Téin 3 - Tæknival í Hólabrekkuskóla

Skipulag tímanna

Tímarnir

Tæknivalstímarnir eru á föstudögum í 80 mínútur. Þrír kennarar hafa yfirumsjón með valfaginu en það eru (í stafrófsröð) Anna María - dönskukennari og UT verkefnastjóri, Ágústa - forritunarkennari og Engilbert - hönnunar- og smíðakennari. Allar upplýsingar um fagið er að finna á síðunni: Téin 3


Valfagið er hluti af breyttum áherslum í Hólabrekkuskóla.

1. tími

Nemendur kynntust síðunni Instructables.com og fundu þar verkefni sem þeir gátu hugsað sér að skoða nánar. Einnig fengu þeir kynningu á ýmsum blæbrigðum tækninnar, sáu einfaldan róbota sem Engilbert bjó til og upplýsingar um hvar ítarefni væri að finna. Engilbert var með þennan tíma.

2. tími

Nemendur fengu kynningu á skriflegum verkefnum sem þeir eiga að skila í byrjun apríl. Lögð var áhersla á að sú vinna færi fram í gegnum Google docs. Hóparnir völdu sér verkefni til að vinna nánar með.

Engilbert og Anna María voru með þennan tíma.


3. tími

Við fengum lánaðan nemanda úr 6. bekk sem er gríðarlega áhugasamur um allt sem við kemur tækjum og tólum í Fab lab. Hann sýndi nemendum notkun á forritinu tinkercad.com og afrakstur vinnu sinnar. Nemendur fóru í að vinna í forritinu og velta fyrir sér hvort að þeir gætu teiknað hluti og prentað út í 3D prentara skólans eða í tækjum Fab labsins. Einnig prentuðu þeir út sín verkefni sem þeir ætla svo að mæta með í Háskólann í næstu viku. Tenglar á verkefnin 5 sem hóparnir völdu, eru hér fyrir neðan. Engilbert og Anna María voru með þennan tíma.

Fyrir 4. tíma

Fyrir þennan tíma fóru kennarar í verslunina Íhluti til að skoða Arduino borð og Rasberry pi tölvur og til að fá upplýsingar. Þar sem takmarkaðir peningar eru settir í þetta verkefni, var líka skoða hvort að það gæti borgað sig að kaupa dótið frá Kína. Til að byrja með kaupum við nokkur Arduino borð hjá Íhlutum.

4. tími

Við fórum í heimsókn í Tæknifræðinám Háskóla Íslands að Keili og vorum alveg himinlifandi með móttökurnar. Þess má geta að margir kennarar deildarinnar tóku sér tíma til að hitta nemendur og gefa þeim ráðleggingar. Við fengum líka að skoða eðlis- og efnafræðistofur skólans og smiðjuna þar sem margt fróðlegt var að sjá. Kennslan sem nemendur fengu var líka stórkostleg og af miklum gæðum. Það er bara eitt að segja við þessum degi.... VÁ. Anna María, Ágústa og Engilbert fóru með í þessa ferð.

5. tími (daginn eftir 4. tímann)

Fella átti þennan tíma niður þar sem nemendur eiga bara að vera í þessu valfagi einu sinni í viku, en þeir tóku það ekki mál. Nemendur, sem voru mun fróðari nú um næstu skref í verkefninu, fóru yfir hvaða þá vantar og hver næstu skref verða. Einnig veltu þeir fyrir sér hvar þeir gætu nálgast þá hluti sem vantaði. Í framhaldi af þeim pælingum var farið í tölvutæting. Hver hópur hefur eina tölvu til að "tæta" og þeir fóru í að finna út hvað væri hvað inni í tölvunni, losa hlutina og skoða vel. Fóru yfir móðurborðið og minniskubba og áttu að skoða hvað þurfi til að auka innra minni og þar af afkastagetu tölvunnar. Nemendur fengu að vita að örgjörvar tölvanna hafa tilteknar skipanir innnbyggðar. Að flestar tölvur eru forritaðar með svokölluðu æðra forritunarmáli eins og C++, Java, Pascal, Fortran og fleiri. Þeir voru spurðir hvaða forritunarmál þeir héldu að væri í okkar tölvum. Í næsta tíma eiga allir að kynna eitthvað úr tölvunni sem þeir voru að tæta. Engilbert var með tímann.

UT - messan og smá hugleiðing

Anna María fékk tækifæri til að kynna valfagið á UT messunni fyrir gestum sem m.a. voru frá Menntamálastofnun. Aðilar þaðan óskuðu svo eftir að koma í heimsókn í tæknivalstíma hjá okkur. Umræða um tæknikennslu í skólum var efni málstofunnar og þar kom fram að þannig kennsla strandaði oft á því að kennarar hefðu ekki kunnáttuna sem þarf. Nú erum við þrjú sem stöndum að þessu fagi ekkert endilega tæknifræðimenntuð, en við lítum heldur ekki á það sem okkar hlutverk að hafa öll svörin, við eigum bara að varða leiðina fyrir nemendur. Fá hjálp frá viðeigandi aðilum og leita með nemendum af svörum ef að með þarf. Markmið fagsins er ekki að klára eitt stórt verkefni á þessari önn, heldur leiðin að markinu. Flestir nemendur eru í 8. og 9. bekk og því höfum við næg tækifæri til að klára þessi stóru metnaðarfullu verkefni síðar, ef að ekki vinnst tími núna. Við viljum hafa þetta fjölbreytt, fræðandi og skemmtilegt.

6. tími

Nemendur héldu áfram að tæta tölvur og finna hluti sem þeir geta notað í stóra verkefnið sitt. Einnig voru þeir með kynningu á einum hlut úr tölvunum og sköpuðust skemmtilegar umræður um hina ýmsu tölvuhluti. Rætt um hvernig þeir breytast (minnka aðallega), hvaða útgáfur eru til af viðkomandi hlut og það verður að viðurkennast að kennarar lærðu heilmikið á þessum kynning nemendanna ekki síst af samræðum milli nemenda. Nemendur voru mjög áhugasamir í tímanum og eins og alltaf var hann allt of fljótur að líða. Hver hópur fékk eitt Arduino borð til að skoða og svo er þetta þeirra borð sem verður notað þegar forritunarhlutinn hefst. Í næsta tíma fá nemendur að lóða og halda svo áfram að teikna í Tinkercad þá hluti sem þá vantar í verkefnið sitt. Einnig fáum við gesti frá Menntamálastofnun. Engilbert og Anna María voru með þennan tíma.

Vikupistill

Í þessari viku fengum við skemmtilega heimsókn frá Garðaskóla í Garðabæ sem er líka að fara að bjóða upp á tækninám. Við munum vera í samstarfi í framtíðinni með þessi verkefni. Við ræddum m.a. um sameiginlegan áhuga á að vera með lítil makerspace í skólunum okkar. Einnig fengum við boð frá leikskóla í Kópavogi um að kíkja í heimsókn og gera eitthvað skemmtilegt og tæknilegt með nemendum þar. Við munum reyna að finna upp á einhverju spennandi verkefni til að fara með úr húsi.

Eitt af umræðuefnum síðasta tíma var tækni í hinu stóra samhengi. Við ræddum m.a. um mikilvægi þess að skilja tæknina og vera sjálfbjarga innan hennar. Þannig verðum við ekki fórnarlömb og þurfum ekki að treysta á að óprútnir aðilar sleppi því að hrekkja okkur. Við viljum vera við stjórnvölin í okkar lífi.

Big image

7. tími

Við fengum góða heimsókn í þessum tíma frá Menntamálastofnun. Þetta voru fjórir starfsmenn miðlunardeildar sem komu til að fylgjast með nemendum að vinnu. Einnig fengum við aðstoð frá kennara í skólanum sem hefur (auk þess að vera kennari) unnið við rafeindavirkjun. Hann, ásamt Engilbert, aðstoðaði nemendur við að lóða og kenndi þeim ýmislegt í sambandi við rafvirkjun og rafeindavirkjun. Engilbert, Ágústa og Ágúst Benediktsson voru með nemendur á meðan Anna María sá um gestina.

8. tími

Nemendur voru að vinna í Tinkercad í þessum tíma. Þar sem þetta valfag gengur út á að búa til tæknivöru án þess að við séum að kaupa einhver ósköp, þurfa nemendur að finna leiðir til að endurnýta, hanna og búa til það sem þarf til að ná að klára lokaverkefnið (arduino verkefnið). Engilbert og Ágústa voru með þennan tíma.

9. tími

Nú eykst spennan. Hluti nemenda er tilbúinn til að fara að keyra 3D prentarann og eitt verkefnið var sett í gang þar. Annars voru nemendur í ýmsum verkefnum í dag. Sumir voru að skrifa fræðilega verkefni hópsins, einhverjir voru að klára að teikna í Tinkercad svo að hægt væri að byrja 3D prentun á fullu eftir páska og einn hópurinn var að "kubba" sinn róbota. Nú fer að koma einhver mynd á stóru verkefnin og við erum spennt að sjá útkomuna. Engilbert er líka byrjaður á Arduino námskeiði svo að hægt sé að aðstoða nemendur í því þegar að því kemur. Við bíðum spennt eftir að sjá þessi verkefni í "keyrslu".

Engilbert, Ágústa og Anna María voru með þennan tíma.

10. tími

Nemendur héldu áfram að teikna í Tinkercad og sumir náðu að prenta út sína hluti. En við lærðum eitt mjög mikilvægt í þessum tíma. Nokkur verkefni voru þannig uppsett að það átti að vera hægt að prenta þau beint út, en það var ekki alveg svo auðvelt. Þegar ein teikningin fór í gegn, kom í ljós að málin voru röng og útkoman var aflagaður bolti í stað þess sem átti að koma. Nemendur fara nú í að kíkja á málin og laga þetta. Ágústa og Engilbert voru með þennan tíma.

GERT verkefnið

Hólabrekkuskóli fékk viðurkenningu fyrir tækninám sitt í vikunni frá þeim sem standa að baki GERT verkefninu. (GERT – Grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni er heiti aðgerðaáætlunar Samtaka iðnaðarins, mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að auka áhuga grunnskólanemenda á raunvísindum og tækni.)

Við erum auðvitað mjög stolt af því en við gerðumst samstarfsaðilar að þessu verkefni fyrr á þessu ári. En það er ekki eingöngu í þessu valfagi sem verk- og tækninám er sett á oddinn, heldur gerum við það á ýmsum sviðum. Við erum t.d. með góða og vel skipulagða forritunarkennslu sem ekki er algengt í íslenskum skólum og við nýtum okkur það sem við getum á þessum sviðum í tengslum við miðvikudagsþema unglingadeildarinnar sem kallast Nám á nýjum nótum. Okkar nemendur hafa þar haft tækifæri til að kynnast verk- og tæknigreinum framhaldsskóla og nýta sér þær aðstöður sem þar er að finna og njóta sérþekkingar kennara skólanna.

11. tími

Menntamálastofnun gaf okkur risastórt beta videotæki og tvo dróna sem við máttum taka í sundur. Nokkrir nemendur tóku því fegins hendi og fór strax í að rífa þessa hluti í sundir og ná í allt sem þeir töldu vera nýtanlegt. Einn hópurinn var t.d. alveg himinlifandi með batterí sem fannst í betatækinu ásamt mörgu öðru gagnlegu. Einnig eru mótorar í drónunum sem nemendur telja nýtanlega og öllu er haldið vel til haga. Einn hópurinn pantaði varahlut (skynjara) af Ebay, en það stykki fæst ekki í Íhlutum og kostaði um 300 kr svona.

Þegar tíminn byrjaði var gestur í skólanum með stykki í prentun í 3D prentaranum þannig að ákveðið var að nemendur myndu nota næstu viku í að prenta út allt það sem á eftir að prenta út. Einn nemandinn notaði tímann í að setja upp HTML heimasíðu að eigin frumkvæði með forritunarkennaranum. Heimasíðan á að vera fyrir þetta fína valfag okkar. Þetta er vinna sem gerð er að frumkvæði nemandans og af gríðarlegum áhuga, því að hann þurfti að drífa sig heim eftir tímann til að halda áfram! Við erum svo stolt af okkar fólki. Ágústa og Engilbert voru að mestu ein með þennan tíma.