Hvalrekinn

6. janúar 2021

Big picture

Hvaleyrarskóli er hnetulaus skóli

Þar sem nemandi skólans er með bráðaofnæmi fyrir hnetum er Hvaleyrarskóli hnetulaus skóli og biðjum við foreldra jafnt sem starfsfólk að virða það. Nemendur og starfsfólk mega því ekki koma með hnetur í skólann.

Skólastarf í grunnskólum Hafnarfjarðar

Til foreldra í grunnskólum Hafnarfjarðar


Grunnskólastarfi verður breytt í ljósi nýjustu sóttvarnareglna frá yfirvöldum, frá 21. desember 2020, á þann veg að full kennsla samkvæmt stundaskrá haustið 2020 hefst í öllum árgöngum í öllum skólum, m.a. valgreinar og kennsla skólaíþrótta í íþróttahúsum og sundlaugum hjá öllum nemendum. Þessar breytingar eru í undirbúningi og munu taka gildi í einstaka skólum í þessari viku eða í síðasta lagi mánudaginn 11. janúar 2021, allt eftir aðstæðum í einstaka skólum. Hver skóli mun tilkynna forráðamönnum hvenær þær taka gildi hjá viðkomandi nemendum.


Með þessum breytingum mun matarþjónusta komast í eðlilegt horf, þ.e. hafragrautargjöf að morgni og síðdegishressing nemenda í 5.-10. bekk munu hefjast á ný og hefðbundin matarþjónusta verður á ný í matsal skóla fyrir alla nemendur. Grímuskylda nemenda leggst af með öllu.


Áfram verða þó ýmsar takmarkanir í gangi varðandi skólastarfið. Þannig verða óbreyttar reglur varðandi heimsóknir foreldra og aðgengi annarra sem styðja við skólastarfið og grímuskylda er meðal fullorðinna eftir ákveðnum leikreglum.


Við vonumst til að hægt verði að halda þessari framkvæmd sem lengst en núverandi reglur gilda til 28. febrúar nk.


Skrifstofa mennta- og lýðheilsusviðs.

Skólastarf í Hvaleyrarskóla frá 4. janúar miðað við sóttvarnarreglur sem gilda til og með 28. febrúar 2021

Við munum áfram passa upp á allar sóttvarnir eins og við mögulega getum en skólastarfið hjá okkur á að vera komið í eðlilegt horf frá og með mánudeginum 11. janúar en þá verður kennt samkvæmt stundaskrá nemenda sem þeir fengu í ágúst 2020.

 • Kennt hefur verið samkvæmt stundaskrá hjá öllum árgöngum (frá 4. janúar).
 • Kennsla í valgreinum hjá nemendum í 8. – 10. bekk hefst mánudaginn 11. janúar. Nýtt valgreinatímabil hefst þriðjudaginn 26. janúar. Tækniskólinn tilkynnt okkur að hann muni ekki vera með valgrein sína fyrir nemendur í 10. bekk sem stóð til að yrði í vetur.
 • Íþrótta- og sundkennsla verður samkvæmt stundaskrá.
 • Skólanum er skipt í 10 kennsluhólf, það er hver árgangur er eitt kennsluhólf þar sem ekki eru fleiri nemendur en 50 í hverjum árgangi hjá okkur.
 • Fullorðnir mega vera 20 í hverju kennsluhólfi og mega þeir fara á milli hópa. Ítrustu sóttvörnum er fylgt.
 • Teymiskennsla þar sem kennari tekur nemendahóp út í aðra kennslustofu er nú leyfileg og ítrustu sóttvörnum er fylgt.
 • Við munum áfram hafa matsalinn skipt upp í hólf eftir kennsluhólfum og sótthreinsað er á milli hópa.
 • Boðið verður upp á hafragraut að morgni frá fimmtudeginum 7. janúar og þeir sem eru í ávaxtaáskrift fá ávexti á sínum tíma.
 • Til að byrja með höfum við haldið eldri nemendum í sínum heimastofum og kennarar farið á milli kennslustofa til að minnka smitleiðir. Þetta hefur mælst misjafnlega fyrir meðal nemenda og kennara, því gæti þessu verið breytt þegar líður á tímabilið.
 • Þó eru undantekningar frá þessari reglu þar sem kennsla fer fram í list- og verkgreinum, dansi, tónmennt, upplýsinga- og tæknimennt, náttúrugreinum (hjá eldri nemendum) í fagstofum.
 • Starfsfólk ber grímur á sameiginlegum svæðum.

 • Grímuskylda starfsfólks gagnvart börnum verður afnumin í kennsluhólfum.

 • Reglur um blöndun, fjölda, grímunotkun og nálægð gildi ekki á útisvæðum.

 • Nemendur í 1. - 7. bekk fara út í frímínútur eins og áður. Nemendur í 8. - 10. bekk fá að vera inni eins og áður en á afmörkuðum svæðum eftir árgöngum/kennsluhólfum.

 • Áfram er hólfun í Holtaseli með svipuðu sniði og verið hefur. Nemendur verða til skiptis í heimastofum og á svæði Holtasels.

 • Í félagsmiðstöðinni Verinu verður 50 nemenda hámark og munu starfsmenn fylgjast með að ekki séu fleiri inni. Starfsemin fer fram á svæði Versins og fá bekkir/árgangar ákveðna tíma samkvæmt skipulagi.

Stjórnendur Hvaleyrarskóla

Dagskrá Versins í janúar 2021

Söðumat verður í lok janúar eða í byrjun febrúar 2021

Fyrirhuguð eru námsviðtöl þriðjudaginn 2. febrúar og verða foreldrar boðaðir á fjarfundi í kringum þann tíma með svipuðu sniði og var í október. Fyrir fundina þurfa foreldrar ásamt börnum sínum að skoða námsframvinduna inni á Mentor. Athygli er vakin á því að hæfnikortið er lifandi plagg og því getur síðasta mæling ekki alltaf gefið rétta mynd. Sum hæfniviðmið eru metin oftar en einu sinn en það á frekar við eftir því sem börnin verða eldri. Þegar svo er þarf að skoða hæfniviðmiðið og þá kemur upp saga/námsferill, þ.e. hvaða hæfni barnið hefur náð frá því skólinn hófst. Gott er að skoða það til að gera sér grein fyrir raunverulegri stöðu.

Nú í janúar er gefinn einkunn fyrir framvindu, sem ætluð er til að gefa foreldrum nemenda nokkra hugmynd um stöðu barnsins í hverri grein. Einkunnin lýsir stöðu barnsins í janúar 2021 en hún birtist efst á hæfnikorti nemandans í hverju fagi. Til að gefa fyrir framvinduna notum við skalann; góð framvinda, hæg framvinda, í hættu að ná ekki lágmarkshæfni.

Hér má nálgast leiðbeiningaglærur fyrir foreldra til að skoða námsmat barna sinna.

Big picture

Mikilvægi læsis og móðurmáls

Hér er hægt að nálgast bæklinga á ýmsum tungumálum um mikilvægi móðurmálsins. Að hafa gott vald á móðurmálinu hjálpar börnum að læra íslensku, þar sem tungumál vinna saman, en er ekki síður mikilvægt til að þroska með einstaklingum öryggi og sterka sjálfsmynd.

https://www.ryerson.ca/mylanguage/brochures/


Hér er bæklingur frá Bókasafni Hafnarfjarðar um mikilvægi lesturs og að skapa notalegar lestrarstundir foreldra og barna. Þessi bæklingur er bæði á íslensku, ensku og pólsku.

https://www.hafnarfjordur.is/media/auglysingar/laesisbaeklingur-isl.pdf

https://www.hafnarfjordur.is/media/fraedsluthjonusta/laesisbaeklingur-ens.pdf


https://www.hafnarfjordur.is/media/fraedsluthjonusta/laesisbaeklingur-pol.pdf

Hvaleyrarskóli 30 ára

Skólasöngur Hvaleyrarskóla

Munum öll - að þakka fyrir það.

sem okkur er gefið, sama hvað,

Með jákvæðni og æðruleysi.

Það sem bætir lífið okkar er kurteisi.


- Viðlag -

Við í Hvaleyrarskóla stöndum hönd í hönd

Ekkert mun slíta okkar vinabönd.

saman skínum skært sem kertaljós

því skólinn minn er mitt leiðarljós


-BRÚ -

Við hjálpumst alltaf að

nefndu stund og stað,

þá kem ég með

og stend með þér.


Umhverfið - pössum við vel

Og pössum hvort annað, líka jafn vel.

Erum vafin vinatryggð.

Það sem bætir lífið okkar er ábyrgð


- VIÐLAG -


Bjóðum hjálp, ef eitthvað er að

og tökum vel eftir, hugsum um það

Í amstri dagsins er mörgu að sinna

Það sem bætir lífið okkar er, samvinna.


- VIÐLAG Í KEÐJU


lag : Guðrún Árný. Texti : Palli ( Páll S. Sigurðsson) og Guðrún Árný

Reglur um ástundun í grunnskólum Hafnarfjarðar

Við minnum á samræmdar reglur um ástundun í grunnskólum Hafnarfjarðar en kynning á þeim er í kynningarglærum árganganna. Reglur og viðbragðsáætlun eru samræmdar þannig að ekki sé mismunun milli skóla bæjarins.


Starfsfólk skólanna í Hafnarfirði hefur áhyggjur af minnkandi skólasókn og fjölgun nemenda sem teljast falla undir skilgreiningar um skólaforðun. Í reynd eru allar fjarvistir frá skóla óheppilegar af ýmsum ástæðum og því er ekki gerður greinarmunur á fjarvistardögum þótt greinarmunur sé gerður á tilefni fjarvista. Eftir því sem skólasókn fer minnkandi taka við aukin viðbrögð af hálfu skóla til að koma sem lengst í veg fyrir að námsárangur nemenda versni vegna slakrar skólasóknar og vanlíðan aukist.

Meginefni reglanna er:


1. AÐ VIRÐING SÉ BORIN FYRIR SKÓLASÓKN

Allt skólasamfélagið (forsjáraðilar, nemendur, starfsfólk skóla) verður að bera virðingu fyrir mikilvægi skólasóknar alla 180 skóladaga nemenda í grunnskóla á hverju skólaári.


2. AÐ SKÓLA BERI ENGIN SKYLDA TIL SÉRSTUÐNINGS VEGNA LEYFA

Starfsfólk skóla ber ekki skylda til að þjónusta einstaka nemendur sérstaklega vegna fjarvista frá skóla, hverju nafni sem þær nefnast, og skulu forsjáraðilar ekki óska eftir slíkri þjónustu (t.d. að kennarar gefi út sérstaka heimavinnu eða skilaboð þegar um er að ræða persónuleg leyfi fjölskyldna).


3. AÐ SKRÁÐ SÉ RAUNSKÓLAMÆTING Í LOK SKÓLAÁRS Á VITNISBURÐARBLAÐ NEMANDA

Allar fjarvistir, hverju nafni sem þær nefnast, búa til eina raunmætingareinkunn sem gefin er á vitnisburðarskírteini nemenda í lok skólaárs, sem prósentuhlutfall af skólasókn yfir skólaárið.


4. AÐ GEFIN SÉ ÁRLEG LOKAEINKUNN (A-D) VEGNA SKÓLASÓKNAR Á VITNISBURÐARBLAÐ

Ástundun sem snýr að fjarvistum, seinkomum og brottrekstri úr kennslustundum mynda á einu skólaári skólasóknareinkunn sem hver nemandi fær á matskvarðanum A, B+, B, C+, C og D í samræmi við kvarða (sjá fylgiskjal póstsins).


5. AÐ VIÐBRÖGÐ SKÓLA OG BARNAVERNDAR VIÐ MINNKANDI SKÓLASÓKN SÉU SAMHÆFÐ

Þótt forsjáraðilar hafi víðtækar heimildir til að tilkynna veikindi og leyfi frá skóla munu skólar bregðast við öllu slíku sem „fjarvistum“ óháð tilefni, í samræmi við reglur. Allar fjarvistir frá skóla eru óheppilegar og miklar fjarvistir (umfram 10% kennslutímans eða 18 skóladaga á skólaári) geta hamlað námsárangri barna. Það er skylda nemenda að mæta í skóla nema að löggild forföll hamli. Umræddar reglur gilda um alla grunnskóla Hafnarfjarðar jafnt og færast með nemendum flytji þeir á milli skóla innan Hafnarfjarðar á skólaárinu.

Bekkjartenglar geta sótt um styrk fyrir viðburðum

Foreldrafélag Hvaleyraskóla hefur ákveðið að styrkja bekkjatengla fyrsta til fimmta bekkjar um hámark 5.000 kr. á önn til þess að gera eitthvað skemmtilegt með bekkjunum. Fyrirkomulagið er þannig kvittanir fyrir útlögðum kostnaði auk samantektar á heildarkostnaði er send á póstfang foreldrafélagsins (foreldrafelag@hvaleyrarskoli.is). Þar sem koma þarf fram nafn bekkjar og tilefni (hvað var gert með bekkjunum) og nafn, kennitala og bankaupplýsingar bekkjatengils. Foreldrafélagið gefur sér u.þ.b. viku til að endurgreiða útlagðan kostnað.

Foreldrarölt

Foreldraröltið fer þannig fram að foreldrar mæta við Hvaleyrarskóla kl. 21:45 á föstudagskvöldi.


Rölt er um hverfi Hvaleyrarskóla og fylgst með hópamyndun barna og unglinga. Bekkjarfulltrúar sjá síðan um að senda línu um hvernig röltið gekk á netfangið foreldrafelag@hvaleyrarskoli.is. Ef þörf er á, röltum við líka á laugardögum í samráði við forvarnarfulltrúa og lögreglu en það tilkynnist þá sérstaklega.


Hér má sjá skipulag foreldrarölts veturinn 2020-2021.

KURTEISI ~ ÁBYRGÐ ~ SAMVINNA

Hvalrekinn


Opnunartími skrifstofu:

Kl. 7:45 - 15:30 mán-fim

Kl. 7:45 - 14:00 fösFréttabréf Hvaleyrarskóla. Sent á foreldra nemenda skólans og skólasamfélagið.