Fréttabréf Kópavogsskóla

des. 2017

Endurbætur á eldhúsi

Bæjarstjórn Kópavogs hefur samþykkt fjárveitingu til endurbóta og breytinga á eldhúsi Kópavogsskóla. Að endurbótunum loknum verða til staðar allar forsendur til þess að elda á staðnum. Því ber að fagna og lögð verðu áhersla á að öllum breytingum verði lokið fyrir upphaf skólaársin 2018-2019. Stefnt er að því að hefja undirbúning með fulltrúum frá Eignadeild Kópavogsbæjar í upphafi nýs árs og að sjálfsögðu munu fulltrúar allra aðila skólasamfélagsins koma að þeirri vinnu.

Niðurstöður samræmdra prófa

Niðurstöður samræmdra könnunarprófa fyrir nemendur í 4. og 7. bekk frá í lok september hafa nú verið birtar í gagnagrunni Menntamálastofnunar (sjá tengil hér fyrir ofan). Nemendur í 4. og 7. bekk taka próf í íslensku og stærðfræði og nemendur í 9. (og 10. bekk) taka að auki próf í ensku en þau próf eru tekin í mars. Í töflunni hér fyrir neðan má sjá heildarniðurstöður Kópavogsskóla fyrir árið 2017.
Big image
Í töflunni má sjá niðurstöðurnar flokkaðar eftir námsgreinum og árgöngum, fjölda sem tóku viðkomandi próf (N) og meðaltal og þar er viðmiðunartalan stillt á 30 sem er þá meðaltal allra nemenda á landinu. Ef talan er hærri en 30 er viðkomandi hópur/nemandi yfir landsmeðaltali en ef talan er undir 30 er viðkomandi nemandi/hópur undir landsmeðaltali.


Fyrr í haust fengu foreldra barna í 4. og 7. bekk sendar niðurstöður fyrir sitt barn og fljótlega fá þeir sýnispróf af prófi viðkomandi nemanda sent heim. Þar er nokkur vandi á ferð því Menntamálastofnun sendir ekki afrit af prófunum sjálfum heldur er búið að taka prófspurningarnar út og setja sambærilegar spurningar (eða lýsingu á spurningunum) í staðinn! Það gera þeir vegna þess að þær vilja geta nýtt spurningarnar aftur og þrátt fyrir mótmæli skólanna hefur þessu ekki fengist breytt. Á sýnisprófunum má þó sjá hvort nemandinn hefur svarað spurningunni rétt eða rangt og því hægt að átta sig á villum sem hann gerði í prófinu.En hvað gerist í kjölfar þess að niðurstöður berast skólanum? Skólastjórnendur, umsjónarkennarar, sérkennarar og námsráðgjafi skoða í sameiningu einkunnir allra nemenda. Á fundinum er lagt mat á þörf fyrir sérstaka aðstoð og þá möguleika sem skólinn hefur á að veita hana. Sérkennsla er endurskipulögð og getur falist í aukinni aðstoð sérkennara í bekkjarstofum eða að nemandi fái séraðstoð í stofu sérkennara. Aðstoðin er ýmist tímabundin eða til lengri tíma eftir því hver staðan er. Ef barn þarf verulega aðstoð er útbúin einstaklingsnámskrá með skilgreindum markmiðum í samstarfi við viðkomandi foreldra.


Prófin hafa tekið töluverðum breytingum undanfarin ár og þau mæla færri þætti en áður. Nú er til dæmis ekkert prófað í stafsetningu og ritun svo íslenskuprófið gefur ekki lengur heildarmynd af getu nemandans. Það getur virkað í báðar áttir og verið jákvætt fyrir suma og neikvætt fyrir aðra. Með tenglinum á vef Menntamálastofnunar hér fyrir ofan er hægt að tengjast gagnagrunni þar sem hægt er að fletta upp ýmsum upplýsingum um niðurstöður prófana og skoða meðaltöl.

Skil skólastiga

Fyrir nokkrum árum óskaði Kópavogsskóli eftir heimild til að stofna deild fyrir 5 ára nemendur við skólann. Á þeim tíma hafði fækkað töluvert í skólanum og því pláss fyrir slíka deild (en síðan hefur orðið mikil fjölgun og engar stofur lausar í dag). Bæjaryfirvöld höfnuðu ósk um 5 ára deild en lagt var til sett yrði á gang vinna við að skoða skil leik- og grunnskóla og hvernig hægt væri að efla samstarf á milli þeirra. Vinnuhópur var settur á fót og hann skilaði af sér skýrslu sl. vor og hún síðan lögð fyrir menntaráð og bæjarstjórn í haust. Í skýrslunni er yfirlit yfir vinnu hópsins og ýmar hugmyndir og tillögur. EIn tillagan snýr beint að Kópavogsskóla og er svohljóðandi:


,,Lagt er til að menntasvið fari í tilraunaverkefni með Kópavogsskóla og Leikskólanum Urðarhóli/Skólatröð um víðtækt samstarf sem snýr m.a. að nýtingu húsnæðis og mannauðs. Verkefnið yrði skilgreint nánar í samstarfi við skólastjóra, foreldra og starfsfólk."


Skólastjórar Urðarhóls og Kópavogsskóla og starfsfólk á menntasviði hafa haldið einn undirbúningsfund en farið verður í að forma verkefnið með öllum aðilum í upphafi nýs árs. Um mjög spennandi verkefni er að ræða og áhugavert að sjá til hvers það leiðir. Skýrsluna verður fljótlega hægt að nálgast á vef Kópavogsbæjar og vef Kópavogsskóla.

Skólaaskur - rýnihópar

Fulltrúar frá Skólaaski hittu fulltra frá öllum deildum nýverið til að ræða við þá um matinn sem boðið er upp á í hádeginu. Umræðurnar fóru fram á bókasafni skólans og tóku rúmlega eina klukkustund. Fundurinn var mjög fróðlegur og gagnlegur og nemendurnir voru fúsir til að segja hug sinn og koma með óskir um breytingar. Allt sem kom fram á fundinum var skráð niður og minnispunktarnir eru svohljóðandi:


Það sem mætti bæta: • Soðinn fiskur – eldri nemendum fannst hann mega vera meira kryddaður. Útskýrt var að verið er að elda fyrir breiðan aldurshóp og yngstu börnin þola minna krydd en þau eldri. Til að koma til móts við það er bæði að finna salt og pipar á salatbarnum en tryggja þarf að það sé alltaf til staðar.
 • Hitastig matar – fiskurinn stundum orðinn kaldur þegar unglingadeildin kemur í mat. Verður rætt strax við starfsfólk í eldhúsi.
 • Grænmetissúpan m/linsubaunum – finnst hún hvorki nógu matarmikil né bragðgóð. Verður endurskoðuð.
 • Kartöflumús – mörgum fannst að hún mætti vera bragðbetri. Verður strax rætt við kokkana.
 • Fetaostur - hafa hann sér í salatbarnum, ekki blanda honum saman við pasta.
 • Skömmtun á mat – sumum finnst of mikið sett á diskana, vilja frekar fá minna og fá þá að koma aftur. Verður strax rætt við starfsfólk í eldhúsi og við skömmtun.
 • Ávextir – passa að þeir séu ekki búnir úr salatbarnum þegar unglingadeildin kemur. Verður rætt strax við starfsfólk í eldhúsi.Það sem gengur vel: • Salatbar – ánægja með hann, sérstaklega þegar það eru ávextir og pasta í barnum.
 • Fiskur – yfirleitt góður en mætti vera meiri fjölbreytni.
 • Skyr – finnst gott að fá vanilluskyrið og hafa val um margar tegundir af áleggi með brauðinu.
 • Mexikó súpa – finnst hún fín.
 • Gúllassúpa – finnst hún góð.
 • Blómkálssúpa – mjög góð, vinsælasta súpan að áliti nemenda.
 • Hakk og spagetti – þykir mjög gott, eitt af því besta sem er í boði.
 • Chili con carne – vekur lukku.
 • Kjúklingaleggir – mjög góðir.
 • Grjónagrautur – finnst hann góður.
 • Kalkúnn – voru mjög ánægð með kalkúninn sem var í boði til hátíðabrigða.
 • Allt gott – u.þ.b. 30% nemenda sögðu að þeim þætti allur maturinn góður og gátu t.d. ekki nefnt neinn rétt sem þeir myndu vilja taka út af matseðlinum.Óskir nemenda: • Súpur – eru hrifnir af súpum og vilja hafa þær oftar.
 • Pasta – vilja hafa pasta í aðalrétt og/eða í salatbar. Pasta hefur nú þegar verið bætt í salatbarinn og mun verða gert áfram. Hitt skoðað.
 • Hliðarréttur – finnst spennandi að hafa hliðarrétt. Er byrjað að þróa og bjóða upp á.
 • Pítur og/eða hamborgarar – vilja gjarna hafa slíkt á matseðli. Verður skoðað.
 • Lauksmjör – vilja gjarnan fá slíkt öðru hvoru með soðna fiskinum. Verður skoðað.
 • Fiskur – finnst oft soðinn fiskur, vilja meiri fjölbreytni. Verður skoðað.
 • Kjúklingur – vilja hafa kjúkling oftar, t.d. kjúklingalasagna. Verður skoðað.
 • Egg – skera þau í minni bita í salatbarnum.
 • Salatbar – hafa oftar safaríka ávexti í barnum og ekki blanda saman tegundum í eitt hólf.
Big image

Fjölgun nemenda

Nemendum skólans er stöðugt að fjölga og upprunalöndin fleiri en áður. Alls eru nú yfir 70 nemendur skólans af erlendum uppruna og þar af eru um 30 nemendur sem eru fæddir á Íslandi og hafa búið hér allan sinn aldur. Hinir hafa búið á landinu á bilinu 0-4 ár. Nemendur af pólskum uppruna eru stærsti hópurinn og okkur hefur auðnast að ráða til okkar pólskumælandi starfsmenn til að aðstoða þá og okkur í skólastarfinu. Það fylgir því töluvert álag fyrir alla aðila að vera með nemendur sem tala ólík tungumál í sama bekk en nemendurnir standa sig vel í samskiptunum og ekki síður kennararnir sem sinna fjölbreyttum nemendahópum af stakri prýði.