Fréttabréf Naustaskóla

3.tbl. 11.árg 2019 mars

Kæra skólasamfélag

Lífið gengur sinn vanagang í skólanum og nú er marsmánuður framundan með vetrarfríi, Stóru upplestrarkeppninni í 7. bekk, Skólahreysti, undirbúningi og æfingum fyrir árshátíð skólans og öllum hinum stóru og smáu atburðum sem setja lit á hversdaginn. Í skólastarfinu er það nefnilega þannig að það er nauðsynlegt að hafa ákveðið jafnvægi milli þess að hlutirnir gangi sinn vanagang og allt sé í góðri rútínu annars vegar, en að það séu á hinn bóginn líka uppákomur og uppbrot af ýmsu tagi til að hlakka til, halda upp á og minnast. Alveg eins og í lífinu sjálfu, enda er skólastarfið auðvitað hluti af því og kannski eins og þverskurður af lífinu, með stórum og smáum sigrum og áföllum, gleði og sorg. Enda allt til þess gert að þroska okkur og mennta þannig að við getum verið góðar manneskjur og haft áhrif til góðs. Það er verkefni marsmánaðar í Naustaskóla, eins og reyndar alla aðra mánuði. Því að þannig gerum við lífið dásamlegt, fyrir okkur sjálf og líka alla aðra!

Bryndís Björnsdóttir, skólastjóri

Á döfinni í mars

4.mars - Bolludagur

5.mars - Sprengidagur

6.-8.mars - Vetrarfrí (6.mars Öskudagur. Frístund lokuð eftir hádegi.)

Frístund er lokuð fyrir hádegi 7.-8.mars.

11.mars - samræmd próf 9.bekkur (íslenska)

12.mars - samræmd próf 9.bekkur (stærðfræði)

13.mars - samræmd próf 9.bekkur (enska)

13.mars - Undankeppni Naustaskóla - Stóra upplestrarkeppnin í 7.bekk

20.mars - Litla upplestrarkeppnin í 4.bekk Naustaskóla

29.mars - Starfsdagur (frístund opin)

Skóladagatal 2019-2020

Nú er skóladagatal næsta árs að byrja að taka á sig mynd. Ljóst er að skóli verður settur þann 22. ágúst og haust/vetrarfrí verða væntanlega 17– 18. október og 26. -28. febrúar. Gott að vita fyrir þá sem vilja skipuleggja sig lengra fram í tímann.

Mentor app!

Í október 2018 bauð mentor upp á app bæði í Android og apple síma. Það er almenn ánægja með þetta app og segja foreldrar að það sé mun auðveldara og þægilegra að fylgjast með námi barna sinna. Þess vegna hvetjum við ykkur eindregið til að ná í appið.

Hver og einn notandi getur stillt hvort hann vilji fá tilkynningar þegar nýjar skráningar koma inn eða hvort hann vilji fá yfirlit skráninga í lok dags. Til að skoða skráninguna frekar þarf aðeins að smella á hana og þá er viðkomandi kominn inn á sitt svæði í Mentor.

Þetta er leiðin sem nemendur og aðstandendur þurfa að fara til að setja upp appið
1. Verið með notandanafn og lykilorð við höndina
2. Skráið ykkur inn á Mentor
3. Fylgið leiðbeiningum á skjá

Innritun fyrir næsta ár

Þeir sem enn eiga eftir að innrita börn í 1. bekk fyrir næsta vetur, eða hyggja á skólaskipti fyrir börn sín þurfa að drífa í skráningum. Það er afar mikilvægt fyrir skóla bæjarins við skipulagningu næsta skólaárs að nemendatölur séu eins áreiðanlegar og framast er kostur. Skrá skal á heimasíðu skóladeildar www.skoladeild.akureyri.is

Leyfisbeiðnir

Við viljum árétta að þegar óskað er eftir leyfi fyrir nemendur í meira en tvo skóladaga þarf að senda beiðni þess efnis til skólastjóra. Umsjónarkennarar geta gefið leyfi í að hámarki tvo daga. Þá minnum við á að það er ábyrgð foreldra að nemendur sinni námi sínu þegar farið er í löng leyfi frá skóla

Fiskiþema í 2.-3.bekk

Í febrúar vann 2.-3. bekkur í fiskaþema þar sem aðaláherslan var á samvinnu nemenda og sjálfstæða upplýsingaöflun í fræðibókum, spjaldtölvum og úr útprentuðu efni. Í lok þemans var nemendum skipt í litla tveggja til fjögurra manna hópa og unnu þeir veggspjöld um hina ýmsu fiska. Á veggspjöldunum er að finna helstu upplýsingar um fiskana, til dæmis þær hættur sem steðja að þeim, hvað þeir borða og fleira sem nemendur vildu koma á framfæri. Nemendur voru mjög áhugasamir í vinnunni og unnu vel saman.

Skíðadagurinn gekk vel

Það var mikið stuð á skíðadeginum 7.febrúar og krakkarnir skemmtu sér mjög vel. Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá þessum flotta útivistardegi.

Skákmót 3.-5.bekk

Í vetur hefur Ákell Örn Kárason verið með skákkennslu í 3., 4. og 5. bekk. Að því tilefni var efnt til skákmóts hér í Naustaskóla þriðjudaginn 26. febrúrar sl. Áhuginn var mikill hjá nemendum og þátttakan í mótinu mjög góð.

Samvinnunám

Það var mikið um samvinnunám í 6.-7.bekk í febrúar mánuði. Nemendur unnu saman verkefni í ensku og einnig flott verkefni um mannslíkamann.
Big picture