Fréttabréf Kópavogsskóla

október 2019

Okkar Kópavogur

Verkefnastjóri íbúatengsla hjá Kópavogsbæ hefur sent út upplýsingabréf vegna verkefnisins ,,Okkar Kópavogur". Þar er kallað eftir hugmyndum að verkefnum sem fara hugsanlega í frekari vinnslu og komast jafnvel til framkvæmda. Hugmyndafundur fyrir íbúa í Kópavogsskóla- og Smáraskólahverfunum verður í Kópavogsskóla fimmtudaginn 10. október kl. 17:00-18:30 og þar er hægt að koma hugmyndum á framfæri og ræða við starfsmenn Kópavogsbæjar. Nánari upplýsingar má finna á vef Kópavogsbæjar og íbúar eru hvattir til að fara þar inn og taka þátt í verkefniu.Því er komið á framfæri hér að margir nemendur í Kópavogsskóla hafa óskað eftir að fá ,,flottan" körfuboltavöll á skólalóðina og það er náttúrulega frábær hugmynd:-)

Umferðarmæling á Digranesvegi

Öryggisnefnd Kópavogsskóla óskaði eftir að gerð yrði mæling á umferð á Digranesveginum og það var gert vikuna 10.-17. ágúst sl. Niðurstöðurnar eru sem hér segir:


 • Heildarfjöldi bíla sem ók fram hjá mælistöðinni á meðan á mælingunni stóð hélst nokkuð stöðugur eða rúmlega 4.000 ökutæki á sólarhring um helgi og 6.200 ökutæki á virkum dögum.

 • Mest er umferðin um á milli 15:00 og 17:00 eða um tæplega 600 ökutæki á klst.

 • 58% ökutækja aka á hraðanum 30-40 km/klst.

 • 24% ökutækja aka á hraðanum 40-50 km/klst.
 • 1,7 % ökutækja ók hraðar en 50 km/klst.
 • Restin ók hægar en 30 km/klst.


Gera má ráð fyrir að fjöldi farartækja hafi aukist eftir að skólar byrjuðu og búið að óska eftir annarri mæling til að sjá muninn.


Þann 28. ágúst frá klukkan 13:00 til 14:00 vaktaði lögregla umferðina austur Digranesveg við Kópavogsskóla með hraðamyndavél.


 • Á tímabilinu vaktaði vélin 231 ökutæki og var meðalhraði þeirra 35 km.
 • Af vöktuðum ökutækjum voru ljósmynduð 68 brot eða um 29%.
 • Meðalhraði brotlegu ökutækjanna var 44 km.
 • Sjö ökutækjum var ekið á 50 km hraða
 • Hraðast var ekið á 64 km hraða.

Flokkun og endurnýting

Í Kópavogsskóla höfum við verið að flokka og endurvinna undanfarin ár en betur má ef duga skal. Þessa dagana er verið að taka í notkun nýjar flokkunartunnur í skólastofurnar og um leið fá nemendur fræðslu um flokkunarferlið. Eitt af markmiðum okkar er að vera laus við einnota umbúðir frá og með haustinu 2022. Við hvetjum nemendur til að koma með vatnsbrúsa með sér í skólann (enga drykki í fernum) og ef eitthvað kemur í fernu (eða skyrdós) fara þær umbúðir aftur heim í skólatöskunni því við erum ekki með aðstöðu til að skola plastumbúðir. Hér í skólanum geta nemendur hent lífrænum úrgangi eins og bananahýði, eplakjarna og fl. en hálf klárað nesti fer aftur heim sem hjálpar foreldrum að sjá hve mikið af nestinu nemendur borða í skólanum. Í framhaldi af þessari vinnu er í skoðun hvernig við getum minnkað matarsóun í matsal skólans. Einnig er unnið að því að fá flokkunartunnur á skólalóðina.

Rafrettur

Skólastjóri fór á kynningarfund hjá fyrirtækinu Rannsóknir og greining en þeir hafa verið með árlega könnun á ýmsum þáttum í lífi ungs fólks. Það sem vakti athygli þegar niðurstöður nýjustu könnunarinnar voru skoðaðar var áberandi aukning í fjölda nemenda á grunnskólaldri sem hefur prófað rafrettur eða nota þær að staðaldri. Nú eru að koma í ljós alvarlegar afleiðingar af notkuninni og embætti landlæknis hefur lýst yfir verulegum áhyggjum vegna notkunar rafretta. Lög um rafrettur tóku gildi 1. mars sl. og samkvæmt þeim er bannað að selja ungmennum yngri en 18 ára rafrettur og rafrettuvökva. Foreldrar eru hvattir til að ræða þetta við börn sín og kynna sér þau varnaðarorð sem fram hafa komið. Fikt getur haft alvarlegar afleiðingar og forvarnir eru ómetanlegar.

Hádegismatur

Í byrjun október voru um 82% nemenda skráðir í hádegismat. Það er hækkun frá því í vor og vonandi á enn eftir að fjölga. Þó nemendum standi til boða að fá hafragraut fyrir skólabyrjun (og unglingastiginu kl. 10) er mikilvægt að allir borði hádegismat. Matseðilinn og skráningarsíðuna er að finna hér og um að gera fyrir þá sem ekki eru í mataráskrift að prófa í 1 mánuð og meta svo framhaldið.

Reiðhjól og hlaupahjól

Nokkur tilvik hafa komið upp þar sem fiktað hefur verið í bremsum reiðhjóla nú í haust. Hættan sem það skapar er veruleg og mikilvægt að koma í veg fyrir að þetta gerist. Ekki er hægt að vakta hjól í hjólagrindum á skólalóðinni nema að mjög takmörkuðu leiti og því mikilvægt að fræða börn um hættuna og hvað þarf að varast. Því viljum við biðja foreldra að gera eftirfarandi:


 • ræða í fullri alvöru við börnin um hættuna sem þetta skapar
 • kenna þeim að athuga alltaf bremsur hjólanna áður en þau hjóla af stað


Forvarnir eru alltaf sterkasta vopnið í baráttunni við fikt og því mikilvægt í öllu uppeldi að ræða atriði eins og þetta ekki síst ef umfjöllun verðu í fjölmiðlum.


Vegna þrengsla í skólanum getum við ekki lengur verið með hlaupahjól innanhúss og mikil slysahætta af notkun þeirra á skólalóðinni. Því verðum við að banna notkun þeirra í skólanum. Biðjum foreldra að ræða það við börnin og sjái til þess að hlaupahjólin komi ekki í skólann.

Leyfi nemenda á skólatíma

Síðastliðið skólaár var að frumkvæði Velferðarvaktarinnar gerð könnun í öllum grunnskólum landsins þar sem spurt var um óskir foreldra um leyfi á skólatíma fyrir börn sín. Niðurstöðurnar lágu fyrir í mars og athygli vakti hve gríðarlega algengt var að foreldrar bæðu um leyfi fyrir börn sín. Erfitt er fyrir skólana að neita um leyfi því þá ákvörðun er hægt að kæra til Mennta- og menningarmálaráðuneytis eins og fram kemur í úrskurði ráðuneytisins. Þegar niðurstöður fyrir Kópavogsskóla voru skoðaðar kom í ljós að á árin 2018 voru 76 nemendu sem fengu leyfi í 3-6 daga á vorönn og 63 nemendur fengu leyfi í 3-6 daga á haustönn. Á vorönn 2018 fengu 49 nemendur leyfi í 7 daga eða fleiri og 46 nemendur í 7 daga eða fleiri á haustönn.


Þegar foreldrar sækja um formlegt leyfi í gegnum heimasíðu skólans birtist eftirfarandi klausa úr 15. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla:


“Sæki foreldrar skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn í einstökum námsgreinum eða að öllu leyti er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu telji hann til þess gildar ásæður. Foreldrar skulu þá sjá til þess að nemandinn vinnu upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur”.


Mikilvægt er að taka þetta alvarlega og sem betur fer gera flestir foreldrar það. Hjá öðrum verður misbrestur og sum börn eiga í erfiðleikum með að ná upp því sem ekki var unnið í leyfinu. Foreldrar eru hvattir til að sjá til þess að börnin sinni náminu meðan fríið varir svo ekki komi upp vandi þegar þau koma til baka.