Setbergsannáll

Mars 2021 - Gleðilega páska

Frá stjórnendum

Ágætu foreldrar og forráðamenn.


Þessi annáll er að mestu tileinkaður fjölgreindarleikum sem við héldum á þemadögum í síðustu viku. Það má segja að við höfum verið sérlega heppin með tímasetningu þemadaganna þetta árið þar sem náðum að ljúka þeim fyrir það rof á skólastarfi sem við nú upplifum.


Á fjölgreindarleikunum var unnið út frá fjölgreindarkenningu Gardners sem í fáum orðum byggir á því að allir búi yfir mismunandi og fjölbreyttum hæfileikum sem mikilvægt sé að virkja, þjálfa og þroska. Allir fundu eitthvað við sitt hæfi og með því að brjóta upp skólastarfið á þennan hátt stuðlum við meðal annars að því að gera nemendur meðvitaðri um áhugasvið sín og hæfileika.


Skipulag fjölgreindarleikanna var á þann hátt að nemendur fóru á milli stöðva og spreyttu sig á viðfangsefnum sem starfsfólk skólans hafði skipulagt í anda Gardners. Nemendum var skipt upp í aldursblandaða hópa og voru 10. bekkingar hópstjórar og stóðu sig með eindæmum vel, sýndu ábyrgð og alúð gagnvart yngri nemendum og allir nutu sín. Mörg ný vinasambönd urðu til og traust yngri nemenda til þeirra eldri eykst þegar þau fá tækifæri til að kynnast við úrlausn fjölbreyttra verkefna. Það er ánægjulegt fyrir okkur sem störfum með börnum og ungmennum að fá að fylgjast með þeim í daglegu starfi, styðja þau og styrkja og sjá þau reyna á ólíka hæfileika sína. Ekkert okkar hefði viljað missa af þeirri gleði sem þemadagarnir veittu og gaman að fara með góðar minningar inn í páskaleyfið hvað svo sem bíður okkar að því loknu.


Núna, þegar við þurftum að loka skólanum tveimur dögum fyrir hefðbundið páskaleyfi, eru ýmis verkefni að baki eins og ytra mat skólans, stóra upplestrarkeppnin og kóramótið. Því miður þurftu 9. bekkingar að koma heim úr skólabúðum fyrr en áætlað var en þau skemmtu sér vel þann tíma sem þau náðu að dvelja þar.


Á öllum sviðum hafa nemendur og starfsfólk skólans staðið sig með stakri prýði og fengið lof fyrir sín störf. Við getum öll verið stolt af skólanum okkar.


Starfsfólk Setbergsskóla óskar ykkur gleðilegra páska.

María Pálmadóttir, skólastjóri og Margrét Ólöf Jónsdóttir, aðstoðarskólastjóri.

Skýrsla Menntamálastofnunar vegna ytra mats mennta- og menningarmálaráðuneytis á skólastarfi í Setbergsskóla.

Nú hafa matsaðilar lokið við gerð skýrslu um ytra mat á Setbergsskóla sem fram fór í febrúar 2021. Lagt var mat á þrjá fyrir fram ákveðna matsþætti sem eru stjórnun og fagleg forysta, nám og kennsla og innra mat. Við gerð umbótaáætlunar munu skólinn og skólanefnd taka tillit til þeirra tækifæra til umbóta sem sett eru fram í skýrslunni og er undirbúningur þegar hafinn. Umbótaáætlun verður gerð opinber þegar hún liggur fyrir.


Myndin sýnir niðurstöður ytra matsins, skólaprófíl Setbergsskóla. Við getum sannarlega verið stolt – allir sem við skólann starfa eiga hlutdeild í þessum frábæra árangri.

Fyrsta og annað sætið í Stóru upplestrarkeppninni.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var haldin í Víðistaðakirkju 23. mars 2021 jafn hátíðleg sem fyrr. Okkar fulltrúar stóðu sig með miklum sóma og hrepptu fyrsta og annað sætið á hátíðinni. Rán Þórarinsdóttir var í fyrsta sæti og Lilja Dís Hjörleifsdóttir í öðru sæti. Óskum við þeim innilega til hamingju með glæsilega frammistöðu.

Kóramót í Hafnarfirði

Kór Setbergsskóla tók þátt í kóramóti sem haldið var í Víðisstaðakirkju laugardaginn 20. mars. Ánægjan var mikil með daginn og nemendur stóðu sig með prýði. Hingað til hafa yngri nemendur verið í meirihluta í kórnum en nú eru eldri nemendur farnir að spyrjast fyrir um kórinn og er það ánægjulegt.
Big picture

Menntabúðir kennara varðandi upplýsingatækni

Við héldum langþráðar menntabúðir á sal fyrir starfsfólk skólans þar sem við skoðuðum og prófuðum hin ýmsu forrit og fylgihluti við spjaldtölvurnar.

Þemadagar

Fjölgreindaleikar yfir þrjá daga

Það var mikið fjör á fjölgreindaleikunum. Elstu nemendur skólans stóðu sig frábærlega vel í að styðja við þá yngri þar sem þeir fóru á milli stöðva og leystu hinar ýmsu þrautir. Mikilvægt var að halda tímann, en nemendur fengu 12 mínútur á stöð og 3 mínútur til að koma sér á milli. Þorri tók að sér að vera tímavörður á þeim stöðvum sem kallkerfi skólans nær ekki til og stóð sig framúrskarandi vel.


Stöðvarnar voru allar skipulagðar með eftirfarandi í huga:

Líkams- og hreyfigreind er hreyfigeta og færni til líkamstjáningar.

Málgreind er hæfileikinn til að vinna með tungumál.

Rök- og stærðfræðigreind er hæfileikinn til óhlutbundinnar hugsunar, rökhugsunar og að vinna með tölur og mynstur.

Rýmisgreind er hæfileikinn til sjón- og rúmskynjunar.

Samskiptagreind er hæfileikinn til að hafa samskipti við og skilja aðra, svo sem að ráða í látbragð þeirra og raddblæ.

Sjálfsþekkingargreind er þekking á sjálfum sér, svo sem að þekkja styrk sinn og veikleika, tilfinningar sínar, hugsanir og langanir, og hæfni til að nýta þessa þekkingu sér til framdráttar. Fólk sterkt á þessu sviði hefur gjarnan áhuga á trúmálum og sálfræði.

Tónlistargreind er hæfileikinn til að vinna með, meta og skapa tónlist.

Umhverfisgreind er hæfileikinn til að greina og meta hluti í náttúrunni.

Líkams- og hreyfigreind

Yoga og hugleiðsla

Það var yndislegt að fá nemendur í yoga og hugleiðslu. Allir tóku vel þátt og nutu stundarinnar. Yoga er líkamleg og andleg ræktun sem við iðkum í gegnum yogastöður, öndun og hugleiðslu. Yoga snýst fyrst og fremst um að finna líkamlegt og andlegt jafnvægi og gera okkur meðvitaðri um hugsanir okkar. Yogaiðkun stuðlar að aukinni vellíðan og hefur meðal annars áhrif á tauga- og ónæmiskerfið, öndun, blóðrás og meltingu.


Nemendur lögðust á dýnu með teppi og æfðu regnbogaöndun frá Hugarfrelsi. Þeir hlustuðu á hugleiðslu um kærleikann með tónlist í boði Heillastjörnu og tengdu við regnbogaöndunina með því að fylgja hugleiðslu um regnbogann og litrík fiðrildi. Í lok stundarinnar hugsuðu allir um 5 atriði í lífi sínu sem þeir gátu verið þakklátir fyrir þann daginn. Með þakklæti erum við sáttari og hamingjusamari einstaklingar. 😊

Ásta Margrét

Dansinn Jenka

Hér dönsuðu nemendur Jenka og æfðu þar með hreyfigreind sína. Ég kenndi þeim grunnsporin sem þeir æfðu sig svo í að dansa með tónlist. Dansinn Jenka kemur frá Finnlandi og má segja að grunnsporin séu finnsk útgáfa af Konga. Dansinn þjálfar nemendur í takti og samhæfingu.

Krakkarnir voru mjög duglegir að dansa og fóru glaðir á næstu stöð, tilbúnir að bera út fagnaðarerindið um Jenka.


Fyrir áhugasama er hér slóð á tónlistina sem notuð var við kennsluna á þemadögunum, upplagt að fá kennslu hjá krökkunum í páskafríinu.

Margrét Stefáns.

Húllahringir og þrautir

Það reyndi á samvinnu þegar nemendur þurftu sem hópur að vinna að því að halda hringnum á lofti. Þá var húllakeppni milli liða og stóðu krakkarnir sig vel.

Linda Ösp

Boccia

Hér spiluðu nemendur Boccia. Hverjum hópi var skipt í tvö lið og spilaðir voru boccia leikir. Boccia reynir á líkams- og hreyfigreind nemenda ásamt rýmisgreind. Það var virkilega gaman að sjá nemendurna, sem voru á mjög breiðu aldursbili, takast á við svona óhefðbundna íþróttagrein og gátu allir tekið virkan þátt í leiknum. Frábær tilþrif sáust hjá nemendum og greinilegt að það eru margir mjög efnilegir Boccia spilarar í Setbergsskóla.

Kalli

Körfubolti

Hóparnir kepptu sín á milli í að ná sem flestum körfum, eitt stig fyrir hverja körfu. Nemendur voru mislang frá körfunni eftir aldri þannig að allir hefðu sömu möguleika. Það var mikil stemning og keppni um það safna sem flestum stigum en tveir hópar voru í fyrsta sæti með 27 körfur. Nemendur voru duglegir að hvetja hver annan og skemmtu sér vel.

Hulda

Þrautakeppnin ,,Minute to win it"

Við vorum með þrautakeppnina ,,Minute to Win it“. Við vorum að virkja hreyfi- og rýmisgreind þar sem þrautirnar samanstóðu af samhæfingu augna og handa ásamt því að nemendur þurftu að vera bæði skarpir og snöggir. ,,Minute it to win it“ byggir á bandarískum sjónvarpsþætti þar sem fólk þarf að leysa ákveðnar þrautir á 60 sekúndum.

Þrautirnar sem við vorum með voru: Litaflokkun 40 Skittles perla í fimm glös, einn litur í hvert glas. Skoppa borðtenniskúlu ofan í glas. Vippa blýöntum af handarbaki og grípa þá. Halda tveimur blöðrum á lofti og glasaþraut.


Nemendur stóðu sig með prýði, voru virkir og áhugasamir.

Bestu kveðjur, Anna Lovísa og Herdís

Bara dans! ,,Just dance"

Það vara svaka stuð í dansinum og gaman að sjá alla krakkana dansa saman frá fyrsta og upp í tíunda bekk.


Kolbrún Hauksdóttir

Pílukast

Nemendur skiptust í tvo hópa og freistuðu þess að hitta miðju spjaldsins með pílunni.


Ólöf Kristín

Málgreind

The Englishclass: Orða- og stafaleikir

We workt with „orðaleikir“/ Word puzzles“. The word puzzles were problem-solving/critical thinking activities adjusted for students at all levels of English, from beginner to expert. The students worked in pairs or small groups to solve word games and language puzzles. The materials used; white boards, markers and tiles/seglukubbar.

Zulaia

Rök- og stærðfræðigreind

Origami

Hér var pappírsbrotið Origami. Nemendur lærðu að gera hund, kisu, frosk, svan, gogg eða hatt. Eldri nemendur aðstoðuðu þá yngri og höfðu gaman af.

Anna Kristín

Skák

Nemendur voru áhugasamir og tefldu saman tveir og tveir. Flestir kunnu mannganginn ef ekki þá fengu þeir aðstoð frá kennara eða öðrum nemendum. Hópstjórar stóðu sig vel og hjálpuðu yngri börnum ef á þurfti að halda. Í spjaldtölvunum geta nemendur nálgast skákforrit, lært þar að tefla og þjálfað sig.

Margrét Guðbrands.

Að forrita Sphero BOLT vélmenni

Allir nemendur Setbergsskóla fengu tækifæri til þess að prófa Sphero boltana sem þeir fengu í verðlaun fyrir þátttöku og góðan árangur í lestrarkeppni Samróms 2021.


Nemendur unnu saman í þriggja manna hópum við að forrita Sphero BOLT til að keyra í ferning. Til þess notuðu þau smáforritið Sphero EDU. Þau létu boltann keyra í ferning með því að forrita gráður, hraða og tíma auk þess sem sum náðu að láta ljósin breytast og hljóð heyrast.


Fjölgreindin sem verkefnið nær til er rök- og stærðfræðigreind sem er hæfileiki til óhlutbundinnar hugsunar, rökhugsunar og að vinna með tölur og mynstur.

Selma

Sjóorusta

Hér gafst nemendum tækifæri til að spila gömlu góðu sjóorustuna. Krakkarnir fengu blað hver og einn með tveimur hnitakerfum á. Í annað settu þau skipin sín og hitt notuðu þau til að reyna að skjóta á skip andstæðingsins. Þetta gekk vel og sukku mörg skipin þessa dagana.

Tinna

OSMO

Hér var unnið með rýmis- rök- og stærðfræðigreind. Nemendur spreyttu sig á talnaþrautum, að leggja tangram myndir og teikniforritið Monster naut mikilla vinsælda. Eldri nemendur aðstoðuðu þá yngri og það voru áhugasamir og glaðir nemendur sem heimsóttu OSMO stöðina.

Takk fyrir þátttökuna krakkar, Ellý

Tvennuspil

Hjá mér spiluðum við Tvennu, unnum með rök- og stærðfræðigreind. Ég byrjaði á því að kynna í stuttu máli "greindirnar" og lét svo yngri og eldri nemendur sitja saman við borð svo eldri gætu aðstoðað yngri nemendur. Það var ánægjulegt að fylgjast með nemendur vinna saman og kynntast þessa daga og stundum urðu til falleg vinasambönd milli nemenda á mismunandi aldri

Kær kveðja, Anna María

Bingó

Á minni stöð var spilað BINGÓ sem vakti heldur betur lukku hjá nemendum í öllum árgöngum. Spiluð var ein röð í einu og spennan var gríðarleg, keppnisandinn blómstraði hjá mörgum. Það var virkilega gaman að sjá hvað nemendur í eldri bekkjum voru duglegir að aðstoða þá yngri. Það var mikil gleði hjá þeim sem sigruðu en þeir fengu að velja sér lukkustein/demant í verðlaun. Enginn fór hins vegar tómhentur út, allir fengu verðlaun fyrir þátttöku.

Lena

Rýmisgreind

Frá völundarhúsi til Empire state í samvinnu milli hópa.

Hér var unnið með hina sívinsælu Kaplakubba. Kaplakubbar henta öllum aldri og gátu aldursstigin sameinast í frjálsum leik nú eða í vinnu eftir leiðbeiningum.

Ásta Björnsdóttir

Ping Pong

Nemendur fóru í röð og köstuðu boltum í glös og höfðu 8 mínútur til þess. Elstu nemendurnir skiptu sér niður á stöðvarnar og sáu um að telja stigin sem hópurinn fékk. Stigin voru sett á töflu og keppt við hina hópana. Þetta reyndi á hreyfi-, rýmis- og stærðfræðihæfni.

Hjördís Ýr

Vélmenni, Sphero BOLT og Dash

Það var líf og fjör á snillistöðinni á bókasafninu. Nemendur fengu að spreyta sig á skemmtilegum brautum fyrir Sphero vélmennin okkar en einnig að prófa sig áfram í að forrita og tala fyrr Dash vélmennin. Það voru glöð börn sem koma hingað inn, nutu sín, lærðu og kynntust vélmennum skólans.

Hjördís Ýrr og Steinunn

Spilið Panic Tower

Við vorum að vinna með rýmisgreind en verkefnið var að spila Panic Tower spilið. Það sem er svo skemmtilegt við þetta verkefni er að allir aldurshópar geta tekið þátt.

Vinnan á stöðinni gekk vonum framar, allir voru glaðir og virkilega gaman að taka á móti hópunum sem heimsóttu okkur á þemadögunum þetta árið. Nemendur voru til fyrirmyndar og virkilega gaman að sjá hversu vel eldri nemendur stóðu sig í að sinna yngri nemendum skólans.

Með bestu kveðju, Sandra Lóa og María Stefanía

Tangram og UNO

Nemendur prófuðu sig áfram í Tangram með því að endurgera myndir með hinum ýmsu formum. Þau spreyttu sig einnig á UNO þar sem eldri nemendur tóku að sér að kenna þeim yngri.

Hildur og Bella

Teiknifjör

Það er áskorun að teikna eitthvað svo hægt sé að sjá hvað það er og þá er ekki fegurð verksins sem skiptir mestu.


Agnes

Samskipta- og samvinnugreind

Á ferð um heiminn

Nemendur heimsóttu staði og aðstæður sem þau langaði að heimsækja og komu sér svo saman um val á einum þeirra. Það mátti bara enginn hafa komið þangað. Að þessu loknu var tekin hópmynd með þeim bakgrunni sem varð fyrir valinu. Það var spennandi að sjá hvernig myndin kom út þegar þau voru stödd meðal annars á; tunglinu, á hafsbotni eða með risaeðlum.


Þessir krakkar ákváðu að líta á gosstöðvarnar,

en neðst í annálnum má sjá allar hópmyndirnar sem teknar voru.

Samvinnuþraut

Krakkarnir áttu að leysa þraut saman og þurftu til þess að vinna sem lið; tala saman og hjálpast að. Verkefnið var að færa hluti og stafla þeim hverjum ofan á annan með teygju í miðjunni þar sem 15 bönd voru fest, eitt band á barn. Þau máttu bara nota böndin til að stækka og minnka teygjuna með því að toga mátulega fast á þau.


Þau byrjuðu á að æfa sig og tóku svo til að stafla eins mörgum hlutum og þau gátu. Það var ánægjulegt að sjá að allir hópar komust hærra en þau héldu að þau myndu gera.

Erika og Fjóla

Sjálfsþekkingargreind

Hrósteppi

Í textílstofunni var unnið að samvinnuverkefninu hrósteppi. Allir nemendur fundu eitthvað jákvætt eða hrós um sig sjálfa og skrifuðu það á efnisbút með efnatússpennum. Bútarnir verða svo saumað saman og hrósin hengd upp sem eitt stórt hrósteppi. Þetta var góð æfing í að minna okkur á að hrósa okkur sjálfum líka, sjá það góða í okkar fari og það sem við gerum vel.


Það er líka gaman að segja frá því að efnið sem notað var í verkefnið var allt afgangs efni sem hafði safnast saman og endurnýtt.

Rakel og Linda Björk

Tónlistargreind

Tónlistarflutningur

Við unnum með tónlistargreind þar sem allir fengu hljóðfæri og spiluðu með af hjartans list. Ég notaði tónlistarforrit af YouTube sem heitir “Musication“ en það gerir krökkunum kleift að æfa samspil, hlustun og samhæfingu við tónlist eftir Mozart, Grieg og fleiri snillinga. Þetta gekk frábærlega vel, allir mjög sáttir og glaðir og fóru út með þá hugsun að vera tónlistarsnillingar 😉.

Kveðja, Mæja

Nemendur prófa Musication

Umhverfisgreind

Tilraun með rafhlaðnar blöðrur

Við unnum með umhverfisgreind, en hún felur í sér hæfileikann til að greina og meta hluti í náttúrunni. Allt efni í umhverfi okkar er búið til úr frumeindum sem hafa í sér jákvætt og neikvætt hlaðnar eindir. Yfirleitt eru hlutir óhlaðnir, það er að segja að sami fjöldi er á jákvætt og neikvætt hlöðnum eindum. Við núning er hægt að skilja rafhleðslur frumeinda að, þar sem annar hluturinn missir neikvætt hlaðnar eindir og verður þá jákvætt hlaðinn en hluturinn sem tekur við þeim neikvætt hlaðinn.


Blaðra sem nuddað er við ull tekur til sín rafeindir úr ullinni og verður neikvætt hlaðin en ullin jákvætt hlaðin. Hlaðin blaðra hefur kraft til að draga til sín hluti og það var það sem við vorum að vinna með. Krakkarnir hlóðu blöðrur með því að nudda við ull eða við hárið á sér. Svo báru þau hana nálægt; vatnsbunu, pappírsbrotum, áldós, vegg og hurðahún og fylgdust með áhrifunum.

Jóna Þórdís

Tilraun með rafhlaðnar blöðrur

Að þekkja bragð

Í heimilisfræðistofunni var mikið líf og fjör. Þar reyndi heldur betur á bragð- og lyktarskyn. Stöðvavinnan snerist um að greina hin ýmsu hráefni sem nemendur fengu að smakka og reyndu síðan eftir bestu getu að finna út hvað það var.

Karen

Hópmyndir frá fjölgreindaleikunum af stöðinn ,,Á ferð og flugi"

Fjölgreindaleikar vor 2021