Fréttir úr skólanum

Fréttabréf númer 9 - 30. apríl

Síðustu vikur skólaársins

Ýmsar breytingar hafa verið á skólahaldi í skólanum okkar síðustu vikur og nú sjáum við fyrir endann á þeim. Mánudaginn 4. maí verður skóli með hefðbundnu sniði eða eins og hann var fyrir samkomubann. Þrátt fyrir þessa skrítnu tíma þá tökum við eitt og annað gott með okkur í reynslubankann sem við ætlum að nýta okkur í skólastarfinu þessar fjórar síðustu vikur skólaársins.

Höfum það samt í huga að öllum takmörkunum hefur verið aflétt hvað nemendur varðar en ekki starfsfólk og af þeim sökum munum við gera breytingar hjá okkur sem koma starfsfólki og starfseminni til góða.

Sundkennsla hefst samkvæmt stundaskrá mánudaginn 4. maí

Opnun skólans

Skólinn opnar kl. 7:45 en ekki kl. 7:30 eins og verið hefur. Gæsla í stofum og á göngum hefst kl. 7:45.

Skólinn lokar seinni partinn kl. 16:30.

Ávaxtanesti

Ekki mun vera boðið upp á ávaxtanesti í maí og nemendur þurfa því að koma með morgunnesti að heiman.

Hádegismatur

Hádegismatur verður aftur í boði fyrir alla nemendur sem skráði voru í mataráskrift.

Þessar breytingar verða gerðar á skipulagi í matsal:

  • Nemendur fara eftir fyrirfram skipulagðri leið í matsalinn.
  • Matur verður skammtaður úr eldhúsi til nemenda.
  • Nemendur eiga að mæta í mat á ákveðnum tímum með sínum bekk og sitja saman við borð.
  • Starfsmaður mun fylgja öllum hópum í matsalinn og úr honum aftur að honum loknum.

Hólfaskipting skólans

Í byrjun samkomubanns var skólanum skipt niður í þrjú hólf og mun sú skipting halda sér eins og hægt er. Nemendur eiga ekki að vera að flakka á milli hólfa nema til þess að fara í tíma í smiðjur og valgreinar sem og í tónlistarnám.

Nemendur eiga áfram að ganga um sömu innganga og verið hefur.


  • 1., 2. og 4. bekkur eiga að ganga um inngang sem snýr í austur.
  • 3., 5. og 6. bekkur eiga að ganga um aðalinngang sem snýr að íþróttahúsi.
  • 7. og 9. bekkur ganga um inngang bókasafns.
  • 8. og 10. bekkur ganga um inngang í norðurenda hússins sem snýr að Heiðarvegi.

Snjalltæki og snjalltækjabann

Í upphafi samkomubanns var tekin ákvörðun um að leyfa nemendum í 7. - 10. bekk að nota símana sína í frímínútum, sér til afþreyingar. Mánudaginn 4. maí mun snjalltækjabann aftur taka gildi og ekki er gert ráð fyrir að nemendur noti síma sína í skólanum.

Hér er nánari útlistun á reglum um notkun snjalltækja í grunnskólum Fjarðabyggðar.

Skólasel

Skólasel verður nú opið til kl. 16:20 og forráðamenn sem sækja börn sín hitta þau við anddyri. Ekki er gert ráð fyrir að börnin séu sótt inn í stofur Skólasels.

Við erum þakklát fyrir hversu margir forráðamenn komu til móts við okkur og breyttu vistun barna sinna meðan á samkomubanni stóð. Mikilvægt er að koma upplýsingum sem fyrst til Marzennu forstöðumanns Skólasels, marzenna@skolar.fjardabyggd.is, ef breyting verður á vistun barna í maí. Ef ekki er haft samband gerum við ráð fyrir að upphafleg skráning barns haldi sér.

Starfsfólk og börn með kvef- eða flensueinkenni eiga ekki að koma í skóla- eða frístundastarf.

Tveggja metra reglan

Skýr krafa er um að starfsfólk haldi tveggja metra reglunni og þurfum við því áfram að gera ráðstafanir innan veggja skólans svo allri smitgát sé viðhaldið. Á þetta við um aðstöðu starfsmanna og samskipti við utanaðkomandi gesti.

Vegna þessa verður skólinn áfram lokaður gestum og fólk er beðið um að senda tölvupóst eða hringja á skrifstofu skólans til að setja sig í samband við starfsfólk.

Þrif og sótthreinsun

Fyllsta hreinlætis skal gætt í allri umgengni um húsnæðið og í samskiptum og mun starfsfólk halda áfram að sinna viðbótarþrifum á borðum og snertifletum í skólanum.

Áhersla á handþvott og sprittun verður áfram höfð í hávegum.