Hvalrekinn

17. apríl 2020

Big picture
Ágætu foreldrar.


Ég vona að allir hafi haft það sem best í páskafríinu. Nú er þessari fyrstu viku eftir páska að ljúka og við sjáum strax að það voru mun fleiri nemendur sem skiluðu sér í skólann en voru í vikunni fyrir páskafrí sem er frábært. Það er mikilvægt að halda daglegri rútínu fyrir nemendur. Þar komum við bæði inn á svefn, mataræði og að halda rútínunni í skólanum. Gott er fyrir nemendur að hafa eitthvað fyrir stafni og ná að halda áætlun vetrarins eins og kostur er í náminu.


Á síðustu vikum hefur öllum orðið ljóst að við berum ábyrgð á hvert öðru og gjörðir okkar hafa áhrif á aðra. Tökum því samfélagslega ábyrgð okkar alvarlega – ekki aðeins þegar kemur að smitvörnum heldur einnig á félagslega þættinum.


Hugum að fólki í okkar nærumhverfi. Er einhver sem á erfitt með að afla sér upplýsinga? Er foreldri í bekknum sem ekki talar íslensku og hægt væri að benda á að síðan covid.is er þýdd á ýmis tungumál. Eigum við skyldmenni sem á erfitt með að nýta sér lesið mál og hægt væri að spjalla við í síma og fara saman yfir hvernig hægt er að verjast útbreiðslu veirunnar?


Síðast en ekki síst þurfum við að vera vakandi fyrir því að í því ástandi sem nú ríkir eykst hættan á því að konur og börn verði fyrir ofbeldi á heimili. Verum því vakandi. Hjálparsíminn 1717 og neyðarnúmerið 112 eru opin allan sólarhringinn.

Kristinn Guðlaugsson, skólastjóri.

Heimaskóli Hvaleyrarskóla

Undanfarna daga hefur Þórunn kennsluráðgjafi UT og Sveinn tæknistjóri unnið að vef innan skólans. Vefurinn getur nýst kennurum, nemendum og foreldrum sem brunnur upplýsingar og til aðstoðar námi nemenda. Þessi vefur er og verður í áframhaldandi þróun þar sem nýtt efni verður sett reglulega inn.

Félagsmiðstöðin Verið

Í tilkynningu frá Almannavörnum höfuðborgarsvæðisins kemur fram að borið hefur á því að unglingar séu að hópa sig saman á leiksvæðum á kvöldin. Þar segir að ástæðan sé líklega gott veður og þær jákvæðu fréttir sem hafi verið að berast af þróun mála í baráttunni gegn Covid19.

En áfram þarf að hafa aðgát og framfylgja smitvörnum. Við megum ekki sofna á verðinum og því þarf að sporna gegn hópamyndun. Almannavarnir höfuðborgarsvæðisins hvetja því foreldra, kennara og aðra sem starfa með unglingum að halda vöku sinni og sporna gegn hópamyndun unglinga að kvöldlagi.


Félagsmiðstöðin okkar hefur verið rafræn á meðan samkomubannið er í gildi. Við notumst við samfélagsmiðla og höfum reynt að vera í góðum samskiptum við unglingana þar, eins og hægt er. Einnig fara starfsmenn Versins á rölt eða rúnt um hverfið okkar tvö kvöld í viku til að fylgjast með og sporna gegn hópamyndun.

Ef þið hafið einhverjar spurningar eða ábendingar er ykkur velkomið að heyra í okkar, annað hvort á margretm@hvaleyrarskoli.is eða í síma 664-5778.

Skáknetmót fyrir skóla í Hafnarfirði

Hafnafjarðarbær heldur áfram með skáknetmót fyrir alla krakka á grunnskólaaldri á fimmtudögum (16:30) og laugardögum (11:00). Við hvetjum ykkur til að benda ykkar börnum á að taka þátt á skákmótunum. Nú eru um 40 börn skráð í hópinn.

Hér eru skrefin sem þarf að fara í gegnum til þess að taka þátt (mjög einfalt):

  1. Búa til aðgang á www.chess.com (frítt)
  2. Gerast meðlimur í hópnum “Hafnafjörður-skólar”: https://www.chess.com/club/hafnafjordur-skolar
  3. Skrá sig á mótin sem hægt er að gera allt að 60 mínútum áður en þau hefjast.
  4. Mótin verða einnig auglýst á forsíðu hópsins inná chess.com.


Skákdagskrá út apríl:

  • Alla fimmtudaga 16:30-17:30
    https://www.chess.com/live#r=183805 (Tengill gildir fyrir mótið þann 16. apríl, tenglar verða uppfærðir á forsíðu Mosfellsbær-skólar á chess.com vikulega)
  • Alla laugardaga 11:00-12:00
    https://www.chess.com/live#r=183808 (Tengill gildir fyrir mótið þann 18. apríl, tenglar verða uppfærðir inná á forsíðu Mosfellsbær-skólar á chess.com vikulega.)

Mælum með að þið notið borðtölvu/fartölvu. Chess.com appið virkar ekki á mótum.

Fræðslugátt Menntamálastofnunar

Á Fræðslugátt er allt námsefni Menntamálastofnunar sem til er á rafrænu formi. Í ljósi aðstæðna er þar einnig námsefni sem tímabundið hefur verið sett á rafrænt form og þannig gert aðgengilegra fyrir nemendur, kennara og foreldra.


Við hvetjum ykkur til þess að heimsækja Fræðslugáttina og skoða framboðið. Þar er til að mynda mikið af lestrarefni sem nýta má í lestrarátakinu Tími til að lesa. Þessa dagana hafa einmitt flestir góðan tíma til að lesa og þörfin fyrir hugarleikfimi hefur sjaldan verið meiri en nú.


Fræðslugátt er skipt niður í námsefni fyrir yngsta stig, miðstig og unglingastig. Einnig er þar hægt að nálgast annað efni. Undir annað efni er námsefni héðan og þaðan sem við höfum fengið ábendingar um að geti nýst skólasamfélaginu vel á þessum tímum.

Við hvetjum einnig áhugasama að skrá sig á póstlista til að fá fréttir af nýju námsefni og öðru sem tengist útgáfu námsefnis.

Að læra íslensku heima

Nú er mikilvægt að nýta tímann fyrir alla og læra íslenskuna betur heima. Að læra íslensku í heimanámi, hér má finna góðar ráðleggirnar fyrir nemendur:

Undirspil við íslensk dægurlög

Guðrún Árný tónmenntakennari hjá okkur eru búin að taka upp mikið af undirspili við íslensk dægurlög. Undanfarna daga hefur hún sett dægurlögin inn á youtube. Það er fátt sem gleður hjartað meira en fallegur söngur. Já, já við getum öll sungið við þennan fagra undirleik Guðrúnar Árnýjar. Hvetjum ykkur til að taka lagið og textarnir koma líka á skjáinn.


https://www.youtube.com/playlist?list=PL1JGavIrs8DZL6WAkpzNLE9VhpPyqEeIQ

Hvernig æskilegt er að ræða við börn um COVID-19

Núna gengur yfir tímabil sem vekur áhyggjur hjá flestum, ekki satt? Okkur er umhugað um

það hvernig foreldrar geta alið upp hamingjusöm og örugg börn þegar þeir sjálfir eru kvíðnir.

Eins og ástandið er í dag þarftu ekki að vera sérstaklega áhyggjufullur einstaklingur til að

finna fyrir kvíða. Hér eru nokkur ráð sem við teljum að geti komið að notum við núverandi

aðstæður.

Hér má finna leiðbeiningar til foreldra og forráðamanna barna.

Bréf til foreldra og starfsfólks skóla frá sóttvarnalækni og landlækni

Sóttvarnalæknir og landlæknir sendu starfsfólki skóla og foreldrum leik- og grunnskólabarna bréf síðast liðinn þriðjudag. Þar sem þau árétta mikilvægi þess að nemendur í leik- og grunnskólum haldi áfram að sækja skóla þrátt fyrir takmarkanir á skólastarfi. Bréfin má sjá hér:

Tími til að lesa - vertu með í landsliðinu

SETJUM HEIMSMET Í LESTRI ~ VERTU MEÐ Í LANDSLIÐINU

Í tilefni af því að nú erum við mörg heima, og vantar eitthvað gefandi til að nýta tímann í, ætlum við að sameinast í einu liði, landsliðinu í lestri, og setja heimsmet í lesnum mínútum á einum mánuði.


Allir sem lesa geta verið með. Þú þarft bara að skrá mínúturnar sem þú lest á þessari síðu og hún reiknar út hvað allir eru búnir að lesa samtals.


Ef það er eitthvað sem er nóg af í ástandinu þá er það tími. Það er hægt að nýta hann vel og minna vel, og ein albesta nýtingin er að lesa. Fyrir utan hvað það er skemmtilegt þá gerir lestur kraftaverk í lesandanum. Hver blaðsíða eflir orðaforðann, kveikir nýjar hugmyndir og eykur skilning á lesmáli og veitir þannig aðgang og skilning á heiminum öllum.


Þetta er frekar einfalt: Því meira sem við lesum því betra.


Svo nú er bara að reima á sig lesskóna og grípa næstu bók. Viðbúin – tilbúin – lesa!


Tími til að lesa er verkefni á vegum Menntamálastofnunar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Öllum börnum á aldrinum 12 - 14 ára er boðið að taka þátt í kvikmyndahátíð sem meðlimir í dómnefnd.

Verðlaunahátíð ungra áhorfenda fer fram dagana 23. - 26. apríl .
Evrópska kvikmynda akademían og Kvikmyndamiðstöð Íslands bjóða öllum börnum á aldrinum 12 - 14 ára að taka þátt í kvikmyndahátíð sem meðlimir í dómnefnd.
Kvikmyndahátíðin nefnist Verðlaun ungra áhorfenda (e. Young Audience Award) og er haldin, stafrænt að þessu sinni en samtímis víðsvegar um Evrópu eða í 40 löndum dagana 23 - 26. apríl næstkomandi.
Þrjár evrópskar myndir verða sýndar á VOD rás sem krakkarnir fá aðgang að. Krakkarnir horfa á myndirnar dagana 23. 25. apríl en umræður um myndirnar sem og kosning fer fram þann 26. apríl.
Myndirnar sem verða sýndar á Verðlaunahátíð ungra áhorfenda voru valdar af dómnefnd sem skipuð var fimm krökkum á aldrinum 12 - 14 ára og tók ein íslensk stúlka í forvalinu.
Markmið hátíðarinnar er að bjóða upp á einstakt tækifæri fyrir börn til þess að kynnast evrópskri kvikmyndamenningu og að sýna myndir sem endurspegla raunveruleika ungmenna um alla Evrópu. Eins er stefnt að því að kveikja áhuga barnanna á evrópskum sögum, fólki, menningu og hvetja til samkenndar, skilnings og umburðarlyndis.

Hátíðin er fyrir alla krakka á aldrinum 12 - 14 ára og er aðgangur ókeypis. Til að skrá sig er hægt að senda póst með nafni og kennitölu á umsoknir@kvikmyndamidstod.is fyrir 19. apríl. Tengiliður hátíðarinnar er Svava Lóa Stefánsdóttir verkefnastjóri hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Hvað getum við gert til að líða vel?

Á þessum fordæmalausu tímum sem við lifum er gott að vera í núinu, muna eftir öllu því góða sem er í kringum okkur og þakka fyrir það, því það er svo margt sem við getum verið þakklát fyrir.


Núvitund er góð leið til að ná ró og yfirvegun og hægt að stunda hvar sem er. Núvitund er að beina athyglinni að augnablikninu, því sem er hér og nú. Rannsóknir sýna að þeir sem stunda núvitund auka vellíðan sína, bæta heilsu, það dregur úr kvíða, streitu og depurð. Til að nálgast æfingar og öpp með núvitund þá er m.a. hægt að fara inn á þessar æfingar sem er hægt að hlaða inn á snjalltæki og hlusta hvar og hvenær sem er.

Á youtube eru hugleiðsluæfingar fyrir börn. En við fullorðna fólkið verðum líka og hugsa um okkur og hér má finna hugleiðsluæfingar fyrir fullorðna. Það er mikilvægt að við hugum að okkar heilsu því við verðum að vera stuðningur fyrir aðra t.d. börnin okkar því þau skynja vel ef við erum ekki í andlegu jafnvægi.


Þegar við eða nemendur erum í leik eða starfi getur verið gott að setja á tónlist eftir t.d. Friðrik Karlsson. Þessi tónlist er afslappandi og getur fengið okkur til að gleyma stund og stað og hugsa um eitthvað fallegt.


Á vefsíður Hugarfrelsis er hægt að kaupa hugleiðslusögur fyrir börn - ekki svo dýrar en alveg frábærar til að hlusta á fyrir svefninn eða bara hvenær sem er.

Nám í skugga Covid -19

Við viljum minna foreldra á að tilkynna veikindi og leyfi eins og venjulega í Mentor. Alltaf skal velja skráningu fyrir heilan dag. Ef um langtímaveikindi eða leyfi er að ræða biðjum við foreldra um að tilkynna það sérstaklega til skólans með tölvupósti á umsjónarkennara og stjórnendur.


Foreldrar og nemendur verða að fylgjast vel með vikuáætlun inni á Mentor en þar munu kennarar koma skilaboðum til nemenda um það nám sem fram fer næstu vikurnar. Nemendur í 5. – 10. bekk nota Ipadinn og þurfa í sumum tilfellum að nota Google Classroom til að vinna verkefni og skila til kennara, ásamt því að kennari setur þar inn skilaboð til nemenda. Þetta á við í þeim árgöngum sem eru vanir að vinna í því umhverfi og eru skilaboð um það á Mentor.


Þá hvetjum við foreldra til að láta börnin sín nýta tímann vel við það nám sem sett er á Mentor og einnig minnum við á að allir nemendur frá 1. – 10. bekk eiga að lesa minnst 15 – 20 mínútur á dag.


Hér má nálgast tillögu að skipulagi á skóladegi fyrir eldri nemendur.

KURTEISI ~ ÁBYRGÐ ~ SAMVINNA

Myndir eftir nemendur í 9. bekk

Big picture

Á döfinni

Hvalrekinn


Opnunartími skrifstofu:

Kl. 7:45 - 15:30 mán-fim

Kl. 7:45 - 14:00 fösFréttabréf Hvaleyrarskóla. Sent á foreldra nemenda skólans og skólasamfélagið.