Fréttabréf Menntaskólans á Ísafirði

Vorönn 2018

Big image

Nýsamþykktar skólareglur

Á haustönn voru samþykktar nýjar skólareglur sem taka gildi við upphaf vorannar. Vinsamlegast kynnið ykkur efni þeirra vel en reglurnar er að finna á heimasíðunni.


Við vekjum sérstaka athygli á breytingum á veikindaskráningum og veikindatilkynningum:


  • Öll forföll skal tilkynna. Nemendur 18 ára og eldri tilkynna sjálfir sín veikindi. Forráðamenn nemenda yngri en 18 ára tilkynna veikindi barna sinna. Veikindi skal tilkynna í gegnum INNU eða með tölvupósti á netfangið misa@misa.is fyrir klukkan 10:00 hvern virkan dag sem veikindi vara. Framvísa skal vottorði þegar veikindi hafa verið tilkynnt 5 sinnum. Samfelld veikindi teljast 1 skipti. Sé um langvarandi veikindi að ræða skal hafa samband við námsráðgjafa.
  • Skólameistari getur veitt undanþágu frá skólasóknarreglum vegna forfalla. Sótt er um undanþáguna í tölvupósti til skólameistara og þarf forráðamaður nemenda yngri en 18 ára að sækja um fyrir þeirra hönd. Slíkar undanþágur eru veittar vegna keppnisferða landsliða eða æfingabúða ef staðfesting frá þjálfara liggur fyrir. Einnig eru veittar undanþágur vegna læknisheimsókna og persónulegra erinda sem talin eru brýn.
  • Tilkynni nemandi eða forráðamaður nemanda yngri en 18 ára um fjarvist af einhverjum orsökum er hún skráð sem tilkynnt fjarvist (T) í INNU og fær nemandinn þá 1 fjarvistarstig í INNU fyrir hverja kennslustund.
  • Nemendur í fullu námi (25-33 f-einingar/15 – 20 einingar) fá eina einingu á önn fyrir mætingu ef raunmæting er 95% eða meiri.
Big image

Nemendaumsjónakerfið INNA

Í INNU má finna ýmsar upplýsingar sem tengjast námi nemenda. Allir nemendur hafa aðgang að INNU sem og forráðamenn nemenda yngri en 18 ára. Þeir nemendur sem eru orðnir 18 ára geta merkt við í INNU að forráðamenn þeirra hafi áfram aðgang og hvetjum við alla nemendur til að gera það.

Upplýsingaskjár - forföll kennara

Á heimasíðu skólans, undir upplýsingaskjár, má sjá upplýsingar um kennara sem eru fjarverandi þann daginn. Að öllu jöfnu er ekki um afleysingakennslu að ræða falli kennsla niður hjá kennurum nema um langa fjarveru sé að ræða. Nemendur og forráðamenn nemenda yngri en 18 ára eru líka upplýstir um forföll með tölvupósti og skilaboðum í INNU.
Uppfærslu á heimasíðu skólans er nú lokið www.misa.is

Á heimasíðu skólans má finna ýmsar upplýsingar um skólastarfið, s.s. um starfsmenn, uppbyggingu brauta, fréttir úr skólastarfinu o.fl. Skólinn er líka með síðu á Facebook.

Big image

Félagslíf nemenda

Nemendafélag MÍ skipuleggur ýmiss konar viðburði á hverju skólaári og framundan eru t.d. söngkeppni, uppsetning leikrits, útgáfa skólablaðs, Sólrisa og margt fleira. Stjórn Nemendafélagsins skipa Hákon Ernir Hrafnsson formaður, Kristín Helga Hagbarðsdóttir gjaldkeri, Arndís Þórðardóttir ritari, Birta Lind Garðarsdóttir formaður íþróttaráðs, Bjarni Pétur Marel Jónasson (nýr inn um áramótin) menningarviti, Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson málfinnur og Pétur Ernir Svavarsson formaður leikfélagsins.

Skólahjúkrunarfræðingur

Skólahjúkrunarfræðingur er við alla miðvikudaga milli kl. 10:30-12:00. Skólahjúkrunarfræðingur er Rakel Rut Ingvadóttir.

Skráning í útskrift

Þeir nemendur sem ætla að útskrifast í vor þurfa að skrá sig til útskriftar hjá ritara fyrir 30. janúar n.k. Útskriftin fer fram laugardaginn 26. maí n.k.

Moodle og námsáætlanir

MÍ notar námsumsjónarkerfið Moodle. Þangað inn þurfa nemendur að fara reglulega til að fylgjast með kennslu í áfanganum. Á Moodle er að finna námsáætlun hvers áfanga en í námsáætlunum má finna ýmsar upplýsingar, s.s. um markmið, yfirferð í áfanganum, verkefnaskil, námsmat o.fl.

Skráning úr áföngum

Síðasti dagur til að segja sig úr áföngum er 29. janúar n.k. Nemendur sem segja sig úr áföngum eftir þann tíma fá fall (F) í áfanganum í INNU.

Fjarnám - möguleikar á auknu námsframboði

Vaxandi þáttur í starfsemi MÍ er fjarnám. Um og yfir 100 nemendur stunda nú fjarnám við skólann auk þess sem margir nemendur MÍ eru í fjarnámi við aðra skóla. MÍ tekur þátt í samstarfi um fjarnám í gegnum Fjarmenntaskólann. Fjarmenntaskólinn er samstarfsvettvangur 13 framhaldsskóla á landsbygðinni og er markmið samstarfsins að auka framboð náms á framahaldsskólastigi á starfssvæði skólanna og á landinu öllu. Þetta samstarf gerir það að verkum að nemendum í MÍ býðst að stunda fjarnám í stökum áföngum í einhverjum af samstarfsskólanum sér að kostnaðarlausu. Með þessu móti hefur skólanum tekist að auka við námsframboð sitt.

Breyttar áherslur í íþróttum utan skóla

Frá og með vorönn 2018 verða breyttar áherslur í íþróttum utan skóla. Þeir sem eru að æfa íþróttagrein þar sem þjálfari er á svæðinu þurfa að biðja sína þjálfara um að senda íþróttakennara tölvupóst, kolbrunfa@misa.is, með nöfnum þeirra sem eru að æfa viðkomandi grein einu sinni í mánuði.Þeir sem eru að æfa líkamsrækt eins og lyftingar eða eru að mæta í hópatíma þurfa að taka mynd af mætingunni á staðnum þar sem þeir æfa og senda íþróttakennara í tölvupósti, kolbrunfa@misa.is, fyrir hverjar námslotu og það tímabil sem hún spannar.


Ekki er í boði að æfa heima fyrir án leiðsagnar þar sem foreldrar/forráðamenn/vinir eru þeir sem geta staðfest æfingarnar.


Til þess að uppfylla skilyrði um að standast íþróttaáfangann þarf að mæta að lágmarki tvisvar sinnum í viku í sína grein/á sínar æfingar.

Námsráðgjöf

Hlutverk námsráðgjafa Menntaskólans á Ísafirði er að standa vörð um velferð nemenda, styðja þá í námi og aðstoða við val á framhaldsnámi. Námsráðgjafi er málsvari og trúnaðarmaður nemenda og er bundinn þagnarskyldu um einkamál þeirra.


Námsráðgjafi er við á auglýstum viðtalstíma, hægt er að koma við eða panta tíma hjá ritara í síma 450-4400. Námsráðgjafi skólans er Stella Hjaltadóttir, stella@misa.is.

Bókasafn skólans

Bókasafn skólans er tilvalinn staður til að vinna heimavinnuna, t.d. þegar eyður eru í stundatöflu. Þar er líka fullt af góðu lestrarefni. Á bókasafninu eru nemendatölvur og aðstaða til að prenta út. Safnvörður er Júlía Björnsdóttir, juliabj@misa.is.

Mötuneyti

Nemendur og starfsfólk MÍ eiga þess kost að fá hollan og góðan mat í hádeginu (kl. 12-13). Alla daga er í boði heit máltíð, súpa og salatbar. Matseðil hverrar viku má nálgast á heimasíðu skólans.


Verðskrá:


  • Annarkort kr. 60.000 - 75 máltíðir, hægt að skipta greiðslu í tvo hluta.
  • 10 máltíða kort kr. 8.500 kr.
  • Stök máltíð kr. 1.000
  • Hægt er að kaupa annarkort, matarkort og matarmiða hjá ritara á opnunartíma skrifstofu skólans.


Forstöðumaður mötuneytis er Halldór Karl Valsson.

Hvatning til foreldra og forráðamanna

Verið ófeimin að skipta ykkur af námi barna ykkar. Fjöldi innlendra og erlendra rannsókna hafa sýnt fram á að þátttaka og hvatning foreldra framhaldsskólanema hefur mjög jákvæð áhrif á námsgengi þeirra.


Endilega komið með ábendingar um það sem betur má fara í skólanum en leyfið okkur einnig að heyra það sem vel er gert.

Helstu dagsetningar á vorönn

Hér er að finna helstu dagsetningar vorannar en við bendum á skóladagatalið fyrir frekari upplýsingar:


29. janúar:
Síðasti dagur til að segja sig úr áfanga á vorönn 2018.

30. janúar:
Síðasti dagur fyrir útskriftarnemendur að skrá sig til útskriftar hjá ritara.

6. febrúar:
1. fjarvistatímabili lýkur.


7. febrúar:

Námsmatsdagur/endurgjöf - ekki kennsla.


8. febrúar: Lotumat 1


15.-16. febrúar:

Vetrarfrí


26. febrúar - 2. mars:

Sólrisa


15. mars:

Valdagur fyrir haustönn 2016.

26. mars - 3. apríl:

Páskafrí


9. apríl:

Fjarvistatímabili 2 lýkur


10. apríl:


Námsmatsdagur/endurgjöf - ekki kennsla.


11. apríl

Lotumat 24. maí:

Dimmision


11.-18. maí:

Námsmatsdagar


26. maí:

Útskrift frá Menntaskólanum á Ísafirði.