Fréttabréf Naustaskóla

7. tbl. 14. árg. 1. september 2021

Kæra skólasamfélag

Það er ekki annað að sjá en að nýtt skólaár okkar í Naustaskóla fari ljómandi vel af stað og meira að segja veðrið leikur við okkur og hefur því kennslan færst mikið út í náttúruna þessa fyrstu skóladaga. En svo ætlum við í vetur að halda áfram að þróa skólann okkar og leggjum þar fyrst og fremst áherslu á sömu hlutina og undanfarin ár, enda erum við alltaf smátt og smátt að verða betri í því sem við gerum. Má þar nefna að við ætlum okkur að ná sífellt betri tökum á jákvæðum aga, að þróa kennsluhættina okkar með tilliti til þess að við erum með teymiskennslu, opin námssvæði og fjölbreyttan hóp nemenda, að auka notkun upplýsingatækninnar í náminu og að auka læsi nemenda okkar. Um það verkefni þurfum við öll að standa saman, skóli, foreldrar og nemendur, enda er það sameiginlegt hagsmunamál okkar allra að öll börnin okkar verði fljúgandi læs í breiðri merkingu þess orðs. Og þarna er það eins og með svo margt annað, að æfingin skapar meistarann, og því mikilvægast af öllu að gefa lestrariðkun góðan tíma og mikla athygli, og að við fullorðna fólkið séum góðar fyrirmyndir í þeim efnum. Svo höfum við líka prýðileg verkfæri í þessari baráttu, eins og t.d. byrjendalæsi sem við notum á yngsta stigi skólans, Læsi fyrir lífið á mið - og unglingastigi, sem er verkefni sem við vinnum að með Miðstöð skólaþróunar í Háskólanum á Akureyri. Með von um gott og árangursríkt skólastarf framundan með eða án Covid!


Með kveðju,

Bryndís Björnsdóttir

skólastjóri Naustaskóla

Hjól, hlaupahjól og hjálmar

Vinsældir vélknúinna hlaupahjóla hefur aukist að undanförnu og sjáum við það greinilega í skólanum. Það er mikilvægt að minna á hjálmaskylduna og að þessum farartækjum má ekki aka á akbraut. Á vef Samgöngustofu má finna upplýsingar um notkun rafmagnshlaupahjóla.


Við bendum á að á skólatíma má ekki hjóla á skólalóðinni.


Gott að hafa í huga:

# Hjálpum börnunum að velja öruggustu leiðina í skólann og kennum þeim að fara yfir götur, með og án ljósastýringar.

# Notum hjólreiðahjálm, bæði börn og fullorðnir.

# Tökum tillit til annarra vegfarenda, sérstaklega í nánd við skóla.

Á döfinni í september

1. september - Útivistardagur

8. sept - Dagur Læsis

16. sept - Dagur ísl. náttúru

24. sept. - Starfsdagur

27. sept - Norræna skólahlaupið

Lesferill - lesfimi

Naustaskóli leggur fyrir lesfimipróf frá Menntamálastofnun í öllum árgöngum þrisvar á hverjum vetri. Prófin eru hluti af Lesferli sem er ætlað að meta grunnþætti læsis: hljóðkerfisvitund, lesfimi, lesskilning, ritun, orðaforða og málskilning. Fyrsta fyrirlögn er í september, önnur í janúar og þriðja í maí.

Við minnum á mikilvægi heimalesturs sem hjálpar nemenda gríðarlega við að efla færni í lestri og lesskilning.

Hnappar á heimasíðu Naustaskóla

Á heimasíðu skólans naustaskoli.is er hægt að smella á 9 hnappa. Í ár kom nýr hnappur sem stendur ,,aðstoð náms- og starfsráðgjafa". Um að gera að nýta sér hann ef barnið ykkar er í vandræðum með nám, tilfinningar, og margt fleira.

Samræmd próf verða ekki í haust!

Tekin hefur verið sú ákvörðun að bíða með samræmdu prófin í ár eftir erfitt ár í fyrra tæknilega séð. Við látum foreldra vita um leið og nýjar fréttir berast af samræmdum prófum.
Big picture
Big picture