Alþjóðadagur læsis

8. september 2017

Læsi er lykillinn

Frá árinu 1965 hafa Sameinuðu þjóðirnar helgað 8. september málefnum læsis. Í ár taka Íslendingar í áttunda skiptið þátt í þessum alþjóðlega degi og hafa Miðstöð skólaþróunar við HA, bókasafn HA, Amtsbókasafnið, Barnabókasetur og fræðslusvið Akureyrar starfað saman að undirbúningi ýmissa læsisviðburða í tilefni dagsins.

Dagskrá 8. september 2017

Fundur fólksins í Hofi


Kl. 12:00-17:00 – Læsi er lykillinn

Verið velkomin að kynningarborði Alþjóðadags læsis þar sem læsisstefnan Læsi er lykillinn verður kynnt, meðal annars verður boðið upp á líflegt spjall, lestrarhorn, fríar bækur og lestrarhvetjandi efni.


Kl. 15:00-15:30 – Sófaspjall
Ævar Þór Benediktsson, rithöfundur og leikari, verður sérstakur gestur í sófaspjalli á Alþjóðadegi læsis. Hann mun spjalla við mann og annan um læsi og lestraránægju. Ævar Þór fékk nýverið hvatningarverðlaun JCI sem framúrskarandi ungur Íslendingur 2017.


Kl. 16:30-17:30 – Penninn Eymundsson
„Lestrarvöfflur“ verða í boði fyrir gesti og gangandi og eru allir hvattir til þess að finna sér áhugavert lesefni, koma sér vel fyrir og gæða sér á „Lestrarvöfflum“ Ævar Þór Benediktsson mætir og les upp úr sínum uppáhalds bókum.


Viðburðir dagsins eru styrktir af Verkefnasjóði Háskólans á Akureyri.

Læsi er lykillinn

Haustið 2014 fór af stað vinna við mótun læsisstefnu Akureyrarbæjar. Skipulag vinnunnar tók mið af hugmyndum um lærdómssamfélag þar sem lögð var áhersla á að allir sem hlut eiga að máli kæmu að vinnunni, það er leik- og grunnskólakennarar, nemendur og foreldrar, stjórnendur, fræðslusvið og Miðstöð skólaþróunar.


Stefnan sem gefin verður formlega út á vef á degi læsis er afrakstur þriggja ára samvinnu þessara aðila.


Á Fundi fólksins verður hægt að kynna sér stefnuna og ýmislegt spennandi tengt læsi í bás Alþjóðadags læsis.

Sófaspjall með Ævari Þór Benediktssyni

Ævar Þór Benediktsson rithöfundur og leikari hefur brennandi áhuga á að efla menntun og lestur barna. Hann hefur staðið fyrir vinsælu lestrarátaki, samið og gefið út barnabækur og unnið áhugavert barnaefni um vísindi bæði fyrir sjón- og útvarp.


Það má með sanni segja að Ævar sé einn af helstu baráttumönnum fyrir eflingu læsis hjá íslenskum börnum og því tilvalið að taka létt sófaspjall með honum á degi læsis. Spjallað verður við Ævar á léttu nótunum um lestur, áhugahvötina, bækur, sýn hans á framtíðina og margt fleira.


Spjallið er á óformlegum nótum og gefst gestum og gangandi tækifæri til að hitta Ævar í eigin persónu og spyrja hann spjörunum úr um lestur og lestrartengd viðfangsefni.

Lestrarvöfflur í Eymundsson

Lestrarvöfflurnar í Eymundsson eru orðnar fastur liður á Alþjóðadegi læsis á Akureyri. Boðið verður upp á sjóðheitar, ilmandi vöfflur, kaffi og notalega stemmingu í bókabúðinni frá kl. 16.30–17.30.

Ævar Þór kíkir í heimsókn, les upp úr sínum uppáhalds bókum og spallar við gesti. Tilvalið að gæða sér á vöfflu, koma sér vel fyrir og kíkja í bækur og blöð.

Bókasafnsdagurinn 2017

Bókasafnsdagurinn er haldinn hátíðlegur á degi læsis, 8. september og er fólk, hvar sem það er í heiminum, hvatt til þess að lesa upp, segja sögur, fara með ljóð eða á annan hátt nota tungumálið til ánægjulegra samskipta.

Á Íslandi eru yfir 300 bókasöfn. Söfnin eru af ýmsum toga og þjóna bæði almenningi, námsmönnum og sérhæfðum verkefnum í stofnunum og einkafyrirtækjum. Á Íslandi eru mörg almenningsbókasöfn, skólabókasöfn, framhaldsskólabókasöfn, háskólabókasöfn, sérfræðisöfn og annarskonar sérhæfð bókasöfn. Líttu við á þínu bókasafni 8.september!
Big image

Læsi í víðum skilningi

Hvað er læsi?

Þegar hugtakið læsi ber á góma leiða margir fyrst hugann að umskráningarferli lestrar, því að þekkja stafi og hljóð og geta lesið texta með því tengja saman stafatákn og hljóðmyndir. Sú færni er vissulega mikilvægur þáttur í læsi en til að gagn verði af lestrinum er nauðsynlegt að geta túlkað og skilið það sem lesið er. Í dag er læsi því skilgreint sem þekking og leikni til skynja, skilja, túlka, gagnrýna og miðla texta í víðum skilningi.Læsiskennsla felur þar af leiðandi í sér fjölbreytta vinnu með mál, samskipti og miðlun.Í læsisstefnunni Læsi er lykillinn skiptist læsi í fjóra undirþætti:

  • Samræða, tjáning og hlustun
  • Lestur og lesskilningur
  • Ritun og miðlun
  • Lesfimi

Þessir fjórir þættir eru samofnir og færni í einum þætti hjálpar til við að efla færni í öðrum þætti.

Hvernig er hægt að efla læsi í víðum skilningi?


Samvera og spjall í dagsins önn eflir læsi í víðum skilningi. Á hverjum degi gefast ótal mörg tækifæri til að bæta við þekkinguna og vekja áhuga á einhverju nýju.


Nýtum tækifærin sem koma upp í daglega lífinu og gefum okkur tíma til að eiga gæðastundir saman. Veltum fyrir okkur því sem er að gerast í fréttunum, förum í göngutúr og skoðum umhverfið, eldum saman, segjum fjölskyldunni frá deginum okkar, heimsækjum ömmu og afa, skoðum bækur og lesum saman. Nýtum tímann vel og njótum samverunnar.

Að gera læsi hátt undir höfði

Skólar eru hvattir til að gera læsi sérstaklega hátt undir höfði á degi læsis. Tilvalið er að vera með upplestur á skemmtilegu efni, gefa viðbótartíma fyrir yndislestur eða hafa spilastund með læsisspilum eða snjalltækjaforritum af ýmsu tagi, svo sem Skrafli, Story creator, Rummikubb, Puppet Pals, söguteningum, Storybird, Fimbulfambi, Book creator, Sprengjuspilinu, Alias, krossorðateningum og spilum úr t.d. Byrjendalæsi.

Big image

Þátttaka í alþjóðlegri læsisráðstefnu UKLA

Bresku læsissamtökin UKLA (United Kingdom Literacy Association) voru stofnuð 1963. Í þeim starfa háskólakennarar, sjálfstætt starfandi rannsakendur, ráðgjafar og kennarar á öllum skólastigum.


Á vef samtakanna segir að meginmarkmið þeirra sé meðal annars að „efla læsismenntun með því að vera faglegur bakhjarl allra sem hafa áhuga á að efla þróun tungumálsins, læsi og samskipti, styðja þá við að mæta áskorunum á þessu sviði og stuðla almennt að ígrundun og samræðum um læsismenntun“. Samtökin halda úti fjölbreyttri starfsemi: Þau halda ráðstefnur innanlands, gefa út tímarit og annað efni um læsismenntun, veita viðurkenningar, meðal annars fyrir barnabækur, og síðast en ekki síst halda þau árlega alþjóðlega ráðstefnu um læsi og læsismenntun. Þótt þessi ráðstefna sé ekki fjölmenn er hún mjög alþjóðleg og hana sækja meðal annars fulltrúar frá frá Ástralíu, Nýja Sjálandi, Bandaríkjunum og Kanada.


Undanfarin fjögur ár hefur hópur frá Háskólanum á Akureyri sótt þessa ráðstefnu og haft mikið gagn af því að kynnast þeirri líflegu samræðu sem þar á sér stað um læsismenntun, milli háskólakennara, ráðgjafa og kennara á öllum skólastigum. Í ár voru starfsmenn HA meðal annars með kynningu á Byrjendalæsi og hefur aðferðin vakið athygli meðal aðila innan UKLA. Kynninguna er að finna HÉR.


UKLA leggur mikla áherslu á alþjóðlegt tengslanet og nýjung í starfi samtakanna er að tilnefna tengilið (sem kallaðir eru því virðulega nafni sendiherrar UKLA) í sem flestum löndum. Nú eru starfandi tengiliðir í Ástralíu, Bandaríkjunum, Írlandi, Íslandi, Kanada og á Spáni. Tengiliður UKLA á Íslandi er Rúnar Sigþórsson prófessor við HA (runar@unak.is).


Einstaklingar og stofnanir geta gerst meðlumir í UKLA og fengið þannig aðgang að ýmsu efni og afslátt af ritum sem gefni eru út á vegum samtakanna.