Fréttabréf Kópavogsskóla

Námsmat vorið 2018

Nokkur orð til upplýsingar um námsmat í Kópavogsskóla í lok skólaárs 2018:

Þegar námskrá grunnskóla var endurskoðuð árið 2011 varð sú grundvallarbreyting á framsetningu námsmats að það á að færast úr tölustöfum í bókstafi. Skólarnir fengu aðlögunartíma enda hafði breytingin mikil áhrif á starf kennara og mikil vinna fylgdi allri endurskoðuninni. Breytingarnar voru kynntar í fréttabréfi skólans vorið 2016 (sjá http://www.kopavogsskoli.is/media/frettabref/Frettabref_mars2016.pdf) og foreldrar eru hvattir til að kynna sér það sem þar er ritað.

Nemendur 10. bekkjar Kópavogsskóla hafa frá vorinu 2016 fengið lokaeinkunn í bókstöfum í stað tölustafa og nú fá allir nemendur frá 7.-10. bekk einkunnir í bókstöfum. Í eftirfarandi töflu er einfölduð útgáfa af því sem bókstafirnir standa fyrir.

Big picture

Í aðalnámskrá grunnskóla eru við hverja námsgrein nánari skilgreiningar á hverjum bókstaf og þar eru markmiðin sem kennarar vinna eftir og mynda einkunnir nemenda. Markmiðin eru sýnd fyrir hvert stig og í þeim kemur fram hvaða færni nemendur eiga að hafa náð við lok 4. bekkjar, 7. bekkjar og 10. bekkjar (sjá nánar í Aðalnámskrá grunnskóla). Það er síðan hvers skóla að ákveða hvaða markmið eiga að nást í hverjum árgangi. Til nánari útskýringar þýðir það að skólinn skilgreinir hvaða markmiðum unglingastigsins á að ná í 8. bekk, hvaða markmiðum í 9. bekk og hvaða markmið á að vinna með í 10. bekk. Lokaeinkunn 10. bekkinga ræðst síðan af öllum markmiðum námskrárinnar og hvernig þeim hefur tekist að tileinka sér þau.


Töluverður tími kennara á núverandi skólaári hefur farið í að vinna með markmiðin og koma þeim í rafrænt form í mentor. Það er gert til að auðvelt sé að átta sig á hvaða markmið það eru sem viðkomandi nemandi hefur náð og hvað á eftir að uppfylla. Guðný Sigurjónsdóttir aðstoðarskólastjóri hefur stýrt þeirri vinnu en vinnan hefur reynt töluvert á kennarana því það er nokkuð snúið að koma þessu í rafrænt umhverfi (mentor). Kosturinn er hins vegar sá að framhaldið er einfaldara og auðveldara að átta sig á stöðu hvers nemanda.


Menntamálstofnun er að vinna að matsviðmiðum í bókstöfum fyrir 4. og 7. bekk og sú vinna er langt komin. Það er því sjálfgefið að Kópavogsskóli taki upp einkunnakerfi í bókstöfum með sama hætti og á unglingastigi og að því er unnið. Mikilvægt er að kynna sér markmið hverrar námsgreinar í námskránni, t.d. eru markmið í íslensku að finna á bls. 100-105.


Kópavogsskóli hefur undanfarin ár notað svokallað frammistöðumat sem grundvöll í samtölum kennara, nemenda og foreldra. Þar er hugsunin að ræða almenna stöðu barnsins, viðhorf og áhuga í námi og ekki síst líðan. Námmat byggist í auknum mæli á símati og niðurstöður úr verkefnavinnu, prófum og könnunum eru strax aðgengilegar foreldrum í mentor. Námsleg staða barnsins og breytingar á henni er því sýnileg fljótlega eftir að skólastarf hefst og út skólaárið.


Við lok skólaársins 2017-2018 fá allir nemendur útprentað einkunnablað með niðurstöðum vetrarstarfsins. Nemendur í 1.-3. bekk fá umsagnir í öllum námsgreinum (og tölur í íslensku og stærðfræði), nemendur í 4.-6. bekk fá einkunnir í tölustöfum (og umsagnir ef við á) og nemendur í 7.-10. bekk fá einkunnir í bókstöfum.