Fréttabréf Grenivíkurskóla

5. tbl. 2. árg. - maí 2021

Kæra skólasamfélag

Þá er síðasti mánuður þessa skólaárs runninn upp og síðbúið fréttabréf komið í loftið. Síðustu vikur hafa verið undirlagðar undirbúningi fyrir Vorskemmtun skólans, líkt og lesa má meira um neðar í fréttabréfinu, en nú eru framundan hefðbundnari kennsluvikur með námsmati og ýmsu öðru sem tilheyrir vordögum.


Skólaárið sem senn líður undir lok hefur, líkt og flest annað í samfélaginu, borið keim af Covid-19 faraldrinum. Þrátt fyrir þær takmarkanir sem í gildi eru og hafa verið, höfum við þó getað haldið uppi metnaðarfullu starfi í skólanum og fyrir það má þakka öllum aðilum skólasamfélagsins.


Ljóst er að framundan eru breytingar á starfsliði skólans. Olla skólaliði lætur af störfum í vor eftir fjögurra áratuga starf og þá hefur Ásta skólastjóri einnig sagt upp störfum, en 13 ár eru liðin frá því hún tók við stjórnartaumunum í skólanum. Fyrir hönd skólans vil ég þakka þeim báðum fyrir ómetanlegt starf, það verður vandasamt verk að finna gott fólk til að fylla í þeirra skörð.


Ég vil nýta tækifærið í þessu síðasta fréttabréfi skólaársins og þakka foreldrum og forráðamönnum fyrir gott samstarf á þessum sérkennilega vetri. Nú tökum við fagnandi á móti sumrinu og vonumst til að geta boðið ykkur mun oftar í heimsókn í skólann á næsta skólaári í (vonandi) veirufríu samfélagi.


Með kveðju úr skólanum,

Þorgeir Rúnar Finnsson

skólastjóri Grenivíkurskóla

Vorskemmtun Grenivíkurskóla 2021 - Með allt á hreinu

Fimmtudaginn 29. apríl síðastliðinn settu nemendur Grenivíkurskóla sýninguna Með allt á hreinu á svið. Í ljósi samkomutakmarkana var því miður ekki hægt að bjóða áhorfendum að koma og horfa á sýninguna en hún þess í stað tekin upp og deilt til þeirra sem keyptu rafræna miða.


Að vanda var mikill metnaður lagður í Vorskemmtunina og dagarnir og vikurnar fyrir sýningu lituðust af þrotlausum æfingum og undirbúningi. Nemendur stóðu sig með mikilli prýði og ljóst að í hópnum er hæfileikafólk á sviði leiklistar, söngs og dans, svo fátt eitt sé nefnt. Þá á starfsfólk skólans skilið miklar þakkir fyrir sitt framlag sem og ýmsir velunnarar skólans sem lögðu hönd á plóg.


Áfram verður hægt að panta miða næstu daga og vikur. Ég hvet sem flesta til að gera það og tryggja sér þannig aðgang að skemmtilegri sýningu og styrkja í leiðinni ferðasjóð nemenda í 8.-10. bekk.


Smellið hér til að panta miða.

Lestur - áminning

Við í skólanum viljum hvetja nemendur til að vera duglegir að lesa heima þessar síðustu vikur skólaársins. Með hækkandi sól og björtum vorkvöldum er eðlilegt að útivera aukist og er það hið besta mál, en ekki má gleyma mikilvægi þess að sinna lestrarnáminu af alúð. Foreldrar og forráðamenn gegna hér lykilhlutverki en þau geta með hvatningu og því að vera góðar lestrarfyrirmyndir stutt afar dyggilega við bakið á lestrarnámi sinna barna.

Breyting á útivistartíma barna og unglinga

Útivistartími barna og unglinga tók breytingum 1. maí síðastliðinn. Frá þeim tíma mega 12 ára börn og yngri vera úti til klukkan 22.00. 13 til 16 ára unglingar mega vera úti til klukkan 24.00. Börn mega ekki vera á almannafæri utan fyrrgreinds tíma nema í fylgd með fullorðnum. Bregða má út af reglunum fyrir síðartalda hópinn þegar unglingar eru á heimleið frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Aldur miðast við fæðingarár. Foreldrum/forráðamönnum er að sjálfsögðu heimilt að stytta þennan tíma og setja börnum sínum reglur um styttri útivistartíma.


Útivistarreglurnar eru samkvæmt barnaverndarlögum. Þeim er m.a. ætlað að tryggja nægan svefn en hann er börnum og unglingum nauðsynlegur. Svefnþörfin er einstaklingsbundin en þó má ætla að börn og unglingar á grunnskólaaldri þurfi 9-11 tíma svefn á nóttu.

Rafmagnshlaupahjól og rafmagnshjól

Vorið er svo sannarlega komið og margir nemendur farnir að mæta á hjólum og hlaupahjólum í skólann, sem er hið besta mál. Við höfum þó ákveðið að setja reglur í skólanum varðandi notkun rafknúinna hjóla og hlaupahjóla og eru þær reglur á þessa leið:


  • Nemendum á yngsta stigi, 1.-4. bekk, er ekki heimilt að koma í skólann á rafmagnshjólum eða rafmagnshlaupahjólum.
  • Nemendum á miðstigi og elsta stigi, 5.-10. bekk, er heimilt að koma í skólann á rafmagnshjólum eða rafmagnshlaupahjólum, að því gefnu að farið sé eftir viðmiðum framleiðenda hvað varðar aldursmörk.


Þá er gott að minna á að hjálmaskylda er við notkun allra tegunda hjóla og mikilvægt að nemendur virði þá skyldu.


Við ræddum aðeins um þær umferðarreglur sem gilda við notkun rafmagnshlaupahjóla á samveru um daginn og ég held að það sé óhætt að segja að þó nokkrir nemendur hafi áttað sig á því að þeir hafi ekki ávallt farið eftir þeim reglum. Hér má sjá fræðslumynd frá Samgöngustofu um rafhlaupahjól sem gott er að skoða.

Útiskóli í maí

  • 5.-6. bekkur: Gagnvirkt verkefni um eyðibýli í Grýtubakkahreppi og hjólaferð til að kanna rústir í nágrenni Grenivíkur
  • 1.-4. bekkur: Ruslatínsla, útieldun og útileikir

Á döfinni í maí/júní

  • 13. maí: Uppstigningardagur. Frí í skólanum.
  • 14. maí: Útskriftarmyndataka nemenda í 10. bekk.
  • 19. maí: Runólfur - kveðjuhátíð nemenda í 10. bekk.
  • 24. maí: 2. í hvítasunnu. Frí í skólanum.
  • 25.-28. maí: Leikjavika. Allir dagar byrja á leikjum og svo er farið í morgunmat.
  • 25.-29. maí: Skólaferðalag nemenda í 8.-10. bekk
  • 27. og 28. maí: Útivistardagar. Síðustu skóladagar ársins.
  • 28. maí: Ferð með Húna II hjá 5.-6. bekk.
  • 31. maí: Starfsdagur. Frí hjá nemendum.
  • 1. júní: Skólaslit. Tímasetning og fyrirkomulag auglýst síðar.

Grenivíkurskóli

Útgefandi: Grenivíkurskóli

Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla