Fréttabréf forseta DKG

Febrúar 2020

Nýja árið byrjar með miklum krafti, einkum er það náttúran, sem sýnir styrk sinn hér á landi. Vonandi dregur félagsstarfið dám af þessum mikla krafti og blómstrar sem aldrei fyrr. Ég óska ykkur gleðilegs nýs félagsárs og þakka ykkur samstarf og samskipti á liðnu ári.

Uppfærsla félagatals

Reglum um greiðslu félagsgjalda var breytt á síðasta landssambandsþingi. Samkvæmt 4. lagagrein E 1ber félagskonu að greiða árleg félagsgjöld í síðasta lagi 30. júní vegna næsta starfsárs. Og samkvæmt sömu lagagrein E 4 fellur félagskona sem ekki stendur í skilum með félagsgjald af félagalista 1. október.

Í reglugerðinni 1. grein E kemur fram að hafi félagskona ekki greitt gjaldið fyrir tilskilinn tíma skal formaður deildar ræða við hana og hvetja hana til að greiða. Ef félagskona ákveður að ganga úr samtökunum skal úrsögn vera skrifleg. Tilkynna skal úrsögnina til landssambandsstjórnar, gjaldkera landssambandsins og félaga- og útbreiðslunefndar.


Nú er fram undan að yfirfara félagatalið, en það mun félaga- og útbreiðslunefndin gera. Það er því mikilvægt að formenn ásamt gjaldkerum skoði vandlega stöðu félagsaðildar deilda sinna og sendi viðeigandi tilkynningar samkvæmt ákvæðum laga og reglugerðar.

Lagabreytingar

Vegna misvísandi upplýsinga frá alþjóðasambandi DKG fór lagabreyting sem er ekki í takt við lög alþjóðasambandsins í gegn á síðasta landssambandsþingi. Málið varðar umsóknir um aðild að DKG. Ég sendi tölvupóst til formanna og bað deildir um að halda að sér höndum varðandi þennan möguleika. Hafi einhver deild kynnt þennan möguleika út á við skiptir máli að meðhöndlun umsókna sé með sama hætti og áður. Það ferli er skýrt í lögum og reglugerð.

Framkvæmdaráðsfundur í maí

Á síðasta framkvæmdaráðsfundi var samþykkt að framkvæmdaráðið myndi hittast á aukafundi til að ræða um Strategic Plan fyrir samtökin á Íslandi. Það er spurning um hvort ekki sé best að tengja þennan fundi við vorráðstefnuna okkar sem verður 9. maí í Borgarnesi. Við myndum þá halda framkvæmdaráðsfundinn á föstudeginum fyrir ráðstefnuna. Ég mun senda út póst til formanna um málið fljótlega.

Vorráðstefnan í Borgarnesi

Ráðstefnan verður haldin þann 9. maí á B59 hóteli í Borgarnesi. Hótelið hefur gert okkur gott tilboð í gistingu bæði fyrir og eftir ráðstefnuna. Tilboðið gildir út febrúar. Drífið í því að bóka herbergi áður en tilboðið rennur út

International Achievement Award

Frestur til að tilnefnda konu til International Achievement Award rennur út 1. mars næstkomandi. Þær sem hafa áhuga á að tilnefna til þessarar viðurkenningar eiga að gera það á eyðublaði sem finna má á vef alþjóðasamtakanna https://www.dkg.org/, undir Apply/Submit og síðan Applications

Kosning stjórna í deildum

Á aðalfundi deilda í vor fer fram stjórnarkjör í deildunum. Kosning uppstillingarnefndar fer fram á deildarfundi í síðasta lagi 3 mánuðum fyrir aðalfund. Uppstillingarnefndin á síðan að skila tillögum til stjórnar eigi síðar en 2 mánuðum fyrir aðalfund.

Kjörtímabilið er tvö ár, en heimilt er að sitja tvö kjörtímabil í röð. Enginn nema gjaldkeri má gegna sama embætti lengur en tvö kjörtímabil

Ráðstefna bresku DKG samtakanna

Evelyn Goodsell forseti DKG í Bretlandi hafði samband við mig og bað mig að láta ykkur vita að árleg ráðstefna samtakanna á Stóra Bretlandi verður haldin 24.-26. apríl 2020 í Kent. Ráðstefnan mun fjalla um vellíðan (wellbeing), en það hugtak er mikið rætt um þessar mundir. Hægt er að skrá sig á ráðstefnuna gegnum vefinn þeirra. Bresku systur okkar vonast eftir þátttöku frá Evrópu. Við erum allar velkomnar

Alþjóðaþingið í Philadelphia

Alþjóðaþing DKG verður haldið dagana 6.-12. júlí næstkomandi. Allar upplýsingar eru á heimasíðu alþjóðsamtakanna https://www.dkg.org/, þar er einnig hægt að skrá sig á ráðstefnuna og viðburði hennar ásamt því að bóka hótel.

Benda má á að það er auðveldara fyrir okkur að sækja þingið núna, þar sem flogið er beint frá Íslandi til Philadelphia