Fréttabréf Grenivíkurskóla
2. tbl. 3. árg. - febrúar 2022
Kæra skólasamfélag
Þá hefur fyrsti mánuður ársins runnið sitt skeið og framundan stuttur og vonandi skemmtilegur febrúar. Sólin er farin að hækka á lofti og við sjáum það glögglega á morgunskímunni sem eykst og eykst með hverjum göngutúrnum sem við tökum í upphafi dags.
Ég minni á að miðvikudaginn 16. febrúar er starfsdagur - en þann dag er frí hjá nemendum - og fimmtudaginn 17. febrúar er svo komið að viðtalsdegi. Nánari upplýsingar um það koma þegar nær dregur.
Búið er að gera breytingar á reglum um sóttkví og smitgát en samkvæmt þeim á sóttkví nú aðeins við um einstaklinga sem útsettir eru fyrir smitum innan veggja heimilisins og þá eru nemendur í leik- og grunnskólum hér eftir undanþegnir smitgát. Ljóst er að þetta mun létta undir með þeim sem sinna smitrakningu en að sama skapi má gera ráð fyrir að smitum komi til með að fjölga í skólum.
Eftir sem áður vil ég biðja ykkur að láta skólann vita ef nemandi greinist með Covid-19, hefur verið í nánum samskiptum við smitaðan einstakling, eða þarf að sæta sóttkví. Þannig getum við áfram haft yfirsýn yfir stöðuna og komið upplýsingum til foreldra og forráðamanna ef smit kemur upp í námshópi/árgangi. Smitaðir einstaklingar verða ekki nafngreindir í slíkum póstum, heldur verða þeir sendir til upplýsingar.
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Heilsueflandi skóli
Árleg tannverndarvika Embættis landlæknis og Tannlæknafélags Íslands fer fram dagana 31. janúar - 4. febrúar. Þessa viku er áhersla lögð á fræðslu, umfjöllun og viðburði sem tengjast tönnum og tannheilsu, en mikið er til af ýmis konar fræðsluefni og myndböndum sem tengjast tannhirðu og -heilsu, t.d. inni á heimasíðu Landlæknis og Heilsuveru.
Þá hefst Lífshlaupið þann 2. febrúar, en það er árlegt heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambandsins. Markmiðið er að hvetja landsmenn til þess að fara eftir ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu, en í þeim segir að börn og unglingar ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag og fullorðnir ættu að stunda miðlungserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega. Nánar má fræðast um verkefnið á heimasíðu Lífshlaupsins.
Dagatal Velvirk ber að þessu sinni yfirskriftina Vinalegi febrúar. Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Grænfáninn
Grænfánaverkefnið á Íslandi fagnar 20 ára afmæli á þessu skólaári og í tilefni þess hefur Landvernd útbúið mánaðarlega afmælispakka sem samanstanda af fræðsluefni og verkefni sem tileinkað er ákveðnu viðfangsefni. Við munum nota þetta efni hér í skólanum og leyfum því einnig að fylgja með í fréttabréfunum okkar svo áhugasamir geti kynnt sér málið.
Afmælispakki febrúar fjallar um grenndarnám og átthaga og honum fylgja fróðlegar upplýsingar og skemmtileg verkefni.
Fiskaverkefni á miðstigi
Nemendur á miðstigi hafa undanfarnar vikur unnið stórskemmtilegt fiskaverkefni. Í litlum hópum hafa krakkarnir tekið fyrir helstu fisktegundir við Ísland og fræðst um þær, smíðað og málað, og afraksturinn er glæsilegt upphengiverk sem finna má á ganginum í íþróttamiðstöðinni.
Á upphengiverkinu er einnig að finna QR-kóða við hverja fisktegund, en með því að skanna inn kóðana má sjá myndbönd af nemendum segja frá sínum fiski. Við hvetjum þau sem eiga leið um íþróttamiðstöðina að kíkja á þetta skemmtilega verkefni.
Myndir janúarmánaðar
Á döfinni í febrúar
- 31. janúar - 4. febrúar: Tannverndarvika
- 2. - 15. febrúar: Lífshlaupið - grunnskólakeppni
- 2. - 22. febrúar: Lífshlaupið - vinnustaðakeppni
- 11. febrúar: Dagur íslenska táknmálsins
- 16. febrúar: Starfsdagur - frí hjá nemendum
- 17. febrúar: Viðtalsdagur
- 20. febrúar: Konudagur
- 25. febrúar: Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk - uppskeruhátíð
- 28. febrúar: Bolludagur
Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla