Fréttabréf Borgaskóla
2. tbl, 2. árg.
Gleðilega páska
Það kennir ýmissa grasa í fréttabréfinu, allt frá áhugaverðum verkefnum nemenda til viðburðar með tónskáldi.
Starfsfólk Borgaskóla óskar nemendum og fjölskyldum þeirra notalegra stunda í páskafríi.
Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 19. apríl.
Góða skemmtun við lesturinn!

Fyrsti áfangi endurgerðar á skólalóð

Verkefni 5. bekkjar um óskilamuni
Óskilamunir í skólanum voru skoðaðir og greindir. Nemendur skoðuðu virði hlutanna og reiknuðu út og sýndu kostnaðinn við óskilamuni. Nemendur unnu eftir neðantöldum skrefum:
- Safna öllum óskilamunum inn í stofu.
- Sortera húfur, vettlinga, sokka og öðrum flíkum saman.
- Raða öllum flíkum snyrtilega upp á borð.
- Telja hversu margar flíkur eru á hverju borði.
- Áætla hvað hver flík kostar – með aðstoð iPad (kíkja á heimasíður fataverslanna).
- Reikna saman hvað hver flokkur kostar og skrá á blað.
- Ef einhverjar flíkur eru merktar þá þarf að koma þeim til eiganda síns.
Eftirfarandi hæfniviðmið aðalnámskrár voru til hliðsjónar við vinnu verkefnisins:
Nemandi geti:
· Fylgt ferli orsaka og afleiðinga af gerðum manna og bent á leiðir til úrbóta. (Hvað getum við gert til að minnka uppsöfnun á óskilamunum?)
· Gert sér grein fyrir nýtingu og vernd auðlinda og umhverfis, hvernig hver einstaklingur getur lagt sitt af mörkum til verndar. ( Hvaða áhrif hefur það á umhverfið okkar að kaupa bara nýtt?)
· Rætt um eigin athafnir og afleiðingar þeirra. (Átt þú eitthvað af óskilamunum – hvað gætir þú gert til að minnka fatasóun?)
· Notað kort og gröf til að afla sér upplýsinga. (Rekja leið vöru frá efninu sem notað er í framleiða hana til þess sem kaupir hana).

#leggjumviðhlustir á Barnamenningarhátíð
Nemendur í 7. bekk Borgaskóla buðu til viðburðar á Barnamenningarhátíð á Borgarbókasafninu í Spöng. Viðburðurinn veitti innsýn í námskeiðið #leggjumviðhlustir sem tónskáldið Halla Steinunn Stefánsdóttir vann í samstarfi við nemendur. #leggjumviðhlustir var unnið í skólabyggingunni og nærumhverfi hennar þar sem unnið var út frá spurningum um hvernig við hlustum og á hvað. Nemendur lærðu að nota upptökutæki og héldu í umhverfisupptökur.
Verkið var sett upp sem fjögurra hátalara hljóðinnsetning. Nemendur Borgaskóla stigu inn í verkið, ásamt kammerhópnum Nordic Affect og kölluðust á við hljóðupptökurnar og vinnslu þeirra. Þess má geta að ljóðskáldið Angela Rawlings var ráðgjafi í verkefninu.
Viðburðurinn var haldinn tvisvar sinnum þann 7. apríl og nemendur stóðu sig með eindæmum vel og áhorfendur nutu þess að hlusta. Fleiri myndir má finna hér.

Borgarstjóri í heimsókn

Að gróðursetja fræ - Náttúrufræði í 4.bekk
Nemendur í 4. bekk eru að vinna það skemmtilega verkefni að gróðursetja fræ og fylgjast með því vaxa úr fræi í plöntu. Þann 10. mars skárum við bæði tómata og paprikur rannsökuðum fræin og settum þau í mold. Það liðu ekki margir dagar þar til við gátum farið að fylgjast með verkefninu vaxa. Nemendur skrá niður hæð og fjölda laufa á sinni plöntu og safna gögnum fyrir tölfræðina. Nemendur er áhugasamir um verkefnið og þótti þeim fljótt vænt um sínar plöntur.
Áhugi kviknaði einnig á öðrum fræjum, nemendur eru að gera tilraunir með vatnsmelónufræ, jarðarberjafræ og vínberjafræ. Myndir frá verkefninu má finna hér

Nemendaþing á miðstigi
Nemendaþing var haldið í Borgaskóla 23. mars þar sem nemendum á miðstigi var skipt upp í umræðuhópa þvert á árganga. Markmið með nemendaþingum eru að:
· nemendur fái tækifæri til að taka þátt í lýðræðislegri samræðu um málefni sem hafa áhrif á daglegt líf þeirra og skipulag skólastarfsins
· efla vitund nemenda um eigin áhrif í skólastarfinu
· fá fram sjónarhorn nemenda í ýmsum málaflokkum
· fá fram tillögur frá nemendum um hvað hægt er að gera til að hafa jákvæð áhrif á daglegt skólastarf
Þingið snerist að þessu sinni um skólamenningu og hvernig nemendur geta haft áhrif á skólabrag ef allir taka höndum saman. Í hverjum hópi voru sex nemendur úr 5. – 7. bekk, þar af var hópstjóri og ritari sem skráði niðurstöður á Padlet vegg í hverjum þeirra. Eftirfarandi punktar voru til umræðu :
o valgreinar næsta skólaár
o umgengni í skólanum og á skólalóð
o virðing fyrir verkum nemenda t.d. snjókarlar og snjóhús
o hvenær á að mæta í skólann á morgnana?
o hvernig get ég verið góður skólafélagi?
o hvað langar mig mest að læra?

5. bekkur með viðburð á Barnamenningarhátíð í samstarfi við Dansgarðinn
Veggen er samnorræn dans- og vídeó vinnustofa þar sem tekið er á sjálfsmynd, gagnkvæmri virðingu og trausti. Nemendur 5. bekkjar voru í vinnustofu í fjóra daga með kennurum úr Dansgarðinum og buðu svo til sýningar í íþróttahúsi föstudaginn 8. apríl. Sjón var sögu ríkari og afraksturinn var frábær. Takk fyrir samstarfið Dansgarður.

Nemendaþing á yngsta stigi
Nemendaþing var haldið á yngsta stigi miðvikudaginn 6. apríl. Þetta er í annað skipti sem nemendur sitja á nemendaþingi í Borgaskóla, en þó í fyrsta sinn með þessu sniði þar sem ekki var unnt að skipuleggja þingið þvert á árganga á síðasta skólaári. Þingið snerist að þessu sinni um skólamenningu og hvernig nemendur geta haft áhrif á skólabrag ef allir taka höndum saman. Umræðupunktar þingsins voru:
o umgengni í skólanum og á skólalóð
o virðing fyrir verkum nemenda t.d. snjókarlar og snjóhús
o hvernig get ég verið góður skólafélagi?
o hvað langar mig mest að læra?
Nemendur í 1. og 2. bekk unnu saman í litlum hópum og nemendur í 3. og 4. bekk unnu saman í 15 umræðuhópum þar sem skipaðir voru hópstjórar og ritarar. Að loknum umræðum kynntu hóparnir niðurstöður sínar fyrir samnemendum og kennurum með stakri prýði.
Fleiri myndir frá nemendaþinginu er að finna hér.

Styrkur frá Forriturum framtíðarinnar
Við urðum þess heiðurs aðnjótandi að Forritarar framtíðarinnar, sem er samfélagsverkefni fjármagnað af aðilum atvinnulífsins, styrkti Borgaskóla um 150 þúsund krónur til vélmennakaupa síðastliðið sumar. Fyrir upphæðina náðum við að kaupa sex Sphero Bolt vélmenni. Með þessari viðbót í forritunarkennslu hefur svo sannarlega aukið fjölbreytni í skólastarfi hjá okkur í vetur. Vélmennin hafa vakið mikla lukku meðal nemenda.

Fjöltefli í Borgaskóla
Við fengum skemmtilega heimsókn frá Grænlandsvinum á dögunum. Nemendur fengu tækifæri til að taka þátt í fjöltefli og góð stemning skapaðist á bókasafni skólans. Tilefnið var liður í undirbúningi fyrir árlega hátíð sem fram fer á þeirra vegum um páskana í afskekktasta þorpi Grænlands, Ittoqqortoormiit, þar sem boðið verður upp á skák, sirkusskóla, listasmiðjur, tónlist og páskaegg fyrir alla. Grænlandsvinir þakka kærlega fyrir hjálpina sem nemendur í Borgaskóla lögðu af mörkum við að þjálfa fjöllistamennina Linus og Axel í fjöltefli. Fleiri myndir má sjá hér.

4. bekkur á Barnamenningarhátíð

Hamrar og Hulduheimar í heimsókn
Leikskólinn Hamrar og leikskólinn Hulduheimar komu í heimsókn með elstu nemendur sína í mars. Það var mikil eftirvænting í verðandi nemendum að koma inn í skólann sinn. Nemendur fengu leiðsögn um skólann og unnu verkefni í kennslustofu 1. bekkjar. Á myndinni hér að ofan má sjá nemendur í heimsókn á bókasafni skólans þar sem fallega útsýnið heillar.
Valgreinin Göngur utan hefðbundinna göngustíga
Göngur utan hefðbundinna göngustíga var heitið á valhópi sem fór í gang í janúar, kennari var Pálína Þorsteinsdóttir. Í fyrsta tíma var fræðsla um útbúnað, klæðnað, hvað þarf að hafa í huga fyrir göngur á þessum árstíma og næringu fyrir og í göngunni. Einnig skoðuðum við fyrirhugaðar göngur á korti og myndir frá stöðunum. Fyrsta gangan okkar var við Reynisvatn. Veður var vægast sagt blautt og mikið rok. Ferðalangar voru, þrátt fyrir bleytu, ánægðir með ferðina.
Önnur ferðin var upp á Úlfarsfell. Þá fengum við mun betra veður og þessi ferð reyndi á úthald og lofthræðslu, en allir stóðu sig með prýði.
Einni ferð var aflýst þar sem veður bauð ekki upp á útivist, en í þeim tíma horfðum við á youtube-myndband af manni hlaupa Laugaveginn, frá Landmannalaugum til Þórsmerkur 54 km.
Í síðustu ferðinni okkar gengum við niður í fjöru fyrir neðan skólann og út í Geldinganes.
Þetta var virkilega vel heppnað allt saman og krakkarnir flestir með meiri áhuga á útivist eftir að vali lauk heldur en í upphafi þess.

Nemendur í 6. bekk læra um sólkerfið

Sjónlistadagurinn 16. mars
Sjónlistadagurinn var haldin þann 16. mars síðastliðinn.
Í ár nýttum við daginn til að minna á mátt myndmáls og notuðum tákn til að gera það góða sýnilegt. Þemað var að dreifa kærleika, væntumþykju og von útí kosmóið. Allir nemendur gerðu hjarta og sem þeir túlkuðu á sinn hátt. Í ljósi ástandsins í Evrópu sköpuðust umræður um stríð, frið og ýmislegt því tengt. Þetta var skemmtilegt og uppbyggilegt verkefni.
Myndirnar tala sínu máli.

Chromebæku r í 6. bekk
Allir nemendur í 6. bekk fengu afhentar Chromebækur í febrúar og eru tölvurnar nýttar sem námstæki í fjölbreyttum verkefnum. Á sama tíma fengu nemendur í 7. bekk afhenta ipada til notkunar og er þessi afhending liður í innleiðingu Reykjavíkurborgar á 1:1 verkefninu sem snýst um að nemendur í grunnskólum hafi tæki til umráða.
Ferð 7. bekkjar á Reyki
Vikuna 28. febrúar - 4. mars fóru nemendur 7. bekkjar í skólabúðirnar á Reykjum. Veður tafði brottför um nokkrar klukkustundir en nemendur sýndu af sér mikið þolgæði við biðina. Komið var á leiðarenda um kl. 17:00 og fóru nemendur beint á fund með starfsfólki skólabúðanna. Fjölbreytt dagskrá var alla vikuna og var nemendum skipt í hópa þar sem þau blönduðust með nemendum úr öðrum skóla.
Á miðvikudeginum var öskudagur og var kötturinn sleginn úr tunnunni við mikla kátínu. Á hverju kvöldi var kvöldvaka og voru nemendur mjög duglegir að koma með uppástungur af atriðum fyrir hana og að lokum var ball á fimmtudeginum sem sló í gegn. Þegar leggja átti af stað heim á föstudeginum, heyrðist í mörgum sem vildu vera í eina viku í viðbót.
Nemendur Borgaskóla voru til fyrirmyndar í þessari ferð og voru duglegir að taka þátt í dagskránni. Mörg þeirra kynntust nemendum úr hinum skólanum og voru margir duglegir að skrifa í dagbókina sína, sem án efa verður gaman fyrir þau að lesa seinna meir. Flott ferð og flottir nemendur.
Velkomin á tungumálum Borgaskóla
