Fréttabréf Norðlingaskóla

8. nóvember 2021

Forsíðufréttin

Forvarnarvika 8.-12. nóvember

Dagur gegn einelti er 8. nóvember og í tilefni af honum er árleg forvarnarvika í skólanum dagana 8. – 12. nóvember.


Framundan er áhersla á forvarnarstarf í öflugu samstarfi skólans við stjórn foreldrafélagsins þar sem áhersla er á þátttöku nemenda, foreldra og starfsfólks skólans en þannig skilar forvarnarvinna sér best þegar heimilin og skólinn vinna þétt saman. Kastljósinu er beint að jákvæðum samskiptum, umburðarlyndi gagnavart fjölbreytileika mannlífsins, styrkleikum, gróskuhugarfari og sjálfsvinsemd. Þær Yrja og Marit, frá Gleðiskruddunni, halda fræðsluerindi fyrir starfsfólk skólans, foreldra og nemendur um þessi mikilvægu mál. Í fræðsluerindinu er m.a. farið yfir ýmis „verkfæri“ sem nýtast í daglegu lífi barnanna, uppeldinu og í skólastarfinu.


Fræðsluerindið, Jákvæð sálfræði og gleðiverkfæri sem nýtast í uppeldi, var haldið á aðalfundi foreldrafélagsins miðvikudaginn 3. nóvember.


Á tímabilinu 8. - 19. nóvember fara Yrja og Marit inn í alla árganga skólans og vinna m.a. með umsjónarkennurum þar sem áhersla er lögð á að fræða, ræða og vinna með nemendum verkefni um mikilvægi jákvæðra samskipta og hvernig hægt er að stuðla sem best að eigin vellíðan. Umsjónarkennarar munu upplýsa ykkur um dagana sem forvarnarfræðslan fer fram hjá hverjum árgangi þannig að þið getið styrkt börnin ykkar enn frekar og tekið umræðuna heima fyrir um þessi mikilvægu mál.

Efni þessa fréttabréfs:

  • Á döfinni
  • Skrekkur
  • Hrekkjavaka í skólanum
  • Verðlaun fyrir sumarlestur
  • Samráðsdagur, öðruvísi dagar og vetrarfrí
  • Stærðfræði og byrjendalæsi í 1.-2 bekk
  • Hæfnimiðað nám í 3.-4. bekk
  • Hrollvekja og félagsfærni á miðstigi
  • Rósaball, fornsögur og loftlagsverkefni á unglingastigi

Á döfinni

Það er fjölmargt á döfinni hjá okkur í Norðlingaskóla í nóvember. Líkt og fram kom í forsíðufrétt er forvarnarvika 8-12. nóvember og dagur eineltis mánudaginn 8. nóvember.


Að venju er Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar.


Undirbúningsdagur starfsfólks Norðlingaskóla og Klapparholts er föstudaginn 19. nóvember og þá mæta nemendur hvorki í skólann né Klapparholt.


Dagur mannréttinda barna er 20. nóvember.


Hinsegin vika verður á dagskrá í lok nóvember og er það samstarfsverkefni unglingadeildar og félagsmiðstöðvarinnar Holtsins. Þá verður lögð áhersla á fjölbreytileikann í allri sinni mynd.


Undanfarið hefur 7. bekkur unnið að kappi að uppsetningu leikritsins um Dýrin í Hálsaskógi. Frumsýningar er beðið með mikilli eftirvæntingu en leikritið verður frumsýnt um mánaðarmótin nóv.-des.

Skrekkur

Hópur af unglingastiginu tók þátt í undankeppni Skrekks, hæfileikakeppni grunnskólanna, mánudaginn 1. nóvember. Unglingarnir stóðu sig afskaplega vel enda búnir að æfa stíft undanfarnar vikur. Atriðið sem hópurinn flutti bar heitið Skinn og bein og fjallaði um átröskun, mjög áhrifamikið og flott hjá unglingunum okkar. Þrátt fyrir góða frammistöðu komst skólinn ekki áfram í úrslit að þessu sinni en það sem upp úr stendur eru flottir og hæfileikaríkir unglingar sem eiga mikið hrós skilið.

Hrekkjavaka í skólanum

Hrekkjavökunni var fagnað í skólanum föstudaginn 29. október. Þá klæddu nemendur og kennarar sig í fremur hræðilega búninga, hvert námsstig fyrir sig skemmti sér saman og hér og þar um skólann mátti sjá hrekkjavökuskreytingar. Svo sannarlega hryllilega skemmtilegur skóladagur.

Samráðsdagur, öðruvísi dagar og vetrarfrí

Þann 12. október var samráðsdagur og þökkum við öllum kærlega fyrir komuna. Það er alltaf gagnlegt fyrir skólastarfið og samstarf heimila og skóla að setjast niður, ræða málin og fara yfir stöðuna.


Föstudaginn 15. október var Bleiki dagurinn og þá mættu nemendur og starfsfólk í bleikum fötum og sýndu þar með stuðning við konur sem fengið hafa krabbamein.

Viku síðar, fimmtudaginn 21. október var náttfata- og bangsadagur og þá þurfti ekkert að klæða sig áður en haldið var af stað í skólann. Nemendur og starfsfólk áttu notalegan dag í náttfötum og margir tóku bangsann sinn með í skólann.


Vonandi höfðu allir það gott í vetrarfríi 22.-26. okt., nutu langrar helgar og eru nú vel hvíldir og tilbúnir í góðan skólasprett fram að jólafríi.

Verðlaun fyrir sumarlestur

Loks hafa verið veitt verðlaun fyrir sumarlestur 2021. Dregið var úr þátttökuseðlum en margir þátttakendur voru einstaklega duglegir að lesa í sumar. Þeir heppnu að þessu sinni voru Gunnar Darri Sigþórsson í 2. bekk, Katrín Dalía Daníelsdóttir í 4. bekk og Júlía Rán Johansd. Fredriksson í 6. bekk. Við óskum þeim innilega til hamingju.

Stærðfræði og byrjendalæsi í 1.-2. bekk

Undanfarið hefur 1.-2. bekkur unnið með grunnformin í stærðfræði, þ.e. þríhyrning, hring og ferhyrning. Nemendur gerðu skemmtileg veggspjöld þar sem búnar voru til myndir með formunum. Niðurstaðan var afar fjölbreytt og afrakstur vinnunnar prýðir nú veggi skólans.


Unnið er með lestraraðferðina byrjendalæsi í 1.-2. bekk en aðferðin felur í sér að unnið er með tal, hlustun, lestur og ritun sem eina heild. Nýlega unnu nemendur verkefni þar sem viðfangsefnið var samsett orð. Nemendur fengu orðhlutann ,,álfa" og áttu síðan að finna mismunandi orð til að skeyta aftan við og þar með fékkst fjöldi ólíkra samsettra orða. Skemmtileg vinna þar sem leikið var með tungumálið og úr urðu falleg orðablóm.

Hæfnimiðað nám í 3.-4. bekk

Í 3. og 4. bekk hefur verið unnið að áhugaverðu og skemmtilegu verkefni í tengslum við hrekkjavökuna. Verkefnið flokkast undir hæfnimiðað nám og tengist m.a. námsgreinunum ensku, ritun og framkomu. Nemendur útbjuggu skrímsli og hrekkjavökuhús, skrifuðu upplýsingar varðandi það á ensku og komu svo fram fyrir nemendur og kynntu verkefnið sitt.

Hrollvekja og félagsfærni á miðstigi

Nemendur á miðstigi hafa verið að hlusta á söguna Skólaslit eftir Ævar Þór Benediktsson í allan október. Sagan fjallar um hóp af krökkum sem lokast inni í skólanum sínum á hrekkjavöku. Á hverjum degi í október birtist einn kafli úr sögunni ásamt myndum á vefsíðunni skolaslit.is.

Sagan vakti mikinn áhuga nemenda sem biðu spenntir eftir hverjum kafla þó hrollvekjandi væri.


Jafnframt hafa nemendur unnið að verkefni í félagsfærni þar sem áhersla hefur m.a. verið lögð á að efla sjálfstraust og sjálfsvitund og voru nemendur t.d. fengnir til að rýna í eigin styrkleika og líðan.

Rósaball, fornsögur og Vísindavaka á unglingastigi

Unglingarnir okkar fengu loks að halda ball eftir langa bið en Rósaballið fór fram þriðjudagskvöldið 2. nóvember. Mikil eftirvænting ríkti í hópnum og góð mæting var á ballið. Ballgestir skemmtu sér vel og mikið fjör var á dansgólfinu en DJ Dóra Júlía sá um tónlistina.


Þessa dagana eru nemendur í öllum árgöngum á unglingastigi að lesa fornsögur. 8. bekkur glímir við Kjalnesingasögu, 9. bekkur les Laxdælu en 10. bekkur fæst við Gísla sögu Súrssonar. Samhliða lestrinum eru unnin veggspjöld þar sem fram koma sögupersónur og atburðarás í hverri sögu.


Þá hafa nemendur unnið verkefni, svokallað Fræðslusmakk, í NASA (náttúru- og samfélagsfræði). Nemendur í öllum árgöngum á unglingastigi fræddust um ákveðið efni sem sneri að loftslagsbreytingum og kynntu svo fyrir öðrum nemendum á formi Vísindavöku. Verkefnið tókst afskaplega vel og gaman er að segja frá því að þegar nemendur 10. bekkjar kynntu sín verkefni þá voru erlendir kennarar í heimsókn sem hrósuðu unglingunum mikið.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af verkefnunum en fleiri myndir má sjá á heimasíðunni.