Setbergsannáll

Desember 2019

Starfsfólk Setbergsskóla óskar nemendum og foreldrum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Við þökkum ykkur fyrir gott og gjöfult samstarf á árinu sem er að líða og hlökkum til að sjá ykkur á nýju ári.

Skólahald hefst aftur mánudaginn 6. janúar 2020.

Kveðja frá skólastjóra og aðstoðarskólastjóra

Nú er haustönn senn á enda, margvísleg verkefni að baki. Í þessum veglega jólaannál gefur að líta ýmislegt sem við viljum deila með ykkur. Eins og sjá má hafa nemendur fengist við afar fjölbreytt viðfangsefni innan skóla sem utan. Við skólann starfar áhugasamt og metnaðarfullt starfsfólk sem leggur áherslu á að gera skólastarfið skapandi og uppbyggilegt fyrir nemendur skólans.

Jólahurðirnar okkar, gangið í bæinn..

Jólaferðir á aðventu.

Aðventan hefur verið skemmtileg hjá 1. bekk. Nemendur unnu verkefni á jólastöðvum. Við höfum verið dugleg að bregða okkur af bæ. Fórum m.a. á jólakaffihús og að skoða jólaþorpið, í aðventustund í Hafnarfjarðarkirkju og á mánudaginn fórum við í bæjarferð á Þjóðminjasafnið að syngja og hitta Pottaskefil.

Kalkúnn á aðventunni.

Krakkarnir í 9. LÖG vildu heldur fara og fá sér kalkún í IKEA heldur en að fara í bæjarferð og fá sér kakó á kaffihúsi. Þau héldu af stað í snjómuggu sem jókst þegar á ferðina leið, og úr varð heljarinnar vetrarferð. Það var ekki þurr þráður á börnunum þegar heim var komið. En ferðin var góð og þau nutu samverunnar.

Byggðasafn Hafnarfjarðar og heimsókn í klaustrið.

Nemendur í 3. bekk hafa gaman af því að fara í vettvangsferðir og skoða nærumhverfið sitt. Í haust byrjuðum við á að fara á Byggðasafn Hafnarfjarðar. Þar fengum við kynningu á hvað safnið hefur upp á að bjóða. Við skoðuðum sýningu um sögu Hafnarfjarðar og sýning um Karmelklaustur á Íslandi.


Í framhaldi af því ákváðum við að fara og heimsækja nunnurnar í klaustrinu fyrir jólin. Hér fyrir neðan má sjá myndir af börnunum í kapellunni, helgimyndina sem nunnurnar setja upp fyrir jólin og frá Byggðasafni Hafnarfjarðar.

Landnámssýning, Rimmugýgur og klaustrið.

Það hefur ýmislegt á daga okkar drifið í 5. bekk.


Við heimsóttum Landnámssýninguna í Aðalstræti og nefndist sú sýning; Siglt til Íslands. Þar fengum við góða leiðsögn og fræðslu og krakkarnir nutu þess sem safnið hefur upp á að bjóða. Þá fengum við fræðslu um víkinga, aðallega klæði þeirra, skart og vopn frá víkingafélaginu Rimmugýg.


Á aðventu fórum við í góðan göngutúr og heimsóttum nunnurnar í Klaustrinu. Þar áttum við næðisstund og nunnurnar sögðu okkur frá lífi sínu og starfi. Nemendur fengu líka að skoða jötuna sem þær höfðu skreytt svo listilega.

Vinavika í nóvember

Það sem skiptir mestu máli er að öllum líði vel í skólanum. Vinavikan er liður í því að styrkja bönd nemenda í milli. Við ræðum um leiðarljósin okkar; virðing - víðsýni - vinsemd, og börnin vinna verkefni sem krefjast samvinnu. Í skólanum hefur verið komið á fót vinabekkjum. Markmiðið með því er að styrkja samband yngri og eldri nemenda. Í vinaviku skipuleggja umsjónarkennarar verkefni sem vinabekkir vinna saman og þeir yngri læra af þeim eldri. Vinabekkirnir eru: 1. og 6. bekkur, 2. og 7. bekkur, 3. og 8. bekkur, 4. og 9. bekkur og 5. og 10.


Í ár bjuggum við til vinabönd saman ásamt því að spreyta okkur á gamla leiknum Fuglafit.


Það er reynsla okkar að vinavikan skilar sér í ábyrgð eldri nemenda við að vera góðar fyrirmyndir og að yngri nemendur hafi góða bakhjarla og leiðbeinendur í nemendahópnum.

Lestrarsprettur nemenda í nóvember.

Nemendur í öllum árgöngum skólans tóku á ,,lestrarsprett" í nóvember.


Á mið- og unglingastigi skráðu nokkrir árgangar lesturinn á Google Classroom, t.d. las einn bekkurinn 50 mínútur á dag, þar af 15 mínútur upphátt og náðu krakkarnir samtals rúmlega 6000 mínútum af lestri.


Á yngsta stigi notuðu börnin tákn fyrir hversu mikið var lesið. Hvert tákn stóð fyrir 30 – 60 mínútna lestri eftir aldri barnanna; 2. bekkur notaði köngulær til að tákna lesturinn, 3. bekkur notaði fiska og 4. bekkur ásamt fleiri árgöngum notaði bókakili.


Á meðfylgjandi myndum má sjá að mikið var lesið og vonum við að börnin haldi áfram að vera svona dugleg að lesa. Uppskeruhátíðir voru haldnar á sal með skemmtiatriðum og svo gerðum við okkur dagamun með því að halda pizzuveislu í lokin.

Samræmd könnunarpróf í 4. og 7. bekk

Niðurstöður samræmdra könnunarprófa í 4. og 7. bekk sýna að við erum talsvert fyrir ofan landsmaðaltal í báðum árgöngum bæði í íslensku og stærðfræði. Viljum við hrósa nemendum fyrir að leggja sig fram við námið, kennurum fyrir vel unnin störf og foreldrum fyrir góðan stuðning við börn sín og skólastarfið.

Dagur íslenskrar tungu - setning Stóru Upplestrarkeppninnar.

Dagur íslenskrar tungu var laugardaginn 16. nóvember 2019 þar sem einn af okkar merku skáldum Jónas Hallgrímsson fæddist á þessum degi.


Við í Setbergsskóla héldum upp á daginn með því að hefja upplestrarkeppnina mánudaginn 18. nóvember. Að þessu tilefni voru nemendum í 4. og 7. bekk boðið á sal skólans. Dagskráin var fjölbreytt, nokkrir nemendur úr 5. og 8. bekk lásu ljóð eða brot úr sögu, nokkrar stúlkur úr 6. bekk sýndu dans og stúlka úr 7.bekk söng einsöng. Áhorfendur voru til fyrirmyndar og allir þeir sem komu fram stóðu sig vel og sýndu mikið hugrekki.


Á vef íslenskrar tungu hefur verið safnað saman ýmsum skemmtilegum verkefnum.

Bókasafnið

Áslaug og Steinunn hafa verið duglegar að kaupa nýjar bækur fyrir jólin og safnið því vel búið af nýútgefnum bókum nemendum til mikillar ánægju. Jólabókum var stillt upp í byrjun desember og hafa nemendur komið sér í jólaskap við lestur þeirra.


Nemendur í gæslunni á morgnana hafa verið duglegir að teikna jólamyndir, klippa út og skreyta vinnuhornið. Nú er komin jólalegur og hlýlegur blær á bókasafninu.


Jólahjólið hefur vakið mikla lukku en þar snúa nemendur lukkuhjóli og fá að vita hvaða jólalag er þeirra þann daginn. Hugrökkustu krakkarnir hafa tekið þeirri áskorun að syngja lagið sem þeir fengu útdeilt.


Við fylgjumst spennt með komu jólasveinanna á safninu og á hverjum degi fer upp mynd af jólasveininum sem kom til byggða við texta Jóhannesar úr Kötlum.


Steinunn bókasafnsfræðingur er komin aftur til starfa eftir fæðingarorlof en Áslaug mun áfram koma að safninu ásamt því að sinna öðrum störfum innan skólans.

Skapandi skrif - lítil hugmynd verður að sterkustu stelpu í heimi.

Það styður við læsi að skrifa og tjá sig í gegnum sögur, því viljum við styðja við og efla skapandi skrif hjá nemendum. Allir geta búið til sögu og þær Bergrún Íris og Arndís rithöfundar komu og sögðu börnunum á yngsta stigi frá því hvernig þær fá hugmyndir og vinna með þær. Þær stöllur hafa meðal annars skrifað bækurnar um Freyju og Fróða.


Þær sögðu frá því hvernig lítil hugmynd getur orðið stór með því að bæta við hana. Til dæmis varð Lína Langsokkur til þegar Astrid Lindgren sagði dóttur sinni sögu þegar hún var lasin og smám saman varð þessi litla hugmynd að sterkustu stelpu í heimi.


Þær bentu börnunum á það hvernig nota má spurninguna ,,Hvað ef..?" til að efla ímyndunaraflið og vinna áfram með litla hugmynd sem stækkar. Dæmi: Hvað ef Lína á apa? Hvað ef hún er rosalega sterk?


Þá tóku þær dæmi um rithöfundinn David Williams sem setur saman andstæða hluti og býr til sögu, til dæmis amma og bankaræningi sem varð að sögunni Amma glæpon.

Stutt- og hreyfimyndagerð, kvikmyndalæsisverkefnið FLY.

Við í Setbergsskóla erum svo lánsöm að fá að taka þátt í alþjóðlega FLY-verkefninu (Film Littercy years) en markmið þess er að við nýtum kvikmyndalæsi í kennslu barna og unglinga.


Tveir kennarar, Helga og Linda Ösp, tóku fóru á heilsdags vinnustofu FLY og í kjölfarið bauðst hópi nemenda úr 7. og 8. árgangi tveggja daga vinnustofur; annan daginn í hreyfimyndagerð og hinn í stuttmyndagerð undir handleiðslu FLY hópsins. Við eigum nú 15 barna hóp úr tveimur árgöngum sem geta stutt við nemendur annarra árganga sem vilja nýta sér hreyfimyndagerð í námi.


Það var frábært að fá þetta reynda fagfólk frá Danmörku sem kenndi okkur og nemendum okkar að skipuleggja og móta ferlið frá hugmynd til hreyfi-/stuttmyndar. Kennarar í skólanum fengu styttri útgáfu af vinnustofunni þar sem þeir spreyttu sig á hreyfimyndaforminu og nú þegar hafa nokkrir farið út í að vinna hreyfimyndaverkefni með nemendum sínum.

Hamskipti vatns

Það er mikilvægt í öllu námi að nemendur tileinki sér þann orðaforða sem fylgir hverri fræðigrein. Með því að vinna með hugtökin á skapandi hátt fá nemendur dýpri skilning á því sem þeir eru að læra. Ein af aðferðunum við að skilja og læra hugtök er að búa til hreyfimyndir.


Einbeiting og góður vinnuandi einkenndi nemendur í vinnu sinni með hamskipti vatns, þeir sökktu sér ofan í viðfangsefnið af miklum áhuga. Markmið verkefnisins var að nemendur áttuðu sig á því hvað gerist í ferlinu og lærðu hugtök sem því fylgja.


Þegar hreyfimyndin var tilbúin færðu nemendur myndina á hlekk bak við QR kóða sem var prentaður út og settur inn á ,,leikmyndina". Nú geta aðrir nemendur farið með spjöldin, ,,lesið" QR kóðann og horft á kennslumyndskeið um hamskipti vatns.

Hamskipti vatns
Big picture

Leiklist

Margt er nú á könnu leiklistar þar sem fjölmörg verkefni eru nú á lokametrunum.

Verkefni sem nemendur hafa tekist á við á árinu eru meðal annars tónlistarmyndbönd, sköpun tónlistar, útvarpsleikrit sem og fjöldi leikrita.


Samvinnuverkefni 2. og 4. bekkjar gekk ljómandi vel. Krakkarnir í 2. bekk bjuggu til útvarpsleikhús, krakkarnir í 4. bekk léku það sem fram fór og gerði þar með leikrit bæði til að hlusta og horfa á. Þetta var tekið upp og allir fengu að njóta þess að horfa á það sem nú var orðin stuttmynd.


Stuttmyndir eru falinn fjársjóður sem getur kennt okkur heilmargt. Hægt er að kynnast heimi fólks frá fjarlægum löndum og efla hæfni okkar til að setja okkur í spor annarra. Með gerð stuttmynda læra nemendur að segja sögu á einfaldan en jafnframt listrænan máta. Skiljum við myndir sem eru á öðru tungumáli þrátt fyrir að skilja ekki tungumálið sem talað er og ef svo er, hvernig? Getur mynd án orða sagt sögu? Þarf maður að skilja tungumál til þess að geta skilið annað fólk? Allt mjög áhugaverðar spurningar sem reynt er að svara í gegnum kvikmyndagerð og stuttmyndaáhorf.

Stuttmyndaval

Nemendur í stuttmyndavali fengu góðan gest í heimsókn. Gunnar Björn Guðmundsson kvikmyndagerðarmaður kom og kynnti fyrir þeim ferlið við að búa til kvikmynd, stuttmynd, auglýsingar og áramótaskaup. Hann hefur gríðalega mikla reynslu og mun þessi fyrirlestur koma sér vel fyrir nemendur þegar kemur að gerð árshátíðarmyndbands eftir áramót.

Tæknin í tónlistar- og leiklistarkennslu

Ný tækniforrit hafa verið tekin inn í tónmenntarkennslu sem og í leiklistarkennslu. Þrátt fyrir að margur myndi ekki telja að tækni ætti mikinn þátt í námi list- og verkgreina getur hún vissulega stuðlað að dýpri skilningi nemenda. Forrit sem vert að skoða eru Groovebox, Toontastic, Garageband og Imovie.Uppbygging söguheims í toontastic hefur notið mikillar lukku meðal nemenda sem geta þar valið sér söguheim, ýmsar persónur og raddað yfir hverja og eina persónu til að mynda heildstæða mynd. Nemendur kynnast hér hvað felst í upphafi, miðju og endi. Þannig geta nemendur komið frá sér sjálfstæðri sögu á sínum eigin forsendum á skemmtilegan og litríkan hátt.

Jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum.

Nemendur í 7., 8. og 9. bekk tóku að sér að búa til hreyfimynd um jólasveinana. Til grundvallar var Jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum. Til að gera hreyfimynd þarf að hafa góðan skilning á viðfangsefninu sem unnið er með hverju sinni. Nemendur rýndu því í innri tíma ljóðsins, kynntu sér hvernig fólk bjó og klæddist á þeim tíma. Nemendur ræddu um merkingu orða til að öðlast góðan skilning á viðfangsefninu.


Þegar fréttin er skrifuð er verkefnið enn í vinnslu, en hér að neðan getið þið séð sýnishorn af myndskeiðum nemenda.

Jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum - ,,Lævísir á svipinn..”
Jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum - ,,Bjúgnakrækir”

Fréttir af upplýsingatækni á yngsta og miðstigi.

Það er alltaf nóg að gera í UT tímum hjá nemendum á yngsta og miðstigi. Hér er hlekkur á fréttabréf sem Lóa tók saman.

Myndlist og smíði

Nemendur í 5. bekk gerðu „Listaverk í skál“, sem er blönduð tækni í leir. „Jólaskíðabrekkan“ er samvinnuverkefni nemenda í 6. bekk.


Margir nemendur smíðuðu „símahótel“, en þetta er víst jólagjöf ársins í Sviþjóð. Það er umdeild jólagjöf - en það þarf enginn að vita. :) Hugmyndin er að njóta til dæmis matarboða og samverustunda án truflunar frá símum.


,,Tower of Hanoi" er gestaþraut sem margir eru búnir að gera í haust. Misstórir kubbar eiga að færast frá priki A til priks C. Það má aðeins færa einn kubb í einu og ekki má setja stærri kubb ofan á minni kubb.

Útikennsla og samþætting námsgreina.

Samþætting náms býður upp á fjölmarga möguleika á lifandi kennslu. 8.AR nýtti tækifærið í nóvember og skoðaði nærumhverfi Setbergsskóla sem hluta af samfélags- og náttúrufræðikennslu. Lærðu krakkarnir um allskonar veðrun, rof, mosa og sveppi. Ótrúlega gaman og spruttu upp heil miklar umræður milli nemendanna um hina og þessa hluti sem við skoðuðum. Markmiðið er að auka samþættingu náms og útikennslu hjá krökkunum með það að markmiði að víkka sjóndeildarhringinn og brydda upp á margvíslegum kennsluaðferðum.


Á ísköldum og fallegum föstudagsmorgni fór 8. AR í göngutúr til að njóta myrkursins, vetrarins og jólaljósanna í miðbæ Hafnarfjarðar. Ferðin var frábær, krakkarnir nutu þess að vera saman og var mikið hlegið. Við komum við í Jólaþorpinu á Thorsplani og héldu snillingarnir stutta tónleika fyrir gesti og gangandi áður en haldið var á kaffíhúsið Brikk þar sem krakkarnir fengu sér heitt súkkulaði og snúð. Notalegra getur það varla verið.

Smá brot af jólum.

Það voru glaðir og áhugasamir krakkar í 5. bekk sem spreyttu sig á að gera hreyfimyndir í Stop Motion. Þau unnu saman í hópum að því að finna út hvað það var í tengslum við jól sem þau vildu búa til lítið jólamyndskeið um. Hér að neðan er eitt af myndskeiðunum.
Jólasveinninn - hreyfimyndskeið

Christmas Around The World

Nemendur í 7.HM voru fullir forvitni og áhuga þegar þau í enskutíma kynntu sér hvernig lífið gengur fyrir sig út um allan heim yfir jólin, hverjir halda jól, og þá hvernig.
Big picture

Norræn jól.

Í kjölfar aðventunnar höfum við reynt að brjóta upp kennsluna örlítið í 6. bekk en þó reynt að tengja það við námsefnið sem við erum að vinna í. Norðurlöndin hafa verið viðfangsefni krakkanna undanfarnar vikur og ákváðum við því að kynna okkur jólahefðirnar hjá nágrannaþjóðum okkar og útbúa þessi stórfínu veggspjöld um Grænland, Danmörku, Noreg, Svíþjóð og Finnland. 6. GEE og 6. MSS senda öllum óskir um Hyvää Joulua och godt nyt år!

Utís 2019 - Upplýsingatækni í skólastarfi á Íslandi

Það komust færri að en vildu á viðburðinn sem haldinn var í 7. skipti á Sauðárkróki. Um 400 kennarar sóttu um en einungis um 120 komust að. Það er Ingvi Hrannar Ómarsson sem stendur að Utís en hann er löngu orðinn þekktur fyrir framlag sitt til menntamála á Íslandi. Það er sannarlega þess virði að gefa sér tíma til að hlusta á viðtalsþætti hans sem hann heldur úti á hlaðvarpsstöðinni Menntavarp (e. Podcast) en eins og hann segir gefur þetta honum tækifæri til að heyra frá því fólki sem hann er forvitinn um að heyra frá. Hann nemur nú við Stanfordháskóla þar sem hann hlaut skólastyrk.


Frá Setbergsskóla fóru tveir kennarar, þær Hildur og Helga, og kynntu þær hvernig við notum rafrænu stílabækurnar í Classroom í Google skólaumhverfinu í mið- og unglingadeild. Þær héldu svo kynningu fyrir kennarana og stjórnendur í skólanum þegar heim var komið á því helsta sem fram kom á UTís.


Hér er umfjöllun Ingileifar Ástvaldsdóttur skólastjóra um Utís 2019 en þar voru sex erlendir fyrirlesarar, menntabúðir, vinnustofur, kynningar og margt fleira. Hér er umfjöllun sjónvarpsstöðvarinnar N4 um Utís 2017, en hún gefur góða mynd af hugmyndafræðinni að baki ráðstefnunni.

Rýmingaræfing í skólanum.

Nefnd um viðbragðsáætlun stýrði rýmingaræfingu í skólanum. Farið var yfir það á fundi með starfsfólki skólans hvernig bregðast skuli við ef rýma þarf skólann. Nemendur voru undir æfinguna búnir og allt gekk rólega fyrir sig.