Fréttabréf Síðuskóla

7. bréf - mars - skólaárið 2021-2022

Kæru foreldrar, nemendur og starfsfólk!

Nú er marsmánuður runninn upp og birtir með hverjum deginum sem líður. Við gerðum heiðarlega tilraun til að hafa útivistardag en veðrið er ekki alveg í liði með okkur þessa dagana. Við gefumst auðvitað ekki upp og munum finna dag í þessum mánuði til útiveru.

Framundan er vetrarfrí í skólanum og vonum við að allir geti notið þess. Þegar því er lokið brettum við upp ermar og förum að undirbúa árshátíð á fullu. Eins og allir vita þurftum við að fresta henni en þar sem engar takmarkanir eru núna er ekkert því til fyrirstöðu að taka upp þráðinn og halda árshátíð án fjöldatakmarkana. Við sendum skipulagið þegar nær dregur.

Við höldum ótrauð áfram, smitum fækkar, vorið skammt undan og skólastarfið smám saman að verða aftur eins og við viljum hafa það. Það er því ekki ástæða til annars en að horfa bjartsýn fram á veginn.


Bestu kveðjur úr skólanum,

Ólöf, Malli og Helga

Reykjaferð hjá 7. bekk

Í síðustu viku fór 7. bekkur í Síðuskóla í skólabúðirnar að Reykjum. Með Síðuskóla voru tæplega 60 börn frá Brekkuskóla og voru krakkarnir saman í alls konar hópavinnu. Farið var á byggðasafnið, umhverfið skoðað og farið í íþróttir og sund. Á kvöldin voru kvöldvökur sem krakkarnir stjórnuðu sjálfir. Það var mikið fjör í ferðinni og stóðu okkar nemendur sig vel.

100 miða leikurinn

Í þessum mánuði fórum við í 100 miða leikinn í skólanum. Umbunin var að fara í pílu í íþróttahúsinu í Laugargötu og síðan var komið við í Brauðgerð Akureyrar í Sunnuhlíð.

Vinningshafi í 3. bekk

Í síðustu viku fékk 3. bekkur skólans góða heimsókn er fulltrúar frá slökkviliði Akureyrar komu og veittu nemanda í bekknum verðlaun vegna 112 dagsins. 112 dagurinn er haldinn 11. febrúar á hverju ári þar sem lögð er áhersla á kenna neyðarnúmerið og minna á mikilvægi kunnáttu í skyndihjálp. Fulltrúar frá slökkviliðinu komu í heimsókn fyrr í mánuðinum og lögðu fyrir getraun í 3. bekk eins og gert er í þessum árgangi á öllu landinu og síðan er dregið úr réttum svörum. Nemandinn sem svaraði öllu rétt og dreginn var út er Tinna Ósk Pálsdóttir og óskum við henni til hamingju! Á myndinni með fréttinni má sjá þegar fulltrúar frá slökkviliðinu komu og afhentu Tinnu viðurkenningarskjal en hún fékk að auki inneign á Storytel hljóðbókasafnið.

Val á miðstigi

Í vetur hefur verið boðið upp á val á miðstigi. Markmið verkefnisins eru m.a. að stuðla að auknum samskiptum á milli árganga, efla áhuga og gefa nemendum kost á að velja sér viðfangsefni og auka þannig lýðræði í skólastarfi. Boðið hefur verið upp á fjölbreytt verkefni í valinu, hér má sjá nokkrar myndir frá útsaumi, origami og föndri.

Síðuskólablaðið

Í vali á miðstigi er m.a. verið að vinna Síðuskólablaðið. Hópurinn er mjög áhugasamur og hefur komið með fullt af skemmtilegum hugmyndum. Covid hefur aðeins verið að trufla okkur en samt sem áður er ,,blaðamönnunum” að takast að setja saman blað með allskonar efni sem gefið verður út strax eftir vetrarfrí.

Hér má sjá mynd af hópnum í síðasta valtímanum sem var 1. mars. Það var eini tíminn sem allir mættu í.

Hér eru fleiri myndir.

Á döfinni

2. mars

Skipulagsdagur

3.-4. mars

Vetrarfrí

10. mars

Upplestrarkeppnin í 7. bekk - úrslit í Síðuskóla

23. mars

Lokahátíð upplestrarkeppninnar

9. bekkur , heimsókn í VMA

10. bekkur, heimsókn í MA

28. mars

Fundur í skólaráði

31. mars og 1. apríl

Árshátíð Síðuskóla

Big picture
Big picture