Hvalrekinn

Janúar 2019

Big picture

Í upphafi nýs árs

Ágætu foreldrar.

„Þannig týnist tíminn“ segir í laginu sem valið var óskalag þjóðarinnar fyrir nokkrum árum. Tíminn er nú ekki að týnast hjá okkur en hann þýtur alla vega áfram, skólaárið hálfnað og það er að koma að námsviðtölum sem verða á þriðjudaginn 29. janúar. Staðan hefur verið tekin hjá nemendum, hvar gengur vel og ekki síður hvar þarf að spýta í lófana. Hlökkum til að sjá ykkur í skólanum á þriðjudaginn.

Daginn er farið að lengja og eru flestir farnir að merkja það. Ekki skemmir fyrir að hafa snjóinn sem eykur birtuna til muna. Sjáum við að vel flestir nemendur njóta þess að hafa snjóinn þó komi nú fyrir að sumir gleymi sér í hita leiksins. Þá er það okkar eldri að leiðbeina og vísa veginn.

Með góðri Þorrakveðju,

Kristinn Guðlaugsson, skólastjóri

Miðsvetrarmat - undirbúningur fyrir námsviðtöl 29. janúar

Fyrir námsviðtölin sem verða þriðjudaginn 29. janúar verða foreldrar að fara ásamt börnum sínum inn á Mentor til að skoða námsframvinduna. Fara þarf inn á hæfnikort nemenda í hverju fagi fyrir sig til að sjá hver námsleg staða er. Athygli er vakin á því að hæfnikortið er lifandi plagg og því getur síðasta mæling ekki alltaf gefið rétta mynd. Sum hæfniviðmið eru metin oftar en einu sinn en það á frekar við eftir því sem börnin verða eldri. Þegar svo er þarf að ýta á hæfniviðmiðið og þá kemur upp saga þ.e. hvaða hæfni barnið hefur fengið frá því skólinn hófst í viðkomandi hæfniviðmiði. Gott er að skoða það til að gera sér grein fyrir raunverulegri stöðu. Þegar metin er hæfni nemenda á hæfnikortinu þá er notaður skalinn á mynd eitt hér að neðan.


Nemendum í 5. – 10. bekk er gefinn einkunn fyrir framvindu, sem ætluð er til að gefa foreldrum nemenda nokkra hugmynd um stöðu barnsins í hverri grein. Einkunnin lýsir stöðu barnsins í janúar 2019 en hún byrtist efst á hæfnikorti nemandans í hverju fagi. Til að gefa fyrir framvinduna notum við skalann á mynd tvö hér að neðan.


Foreldrar geta séð yfirlit yfir hæfni nemenda með því að fara í Hæfnikort – skýrslur. Þetta er nokkuð einfalt í Mentor appinu en hér má sjá slóð á myndband.


Allir nemendur skólans eru lesfimiprófaðir nú í janúar en niðurstöðurnar má sjá á hæfnikorti í Mentor. Nemendur í 3. – 8. bekk eru lesskilningsprófaðir með prófi sem heitir Orðarún, niðurstöður má einnig sjá á Mentor.


Þá eru foreldrar hvattir til að fara yfir ástundunaryfirlit í Mentor fyrir viðtölin.


Þar sem áætlaðar eru 15 mínútur í námsviðtal hvers barns biðjum við foreldra að vera vel undirbúna og vera búnir að skoða þessi atriði á Mentor fyrir viðtölin.

Námsviðtöl 29. janúar - skrá tíma

Það líður að foreldraviðtölunum sem verða þriðjudaginn 29. janúar. Fram kom í pósti frá skólanum í síðustu viku að opnað var fyrir skráningu í mentor föstudaginn 18. janúar þar getið þið valið ykkur tíma sem lausir eru og hentar ykkur best. Síðasti dagur skráningar er fimmtudagurinn 24. janúar.

Þeir foreldrar sem þurfa á túlkaþjónustu að halda geta ekki valið sér tíma heldur verður þeim úthlutaðir tímar sem raðaðir eru upp fyrir túlkaþjónustuna.

Ef þið hafið einhverjar óskir fram að færa eða athugasemdir, þá er ykkur velkomið að koma þeim á framfæri við okkur á skrifstofunni og við munum sjá hvort hægt sé að bæta úr eða koma þeim áleiðis til umsjónarkennara barnanna.

Mikilvægi lesturs

Hvað er lesfimi?
Lesfimi er samsett færni sem felst í leshraða, lestrarnákvæmni, áherslum og hrynjandi í lestri.
Fjölmargar rannsóknir sýna að sterk tengsl eru milli lesfimi og lesskilnings og með því að bæta
lesfimi nemenda eflist lesskilningur jafnframt.

Læsi barna er samvinnuverkefni. Mikilvægt er að öll börn fái tækifæri til að eiga daglega lestrarstund til loka grunnskóla. Foreldrar og aðstandendur verða að vera virkir í læsisuppeldi barna sinna og fylgjast með framvindu og árangri í lestrarfærni. Sjá nánar á vefnum Lesum meira. Sjá einnig í myndbandi hér fyrir neðan þar sem farið er yfir mikilvægi lesturs.

Tengiliðir bekkja

Enn vantar að foreldrar eftirfarandi bekkja ákveði tengiliði í sínum röðum.
 • 6. EBJ
 • 6. SL
 • 7. BJG
 • 7. SHS
 • 8. GRB
 • 8. MK
 • 9. MS
 • 10. GB
 • 10. SB

Endilega takið að ykkur að sinna þessu göfuga starfi svo ekki þurfi að skikka foreldra til að sinna því. Áhugasamir láti umsjónarkennara vita sem allra fyrst.

Stöndum saman (Hættu - gakktu - segðu frá)

Stöndum saman verkefnið er þriggja þrepa viðbragsáætlun sem nemendur geta notað þegar þeir lenda í ákveðnum aðstæðum sem þeim finnst vera óþæglegar og vilja stöðva verknaðinn.


Fyrsta stigið er þegar einhver fer yfir okkar mörk er að lyfta hendinni og segja ákveðið „Hættu“ þá á viðkomandi að vita það að hann á að hætta. Ef hann gerir það ekki þá er farið á næsta stig þ.e.a.s ef viðkomandi heldur áfram hegðun sinni, þá eigum við að ganga í burtu frá aðstæðunum.


Hins vegar er möguleiki að þetta haldi áfram hvað á nemandinn þá að gera? Nemandinn á þá að leita til umsjónarkennara, stjórnenda, eða starfsmanns og segja frá þessari hegðun.

Við leggjum áherslu á það að segja frá er ekki að bregðast trausti eða segja frá leyndarmáli. Að segja frá er að sýna hugrekki.

Búið er að fara í alla bekki og kynna verkefnið fyrir nemendur skólans og eiga því allir nemendur að vita út á hvað verkefnið gengur.


Við vonum að þetta geti hjálpað nemendum í samskiptum við hvert annað, og auðveldi nemendum að sýna með ákveðnum hætti ef farið er yfir ákveðin mörk í samskiptum.

Heimavinnuaðstoð í Hvaleyrarskóla

Sjálfboðaliðar Rauða krossins taka á móti nemendum á bókasafni skólans og aðstoða við heimanámið. Hittumst á þriðjudögum kl. 13:30 - 15. Allir velkomnir!

Um heimavinnuaðstoð / Heilahristing:
Heimavinnuaðstoðin er fyrir öll börn í 1. til 10. bekk. Markmið verkefnisins er að styrkja börnin í námi og kynna fyrir þeim þjónustu bókasafnsins í tengslum við nám og áhugamál.

Nánari upplýsingar veitir:
Hulda M. Rútsdóttir, Verkefnastjóri Rauða krossins, Netfang: hulda@redcross.is

Viðvera hjúkrunarfræðings

Íris Ómarsdóttir Hjaltalín skólahjúkrunarfræðingur er með viðveru í Hvaleyrarskóla á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum frá kl. 8:00 - 15:00 og á þriðjudögum frá kl. 14:00 - 15:00.

Hér má sjá upplýsingar um heilsuvernd skólabarna.

Á döfinni

 • Námsviðtöl verða þriðjudaginn 29. janúar
 • Dagur stærðfræðinnar er föstudaginn 1. febrúar
 • Skipulagsdagur 20. febrúar
 • Vetrarfrí er 21. og 22. febrúar

KURTEISI ~ ÁBYRGÐ ~ SAMVINNA

Hvalrekinn


Opnunartími skrifstofu:

Kl. 7:45 - 15:30 mán-fim

Kl. 7:45 - 14:00 fös



Fréttabréf Hvaleyrarskóla. Sent á foreldra nemenda skólans og skólasamfélagið.