Víðóma

maí 2020

Pistill skólastjóra - Afmælisár skólans Víðistaðaskóli 50 ára 16.september 2020.

Ágætu nemendur og foreldrar

Þetta er búið að vera óvenjulegt vor hjá okkur öllum en það er ljóst að íslenska þjóðin er samheldin og hlýðir Víði, þannig stöndum við vonandi þessa veiru af okkur.

Það voru glaðir nemendur og starfsmenn sem mættu í skólann þann 4. maí þegar skólahald varð aftur hefðbundið en Það má segja að skólastarfið hafi gengið ótrúlega vel á meðan við vorum með skertan skóladag í samkomubanninu. Flestir nemendur voru ótrúlega duglegir við heimaverkefnin og skiluðu þeir eldri verkefnum á google classroom. Notkun spjalda og tækninnar almennt tók kipp og nemendur og kennarar lærðu heilmikið af nýjungum sem þeir nýttu sér óspart. Við erum staðráðin í því að nýta tæknina meira og bæta enn frekar við okkur þekkingu áfram. Kennarar hafa endurskipulagt námsáætlanir og nú verður haldið vel áfram við námið til skólaloka.

Framundan hjá okkur í Víðistaðaskóla og Engidal eru breytingar þar sem Engidalsskóli verður sjálfstæður skóli frá og með 1.ágúst næstkomandi. VIð fögnum þessari breytingu þó að við eigum vissulega eftir að sakna góðra vinnufélaga og nemenda. Nýr skólastjóri hefur verið ráðinn við Engidalsskóla, Margrét Halldórsdóttir og tekur hún til starfa 1.8.2020 við bjóðum hana velkomna til starfa.

Að lokum vert að minnast 50 ára afmælis Víðistaðaskóla. Við höldum upp á það með hátíð á stofndegi skólans, nánar tiltekið þann 16. september 2020. Við ætlum að gera okkur dagamun að þessu stóra tilefni og hafa opið hús með sýningu á vinnu nemenda, söngleikjum, skemmtiatriðum og myndum úr starfinu í gegnum tíðina og verður ykkur öllum að sjálfsögðu boðið í afmælið. Þið fáið boðskort frá okkur í haust. Foreldrafélagið mun að sjálfsögðu vera með okkur í þessum hátíðarhöldum.

Með vinsemd og virðingu

Hrönn Bergþórsdóttir, skólastjóri Víðistaðaskóla

Fréttir af unglingastigi

Aðstæður í samfélaginu hafa verið skrýtnar síðustu vikur og unglingarnir okkar hafa vissulega fundið fyrir áhrifum samkomubanns þar sem daglegt líf þeirra hefur orðið fyrir miklum breytingum. Þrátt fyrir þessar aðstæður hafa nemendur í unglingadeild skólans verið til fyrirmyndar í þessu breytta skólastarfi sem hefur verið í skólanum frá því að samkomubann hófst. Undanfarnar vikur hafa nemendur í unglingadeild mætt í skólann í einn klukkutíma og fengið tækifæri til að umgangast bekkjarsystkini sín, hlotið kennslu og aðstoð með sitt nám. Kennslustundirnar hafa gengið mjög vel og flestir hafa náð að nýta þennan tíma mjög vel.


Kennarar í unglingadeild hafa almennt verið mjög ánægðir að hafa fengið þetta tækifæri til að eyða meiri tíma með sínum umsjónarbekk og hafa jafnvel náð að styrkja samband umsjónarkennara og bekkjarins. Kennarar deildarinnar vilja þakka foreldrum kærlega fyrir gott samstarf og traust á þessum tímum. Stjórnendur og aðrir starfsmenn skólans hljóta einnig mikið hrós og þakklæti frá deildinni fyrir góða vinnu á skrýtnum tímum.

Big picture

Miðstigið í samkomubanni

Miðstigið á dögum samkomubanns skiptist í gult og blátt svæði. Nemendur komu inn í skólann á þremur stöðum, allt eftir „hólfum“ og skipulagi. Nemendum var hleypt inn í fámennum hópum á ákveðnum tímum allt eftir skipulagi. Nemendur stóðu sig vel í því að fara inn á réttum stað og virtu reglur og fyrirkomulag. Þar sem nemendahópar voru í fámennari en á „venjulegum“ skóladegi þá náðu kennarar að leiðbeina hverjum og einum betur en ella. Síðan fór verulegur hluti námsins fram heima og þá kom tæknin heldur betur að góðu gagni. Nemendur og kennarar nýttu spjaldtölvur og forrit til þess að vera í samskiptum. Einnig settu kennarar verkefni inn á spjaldið ss. Google classroom og nemendur sóttu þangað viðfangsefni og skiluðu. Þetta var skrítinn tími en eftir á að hyggja hafa allir læra heilmikið eins og til dæmis að sýna einstaka tillitssemi í umgengni og að nýta tæknina til þess að læra og efla sjálfstæði í námi.

Hringferð í huganum - verkefni í 5. bekk

Verkefni sem unnið var í 5. bekk í samkomubanninu.

Stærðfræðiverkefni í 7. bekk

Nemendur í 7. bekk unnu verkefni í samkomubanni þar sem þau áttu að búa til þrívíðan hlut. Þau máttu velja hvort það væri ferstrendingur eða þrístrendingur. Verkefnið gekk út á að búa til hlutinn alveg frá grunni. Þau áttu að mæla hlutinn og láta fylgja með alla útreikninga sem sýna bæði yfirborðsflatarmál og rúmmál. Hér að neðan má sjá afrakstur þessa verkefnis.

Lífið í samkomubanni hjá yngsta stigi v/Hrauntungu

Yngsta stigið er búið að vera á „græna og rauða“ svæðinu í samkomubanninu. Þetta hafa verið skrítnir tímar og við erum öll farin að hlakka mikið til að fá að hafa skólann okkar venjulegan aftur. Fá að fara á bókasafnið, í íþróttir, smiðjur í matsalinn og út í frímínútur.

Starfsfólkið er farið að sakna samstarfsfólksins úr öðrum svæðum, því ekki megum við fara út af okkar svæði.


Börnin hafa mætt við sína innganga, ekki þeir sömu og í venjulegu ástandi, og verið hleypt inn í hollum, bara einn hópur í einu. Ekki hafa fengið að vera fleiri en 20 börn í hverjum hóp, þannig að fjölmennari bekkjum var skipt upp í 2 hópa.


Fyrir páska fengu allir nemendur á yngsta stigi hádegismat frá Hafnarfjarðarbæ. Þá byrjuðu dagarnir kl 11:30 á hádegismat og hlustun á sögu. Eftir páska varð sú breyting á að einungis 1. og 2. bekkingar fengu hádegismat. Allir dagar hafa því byrjað á góðri sögu og svo hefur tíminn verið vel nýttur í ýmis konar nám. Eftir einungis 2 klukkutíma eða klukkan 13:20 enda skóladagarnir. Hverjum og einum bekk er þá hleypt út í einu. Frístund hefur verið starfrækt í kennslustofunum, þannig að þegar skóla lýkur hjá 1. og 2. bekk hefur starfsfólk frístundar tekið við kennslustofunum af kennurunum.


Kennarar hafa verið duglegir við að finna fjölbreytt kennsluefni og fjölbreyttar kennsluleiðir fyrir nemendur til að vinna heima. Einnig hafa verið óhefðbundnar leiðir við að hafa samband við nemendur sem ekki hafa komist í skólann.


Við erum öll orðin reynslunni ríkari og kannski við verðum þakklátari eftir þennan heimsfaraldur en fyrir hann. Þakklát fyrir hvað við höfum það að mörgu leiti gott, þakklát fyrir landið okkar, þakklát fyrir fólkið okkar og fyrir það að fá að knúsast og kjassast hvert í öðru.

Nemandi í 4. bekk skrifaði sína upplifun á þessu ástandi

Covid 19 er sérstök veira sem er um allan heim ,held ég, en það er sagt að veiran byrjaði í Kína. Þetta er búinn að vera skrýtinn og leiðinlegur tími. Mér þykir leitt hvað margir hafa veikst og dáið. Sem betur fer hefur enginn sem ég þekki veikst. Ég hlakka mest til að fara aftur að æfa og fá eðlilegan skóla. Mér þykir líka leiðinlegt hvað margir hafa misst vinnuna. Ég ætlaði til útlanda í sumar en veit ekki hvort ég fer. (Brynjar Narfi í 4. BB)

Starfið í Engidal

Í Engidalnum er alltaf líf og fjör. Lestrarvinaverkefni hélt áfram en tekið var hlé þegar kennt var í hólfum vegna C19. Í þemavikunni voru unnin fjölbreytt verkefni eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Þemað í ár var afmæli og skólinn fyrr og nú. Bakaðar voru afmælisbollakökur, búið var til listaverk sem unnið var úr tímaritum. Margföldunartafla sem nú prýðir stigann upp á efri hæðina var gjöf nemenda til skólans. Nemendur gerðu myndbönd um skólann, skólastarfið og dag í lífi skólastjóra. Nemendur lærðu einnig ýmsa gamla leiki.

Í janúar byrjuðum við með sameiginlega hringekju í 3. og 4. bekk. Áætlað var að nemendur hittust einu sinni í mánuði til að vinna fjölbreytt verkefni. Nemendahópnum var skipt í fimm hópa og lögð var áherslu á kennslu án kennslubóka í íslensku og stærðfræði. Unnið var með tímann, auglýsingagerð, draumaherbergið og kostnað þess, læsisverkefni út frá ljóði þar sem unnið var með krossglímu, hugtakakort og fleira. Eins var unnið með spil sem þjálfa stærðfræði og íslensku, í meðfylgjandi myndbandi má sjá þessa vinnu nemenda. C19 kennslan hefur gengið vel og er það mat okkar hér í Engidalnum að mikið nám hefur átt sér stað hjá nemendum þó viðveran í skólanum hafi ekki verið löng.

Big picture

Félagsmiðstöðin Hraunið

Það hefur verið fjölbreytt starfið í félagsmiðstöðnni undanfarnar vikur þar sem við færðum starfið okkar yfir í rafrænt starf.


Við færðum starfið inn á samfélagsmiðlana og notuðum forritið Instagram mikið.


Við vorum með lifandi streymi þar sem 8-9 iðkendur komu saman inn á discord rás og spiluðu nokkra leiki saman.


Vorum með alls konar keppnir, spurningakeppnir, víðivangshlaup, ratleiki, hummusgerð, tónlistarkennslu og fleira. Pínu nýsköpun í félagsmiðstöðvastarfinu.


Við opnum aftur félagmiðstöðina næsta mánudag, þann 4. maí. Starfsfólk Hraunsins er ótrúlega spennt að taka á móti börnunum og unglingunum ykkar.


Undanfarin ár hefur starf Hraunsins aðeins verið til 15. maí en í ár verður opið til 5. júní.

Dagskrá verður send út í næstu viku á alla foreldra í 5.-10.bekk.


Hér fyrir neðan má sjá auglýsingar í rafrænni félagsmiðstöð.


Ef þið hafið einhverjar upplýsingar eða ábendingar um starf Hraunsins endilega sendið póst á thorunn@vidistadaskoli.is

Fréttir úr Álfakoti

Síðustu vikur hafa verið frekar skrítnar hjá okkur í Álfakoti en erum við búin að nýta ímyndunaraflið mikið og leyfðum krökkunum að taka mikinn þátt í að ákveða hvað var í boði.

Það var mikið leikið, föndrað, perlað og dansað og fara allir hóparnir út að leika hjá okkur á hverjum degi.


Hóparnir hafa verið að finna upp á ýmsu skemmtilegu að gera eins og að búa til leikrit, nota límband til að gera gervineglur, stofna nuddstofu, sameiginleg legó-verkefni, perla, hlutverkaleikir og orðaleiki á töflunum.

Smásögukeppni Hraunsins

Félagsmiðstöðin þurfti að hugsa í lausnum eftir að samkombann var sett á þann 13. mars.

Við settum af stað smásögukeppni á miðstigi þar sem þemað var Vinátta.


Við fengum alveg ótrúlega flottar og hugmyndaríkar sögur í keppnina en það var aðeins einn sigurvegari og það var hún Hekla Mist í 6. JÓ.


Dómarar voru allir á sama máli "Ótrúlegt hugmyndaflug og skemmtileg saga"


Það fá allir þátttakendur viðurkenningjaskal eftir helgina.

Hér fyrir neðan er sagan hennar Plánetan.


Hér er sagan hennar Plánetan.

Big picture

Fréttir úr Hraunkoti

Það hefur gengið vel hjá okkur undanfarnar vikur með starfið á nýjum stað.


Við förum alltaf í útiveru á hverjum degi og mikið sem veðrið hefur verið dásamlegt undanfarna daga.


Starfið er byggt upp þannig að við reynum að láta öllum líða vel og erum svolítið að njóta samverunnar. Við höfum verið dugleg að lita, leika, spila, turnar byggðir úr kaplakubbum, föndrum mikið og höfum bara soldið gaman saman.


Á föstudögum reynum að hafa svolítið extra gaman, svona smá föstudagsfjör.


Næstkomandi mánudag þann 4. maí hefst hefðbundið starf aftur, foreldar með börn í Hraunkoti hafa fengið nánari upplýsingar um starfið sent í tölvupósti.

Heimaskólavefur Víðistaðaskóla

Í mars var búinn til vefur sem við köllum Heimaskóli Víðistaðaskóla og nýtist hann kennurum, foreldrum og nemendum. Þar er m.a. að finna tengla á hinar ýmsar vefsíður og smáforrit. Þessi vefur verður í áframhaldandi þróun þar sem nýtt efni verður sett reglulega inn.