Tjáskipti skipta máli

Augnstýring í Klettaskóla

Nýtt skólaár og framkvæmdir

Nú er nýtt skólaár hafið í Klettaskóla og nemendur koma sælir aftur í skólann eftir vætusamt sumar. Miklar breytingar hafa átt sér stað í skólahúsnæðinu að undanförnu. Þessa dagana er verið að klára framkvæmdir á ýmsum stöðum í húsinu og óhætt að segja að við séum að fá fyrsta flokks aðstöðu bæði innandyra og utan. Mikil ánægja ríkir með þessar frábæru breytingar sem orðið hafa á húsnæðinu og eru þær til mikilla bóta fyrir kennara og nemendur skólans.
Big picture

Augnablik

Ný aðstaða og nýtt nafn

Augnstýrirýmið hefur verið flutt af jarðhæðinni á góðan stað miðsvæðis í skólanum. Það hefur nú fengið nafnið "Augnablik". Stofan er falleg og rúmgóð og þar fer vel um okkur. Þar höfum við tækifæri til að hafa samverustund með þeim nemendum sem eiga búnað. Komið er saman einu sinni í viku þar sem nemendur æfa sig að svara spurningum og tjá sig um daginn í dag, veðrið og fleira. Annars höldum við áfram að þróa kennslu á augnstýribúnaðinn og á hin ýmsu tjáskiptaborð og tjáskiptabækur. Hafa ber í huga að þegar verið er að leita leiða til að auka tjáskipti nemenda þá skiptir máli að prófa fjölbreyttar aðferðir. Það sem virkar fyrir einn, virkar ekki endilega fyrir annan. Með opnum huga þarf að mæta nemendum þar sem þeir eru staddir og reyna eftir fremsta megni að finna leiðir sem virka. Augnstýring virkar fyrir suma, spjaldtölvur fyrir aðra og jafnvel hljóðræn skönnun fyrir enn aðra. Samhliða hinum ýmsu aðferðum notum við tákn með tali til að leggja áherslu á orð og styðja við tungumálið. Við fögnum komandi vetri og hlökkum til að takast á við áskoranir og ævintýri skólaársins.
Big picture

Emma Lilja þakkar fyrir sig

Gaman er að fylgjast með framförum nemenda og skrefin sem stigin eru, ekkert annað en stórkostleg. Til dæmis það að geta tjáð sig um hádegismatinn -að geta beðið um meira, sagt frá þegar ekki er pláss fyrir meira, hvort maturinn sé góður eða vondur, biðja um hjálp og fleira. Þetta er okkur flestum sjálfsagður hlutur og með hjálp tækninnar er þetta einnig mögulegt fyrir þá sem eru að læra að nota augun til að tjá sig. Það er ómetanlegt þegar við upplifum gagnkvæman skilning og að nemandinn hefur tækifæri á að tjá sig um daglega lífið eins og við hin.
Emma Lilja þakkar fyrir sig

Sono Flex

Sono Flex er eitt af tjáskiptaforritum Communicator 5. Nú er hægt að nota light þýðingu af Sono Flex á íslensku. Emma Lilja hefur verið að prófa sig áfram við að nota tjáskiptabókina og stakar síður í Sono Flex með góðum árangri. Orðaforðinn er fjölbreyttur og bókin nokkuð flókin en það er áskorun bæði fyrir hana og þá sem að henni standa að tala við hana í Sono Flex og einstaklega ánægjulegt þegar framfarirnar fara sýna sig. Hér má sjá örstutt myndband þar sem Emma Lilja er að spjalla á síðu í tjáskiptabókinni að "lesa"
https://www.youtube.com/watch?v=NdaRha4PaXI

Guðrún Sædal skilar heimaverkefni

Í hverri viku er frásögn í bekknum hennar Guðrúnar Sædal. Með einföldu tjáskiptaborði getur Guðrún Sædal sjálf sagt frá atburðum helgarinnar. Tjáskiptaborðið búa foreldrar hennar til heima og hún kemur með það í skólann í tækinu sínu. Hún hefur einstaklega gaman af því að segja frá því hvað á dagana drífur og fer markvisst á milli myndanna og passar að engin verði útundan.
https://www.youtube.com/watch?v=T_q35U9IyKo