FRÉTTABRÉF GARÐASKÓLA

Nóvember 2015 - 39. árgangur - 2. tölublað

Efst á baugi haustannar

Haustönn Garðaskóla hefur farið vel af stað með öflugu skólastarfi í öllum árgöngum. Breytingar áttu sér stað í október í íslensku-, ensku-, dönsku- og stærðfræðihópum í 9. bekk en þar voru nemendur færðir til vegna hópastærða.


Uppbrot á hefðbundnu skólastarfi hefur einnig verið áberandi. Þar má nefna fræðsludagskrá frá Maríta og Blátt áfram en einnig hafa nemendur verið duglegir að fara út úr húsi á t.d. Landnámssýninguna og Skólaþing, sem er árlegur viðburður í 10. bekk. Hápunktur uppbrots í Garðaskóla á haustönn er svo auðvitað Gagn og gaman dagarnir, sem í ár voru keyrðir dagana 4.-6. nóvember. Þar var öflugt hópastarf og gleði ríkjandi hjá bæði nemendum og starfsfólki, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.


Við minnum foreldra á að alltaf er hægt að skoða skóladagatal Garðaskóla á heimasíðu skólans. Fréttir úr daglegu starfi má einnig finna á heimasíðunni en til að bæta enn upplýsingaflæðið hefur verið stofnuð Facebook síða fyrir Garðaskóla. Hvetjum við foreldra og nemendur sem nota þennan samfélagsmiðil til að smella við "líkar við" á síðunni okkar.

Fréttir frá Foreldrafélagi Garðaskóla

Allt er komið á fullt skrið hjá foreldrafélaginu og fundur var haldinn með bekkjarfulltrúunum nýlega.


Fyrst af öllu langar félagið að biðja foreldra um að LÆKA Facebook síðu foreldrafélagsins en þar má finna alls kyns flottar ábendingar um t.d. útvistartíma, samveru fjölskyldunnar (t.d. sundferðum), tillögur að nesti og hvernig hægt sé að hvetja til meiri svefns.


Foreldrar eru einnig hvattir til að koma sér upp “leyniorði” sem væri nokkurs konar SOS orð sem í raun þýðir “viltu koma og sækja mig stax” sem barnið gæti notað ef það fyndi sig í aðstæðum sem það vildi losna út úr.


Þann 9. nóvember síðastliðinn bauð Garðaskóli, í samstarfi við foreldrafélagið, upp á sýninguna "Þolandi og gerandi" í tengslum við Dag gegn einelti. Ánægjulegt var að sjá nokkra foreldra í salnum en dagskráin fólst í sýningu heimildamyndar um æsku Páls Óskars Hjálmtýssonar og umræðu um ýmsar birtingamyndir eineltis. Hér er hægt að sjá frétt um dagskrána á heimasíðu Garðaskóla.

Tölvuforrit sem þjálfar samtalsfærni foreldra um áfengi

Vegna ábendingar foreldrafélagsins hér að ofan um leyniorð má benda á að síðasta vetur kom út smáforritið "Talk. They Hear You" sem hannað var í samstarfi við SAMHSA samtökin í Bandaríkjunum og er ætlað að þjálfa foreldra í að hefja umræðu um áfengi við börnin sín.


Þjálfunin fer fram í gegnum "simulation" leik þar sem foreldrar velja sér persónu og leika hvernig hún/hann velur að hefja samtal við barnið sitt um áfengi. Söguþráðurinn byggist svo á þeim ákvörðunum sem foreldrar taka í samtalinu.


Á heimsíðu SAMHSA er hægt að verða sér út um forritið ókeypis, bæði sem vefforit í tölvu og smáforrit í snjalltæki (iPhone, Android og Windows síma). Forritið er á ensku og er bæði texti og talað mál. Spilunin tekur um 10-15 mínútur.

Nýir starfsmenn í Garðaskóla

Breyttar reglur um skráningar í dagbækur nemenda í Námfúsi

Persónuvernd gerði nýverið athugasemd við vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga í vefkerfinu Mentor. Notkun Garðaskóla á vefkerfinu Námfúsi lýtur sömu reglum og þar eru sambærileg vanhöld á þeim öryggisreglum sem Persónuvernd bendir á að verði að vera til staðar. Starfsfólk hefur því hætt að skrá upplýsingar um nemendur í dagbók þar til lausn verður fundin á málinu. Gamlar færslur standa óhreyfðar og engin breyting verður gerð á uppsetningu Námfúss að svo stöddu.


Samband íslenskra sveitarfélaga hefur þegar skipað starfshóp sem leitar lausna. Ljóst er að það mun takmarka upplýsingaflæði milli skóla og heimila að geta ekki haldið utan um skilaboð frá skóla í dagbókunum. Áhersla verður lögð á að starfsmenn hringi oftar heim í forráðamenn til að ræða mál í staðinn.

Innleiðing nýrrar aðalnámskrár grunnskóla

Ný grunnskólalög tóku gildi árið 2008 og í kjölfar þess var gefin út ný aðalnámskrá grunnskóla í tveimur áföngum. Árið 2011 kom út almennur hluti sem staðfesti mikilvægt hlutverk grunnskólans í lýðræðissamfélagi og kynnti til sögunnar nokkrar breytingar á menntastefnu landsins. Aðalnámskrá leggur áherslu á að sex grunnþættir menntunar skíni í gegnum allt skólastarf og að nemendur vinni markvisst að því að efla lykilhæfni sína. Árið 2013 var síðan birtur síðari hluti aðalnámskrár og í honum má finna hæfniviðmið og matsviðmið allra námssviða. Síðustu breytingar á aðalnámskrá grunnskóla voru birtar í október 2015.


Mesta breytingin sem námskráin frá 2011 boðaði varðar námsmat. Með þessari námskrá eru forsendur námsmats endurskoðaðar og áherslan færð frá því að tala um markmið náms til þess að horfa á þá hæfni sem nemendur eiga að geta sýnt við lok námsferils. Hæfni samanstendur af þekkingu og leikni á hverju sviði. Til dæmis er minni áhersla lögð á að mæla hversu vel þú getur munað uppskrift utanað en í staðinn lögð meiri áhersla á að skoða hversu leikin(n) þú ert að baka eftir uppskriftinni.

Hæfni- og matsviðmið Garðaskóla

Í kjölfar þess að hæfniviðmið fyrir öll námssvið voru birt í aðalnámskrá 2013 fóru kennarar Garðaskóla að endurskoða kennsluáætlanir og námsmat í skólanum og uppfæra til að mæta kröfum námskrárinnar. Áhersla er lögð á að allar kennsluáætlanir fyrir nám nemenda í 10. bekk uppfylli öll skilyrði aðalnámskrár 2011/2013 og að nemendur fái einkunnir fyrir einstök verkefni, jafnt sem lokaeinkunnir í hverri faggrein, í bókstöfum. Hver faggrein hefur útfært hæfniviðmið í samræmi við nýja aðlanámskrá og metur hvern nemanda eftir nokkrum hæfniflokkum. Þannig má t.d. nefna að í íslensku eru nemendur metnir eftir fjórum hæfniflokkum; talað mál, hlustun og áhorf, lestur og bókmenntir, ritun og svo málfræði. Einkunnir úr þessum hæfniflokkum eru svo dregnar saman til að mynda eina lokaeinkunn. Þannig að á vitnisburðarblaði nemenda í 10. bekk munu birtast nokkrar einkunnir fyrir hverja faggrein.


Nemendur sem útskrifast úr 10. bekk Garðaskóla vorið 2016 fá einkunnir í bókstöfum eins og aðalnámskrá kveður á um og munu einkunnir vísa til stöðu nemandans gagnvart matsviðmiðum aðalnámskrár sem eru nánar útfærðar í kennsluáætlunum Garðaskóla og fjölda verkefna sem nemendur vinna í skólanum. Lokaeinkunnir í bókstöfum skv. aðalnámskrá 2011/2013/2015 er eftirfarandi: A, B+, B, C+, C og D. Þessir bókstafir vísa til matsviðmiða og í grófum dráttum má segja að A lýsi framúrskarandi hæfni, B lýsi góðri hæfni, C lýsi sæmilegri hæfni og D vísar til þess að hæfni á viðkomandi sviði sé ábótavant.


Einkunnir nemenda vísa því til þeirrar hæfni sem þeir hafa náð á því sviði sem viðmið námssviðsins lýsa. Þannig sýnir B að nemandi hafi góða hæfni á því sviði sem viðmið námssviðsins lýsa.


Við inngöngu í framhaldsskóla er B lágmarkseinkunn til að fara í námskeið á öðru þrepi, það er í þriggja ára nám til stúdentsprófs. Nemendur sem fá lægri einkunnir byrja að taka áfanga á fyrsta þrepi í viðkomandi námsgrein þar sem farið er í sambærilegt efni og í efstu bekkjum grunnskóla.

Námsmat í Námfúsi

Unnið hefur verið að því með starfsfólki Námfúss að setja upp rafrænt kerfi sem heldur utan um bókstafseinkunnir og dregur þær saman í lokaeinkunnir. Árangur nemenda í kennslustundum og verkefnavinnu verður birtur í verkefnabók í Námfúsi. Skólaeinkunn er samsett úr vægi einkunna sem birtar eru í verkefnabókinni.


Tekið skal fram að einkunnir nemenda í 10. bekk fyrir skólaárið 2015-2016 verða í bókstöfum en misjafnt er milli faggreina hvort búið er að taka upp nýtt námsmat með bókstöfum í 8. og 9. bekk.

Vitnisburður í júní 2016

Við útskrift úr 10. bekk ber skólanum að nota rafrænt útskriftarskírteini sem Menntamálastofnun er með í þróun en ekki liggur fyrir hvernig það verður upp sett og hvað skólar þurfi að gera til að skila gögnum inn í slíkt skírteini. Upplýsingum er varða það verður miðlað áfram um leið og þær berast.


Vitnisburðarspjald Garðaskóla mun taka mið af þeim breytingum sem eru í vinnslu. Nemendur í 10. bekk fá lokaeinkunn á hverju greinasviði og verður sú einkunn sundurliðuð í þá hæfniflokka sem námsgreinin hefur skilgreint og vinnur að.

Big image

Kynningarfundur um námsmat við lok grunnskóla og innritun í framhaldsskóla

Þriðjudaginn 17. nóvember síðastliðinn var haldinn kynningarfundur fyrir forráðamenn og nemendur Garðaskóla um námsmat við lok grunnskóla og innritun í framhaldsskóla. Auk skólastjórnenda tók til máls fulltrúi frá Menntamálastofnun. Margar spurningar brunnu á viðstöddum og hægt er að sjá upptöku frá fundinum hér. Finna má glærukynningarnar á heimasíðu skólans.


Einnig má benda á að upplýsingar um aðalnámskrá og námsmat samkvæmt henni má nálgast á nokkrum stöðum, meðal annars:


Þróun námsmats í Garðaskóla

Sýnileg markmið í ensku

Það er mikilvægt að nemendur geri sér grein fyrir því hver sé tilgangurinn með vinnu þeirra og átti sig á til hvers sé ætlast af þeim. Þannig verða vinnubrögðin markvissari, þeir sjá hvaða þætti ber að leggja áherslu á og þeir skilja betur hvaða þættir liggja að baki námsmatinu. Þessi aðferðafræði ýtir undir sjálfstæði í námi en er líka hluti af því að bera ábyrgð á eigin námi og námsframvindu.


Það að fara í gegnum skilgreiningu á markmiðum og námsmati með nemendum áður en verkefnavinnan fer af stað, hefur einkum tíðkast í þemaverkefnum í ensku. Smátt og smátt erum við þó að færa okkur yfir í markmiðsetningar fyrir önnur verkefni sem unnin eru í kennslustundum, bæði í para/hópvinnu sem og einstaklingsvinnu.

Námsmat í list- og verkgreinum

Í vetur verða innleiddar hæfnieinkunnir í bókstöfum í list- og verkgreinum í öllum árgöngum samkvæmt nýrri aðalnámsskrá. Notast verður við matskvarða til að meta hvar nemandi stendur.


Í textílmennt, smíði og myndmennt er aukin áhersla á að fá nemendur til að þróa eigin hugmyndir í fullunnin verkefni. Þá er ágætt að huga að hvað gæti komið sér vel að búa til eða hvernig má leysa þörf með áherslu á nýsköpun og eigið hugvit. Til að leysa þörfina og sækja sér innblástur má nýta sér vefmiðla, bækur og blöð eða vinna alfarið með eigin hugmynd að lausn.


Afurðirnar geta verið margs konar en markmiðið er að bæta við þá kunnáttu sem fyrir er. Vinnuferlið skrá nemendur og/eða skissa upp. Þannig fæst yfirsýn yfir vinnuferil annarinnar sem auðveldar leiðsagnarmat og allt námsmat.

Sóknarkvarði í náttúrufræði

Nemendur í náttúrufræði notast við sóknarkvarða þegar þeir vinna og fara yfir skýrslur eftir verklegar æfingar. Sóknarkvarðar eru einskonar viðmiðunartöflur þar sem kröfur til verkefnisins eru skilgreindar eins nákvæmlega og unnt er. Nemendur fá í upphafi annar ítarlega útskýringu á því til hvers er ætlast af þeim í verklegum tilraunum og skýrslugerð almennt. Passað er upp á að bæði leiðbeiningar um uppsetningu skýrslna og sóknarkvarðinn sjálfur sé ávallt nemendum aðgengilegur á rafrænu formi á heimasíðu skólans, auk þess að vera sýnilegur í kennslustofum.


Nemendur bera sjálfir ábyrgð á því að skoða sóknarkvarðann út frá umsögn kennarans og eru hvattir til þess af hálfu kennaranna. Þetta fyrirkomulag styður við nemandann vegna utanumhalds í verklegum æfingum og ýtir undir að nemandinn fái betri innsýn í námsferli sitt. Auk þessa gerir það nemandanum kleift að vinna markvisst að því að bæta sig í næsta verklega verkefni með kvarðann til hliðsjónar.


Sóknarkvarðar gera nemandanum skýrt til hvers er ætlast af honum, gerir einkunnagjöf vegna verkefna augljósari og sýnir nemandanum að nám snýst um að bæta hæfni sína á mismunandi sviðum.

Google Apps for Education og rafræn yfirferð verkefna

Færst hefur í aukana að nemendur í Garðaskóla skili verkefnum rafrænt til kennara. Þetta fyrirkomulag helst í hendur við breyttar áherslur í kennsluháttum, þar sem hefðbundinn texti hefur í einhverjum tilvikum vikið fyrir myndrænni framsetningu (ljósmyndir og kvikmyndir), hljóðvinnslu og munnlegum skilum verkefna.

Allir nemendur og kennarar Garðaskóla hafa nú aðgang að Google Apps for Education (GAFE) sem bíður upp á marga möguleika í samvinnu og námsframvindu. Aðgangurinn ýtir undir betra utanumhald rafrænna skila á báða bóga og sparar útprentun, en einnig bíður umhverfið upp á rafræna yfirferð og endurgjöf frá kennara. Sérstaklega er þetta hentugt fyrir leiðsagnarmat þar sem verkefni fyrr á önninni eru alltaf aðgengileg nemendum í nettengdum tölvum, sem opnar á nýjar leiðir í sjálfstæðum vinnubrögðum nemenda.

Big image

Garðaskóli

Opnunartími skrifstofu:

Kl. 7:30-15:00 mán-fim

Kl. 7:30-14:30 fös


Starfsmenn skrifstofu:

Anna María Bjarnadóttir ritari

Svanhildur Guðmundsdóttir


Ábyrgðarmaður fréttabréfs:

Brynhildur Sigurðardóttir skólastjóri