Flataskólafréttir

Skólaárið 2020-2021 - 4. janúar 2021

Kæra skólasamfélag!

Gleðilegt nýtt ár og bestu þakkir fyrir samstarfið á liðnu ári!

Við erum væntanlega öll full vonar og eftirvæntingar um að nýtt ár beri með sér betri tíð hvað varðar sótthættu og viðbrögð við henni. Nú hefur reyndar tekið gildi ný reglugerð um skólahald sem hefur í för með sér verulegar tilslakanir á sóttvörnum og mun hún gilda til loka febrúar ef ekkert óvænt kemur uppá. Reglugerðin kveður á um að hafa megi allt að 50 nemendur í sama rými (aukið svigrúm hvað varðar ganga, fatahengi og mötuneyti), nú mega nemendur aftur fara á milli hópa óháð árgöngum o.fl. Við getum því byrjað árið með skólastarfi með hefðbundnum hætti að nánast öllu leyti. Undantekningin er morgunsamverur en þær þurfum við að skipuleggja með 50 nemenda hópum. Þá höldum við áfram um sinn að skammta nemendum matinn, starfsfólk þarf að gæta að fjarlægð sín á milli, heimsóknir utanaðkomandi í skólann eru takmarkaðar og við þurfum að sjálfsögðu að gæta að einstaklingsbundnum sóttvörnum. Engu að síður gefur þetta fyrirheit um að við færumst nær eðlilegu lífi á öllum sviðum en það er um að gera að halda úti fullri varúð þar til lokatakmarkinu er náð.

En burtséð frá Covid og öllu því horfum við í Flataskóla björtum augum til ársins framundan og erum þess fullviss um að það beri með sér árangursríkt og skemmtilegt skólastarf!


Bestu kveðjur!

Ágúst skólastjóri

Áframhaldandi takmarkanir á heimsóknum í skólann

Við minnum á tilmæli frá almannavörnum um að til að draga úr smithættu, þá komi foreldrar, (eða aðrir fullorðnir) ekki inn í skóla barna sinna nema þeir séu boðaðir þangað sérstaklega og þá sé smitgát viðhöfð.

Helstu viðburðir framundan

  • 4. jan. - Kennsla hefst að loknu jólafríi skv. stundaskrá
  • 1. feb. - Samtalsdagur - viðtöl við umsjónarkennara - nánar auglýst síðar
  • 17. feb - Öskudagur - stuttur dagur hjá nemendum
  • 22.-25. feb - Vetrarfrí
  • 26. feb - Skipulagsdagur í leik- og grunnskólum Garðabæjar

Mikilvægi góðra samskipta

Í Garðabæ hafa bæði sveitarfélagið og skólar þess lagt ríka áherslu á þá skyldu sína að tryggja á öllum tímum, velferð, vellíðan og öryggi allra nemenda. Mikilvægt er að vinna saman að því að tryggja góð samskipti til að fyrirbyggja einelti innan skólanna sem og innan samfélagsins í heild. Góð samskipti, miðlun góðra lífsgilda, regluleg fræðsla og umræður um samskiptavanda og eineltismál og afleiðingar þeirra eru nauðsynlegar.
Í frétt á vef Garðabæjar má sjá upplýsingamyndband þar sem þau Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Björgvin Páll Gústafsson, landsliðsmarkvörður í handbolta, og Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við HÍ og ráðgjafi hjá KVAN, fjalla um góð samskipti og mikilvægi þess að sporna við einelti.
Myndbandið er einnig aðgengilegt á fésbókarsíðu Garðabæjar


Endurskoðun áætlana

Endurskoðun þeirra áætlana sem unnið er eftir stendur sífellt yfir og tekið mið af nýrri reynslu og þekkingu sem bætist við eftir því sem unnið er úr málum innan skólanna. Vinna við endurskoðun eineltisáætlunar Garðabæjar er í vinnslu og er unnin í samstarfi við ráðgjafar- og fræðslufyrirtækið KVAN, sem sérhæfir sig m.a. í ráðgjöf og stuðningi fyrir fólk sem vinnur með börnum og ungu fólki.

Á vorönn verður Garðabær fyrsta sveitarfélagið sem tekur þátt í forvarnaverkefninu ,,Við sem lið” sem Björgvin Páll Gústafsson leiðir og verður prófað í fyrsta sinn í Garðaskóla. Um er að ræða verkefni sem verður unnið með einum bekk í Garðaskóla.

Á vef Garðabæjar er hægt að lesa nánar um forvarnir gegn einelti

Vegna ferðalaga erlendis

Skv. tilmælum almannavarna sem gefin voru út í byrjun desember er mælst til þess að börnum á leik- og grunnskólaaldri sé haldið heima þar til niðurstöður hafa borist úr seinni sýnatöku eftir komu til landsins ef farið er erlendis. Nánari upplýsingar má nálgast hér.

Viðbrögð við óveðri

Nú er kominn sá árstími að allra veðra er von og því rétt að vekja athygli foreldra á upplýsingum sem varð viðbrögð við óveðri. Skólastarf fellur ekki niður nema tilkynnt sé um það sérstaklega. Í upphafi skóladags getur í verstu veðrum tafist að fullmanna skóla og mega forsjáraðilar þá búast við því að starfsfólk leiti liðsinnis þeirra.

Forsjáraðilar leggja ávallt sjálfir mat á það hvort fylgja þurfi barni í eða úr skóla vegna veðurs, óháð því hvort tilkynning hafi borist frá yfirvöldum. Meti forsjáraðilar aðstæður svo að ekki sé óhætt fyrir börn þeirra að sækja skóla skulu þeir tilkynna skólanum um það sem lítur þá á tilvikið sem eðlilega fjarvist. Sama gildir ef börn eða forsjáraðilar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa. Nánari upplýsingar um viðbrögð við óveðri má finna hér.

Bílastæði - varúð!

Á morgnana verður oft töluverður umferðarþungi við bílastæði skólans og mikillar varúðar þörf. Við hvetjum að sjálfsögðu til þess að sem flestir nemendur gangi eða hjóli í skólann og biðjum forráðamenn að skoða hvort þeir séu kannski að aka börnum sínum að óþörfu og taka þannig af þeim bráðholla hreyfingu!

Hina sem af ýmsum ástæðum þurfa að aka börnum sínum biðjum við um að sýna varúð og tillitssemi.


  • Aka mjög hægt og varlega inn á og um aðkomusvæði skólans
  • Skipuleggja kveðjur og hafa töskur tilbúnar þannig að viðvera á aðkomusvæði geti verið sem allra styst - Stoppa - kyssa - keyra
  • Leggja í stæði ef þörf er á að staldra við og fylgja börnunum að dyrum en nota annars sleppistæðinNýja hringtorgið á Vífilsstaðaveginum hjálpar okkur með að ekki myndast eins miklar stíflur og áður út af svæðinu, búið er að merkja sleppistæði og skammtímastæði en samt verður stundum varasamt ástand hjá okkur sem við getum lagað ef allir sýna varkárni og tillitssemi. Fyrirhugað er að bæta lýsingu á aðkomusvæðinu enn frekar en óvíst að það náist alveg á næstu vikum.

Skólamatur - áskrift

Við minnum á að breytingar á mataráskrift þarf að tilkynna fyrir 25. dag hvers mánaðar ef þeirra er óskað. Með því að smella á hlekkinn hér fyrir ofan má nálgast skráningarsíðu og áskriftarskilmála.

Opnunartími skrifstofu - skráningar fjarvista

Skrifstofa skólans er opin:
Mánudaga – fimmtudaga frá kl: 7:45 – 15:00.
Föstudaga frá kl. 7:45-14:30


Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti á netfangið flataskoli@flataskoli.is eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.

ATH - ef nemendur þurfa að fara í sóttkví biðjum við nemendur um að tilkynna það með tölvupósti á flataskoli@flataskoli.is


Leyfisbeiðnir fyrir nemendur

Nemendum er veitt leyfi til að sinna nauðsynlegum erindum. Mælst er til að leyfisbeiðnum sé haldið í lágmarki og jafnframt eru foreldrar/forráðamenn beðnir um að fara fram á þær með góðum fyrirvara sé þess nokkur kostur. Foreldrar eru beðnir um að sækja um leyfi hjá skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra ef óskað er eftir leyfi meira en tvo daga, (umsókn um leyfi) annars nægir að fá leyfi hjá umsjónarkennara.