Fréttabréf Borgaskóla

3. tbl.

Fréttir úr Borgaskóla

Hér gefur að líta 3. tbl. fréttabréfs Borgaskóla. Markmiðið með fréttabréfinu er að veita foreldrum og nærsamfélaginu innsýn í starf skólans þvert á árganga. Í þessu tölublaði kennir ýmissa grasa og má m.a. nefna fréttir um nemendaþing, 100 daga hátíð 1. bekkinga og skapandi smiðju hjá 3. bekk. Skólastarfið gengur vel í Borgaskóla og við tökum fagnandi á móti hækkandi sól.

6. bekkur í heimsókn í Perluna

Báðir 6. bekkir fóru í Perluna þann 27. janúar. Nemendur skoðuðu sýningarnar Kraftur náttúrunnar, Jöklar og íshellir, Látrabjarg og Vatnið í náttúru Íslands. Þau unnu verkefni tengd þessum sýningum og fengu leiðsögn.

Öskudagur

Öskudagurinn var haldinn hátíðlegur í Borgaskóla þann 17. febrúar sl. Nemendur og starfsfólk klæddu sig upp í furðuföt og var dagurinn brotinn upp með skemmtilegum smiðjum. Nemendur í 4.-7. bekk tóku þátt í söngsal dagana fyrir öskudag þar sem þorralögin voru sungin. Á sjálfan öskudaginn tóku svo nemendur í 1.-3. bekk þátt í söngsal. Eftir smiðjurnar var nemendum boðið upp á pizzur og ís. Þessum skemmtilega degi lauk á hádegi.

Fréttir frá 1. bekk

Það er mikið um að vera í 1. bekk Borgaskóla en þar eru áhugasamir og duglegir nemendur á ferð. Í janúar luku nemendur við að vinna 1. þemaverkefni skólagöngunnar og var það tileinkað líkamanum okkar. Nemendur útbjuggu fallegar möppur utan um verkefnin sín.

Í febrúar héldu nemendur upp á þann áfanga að hafa verið í 100 daga í skólanum. Í tilefni dagsins unnu þau skemmtileg verkefni tengd tölunni 100 og útbjuggu kórónur.

Góðverk í 5. bekk

Í janúar var farið í lífsleikniátak með árganginn sem var mjög gaman og gefandi. Í byrjun janúar skrifuðu allir nemendur í 5. bekk hugmynd að góðverki á miða sem var svo geymdur á góðum stað. Á síðasta degi átaksins þann 4. febrúar drógu allir miða með hugmynd úr kassanum sem var síðan framkvæmd heima þá helgi. Allir tóku þátt og var mikil gleði að segja frá eftir helgina. Nemendur sendu kennurum myndir af góðverkinu í framkvæmd.

Big picture
Big picture

Farfuglarnir bíða komu vorsins. Þessa fugla hönnuðu 4. bekkingar í myndmennt og næsta skref var að skapa á þá fætur.

Big picture

Nemendaþing í Borgaskóla

Miðvikudaginn 3. mars var haldið nemendaþing í Borgaskóla. Þingið var með óhefðbundnu sniði þar sem nemendur blönduðust ekki á milli árganga, heldur unnu í hópum innan árgangs. Þema þingsins var skólalóðin og endurnýjun hennar. Kallað var eftir hugmyndum nemenda að hönnun skólalóðarinnar og munu fulltrúar nemenda skólans síðar kynna niðurstöður nemendaþingsins fyrir hönnuðum skólalóðarinnar. Það má með sanni segja að nemendur okkar séu hugmyndaríkir og virkir sem sást vel á afurð nemendaþingsins. Allir hópar kynntu svo sínar tillögur og sjón er sögu ríkari. Hér má sjá myndir frá nemendaþinginu.

Undankeppni Stóru upplestrarkeppninnar

Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk hófst veturinn 1996 – 1997 í Hafnarfirði og hefur verið haldin síðan víða um land. Keppnin hefst á degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember, ár hvert og lýkur í mars með úrslitakeppni.

Þann 9. mars sl. tóku tíu nemendur þátt í keppninni í Borgaskóla, þeir lásu valda kafla úr skáldsögunum Þín eigin þjóðsaga og Stormsker eftir verðlaunahöfundana Ævar Þór Benediktsson og Birki Blæ Ingólfsson. Einnig lásu keppendur tvö ljóð hver, annars vegar eftir valda höfunda og hins vegar ljóð að eigin vali. Keppendur stóðu sig mjög vel og voru dómarar ekki öfundsverðir af því að velja þrjá vinningshafa úr hópnum. Það voru þau Inga María Arnardóttir og Patrik Nökkvi Pétursson sem unnu að þessu sinni og Tómas Aris Dimitropoulos er varamaður. Þau eru öll verðugir fulltrúar okkar til að taka þátt í lokakeppninni sem fram fer í Grafarvogskirkju þann 15. mars. nk. Við óskum öllum keppendum innilega til hamingju með góða frammistöðu.