Fréttabréf Grenivíkurskóla

1. tbl. 3. árg. - janúar 2022

Kæra skólasamfélag

Fyrir hönd starfsfólks Grenivíkurskóla vil ég senda ykkur öllum bestu nýársóskir með þökk fyrir samvinnuna á liðnum árum. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við ykkur á nýju ári og höfum fulla trú á að komandi ár verði okkur heilladrjúgt.


Það var mikið um að vera hjá okkur í desember en mánuðurinn litaðist að vanda af jólaundirbúningi og gleði. Við fórum í kyndlagöngu, vorum með laufabrauðsdag, hátíðarmat og litlu jól. Þá vorum við einnig með "lesið út um allt" lestrarstund þar sem nemendur máttu lesa hvar sem þeir vildu, en kennarastofan, salernin og skrifstofa skólastjóra voru á meðal vinsælla lestrarstaða. Myndir úr starfi skólans má nálgast í gegnum tengla á myndaalbúm neðar í fréttabréfinu.


Covid-19 faraldurinn heldur áfram að hrella okkur og ljóst að yfirstandandi bylgja Covid-19 faraldursins mun hafa áhrif á skólastarfið að einhverju leyti á næstu vikum. Í ljósi þeirra takmarkana sem í gildi eru munum við halda námshópum aðskildum eftir fremsta megni og leggja okkur fram um að sinna persónubundnum smitvörnum sem best, ásamt því að brýna fyrir nemendum að gera slíkt hið sama.


Ég vil biðja ykkur um að láta skólann vita, annað hvort í gegnum tölvupóst eða síma, ef ykkar börn sæta einangrun eða sóttkví svo við getum haft yfirsýn yfir stöðuna. Einnig bið ég ykkur að hafa lágan þröskuld þegar kemur að því að hafa börn heima vegna veikinda og fara í sýnatöku ef einkenni gera vart við sig.


Framundan er brekka og óhætt að reikna með því að faraldurinn muni á næstunni hafa meiri áhrif í okkar nærsamfélagi en hann hefur gert hingað til. Þá er mikilvægt að muna að við erum í þessu saman, að við sýnum hvert öðru skilning og umhyggju, og leggjum okkar af mörkum við að komast út úr þessu kófi. Það styttir alltaf upp og lygnir á endanum.


Við í skólanum tökum vel á móti nemendum á nýju ári og hlökkum til nýrra áskorana og skemmtilegra stunda.


Með kveðju úr skólanum,

Þorgeir Rúnar Finnsson

skólastjóri Grenivíkurskóla

Nýtt borðtennisborð

Grenivíkurskóli fékk á dögunum glæsilegt borðtennisborð að gjöf frá ferðasjóði nemenda. Þá var einnig keypt nýtt net á borðið sem til var fyrir, en gamla netið var orðið ansi slappt. Það er vonandi að þetta nýja borð eigi eftir að ýta enn frekar undir borðtennisáhugann hjá nemendum skólans, sem eru margir duglegir að nýta sér þessa afþreyingu í frímínútum og allnokkrir lunknir spilarar sem þar leynast. Þá mun borðið nýtast sérlega vel í valgreininni "Spaðaval" sem kennd verður á vorönn.


Borðtennis á sér annars merka sögu í Grenivíkurskóla eins og margir vita, en nemendur skólans báru sigur úr býtum á fjölmörgum mótum og eignuðust íslandsmeistara og landsliðsfólk í hrönnum á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Hver veit nema nýtt gullaldartímabil sé í uppsiglingu?


Hér eru tenglar á nokkrar greinar frá gullaldartímabili Grenivíkurskóla í borðtennis:


- Morgunblaðið 1989

- Skinfaxi 1989

- Dagur 1990

- Morgunblaðið 1992

- Skinfaxi 1992

Heilsueflandi skóli

Dagatal Velvirk ber að þessu sinni yfirskriftina "Hamingjuríkari janúar". Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.


Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.

Grænfáninn

Grænfánaverkefnið á Íslandi fagnar 20 ára afmæli á þessu skólaári og í tilefni þess hefur Landvernd útbúið mánaðarlega afmælispakka sem samanstanda af fræðsluefni og verkefni sem tileinkað er ákveðnu viðfangsefni. Við munum nota þetta efni hér í skólanum og leyfum því einnig að fylgja með í fréttabréfunum okkar svo áhugasamir geti kynnt sér málið.


Afmælispakki janúar fjallar um mat og honum fylgja fróðlegar upplýsingar og skemmtileg verkefni.


Smellið hér til að opna afmælispakkann.

Á döfinni í janúar

  • 1. janúar: Nýársdagur
  • 3. janúar: Starfsdagur (Frí hjá nemendum).
  • 4. janúar: Skóli hefst á ný að loknu jólafríi.
  • 21. janúar: Bóndadagur - valgreinaskipti

Grenivíkurskóli

Útgefandi: Grenivíkurskóli

Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla