Fréttabréf Grenivíkurskóla

9. tbl. 2. árg. - nóvember 2021

Kæra skólasamfélag

Þá er skemmtilegur október að baki þar sem margt var um að vera í skólastarfinu að vanda. Fyrst ber að nefna að við héldum upp á 40 ára afmæli skólans með pompi og prakt og þökkum nemendum, starfsfólki og gestum kærlega fyrir að taka þátt í því með okkur. Tónlistarskóli Eyjafjarðar var með vel heppnaðan tónfund í mánuðinum og þá kom Þórunn Rakel Gylfadóttir, rithöfundur og fyrrverandi kennari við Grenivíkurskóla, í heimsókn til okkar og las upp úr fyrstu bók sinni.


Þá hefur verið mikið fjör í valgreinum hjá nemendum og kennurum. Í útivistarvali hafa nemendur farið í fjallgöngur og hjólaferðir, í leiklistarsmiðjunni er verið að æfa leikrit sem verður sett á svið fljótlega og í grafískri hönnun hafa nemendur unnið að fjölbreyttum verkefnum.


Nú undir lok mánaðarins var svo komið að árlegri danssýningu hjá nemendum, en undanfarnar vikur hafa þau æft hina ýmsu dansa hjá Elínu Halldórsdóttur, danskennara. Myndir og myndbönd frá í.þ.m. einhverju af ofantöldu er að finna í myndasafni skólans, en tengla á myndaalbúm má finna neðar í fréttabréfinu.


Framundan er nóvembermánuður og nú er aldeilis orðið rökkvað á morgnana. Því er um að gera að foreldrar og forráðamenn skoði fatnað og skólatöskur með tilliti til endurskinsmerkja - það eykur öryggi nemenda mikið ef þeir sjást vel á leið í skólann.


Með kveðju úr skólanum,

Þorgeir Rúnar Finnsson

skólastjóri Grenivíkurskóla

Samfélagsmiðlar og börn

Umræða um skuggahliðar samfélagsmiðla hefur verið nokkuð hávær að undanförnu. Ungir krakkar eru t.d. í síauknum mæli beðnir um að senda af sér myndir og heitið greiðslu fyrir og þá vitum við að á þessum miðlum getur einelti þrifist í nokkru skjóli.


Við í skólanum munum að sjálfsögðu vinna með þessi mál hér innanhúss og til að mynda stendur til að stofna forvarnarteymi sem hefur það hlutverk að tryggja að áhersla verði lögð á forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni í námi á öllum skólastigum. Er þetta hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í þessum málum.


Þar að auki hvetjum við ykkur, foreldrar og forráðamenn, til þess að taka þessa umræðu heima fyrir og fylgjast með notkun barnanna á þessum miðlum. Það felst mikilvægt aðhald í því fyrir krakkana að vita að einhver fullorðinn sé að fylgjast með notkun þeirra og ekki er síður mikilvægt fyrir þau að vita að þau geti rætt við einhvern fullorðinn ef eitthvað kemur upp á. Til eru ýmsar leiðir sem geta hjálpað til við að halda utan um og takmarka notkun samfélagsmiðla (eða snjalltækja yfirleitt). Í Apple tækjum eru tól eins og Apple Screen Time og Family Sharing sniðug og í Android tækjum er sambærileg tól að finna í gegnum Family Link.


Á heimasíðu SAFT - samtaka um samfélag, fjölskyldu og tækni er hægt að nálgast fræðslu og ýmislegt annað gagnlegt sem tengist þessum málum.

Við erum öll tengd - friðarveggspjaldakeppni

Nokkrir nemendur í 6., 7., og 8. bekk í Grenivíkurskóla taka þátt í alþjóðlegri friðarveggspjaldakeppni Lions, þar sem þemað er: "Við erum öll tengd" (We are all connected). Skiladagur verka er 10.nóvember næstkomandi og verður spennandi að sjá útkomuna.

Grafísk hönnun

Í valáfanga í grafískri hönnun byrjuðu nemendur á að vinna með leturgerð og fengu fræðslu um sögu og tilgang grunnatriða í grafískri hönnun. Nemendur spreyttu sig á forriti í iPad, Adobe Illustrator, sem notað er í margvíslegum hönnunartilgangi. Hver og einn hannaði merki út frá sínum upphafsstöfum og útfærði það bæði í tölvu og í teikningu. Nemendur bjuggu einnig til merki fyrir ímyndað bakarí á Grenivík. Við skoðuðum þekkt merki/ lógó og veltum fyrir okkur inntaki þeirra og merkingu.


Skemmtileg stemning var í hópnum, áhugasamir, skapandi og duglegir nemendur.

Heilsueflandi skóli

Dagatal Velvirk fyrir nóvember fjallar um "nýjar leiðir" sem fólk er hvatt til að prófa. Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.


Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.

Grænfáninn

Grænfánaverkefnið á Íslandi fagnar 20 ára afmæli á þessu skólaári og í tilefni þess hefur Landvernd útbúið mánaðarlega afmælispakka sem samanstanda af fræðsluefni og verkefni sem tileinkað er ákveðnu viðfangsefni. Við munum nota þetta efni hér í skólanum og leyfum því einnig að fylgja með í fréttabréfunum okkar svo áhugasamir geti kynnt sér málið.


Afmælispakki október fjallar um loftslagsbreytingar og valdeflingu, en í pakkanum er meðal annars að finna stutt fræðslumyndband ásamt fjölbreyttu efni um þetta mikilvæga málefni.


Smellið hér til að opna afmælispakkann.

Olweus - græni kallinn þakinn hjörtum

Grenivíkurskóli er þátttakandi í Olweusarverkefninu gegn einelti. Á samveru um daginn ræddi Heiða Björk, verkefnisstjóri, við nemendur um mikilvægi þess að koma vel fram við hvert annað og að sýna umhyggju og vináttu. Þá höfðu allir nemendur ásamt starfsfólki skólans útbúið hjörtu með nöfnum sínum, sem þau límdu svo á græna kallinn sem málaður er á vegg hjá okkur. Markmiðið er að minna okkur öll á mikilvægi þess að taka skýra afstöðu og leggja okkar af mörkum í baráttunni gegn einelti.


Hér má sjá nokkrar myndir af samverunni.

Á döfinni í nóvember

  • 8. nóvember: Baráttudagur gegn einelti
  • 9. nóvember: Starfsdagur - frí hjá nemendum
  • 10. nóvember: Viðtalsdagur
  • 16. nóvember: Dagur íslenskrar tungu
  • 20. nóvember: Dagur mannréttinda barna

Grenivíkurskóli

Útgefandi: Grenivíkurskóli

Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla