Flataskólafréttir

Skólaárið 2021-2022 - 1. apríl 2022

Kæra skólasamfélag!

Loksins er skólastarfið farið að rúlla með eðlilegum hætti og nú njótum við þess til dæmis að geta haldið skemmtilega viðburði eins og Flatóvisjón og upplestrarkeppni fyrir fullum sal áheyrenda. Og mikið óskaplega er það gaman!

Mánuðurinn framundan er reyndar nokkuð rýr í roðinu vegna frídaga en við stefnum þó að sjálfsögðu að öflugu og skemmtilegu skólastarfi, ætlum m.a. að gera aðra tilraun til að komast á skíði, 7. bekkur heldur árshátíð og bregður sér í Vatnaskóg þar sem skólabúðaferð vetrarins brást, við höfum morgunsamverur, lærum, leikum og njótum væntanlega vorveðursins sem er að hellast yfir.

Við erum byrjuð að huga að næsta skólaári og hér neðar í fréttabréfinu má einmitt sjá skóladagatal næsta vetrar. Það stefnir í töluverða fækkun nemenda hjá okkur núna á milli ára þar sem við útskrifum 86 nemendur úr 7. bekk en það verða líklega rétt rúmlega 30 nemendur í 1. bekk næsta haust. Þessi fækkun heldur svo líklega aðeins áfram næstu tvö árin meðan fjölmennustu árgangarnir okkar útskrifast en svo fer væntanlega að fjölga aðeins á nýjan leik enda eðlilegt að "náttúrulegar sveiflur" af þessu tagi gangi yfir í grónum hverfum. Á sama tíma verður töluverð tímabundin fjölgun nemenda í Garðaskóla. Af þessum sökum eru uppi áform um að nýta fjórar kennslustofur í Flataskóla (norðurálmuna) fyrir nemendur úr Garðaskóla næsta vetur. Þann 19. apríl nk. verður opinn fundur fyrir foreldra í skólanum þar sem við kynnum m.a. þessi áform og aðra þætti varðandi húsnæðismálin, helstu áherslur í skólastarfinu, fyrirkomulag námsmats o.fl. auk þess sem tækifæri gefst til að ræða hvaðeina sem forráðamönnum kann að liggja á hjarta varðandi skólastarfið. Við vonumst eftir að sjá sem allra flesta enda kærkomið að geta loksins boðið forráðamenn velkomna í húsið.

Bestu kveðjur úr skólanum!

Stjórnendur

Helstu viðburðir framundan:

 • 4.apr - 6. bekkur fer og gistir í skíðaskála
 • 5.apr - 6. bekkur á skíðum
 • 7. apr - Árshátíð 7. bekkjar
 • 9.-18. apr - Páskaleyfi grunnskólanemenda
 • 19. apr - Kennsla hefst að loknu páskaleyfi
 • 19. apr - Opinn fundur skólaráðs kl. 17:30-19:00
 • 21. apr - Sumardagurinn fyrsti - frí
 • 25.-28.apr - 7. bekkur í Vatnaskógi
 • 26. apr - Skíðaferð hjá 4/5 ára, 2.b og 5.b
 • 27. apr - Skíðaferð hjá 1.b, 3.b og 4.b
 • 29. apr - Skíðaferð hjá 7.b

Skíðaferðir - önnur tilraun

Þar sem veðrið setti strik í reikninginn um daginn varð lítið úr áformuðum skíðaferðum okkar í mars. Við ætlum þó að reyna aftur og eigum bókað í fjallið þá daga sem sjá má á viðburðayfirlitinu hér fyrir ofan. Þannig að nú er bara að krossa fingur og vona að það vori ekki of hraustlega þannig að snjórinn í Bláfjöllum endist nokkrar vikur í viðbót.

En að venju eru þessi áform með fyrirvara um veður og snjóalög og við sendum út nánari upplýsingar þegar nær dregur.

Opinn fundur skólaráðs 19. apríl kl. 17:30

Skv. starfsreglum skólaráðs skólans skal að lágmarki halda einn opinn fund á ári um málefni skólans fyrir aðila skólasamfélagsins. Boðað er til þessa fundar þriðjudaginn 19. apríl nk. kl. 17:30-19:00 í sal skólans.

Á fundinum verður rætt um húsnæðismál, áherslur í starfi skólans, fyrirkomulag námsmats o.fl. auk þess sem opið verður fyrir fyrirspurnir og umræður um skólastarfið almennt.

Við biðjum áhugasama forráðamenn um að taka tímann frá en svo munum við einnig minna á fundinn þegar nær dregur.

Leyfisbeiðni í gegnum Mentor

Nú geta forráðamenn sótt um leyfi fyrir nemendur rafrænt í gegnum mentor.is eða mentorsmáforritið í símum sínum. Þetta kemur í stað þess að skila inn útprentuðum eða skönnuðum leyfisbeiðnum og ætti að auðvelda utanumhald fyrir alla aðila. Leiðbeiningar vegna þessa má finna á eftirfarandi slóð: http://flataskoli.is/foreldrar/forfoll-nemenda/

Flatóvisjón 2022

Hin árlega söngkeppni Flatóvisjón var haldin með pompi og prakt þann 30. mars. Þar kepptu til úrslita átta atriði frá nemendum í 4.-7. bekk, tvö atriði úr hverjum árgangi. Fyrr höfðu árgangarnir valið sín framlög í keppnina, í mörgum tilvikum með undankeppnum þannig að það er sannarlega stór hluti af nemendum skólans sem kemur að þessu verkefni á hverju ári. Keppnin í ár var einstaklega skemmtileg og augljóslega mikilll metnaður á ferð hjá keppendum enda atriðin hvert öðru glæsilegra. Dómnefndin, sem leidd var af Birgittu Haukdal, fékk sannarlega erfitt verkefni í fangið að velja eitt af atriðunum til sigurs. En niðurstaðan var sú að Hekla Sól ásamt fleiri stúlkum úr 7. bekk fóru með sigur af hólmi með flutningi sínum á laginu Kúst og fæjó. Nú verður atriðið þeirra unnið í myndbandsform og það fer svo til keppni í Schoolovision keppninni sem fram fer á netinu þann 13. maí næstkomandi. Þar keppa fulltrúar skóla frá um 30 Evrópulöndum til úrslita í söngkeppni með Eurovisionsniði. Við erum afar hreykin af öllum þátttakendunum í verkefninu og munum sannarlega með stolti senda okkar framlag í keppnina í maí.

Laus pláss í leikskóladeildinni okkar!

Undanfarið hefur staðið yfir innritun í leikskóladeildina okkar fyrir næsta vetur en þar starfa 4-5 ára nemendur. Það stefnir í nokkra fjölgun í deildinni okkar en það er enn hægt að bæta við nokkrum nemendum. Við erum afar stolt af starfinu og hvetjum því áhugasama foreldra til að kynna sér málið. Hægt er að hafa samband við skólann til að bóka heimsókn en einnig er hægt að skoða heimasíðu deildarinnar https://4og5ara.flataskoli.is/

Hér fyrir neðan má sjá örfáar myndir úr starfinu en fleiri myndir, fréttir úr starfinu o.fl. má finna á heimasíðunni.

Upplestrarkeppni í 7. bekk

Þann 24. mars sl. fór fram hin árlega upplestrarkeppni 7. bekkjar Flataskóla en þar voru valdir fulltrúar skólans til þátttöku í lokakeppni grunnskólanna í Garðabæ. Allir nemendur í 7. bekk hafa í vetur tekið þátt í aðdraganda keppninnar með því að æfa sig í upplestri og framsögn og hluti þeirra keppti svo til úrslita. Það var vandaverk hjá dómnefndinni að velja tvo aðalfulltrúa og einn varafulltrúa úr hópnum enda stóðu allir lesararnir sig frábærlega. En niðurstaðan var sú að það eru þær Eydís Jónsdóttir og Líney Baldursdóttir sem verða fulltrúar okkar og til vara er Alexander Máni Guðjónsson. Lokakeppnin verður haldin í Álftanesskóla í byrjun maí.

Úthlutanir úr Þróunarsjóði grunnskóla Garðabæjar

Á dögunum úthlutaði skólanefnd styrkjum úr Þróunarsjóði grunnskóla Garðabæjar fyrir næsta skólaár. Það er gaman að segja frá því að fimm verkefni frá Flataskóla hluti styrk úr sjóðnum og þar að auki eitt verkefni sem unnið verður í samstarfi starfsfólks úr Flataskóla og Hofsstaðaskóla. Verkefnin snúa að innleiðingu leiðsagnarmats í skólanum, þróun skólans sem réttindaskóla Unicef, gerð verkefna fyrir svokallaða Breakout-kassa, innleiðingu á matsramma fyrir lestur og gerð fræðsluefnis um loftslagsmál. Það er því sannarlega hugur í okkur og verður gaman að sjá þessi verkefni springa út á næstu misserum.

Tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna 2022

Athygli er vakin á því að opnað hefur verið fyrir tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna 2022.

Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi skólastarf, kennslu, þróunarverkefni, auk sérstakra hvatningarverðlauna til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.

Sérstök athygli er vakin á því að í ár bætist við nýr verðlaunaflokkur: Framúrskarandi iðn- eða verkmenntun, ein verðlaun veitt kennara, námsefnishöfundi, skóla- eða menntastofnun fyrir framúrskarandi starf, verk eða framlag til iðn- eða verkmenntunar. Þessi nýi flokkur er til orðinn að frumkvæði Samtaka iðnaðarins sem nú hafa gengið til liðs við þá aðila sem að verðlaununum standa.

Tilnefningar þurfa að berast fyrir 1. júní, en viðurkenningarráð velur þrjár til fimm tilnefningar í hverjum flokki til kynningar á alþjóðadegi kennara 5. október. Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn í nóvember og mun RUV sýna frá afhendingunni.

Nánari upplýsingar um verðlaunin og tilnefningarnar er að finna á þessari slóð: https://skolathroun.is/menntaverdlaun/

Skólamatur - skráning

Við minnum á að breytingar á mataráskrift þarf að tilkynna fyrir 25. dag hvers mánaðar ef þeirra er óskað. Með því að smella á hlekkinn hér fyrir ofan má nálgast skráningarsíðu og áskriftarskilmála.

Skóladagatal næsta skólaárs

Hér fyrir neðan má sjá skóladagatal næsta skólaárs. Skólasetning verður þann 23. ágúst og fastir liðir í starfinu á svipuðum tímum og venjulega. Rétt er að vekja athygli á að vetrarfríið næsta vetur verður 13.-17. febrúar og biðjum við forráðamenn að hafa það í huga við skipulagningu á utanlandsferðum og þess háttar!

Opnunartími skrifstofu

Skrifstofa skólans er opin kl. 7:45-15:00 alla daga vikunnar nema á föstudögum til kl. 14:30

Hægt er að senda skólanum tölvupóst á netfangið flataskoli@flataskoli.is


Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.

Öll leyfi skal sækja um í gegnum Mentor.