Flataskólafréttir

Skólaárið 2022-2023 - 23. maí 2023

Kæra skólasamfélag!

Það er eitthvað hik á vorinu svona veðurfarslega séð, en vonandi eru nú samt allir með vor í sálinni enda sumarið alveg á næsta leyti! Undirbúningur næsta skólaárs er í fullum gangi og er gaman að segja frá því að það eru allar stöður hjá okkur fullmannaðar og útlitið er gott. Búið er að auglýsa útboð á framkvæmdum sem fara munu fram við skólann í sumar, tilboð verða opnuð þann 1. júní og framkvæmdir hefjast þá í framhaldinu. Nemendum skólans mun fækka töluvert milli ára enda útskrifum við liðlega 70 nemendur úr 7. bekk í vor en það verða hins vegar rétt rúmlega 30 nemendur sem hefja nám í 1. bekk í haust. Þar að auki flyst leikskóladeildin okkar annað þannig að það verða um 330 nemendur í Flataskóla á næsta skólaári sem er fækkun um 70 nemendur milli ára.

Þessa daga sem eftir eru af skólaárinu reynum við eftir megni að halda okkur að náminu en allra síðustu dagana breytum við aðeins til að venju, hlaupum í Unicef-hreyfingunni, förum í stuttar ferðir og leikum okkur örlítið. Skólatími nemenda verður þó hinn sami og venjulega þessa daga en skólaslitadagurinn er að venju mjög stuttur. Þar sem salurinn okkar er ennþá lokaður verða skólaslitin með örlítið öðrum hætti en venjulega. Nemendur mæta í sínar kennslustofur nema að útskrift 7. bekkinga mun fara fram í sal Garðaskóla.

Þar sem þetta er síðasta fréttabréfið sem undirritaður sendi ykkur, að minnsta kosti í bili, vil ég nota tækifærið og þakka gott samstarf á undanförnum árum. Það er gott að starfa í Flataskóla, hér er samheldið og uppbyggilegt skólasamfélag sem nýtur góðs af traustum starfsmannahóp og styðjandi foreldrum. Framtíðin er því sem fyrr björt fyrir skólann okkar.


Kærar kveðjur,

Ágúst skólastjóri

Skólastjóraskipti

Frá og með 1. ágúst næstkomandi verða skólastjóraskipti í Flataskóla.
Ágúst Jakobsson mun verða í leyfi frá Flataskóla næsta skólaár og gegna starfi fagstjóra grunnskóla í Suðurmiðstöð Reykjavíkurborgar. Heiðveig Hanna Friðriksdóttur hefur verið ráðin í starf skólastjóra þann tíma. Hanna er okkur að góðu kunn og er öllum hnútum kunnug í skólanum. Hún starfaði við Flataskóla á árunum 2011 til 2015 og aftur 2017 til 2022, síðustu tvö árin sem deildarstjóri. Á yfirstandandi skólaári hefur hún verið deildarstjóri við Skarðshlíðarskóla í Hafnarfirði og svo hefur hún reyndar einnig verið formaður Foreldrafélags Flataskóla í vetur. Hanna tekur formlega til starfa 1. ágúst.

Skólaslit

Skólaslit Flataskóla vorið 2023 verða miðvikudaginn 7. júní sem hér segir:

o Kl. 8:30 - 1.-2. bekkur – í kennslustofum

o Kl. 9:30 – 3.-4. bekkur – í kennslustofum

o Kl. 10:30 - 5.-6. bekkur – í kennslustofum

o Kl. 12:00 - útskrift 7. bekkjar – í Garðaskóla

o Kl. 15:00 - útskrift 5 ára nemenda – á deild

Helstu viðburðir á næstunni

 • 29. maí - Annar í hvítasunnu - Frí
 • 2. júní - Unicef hreyfingin
 • 5. júní - Útivistardagur
 • 6. júní - Flataskólaleikar
 • 7. júní - Skólaslit
 • Sumarfrí grunnskólanemenda 8. júní til 22. ágúst
 • 14. ágúst - Sumarfrístund verðandi 1.b hefst
 • 23. ágúst - Skólasetning

Unicef hreyfingin

UNICEF - Hreyfingin er fræðslu- og fjáröflunarverkefni fyrir grunnskólabörn á Íslandi sem Flataskóli hefur tekið þátt í árum saman. Þátttaka í verkefninu er enda í góðu samræmi við stöðu skólans sem "réttindaskóli Unicef" en markmið þess er að fræða börn um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og virkja þau til samstöðu með jafnöldrum sínum víða um heim. Börnin fá fræðslu um réttindi sín, störf UNICEF í þágu allra barna og ólíkar aðstæður jafnaldra sinna í öðrum löndum. Hugmyndin er að þau átti sig á að öll börn eiga sömu réttindi og að saman geti þau lagt sitt af mörkum til að gera heiminn að betri stað. Talsmaður UNICEF - Hreyfingarinnar er Ævar Þór Benediktsson, leikari og rithöfundur. Ævar hefur einstakt lag á að miðla flóknum viðfangsefnum til barna. Í fræðslumyndböndum UNICEF - Hreyfingarinnar beinir Ævar sjónum okkar að ólíkum aðstæðum barna um víða veröld og setur í samhengi við mannréttindi barna. Við nýtum myndböndin til að fræða börnin og vekja umræður um aðstæður og réttindi barna og að fræðslu lokinni stendur skólinn fyrir hreyfiverkefni sem helgað er verkefninu. Að þessu sinni verður Unicef-hreyfingin hjá okkur föstudaginn 2. júní. Markmiðið er að gefa börnunum kost á að leggja sitt af mörkum með því að safna áheitum úr sínu nánasta umhverfi. Lagt er út frá því að margt smátt geri eitt stórt. Áhersla er því alls ekki lögð á háar upphæðir heldur að börnin upplifi samtakamáttinn sem felst í því að allir vinni saman og leggi sitt af mörkum til mannúðarmála. Á viðburðadeginum fá börnin afhendan heimspassa sem er límmiðabók en jafnframt heimskort og minnir á að öll börn, um allan heim, eiga sömu réttindi. Börnin safna límmiðum í heimspassann sinn og fá einn miða fyrir hvert unnið verk / hverja vegalengd sem þau fara. Styrktaraðilar fara síðan inn á slóðina hér fyrir neðan og skila þar inn framlögum sínum:

https://sofnun.unicef.is/participant/flataskoli-hreyfingin-2023

Óskilafatnaður

Að venju hefur töluvert safnast af óskilafatnaði hjá okkur í vetur. Við biðjum foreldra um að kíkja endilega við á skólaslitum eða einhvern daginn í skólaslitavikunni og athuga hvort hér leynist eitthvað sem hefur verið saknað. Óskilaföt munu hanga á snögum við kennslustofur barnanna þannig að hægt verður að nálgast þau þar til 12. júní en eftir þann tíma munum við taka þau saman og fara með í Rauða krossinn til endurnýtingar.

Schoolovision

Hin árlega Schoolovision keppni var haldin vikuna 8.-12. maí og fór lokahátíð keppninnar fram föstudaginn 12. maí. Í keppninni voru 26 framlög að þessu sinni frá jafnmörgum Evrópulöndum. Okkar framlag var flutt af stúlkum úr 4. bekk og má sjá það hér fyrir neðan.

Að lokum voru það fulltrúar Úkraínu sem fóru með sigur af hólmi annað árið í röð. Okkar fulltrúar fengu fullt af stigum og höfnuðu í níunda sæti sem er að sjálfsögðu prýðilegur árangur!

Ó geit - Flataskóli 2023

Skráning í Krakkakot næsta skólaár

Hefðbundin skráning á frístundaheimili fyrir veturinn 2023-2024 fer fram á heimasíðu Garðabæjar í gegnum þjónustugáttina á gardabaer.is. Skráning fyrir veturinn 2023-2024 er þegar hafin og skal fara fram fyrir 15. júní 2023. Öllum börnum sem skráð eru fyrir 15. júní eða fyrr er tryggð dvöl á frístundaheimili frá og með 24. ágúst, eftir þann tíma er hugsanlegt að einhverjar tafir geti orðið á því að barn geti hafið dvöl sína en það ræðst af starfsmannahaldi á hverju frístundaheimili. Bent er á að sækja þarf sérstaklega um systkinaafslátt á heimasíðu Garðabæjar.

Umsjónarkennarar næsta skólaárs

Nú liggur fyrir skipan umsjónarkennara fyrir næsta skólaár og má sjá hana hér fyrir neðan (með öllum löglegum fyrirvörum um að stundum breytist eitthvað yfir sumarið)


1. bekkur – Erna Þorleifsdóttir og Rakel Svansdóttir

2. bekkur – Sif H. Bachmann og Svanhvít Guðbjartsdóttir

3. bekkur – Bryndís Rut Stefánsdóttir og Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir

4. bekkur – Auður Gunnarsdóttir, Halla Rósenkranz Guðmundsdóttir og Þórdís Þórðardóttir

5. bekkur – Andri Marteinsson, Anna Lind Þórðardóttir og Kristín Ósk Þorleifsdóttir

6. bekkur – Elísabet Blöndal, María Hrönn Valberg og Nína Jenný Kristjánsdóttir

7. bekkur – Auður Skúladóttir, Elín Ása Þorsteinsdóttir, Erla Björg Káradóttir og Hanna Lóa Friðjónsdóttir

Námsmat

Á síðustu tveimur árum höfum við gert breytingar á námsmati nemenda í Flataskóla í takt við áherslur Aðalnámskrár grunnskóla (2013). Þar er gengið út frá að nám sé miðað við svokölluð hæfniviðmið en þau eru lýsing á þeirri hæfni sem stefnt er að í náminu. Mat á náminu felst því fyrst og fremst í að skoða og meta hvernig nemandi stendur miðað við þau hæfniviðmið sem stefnt er að og matinu er safnað á svokölluð hæfnikort sem vistuð eru í námskerfinu Mentor. Þar hafa aðstandendur aðgang að mati á þeim viðmiðum sem metin eru hverju sinni og bætist við mat á hæfnikort nemenda eftir því sem náminu vindur fram. Sömu hæfnikort á hverju námssviði gilda annars vegar fyrir 1.-4. bekk og hins vegar fyrir 5.-7. bekk. Ekki eru lengur reiknaðar út tölulegar einkunnir nema fyrir einstök verkefni.

í Flataskóla er hæfni nemenda í hverjum námsþætti metin með eftirfarandi matskvarða:


 • Framúrskarandi
 • Hæfni náð
 • Á góðri leið
 • Þarfnast þjálfunar
 • Hæfni ekki náð


(Í mentor eru notuð tákn fyrir hvert einkunnarorð og má sjá þau á myndinni sem fylgir þessum pistli - hægt er að smella á myndina til að stækka hana)


Rétt er að árétta að algengast er að nemendur fái einkunnirnar „á góðri leið“ eða „hæfni náð“ sem gefur til kynna að nemandi sé á góðri leið með að hafa náð þeim viðmiðum sem sett eru á hverjum tíma eða hafi þegar náð þeim. „Framúrskarandi“ er eins og skilja má frekar fátíð einkunn enda hefur nemandi þá farið umfram sett viðmið og sýnt framúrskarandi árangur.

Hér má sjá yfirlit yfir hvernig námsmat nemenda í Flataskóla er birt eftir árgöngum:


 • 1.-3. bekkur - Hakað við hæfniviðmið á hæfnikortum nemenda.
 • 4. bekkur - Hakað við hæfniviðmið á hæfnikortum nemenda. Einnig hakað við heildarmat á hæfnikortum í lok skólaárs og gefin þar hæfnieinkunn. Vitnisburðarblað með heildarmati prentað út og afhent.
 • 5.-6. bekkur - Hakað við hæfniviðmið á hæfnikortum nemenda.
 • 7. bekkur - Hakað við hæfniviðmið á hæfnikortum nemenda. Gefinn bókstafur (A-D) í lok árs á grundvelli matsviðmiða í íslensku og stærðfræði. Hakað við heildarmat á hæfnikortum í öðrum námsgreinum og gefin þar hæfnieinkunn. Vitnisburðarblað með heildarmati prentað út og afhent við útskrift.


Núna allra síðustu daga skólaársins er lokað fyrir birtingu á hæfnikortum nemenda á mentor en námsmat verður sýnilegt þar á skólaslitadaginn þann 7. júní.

Skóladagatal næsta skólaárs

Skóladagatal næsta skólaárs má sjá hér fyrir neðan (hægt að smella á myndina til að fá fulla stærð). Skólasetning verður 23. ágúst, vetrarleyfi dagana 19.-23. febrúar og skólaslit 7. júní.

Opnunartími skrifstofu

Skrifstofa skólans er opin kl. 7:45-16:00 alla daga vikunnar nema á föstudögum til kl. 14:30

Hægt er að senda skólanum tölvupóst á netfangið flataskoli@flataskoli.is


Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.

Um leyfisbeiðnir o.fl. - sjá hér.