Fréttabréf Borgaskóla
3. árg, 2. tbl.
Jólakveðja frá Borgaskóla
Nú er hátíð ljóss og friðar framundan og um leið og við óskum nemendum okkar og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla, þökkum við fyrir ánægjulegar stundir á árinu sem er að líða.
Jólakveðja frá starfsfólki Borgaskóla
Baráttudagur gegn einelti

Þann 8. nóvember sl. var baráttudagur gegn einelti og var markmið dagsins m.a. að efna til umræðu, fræðslu og viðburða til að vinna gegn einelti, hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu.
Í Borgaskóla voru samræður í öllum árgöngum um jákvæð samskipti ásamt því sem nemendur og starfsfólk mynduðu saman broskarl á skólalóð. Brosið er táknmynd þess að vera vingjarnlegur og við leggjum mikla áherslu á það að vera vingjarnleg hvert við annað. Nemendur í 1. bekk og hluti nemenda í 2. bekk mynduðu augu og bros og aðrir nemendur og starfsfólk myndaði hringinn utan um þau. Nemendur og starfsfólk áttu góða stund saman í blíðskaparveðri og hrós dagsins fór til þeirra fyrir samvinnuna um að leysa verkefnið.

Nemendaþing
Undirbúningur nemendaþingsins var í höndum réttindaráðs Borgaskóla og var unnið með 2. grein Barnasáttmálans, öll börn eru jöfn. Réttindaráðið fundaði tvisvar sinnum; fyrst var hugarflug og umræður, síðan var unnið úr niðurstöðum. Umræðuefni voru ákveðin og fóru fulltrúar réttindaráðs inn í stofur og kynntu umræðuefnin.
Á yngsta stigi unnu nemendur í 1.- 4. bekk ýmist sem námsfélagar eða í hópavinnu – eða byrjuðu í hópavinnu með skilgreindum hlutverkum. Umræðuefnin voru eftirfarandi:
Eru allir nemendur jafnir í skólanum sama hvernig þeir tala?
Eru allir nemendur jafnir í skólanum sama hvernig húðin og hárið eru á litinn?
Eru allir nemendur jafnir í skólanum sama hversu stórir eða litlir þeir eru?
Fá allir nemendur að vera með í leik?
Eru öll börn örugg í skólanum? Hvað þýðir að vera örugg/ur/t í skólanum?
Eru öll börn örugg heima hjá sér? Hvað þýðir að vera örugg/ur/t heima hjá sér?
Afraksturinn varð ýmist teikningar eða punktar úr umræðum. Hóparnir kynntu svo niðurstöður sínar hver fyrir öðrum. Rauði þráðurinn í svörum við spurningum um hvort öll börn eru jöfn út frá ákveðnum þáttum var: já – það mega allir vera eins og þeir eru.
Á miðstigi var umræðuefninu beint að kyni og tekið út frá umræðu sem hefur verið haldið á lofti í skólanum eftir að Borgaskóli fékk Regnbogavottun Reykjavíkurborgar. Það kom í ljós þegar rætt var við eldri nemendur í réttindaráði að þetta atriði var þeim mikilvægt og þau vildu fá umræðu um að öll börn séu jöfn óháð kyni. Umræðupunktarnir voru eftirfarandi:
Eru allir jafnir út frá kyni í skólanum okkar? Útskýrið og komið með dæmi
Eru öll kyn velkomin í Borgaskóla?
Er komið fram af virðingu við alla óháð kyni?
Mega allir vera eins og þeir eru án þess að vera strítt?
Er munur á því hvernig komið er fram við nemendur út frá kyni í frímínútum?
Er munur á því hvernig komið er fram við nemendur út frá kyni í kennslustundum?
Er munur á því hvernig komið er fram við nemendur út frá kyni í félagsmiðstöðinni?
Bera nemendur virðingu fyrir skoðunum/áhugamálum annarra nemenda?
Nemendur unnu í þjóðfundarskipulagi að mestu leyti; einhverjir nýttu sér padlet veggi til að skila niðurstöðum. Nemendur voru sammála um að öll kyn séu velkomin í skólann okkar og sköpuðust góðar umræður
Megin niðurstöður gefa okkur byr undir báða vængi að innleiðing Barnasáttmálans í skólanum er að skila sér til nemenda; þeir ígrunda réttindi barna og bæta við þekkingu sína.
Val í 5. bekk
Á nemendaþingi sl. skólaár kom upp hugmynd um val í 5.bekk hjá nemendum. Áður hafði valið einungis verið í 6. og 7. bekk. Ákveðið var að láta reyna á þessa ósk nemenda, árangurinn leyndi sér ekki og er valið orðið fastur liður í skólastarfinu hjá 5.bekk í Borgaskóla.
Valið er til viðbótar við aðra list- og verkgreina kennslu í skólanum. Valið í 5. bekk felur í sér að fimm kennarar útbúa stutt val-námskeið og nemendur kjósa í hvaða val þeir vilja fara, en hver lota er 3 vikur og inniheldur einn tvöfaldan tíma á fimmtudögum.
Úrvalið hefur ekki verið af verra endanum þetta haustið og þar á meðal hafa nemendur fengið tækifæri til þess að velja 3D prentun þar sem þeir hanna hlut og prenta þá út í 3D prentara, límmiðagerð, origami, keilu, jóga, leiklist, ýmis konar föndur, forritun þjarka, kahoot og eldað mat úr íslenskri náttúru

Fréttaval í 6.-7. bekk
Hurðaskreyting ársins

Ein af jólahefðum í Borgaskóla er að hurðir skólans eru skreyttar í anda jólanna. Efnt er til hurðaskreytingakeppni þar sem ákveðin viðmið eru sett og svo er rafræn kosning um efstu þrjú sætin. Viðmiðin þetta árið voru eftirfarandi:
-nemendur eru þátttakendur í skreytingum
-notað er endurvinnanlegt efni
-frumleg hönnun og hugsað út fyrir kassann
Nemendur í 4. bekk voru í 3. sæti, nemendur í 6. I voru í 2. sæti og nemendur í 5. bekk voru í 1. sæti. Hér að ofan má sjá hurðaskreytingu 5. bekkjar og hér má sjá myndir af öllum hurðunum sem voru með í keppninni.
Þrívíddarprentarar og tæknivæðing

Samhliða þessu voru Ipadar settir inn í kennslustofur á yngsta stigi þeim til stuðnings í námi.
Borgaskóli eignaðist í haust tvo þrívíddarprentara og riðu nemendur í 5.bekk á vaðið í hönnun á þvívíddarhlutum.
Jólahönnun

Í aðdraganda jólanna er búið að vera mikið að gera í hönnun með geislaskeranum okkar góða. Allir nemendur í 4. og 6.bekk hafa haft tækifæri til að skapa fjölbreytt listaverk sem skorin voru með geislaskeranum og nemendur lituðu síðan afraksturinn. Það leynast kannski fallegar jólagjafir þar. Nokkrar myndir er að finna hér.
Jólagóðverk 4. bekkjar

Nemendur í 4. bekk tóku sig til og bjuggu til Jólalitabók fyrir nemendur í 1. bekk. Krakkarnir vönduðu sig mjög við að teikna fjölbreyttar jólamyndir til að lita.
Nokkrir nemendur voru dregnir út af handahófi til að afhenda litabókina, þau Egill Kári, Hera Sif, Diana, Ida-Lisetta, Júlían Ari og Lilla.
Íslenskuverðlaun unga fólksins

Íslenskuverðlaun unga fólksins voru veitt 16. nóvember, á degi íslenskrar tungu. Verðlaunin eru veitt þeim nemendum sem hafa sýnt færni, frumleika að sköpunargleði við að tjá sig á íslensku í ræðu og/eða riti, þeim sem hafa sýnt leikni í að nota tungumálið sem samskiptatæki, ýmist í hagnýtu eða listrænu skyni, t.d. á sviði samræðulistar eða ljóðrænnar framsetningar og þeim sem hafa tekið miklum framförum í íslensku. Markmiðið með verðlaununum er að auka áhuga ungs fólks á íslenskri tungu og hvetja það til framfara í tjáningu talaðs máls og ritaðs. Verndari verðlaunanna er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.
Hassan Adebowale Salami, nemandi í 7. bekk í Borgaskóla, var tilnefndur til Íslenskuverðlaunanna og í umsögn um hann segir:
„Hassan er áhugasamur nemandi í 7. bekk. Með vaxandi hugarfari og þrautseigju vill hann ólmur læra meira til að ná færni í að nota tungumálið í ræðu og riti. Vinnubrögð hans eru ætíð til fyrirmyndar. Hann er hvetjandi fyrir aðra nemendur, leiðbeinir þeim og leiðréttir á góðfúslegan hátt. Hann hefur náð mjög góðum árangri í íslensku þrátt fyrir stutta búsetu á Íslandi“.
Við í Borgaskóla erum stolt af Hassan og óskum honum og fjölskyldu hans innilega til hamingju.
Rithöfundar í heimsókn
Brynhildur Þórarinsdóttir Brynhildur kom til okkar 12. desember og las upp úr nýjustu bók sinni, Dularfulla hjólahvarfið. Nemendur í 1. og 2. bekk áttu notalega stund með Brynhildi á bókasafni skólans. | Eva Rún Þorgeirsdóttir Eva Rún heimsótti Borgaskóla 5. desember og las fyrir nemendur í 3. og 4. bekk upp úr bók sinni Stúfur fer í sumarfrí. | Ævar Þór Benediktsson Ævar vísindamaður kom og las fyrir nemendur í 5.-7. bekk á sal skólans. Hann las upp úr bók sinni Drengurinn með ljáinn og svaraði fjölmörgum spurningum nemenda að lestri loknum. |
Brynhildur Þórarinsdóttir
Eva Rún Þorgeirsdóttir
Afrakstur úr myndmennt

Bæjarferðir á aðventu

Bæjarferðir með áherslu á fræðslu um íslenska jólamenningu og að skoða jólaljósin.
Nokkrir krakkar fóru í miðbæ Reykjavíkur til að skoða íslenskar jólahefðir og menningu á aðventunni. Krakkarnir unnu svo áframhaldandi verkefni í skólanum úr ferðinni með áherslu á nýjan orðaforða og tjáningu.

Fréttir frá Hvergilandi

Nú er nóvember liðinn og það er heldur betur farið að kólna í veðri. Foreldrar eru beðnir um að hafa aukaföt til staðar í töskum.
Barnaráðsdagurinn
Fyrsti barnaráðsdagurinn var haldinn hátíðlegur 16.nóvember. Við breyttum aðeins til frá seinasta ári og núna héldum við barnaráðsfund með öllum börnum í 2.- 4.bekk og þar hlustuðu þau á Draumar geta ræst með Jóni Jónssyni. Í framhaldi var dregið í barnaráðið og völdu fulltrúarnir að hafa ristað brauð með smjöri, osti, skinku og sultu. Einnig buðu þau upp á íþróttasal (Tarzan), ipada, perl, grímugerð, just dance, dansipartý og útileiki. Í Ávaxtastund voru svo jarðarber og vínber.
Dagur barnsins 20. nóvember
Dagur barnsins var sunnudaginn 20. nóvember. Við héldum upp á daginn með því að hafa vikuna tileinkaða Barnasáttmálanum þar sem hver árgangur gerði eitt verkefni tengt honum. Nemendur í 1. og 2. bekk fengu þrautabækur frá Unicef þar sem þeir gerðu þrautir sem tengdust greinum úr Barnasáttmálanum. Nemendur í 3. og 4. bekk gerðu barnasáttmála boli. Þar völdu þau grein úr sáttmálanum og skrifuðu á boli og skreyttu þá með myndum.
Fréttir úr tónmennt
Við höfum brallað ýmislegt í tónmennt á þessari önn. Meðal annars hefur 2. bekkur verið að vinna með Karnival Dýranna og 3. bekkur með Pétur og Úlfinn. Báðar sögurnar eru svokallaðar tónsögur, þar sem tónlistin segir söguna að mestu leyti. Þar læra nemendur m.a. hvað hljóðfærin heita.
Í 5. og 6. bekk höfum við verið í svokölluðu óskalagaverkefni. Þá fá nemendur að koma með óskalög til þess að syngja í tónmennt. Þetta hefur gengið ágætlega og munum við halda áfram með verkefnið eftir áramótin.
Jólalögin hafa svo verið aðalverkefnið síðustu vikurnar hjá öllum bekkjum. Stærsta jólaverkefnið hefur þó verið æfing á jólasöngleiknum Bjartasta Stjarnan. Hefðin er að 1. bekkur og 7. bekkur setja söngleikinn upp saman. Þetta árið var svo loksins hægt að bjóða upp á sýningu fyrir aðstandendur.
Afrakstur úr smíði

6. G fékk viðurkenningu

Nemendur í 6. G. tóku þátt í gjafaleik bókarinnar Skólaslit eftir Ævar Þór Benediktsson. Nemendur áttu að semja fimm setningar um hvað myndi gerast ef uppvakningar réðust inn í skólastofuna. Þetta eru þeirra hugmyndir:
"Kennarinn myndi fórna sér og henda sér fyrir hurðina til þess að bjarga bekknum sem sönn hetja. Við myndum finna eitthvað hart og oddhvasst, brjóta gluggana og hoppa út um gluggann (erum á 1. hæð) í brjálæðiskasti og kasta því í skrímslin. Sumir myndu læsa sig inni á klósettinu og þeir sem myndu sleppa og kæmust heim keyptu sér flugmiða á 1. farrými til útlanda. Einnig myndum við setja brunakerfið af stað til að bjarga öllum skólanum".
Þessi tillaga var valin ein af þeim bestu og fengu nemendur bekkjarsett af Skólaslits 2 blýöntum.
Bjartasta stjarnan
Jólasöngleikurinn „Bjartasta stjarnan“ var settur á svið í Borgaskóla þann 19. desember. Það voru nemendur í 1. og 7. bekk sem léku og sungu undir styrkri stjórn Svans tónmenntakennara og Þuríðar Ágústsdóttur en þeim til halds og trausts voru umsjónarkennarar bekkjanna. Hér má sjá myndir frá sýningunni.