Flataskólafréttir

Skólaárið 2022-2023 - 2. nóvember 2022

Kæra skólasamfélag!

Við vonum að langt helgarfrí um síðustu helgi hafi nýst sem flestum til samveru. Námsferð starfsfólks skólans tókst prýðilega og við fengum sannarlega ýmislegt til að hugleiða og ræða saman um. Nú erum við farin að renna okkur inn í nóvembermánuð og þá setur hrekkjavakan að venju sinn svip á lífið innan skólans og utan. Það er gaman að sjá hve foreldrar hafa tekið höndum saman við að nýta þennan ágæta dag til að brjóta upp hversdagsleikann fyrir krakkana og lita lífið. Bekkjafulltrúar eiga hrós skilið fyrir að koma á góðu skipulagi og skreyta salinn okkar vegna þessa!

Annars verður nóvember væntanlega með hefðbundnum hætti enda um að gera að halda góðum dampi í náminu áður en jólafiðringurinn fer að fara um mannskapinn! Við ætlum reyndar að hafa þemadaga seint í mánuðinum en skólatími nemenda þá daga verður eins og venjulega.

Það hafa verið töluverð forföll í starfsmannahópnum undanfarið og nú er covid farið að gera aðeins vart við sig aftur. Þegar um mjög mikil forföll er að ræða getum við þurft að grípa til þess ráðs að biðja foreldra að sækja börn sín fyrr í frístund eða leikskóla og það hefur einmitt aðeins komið fyrir upp á síðkastið. Við þökkum forráðamönnum fyrir góð viðbrögð við þeirri eftirleitan og vonum sannarlega að við þurfum ekki að beita þessu oft, enda gerum við það ekki nema í neyð.


Bestu kveðjur úr skólanum!

Ágúst skólastjóri

Helstu viðburðir í nóvember

 • 1. nóv kl. 17:00 - Hrekkjavökupartý 1. bekkur
 • 1. nóv kl. 18:30 - Hrekkjavökupartý 4. bekkur
 • 2. nóv kl. 17:00 - Hrekkjavökupartý 2. bekkur
 • 2. nóv kl. 18:30 - Hrekkjavökupartý 5. bekkur
 • 3. nóv kl. 17:00 - Hrekkjavökupartý 3. bekkur
 • 3. nóv kl. 18:30 - Hrekkjavökupartý 6. bekkur
 • 4. nóv kl. 18:30 - Hrekkjavökupartý 7. bekkur
 • 8. nóv - Baráttudagur gegn einelti
 • 16. nóv - Dagur íslenskrar tungu
 • 23.-24. nóv - Þemadagar
 • 28. nóv-2.des - 7. bekkur fer í skólabúðir

Framkvæmdir vegna gruns um myglu

Eins og kynnt var á dögunum þurftum við að grípa til þess ráðs að ríma tvær kennslustofur í skólanum vegna gruns um myglu í timburveggjum við kennslustofurnar. Framkvæmdir vegna þessa hafa staðið yfir síðustu daga og miðar vel. Svæðið var tryggilega lokað af og þétt með plasti áður en framkvæmdir hófust. Umræddir veggir hafa verið rifnir, gólfdúkar fjarlægðir að hluta og sárin hreinsuð áður en hafist var handa við að reisa nýja veggi í stað hinna. Nú á eftir að fullklára veggina, ganga frá rafmagni, mála og þrífa svæðið áður en við getum tekið það í notkun á nýjan leik. en við vonumst til að það verði fljótlega upp úr næstu helgi. Verkfræðistofan Mannvit hefur eftirlit með verkinu og mun annast umsjón með frágangi svæðisins áður en við fáum það afhent að nýju.

Síðar í mánuðinum eigum við svo von á niðurstöðum úr sýnatökum sem fram fóru í október. Þá voru tekin sýni víðs vegar um húsið í öryggisskyni til að kanna hvort að mygla geti hugsanlega leynst einhvers staðar hjá okkur. Þegar niðurstöður úr þeirri sýnatöku liggja fyrir munum við skýra frá þeim.

Notkun snjalltækja hjá börnum

Mikil umræða hefur verið í samfélaginu undanfarið um notkun barna og unglinga á snjalltækjum og neikvæðum fylgifiskum þeirrar notkunar. Þó að við leyfum ekki notkun síma í skólanum verðum við sannarlega vör við að nemendur okkar hafa aðgang að forritum og efni sem er ekki æskilegt fyrir þeirra aldur. Við biðjum því foreldra að vera vel vakandi fyrir síma- og tölvunotkun barnanna.


Einnig minnum við á að það er gott uppeldi að fara eftir þeim aldurstakmörkunum sem ráðlögð eru við notkun samfélagsmiðla!

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að aldurstakmörk eru sett til verndar börnum, og byggja m.a. á því að börn undir 13 ára aldri hafa ekki tekið út fullan andlegan og félagslegan þroska og búa því ekki endilega yfir hæfni til þess að átta sig á því hvaða áhrif samskipti á netinu geta haft og hvernig þau eru öðruvísi en önnur samskipti.

Þá er rétt að minna á að allt sem gert er á netinu er sýnilegt öðrum og þar skiljum við eftir okkur "fótspor" sem lifir þar um ókomna tíð. - Allt sem gert er á netinu er sýnilegt öðrum!

Rannsóknir hafa sýnt að skjánotkun fyrir svefntíma hefur slæm áhrif á svefngæði fólks, þó svo að birtustig sé lækkað. Börn á aldrinum 6 - 12 ára þurfa að minnsta kosti 10 tíma svefn á nóttu. Börn sem sofa nóg líður almennt betur, eru hamingjusamari, hraustari og eiga auðveldara með félagsleg tengsl.


Gagnlegar upplýsingar fyrir foreldra um snjalltækjanotkun barna má meðal annars finna hér:

https://www.saft.is/foreldrar

Fjölval

Í haust fórum við aftur af stað með fjölvalið okkar en í þeim tímum fá nemendur að velja sér fjölbreytt verkefni af ýmsu tagi. Við breyttum aðeins fyrirkomulaginu á fjölvalinu í haust þannig að nú eru nemendur í þremur aldurshópum, leikskóli - 2. bekkur eru saman í fjölvali, 3. og 4. bekkur eru saman og svo 5.-7. bekkur. Einnig fjölguðum við þeim skiptum sem hver nemandi er á sömu stöðinni, mest í 5.-7. bekk svo að hægt sé að fara dýpra í viðfangsefnin, en áður voru nemendur bara tvö skipti á hverri stöð. Eitt fjölvalið á miðstiginu stendur reyndar heila önn en þar eru nemendur að vinna að því að setja upp söngleik.

Önnur viðfangsefni sem eru í boði þessa stundina á miðstiginu eru rafmagn, föndur, fótbolti, skák og spil, forritun, ljósmyndamaraþon, kokkað með Kristínu, golf, myndlist, bangsagerð, badminton og klukkur/tréskartgripir.

Í 3.-4. bekk er fengist við Lego og krakkakviss, stuttmyndagerð, tónlistarleiki, heimilisfræði, perlur, Osmo stærðfræðileiki, myndlist og leirfuglagerð.

Í 1.-2. bekk er boðið upp á kubbastöð, skrímslaspilagerð, föndur, skartgripagerð, hreyfisöngva og hljóðfæragerð, forritun, steinaandlit, lestarteina á ganginum og sögusmiðju.

Viðfangsefni í fjölvali taka breytingum yfir veturinn eftir áhuga og viðtökum nemenda en markmiðið er að auka val nemenda og fjölbreytni í náminu auk þess að nemendur kynnist og vinni með yngri og eldri börnum.

Réttindaskóli Unicef

Flataskóli er réttindaskóli Unicef og hefur verið frá árinu 2017 þegar skólinn var í hópi þeirra fyrstu til að fá slíka viðurkenningu. Réttindaskólaverkefnið skapar ramma utan um þau markmið sem koma fram í aðalnámskrá grunnskóla, grunnskólalögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, jafnrétti og lýðræði. Eitt af meginhlutverkum grunnskólans í samvinnu við heimilin er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Markmiðið er að byggja upp lýðræðislegt námsumhverfi, auka þekkingu á mannréttindum og stuðla að gagnkvæmri virðingu innan skólasamfélagsins.

Á hverju hausti er stofnað réttindaráð og í því eru að sjálfsögðu börn í meirihluta en þar eru einnig umsjónarmenn verkefnisins, fulltrúar stjórnenda og frístundastarfs og fulltrúi foreldra. Okkur vantar fulltrúa foreldra í réttindaráð fyrir veturinn. Hafir þú áhuga á því að vera með í réttindaráði fyrir hönd foreldra er best að hafa samband við Ágúst skólastjóra.

Í vetur mun réttindaráðið taka saman niðurstöður spurningalista sem hafa verið lagðir fyrir nemendur og gerir aðgerðaáætlun um nauðsynlegar umbætur á skólaumhverfinu út frá sjónarhóli barnanna. Við hvetjum bæði foreldra og börn til virkrar þátttöku í verkefninu með því að kynna sér Réttindaskóla og -frístund UNICEF á UNICEF.is.

Átt þú ónotuð borðspil?

Getur verið að á heimilinu liggi vel með farin eða jafnvel lítið notuð borðspil sem eru ekki lengur í notkun? Spilakosturinn okkar í skólanum er farinn að lýjast og rýrna svo við getum sannarlega vel þegið spil sem nýtast börnum á aldrinum 4-12 ára, sérstaklega ef það tekur ekki óskaplega langan tíma að spila þau. Ef þú átt spil sem gæti gagnast okkur þá er um að gera að koma þeim í skólann - í móttökuna, á bókasafnið eða til umsjónarkennara..

Skólapúlsinn - fyrstu niðurstöður vetrarins

Skólapúlsinn er lagður fyrir nemendur í 6.-7. bekk skólans ár hvert en þar er um að ræða könnun sem lögð er fyrir nemendur í flestum skólum landsins. Nemendur okkar svara könnuninni í þremur hópum, í september, janúar og apríl. Fyrstu niðurstöður liggja nú fyrir og eru afar jákvæðar. Nær allir þættir könnunarinnar eru marktækt yfir landsmeðaltali og í flestum þeirra fara niðurstöður batnandi. Þar má t.d. nefna ánægju af lestri, þrautseigju í námi, samsömun við nemendahópinn, samband nemenda við kennara, aga og virka þátttöku nemenda í tímum, tíðni leiðsagnarmats o.fl. Hægt er að nálgast heildarniðurstöðurnar á heimasíðu skólans eða með því að smella hér..

Mentor - handbók fyrir aðstandendur

Allir forráðamenn ættu að hafa aðgang að mentor en þar er að finna ýmsar upplýsingar varðandi ástundun og nám nemenda. Rétt er að benda á að nálgast má handbók fyrir aðstandendur í mentorkerfinu á heimasíðu mentor.is undir "aðstoð" eða með því að smella hér..
Big picture
Matartíminn - skráning

Við minnum á að breytingar á mataráskrift þarf að tilkynna fyrir 20. dag hvers mánaðar ef þeirra er óskað og þá taka þær gildi um næstu mánaðamót. Með því að smella á hlekkinn hér fyrir ofan má nálgast skráningarsíðu og áskriftarskilmála.

Búa sig!

Við tökum eftir að það eru ekki alltaf allir nemendur klæddir eftir veðri. Eins og við vitum er íslenskt veðurfar dálítið óútreiknanlegt og því nauðsynlegt að nemendur hafi alltaf nauðsynlegan hlífðarfatnað. Allir nemendur skólans fara daglega út í frímínútur og við viljum að sjálfsögðu auk þess geta farið í stuttar vettvangsferðir óháð veðri. Semsagt - verum alltaf búin eftir veðri!

Opnunartími skrifstofu

Skrifstofa skólans er opin kl. 7:45-15:00 alla daga vikunnar nema á föstudögum til kl. 14:30

Hægt er að senda skólanum tölvupóst á netfangið flataskoli@flataskoli.is


Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.

Um leyfisbeiðnir o.fl. - sjá hér.