Fréttir úr skólastarfi

2. - 6. nóvember 2020

Breytingar á skólastarfi á tímum farsóttar

Kæru foreldrar


Þessa vikuna hefur skólastarf verið með nokkuð öðrum hætti en vant er vegna hertra sóttvarnaraðgerða heilbrigðisyfirvalda.


Nemendur hafa almennt staðið sig vel í þessum breyttu aðstæðum og vinnufriður verið góður.


Helstu breytingar eru þær að nemendur mæta nú á misjöfnum tímum í skólann á morgnana til að koma í veg fyrir að hópar skarist á göngunum. Því er mjög mikilvægt að nemendur mæti á réttum tíma til að raska ekki skipulaginu.


Skólastarf nemenda í 1. - 4. bekk er að mestu óbreytt en nemendur í 5. - 10. bekk borða ekki í skólanum á meðan þetta ástand ríkir heldur fara heim ýmist kl. 12:00 eða 12:10. Eftir skóla tekur við heimanám sem mikilvægt er að nemendur sinni vel.


Mikilvægt er að fara vel yfir þessar aðgerðir heima því þetta er okkur öllum framandi ástand sem vonandi stendur ekki lengur yfir en reglugerðin segir til um eða til 17. nóvember. Það er hins vegar mikilvægt að allir standi saman svo árangur náist.

Skólabyrjun á morgnana

Svo allt gangi snurðulaust fyrir sig mæta nemendur á misjöfnum tímum í skólann. Auk þess er nemendum skipt niður á ákveðna innganga og snyrtingar. Mikilvægt er að virða þetta skipulag.


 • 1. - 2. bekkur mætir inn um efri inngang kl. 7:50
 • 3. - 4. bekkur mætir inn um aðaldyr kl. 8:00
 • 5. bekkur mætir inn um efri inngang kl. 8:00
 • 6. bekkur mætir inn um aðaldyr kl. 8:10
 • 7. bekkur mætir inn um bókasafn kl. 8:00
 • 8. bekkur mætir inn um bókasafn kl. 8:10
 • 9. bekkur mætir inn niðri kl. 8:00
 • 10. bekkur mætir inn niðri kl. 8:10
Big picture

Grímunotkun

Nemendur í 1. - 4. bekk þurfa ekki að nota grímur.

Nemendur í 5. - 6. bekk þurfa að nota grímur þar sem ekki er hægt að koma við 2 metra fjarlægðarmörkum. Nemendur þurfa ekki að nota grímur inni í bekk þar sem gott pláss er á milli borða.

Nemendur í 7. - 10. bekk þurfa að nota grímur allan daginn í skólanum en mega taka þær af sér þegar þau fara út til að fá sér ferskt loft en þurfa þá að gæta að 2 metra fjarlægðarmörkum.


Nemendur mega koma með sínar eigin grímur en skólinn útvegar þeim sem þurfa.

Við biðjum nemendur um að gæta vel að því að henda notuðum grímum í rusladalla inni í skóla því við viljum ekki sjá þær verða að fjúkandi rusli í umhverfi okkar.


Mikilvægt er að muna að það er grímuskylda við ofangreindar aðstæður. Sú regla er ekki sett af skólanum, nemendur verða því skilyrðislaust og án undantekninga að fylgja þessari reglu.

Skólasel

Nemendum í Skólaseli er skipt í tvo hópa. Nemendur í 1. og 2. bekk eru sér og hafa aðsetur í stofu Skólasels. Nemendur í 3. og 4. bekk eru saman í 4. bekkjar stofu á efstu hæðinni.


Minnum á að nú sem fyrr mega foreldrar ekki koma inn í skólann til að sækja börnin sín og minnum því á síma Skólaselsins 869-1247 og 857-1247.

Samkomutakmarkanir og börn - leiðbeiningar frá sóttvarnarlækni

Skólar og íþróttafélög skipuleggja sitt fyrirkomulag til að fara eftir fyrirmælum yfirvalda um takmarkanir á skólastarfi og samkomum, þ.m.t. fjöldatakmörkunum, rýmum og grímunotkun.


Það er mikilvægt að forráðamenn barna dragi á sama tíma úr fjölda einstaklinga í tengslaneti barna sinna utan skólatíma til að vinna ekki gegn þessum ráðstöfunum. Gott er að hafa eftirfarandi í huga:

 • Skólafélagar sem ekki eru í sama hópi í skólastarfinu ættu ekki að vera í návígi utan skóla.
 • Hafi börnin þroska til að fara eftir leiðbeiningum sem snúa að minni snertingu við vini er ekki útilokað að þau geti hist í leikjum. Leikirnir mega ekki fela í sér beina snertingu, notkun á sameiginlegum leikföngum eða búnaði sem snertur er með berum höndum.
 • Börn og ungmenni ættu ávallt að þvo sér vel um hendur bæði áður en þau hitta félaga sína og eftir að þau koma heim.
 • Fjölskyldur ættu að hafa í huga að ef börnin umgangast mikið vini eða frændsystkini úr öðrum skólum eða skólahópum þá verður til tenging milli hópa sem annars væru aðskildir. Slíkt ætti að forðast eins og kostur er.
 • Fjölskyldur eru hvattar til að nýta sér tæknina til að halda góðum tengslum við ástvini sem eru í áhættuhópum vegna COVID-19 sýkinga, eldra fólk og fólk með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma.
 • Einnig væri hægt að nota tækifærið að kenna börnunum að skrifa sendibréf og æfa í leiðinni skrift, stafsetningu, virkja ímyndunaraflið og hugsa í lausnum þegar kemur að samskiptum við ástvini okkar.