Fréttabréf forseta

Febrúar 2022

Evrópska menntaserían á vorönn 2022

Eins og flestar ykkar hafa væntanlega tekið eftir hafa Evrópudeildir DKG tekið sig saman um að bjóða mánaðarlega upp á fræðsluerindi undir yfirskriftinni DKG Europe Education Series. Fyrir áramótin buðu sænskar DKG systur upp á erindi um kjólana hennar Söru Danius og hvernig þeir tengdust listrænum áhuga hennar. Í nóvember spurðu hollenskar félagskonur hvort skólinn dræpi niður sköpunarkraft barna og í desember sá þýska landssambandið um hlutverk kennara í að stuðla að lýðræði í skólastarfi. Í janúar var komið að Íslandsdeildinni þegar Ingileif Ástvaldsdóttir og Jenný Gunnbjörnsdóttir, félagskonur í MÝ-deild á Norðurlandi, sögðu frá Menntafléttunni sem er samstarfsverkefni Menntavísindasviðs HÍ, Háskólans á Akureyri og Kennarasambands Íslands og hefur það markmið að stuðla að þróun námssamfélaga meðal kennara, starfsfólks og stjórnenda í leik-, grunn- og framhaldsskólum, listaskólum og frístundastarfi. Upptaka af erindi þeirra er á vef Evrópusamtakanna. Erindið vakti mikinn áhuga og athygli og spunnust af því miklar umræður. Þær stöllur voru okkur öllum til mikils sóma með sínu framlagi og fá þær bæði hrós og þakkir fyrir.

Þann 10. feb. sl. var röðin komin að Eistlandi en Greta Arro, sálfræðingur og kennari við Háskólann í Tallin fjallaði um umhverfissálarfræði út frá sjónarhorni menntunar. Erindið var sérlega áhugavert og vakti fjölmargar spurningar og vangaveltur um nám og kennslu, árangursríkar kennsluaðferðir o.fl. Upptöku af erindinu er að finna hér. 9. mars nk. mun fulltrúi Noregs fjalla um áskoranir menntunar á heimsvísu til ársins 2030 og 23. apríl nk. verður erindi á vegum breskra DKG-systra um konur og upplýsingatækni. Finnskar DKG-systur slá botninn í fyrirlestraröðina í maí nk. með því að fjalla um vellíðan í skólastarfi.

Félagskonur eru hvattar til að fylgjast vel með þessum áhugaverðu erindum sem stöllur okkar í Evrópu bjóða upp á. Erindin fara öll fram á ensku og eru með fjarfundasniði á Zoom. Krækjur eru sendar með góðum fyrirvara í tölvupósti en einnig eru upplýsingar um dagskrá o.fl. á Facebook síðunni okkar.

Ráðstefna alþjóðasamtaka DKG

Ráðstefna alþjóðasamtaka DKG verður haldin í New Orleans 12. – 16. júlí nk. Meðal fyrirlesara er Courtney Clark, ráðgjafi, rithöfundur og fyrirlesari og Ingvi Hrannar Ómarsson, kennari, frumkvöðull og handhafi Íslensku menntaverðlaunanna 2020. Ráðstefnan verður haldin á glæsilegu Sheraton hóteli við Canal Street sem er miðsvæðis í borginni og rétt við hið víðfræga Franska hverfi. Dagskráin er hlaðin spennandi fyrirlestrum, kynningum og viðburðum auk þess sem tækifæri gefast til að skoða þessa óviðjafnanlegu borg. Nánari upplýsingar eru að finna á heimasíðu ráðstefnunnar en einnig í janúar-fréttabréfi Evrópuforseta. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í ráðstefnunni eru hvattir til að hafa samband sem fyrst við Margaritu Hanschmidt, Evrópuforseta DKG, á netfangið 1704rita@gmail.com.

Vorráðstefnan 7. maí nk.

Vorráðstefna DKG á Íslandi verður haldin á Grand-hóteli við Sigtún laugardaginn 7. maí nk. kl. 10 – 16. Heyrst hefur að félagskonur séu orðnar langeygar eftir að hittast loks í eigin persónu og hlökkum við í stjórninni svo sannarlega til að sjást og njóta uppbyggilegrar samveru. Menntamálanefndin er að vinna að dagskrá ráðstefnunnar en nánari upplýsingar um dagskrá, skráningu, þátttökugjald o.fl. verða væntanlega sendar til ykkar í byrjun mars nk. Að lokinni dagskrá verður boðið upp á léttar veitingar. Stefnt er að því að streyma dagskránni fyrir þær sem ekki eiga heimangengt þennan dag, en vilja engu að síður fylgjast með dagskránni.

Takið daginn frá og fylgist vel með upplýsingum um ráðstefnuna!

Vekjum athygli á okkar frábæra félagsauði!

Eitt af markmiðum núverandi landssambandsstjórnar skv. framkvæmdaáætlun er að vekja athygli á því þegar konur í samtökunum hljóta vegsemd eða viðurkenningu í samfélaginu. Stjórn og vefstjóri hafa notað bæði heimasíðu samtakanna og Facebook síðu til að vekja athygli á því þegar félagskonur okkar hafa verið í fréttum eða hlotið aðra viðurkenningu sem vert er að vekja athygli á. Við hvetjum félagskonur til að vera vakandi fyrir því þegar DKG-félagar hljóta vegsemd og viðurkenningu og að vekja athygli okkar hinna á því svo að við getum deilt því með öðrum. Þið getið ýmist deilt því sjálfar á Facebook síðunni eða sent erindi til stjórnar og/eða til Eyglóar Björnsdóttur, vefstjóra DKG, á netfangið eyglob@gmail.com


Bestu kveðjur,

Guðrún E. Bentsdóttir, forseti landssambandsstjórnar