Fréttabréf

frá Bókasafninu í Hveragerði

"Þetta vilja börnin sjá"

Á næstu dögum verður sett upp sýningin "Þetta vilja börnin sjá" sem er sýning á myndskreytingum úr íslenskum barnabókum sem komu út á árinu 2014. 28 myndskreytar taka þátt í sýningunni og sýnir hún vel þá fjölbreytni sem er í íslenskri barnabókaútgáfu. Sýningin er farandsýning og hefur hangið uppi í Gerðubergi síðustu vikur, en fer nú á flakk um landið. Þetta er stór og mikil sýning og hvetjum við alla til að koma og skoða hana þennan mánuð sem hún verður hjá okkur. Skóla- og leikskólanemendur eru sérstaklega velkomnir.

Eftirtaldir eiga myndir á sýningunni: Anna Cynthia Leplar, Áslaug Jónsdóttir, Bergrún Íris Sævarsdóttir, Birgitta Sif, Björk Bjarkadóttir, Bojan Radovanovic, Brian Pilkington, Chris Aryanto, Denisa Negrea, Elsa Nielsen, Erla María Árnadóttir, Eva Þengilsdóttir, Eva Sólveig Þrastardóttir, Freydís Kristjánsdóttir, Högni Sigurþórsson, Kamil Jactek, Konráð Sigurðsson, Lára Garðarsdóttir, Linda Ólafsdóttir, Lína Rut, Michael D. Perez, Ósk Laufdal, Rán Flygenring, Rio Burton, Sigrún Eldjárn, Vladimiro Rikowski, Þorbjörg Helga Ólafsdóttir, Þórir Karl Celin.


Bókaverðlaun barnanna

Árlega tilnefna börn á aldrinum sex til tólf ára bestu barnabækur ársins. Tilnefningarnar fara fram í grunnskólum og á bókasöfnum um allt land. Veitt eru verðlaun fyrir eina frumsamda bók og aðra þýdda og fá höfundur og þýðandi þeirra bóka sem hljóta flest atkvæði að sjálfsögðu verðlaunin.

Hér í Hveragerði geta börnin tilnefnt bækur hvort sem er í Grunnskólanum í Hveragerði eða á Bókasafninu í Hveragerði (í Sunnumörk) til og með 26. mars. Dregið verður úr innkomnum tilnefningum og nokkur bókaverðlaun veitt!

Bókaverðlaun barnanna er mikilvæg viðurkenning fyrir höfunda því þau eru viðurkenning frá lesendum bókanna en ekki einhverri dómnefnd fullorðinna.

Hvetjið börnin til að taka þátt í valinu!