir ekki leyfðir og hvetjum við nemendur til að vera duglega að drekka vatn.

  Sóttkví nemenda

  Okkur langar til að biðja forelda/forsjáraðila um að vera duglega að láta okkur vita ef nemendur fara í sóttkví. Það sem þið þurfið að gera er að hringja til ritara s: 590-2800 og hann tekur við þessum upplýsingum og skráir hjá sér. Þetta er mikilvægt í skráningum þar sem nemendur sem fara í sóttkví eru skráðir sem slíkir og fer því ástundunin ekki með inn í nýju ástundunarreglurnar. Einnig er mikilvægt fyrir okkur að vita ef við þurfum einhverja hluta vegna að taka þátt í rakningu.

  Við höfum unnið þetta frábærlega vel saman hingað til og ætlum að halda því áfram.

  Söngleikurinn Bugsý Malone

  Nú hafa okkar frábæru nemendur í unglingadeild ákveðið hvaða söngleik þau ætla að setja upp þetta skólaárið og varð Bugsý Malone fyrir valinu. Það er mikilvægt að allir taki ábyrgð á sínu hlutverki í söngleiknum því allir hlekkir eru jafn mikilvægir. Sýningar verða 25. og 26. mars og því mikilvægt að þeir nemendur sem eru að taka þátt í sýningunni séu ekki í útlöndum á þessum tíma eða rétt fyrir sýningar. Við vonum að þetta komi ekki illa við neinn og hlökkum til að sjá okkar hæfileikaríku nemendur standa á sviðinu og blómstra.

  Hrekkjavaka 29. okt.

  Hefð hefur myndast fyrir því að nemendur megi koma í búningum á þessum degi. Þar sem hrekkjavakan er á sunnudegi þá ætlum við að hafa hana á föstudeginum á undan hjá okkur. Bókasafnið verður undirlagt af skemmtilegum skreytingum og árgangar munu án efa gera eitthvað skemmtilegt í tilefni dagsins. Þær upplýsingar koma í vikubréfum og jafnvel inn á Facebooksíður árganganna.