Setbergsannáll

Desember 2020

Starfsfólk Setbergsskóla óskar nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Kveðja frá skólastjóra og aðstoðarskólastjóra

Nú er haustönn senn á enda og óhætt að segja að nemendur sem og starfsfólk hafi tekist á við þær áskoranir sem heimsfaraldur ber með sér af yfirvegun. Það var þó léttir fyrir nemendur að losna við grímurnar.


Í þessum veglega jólaannál gefur að líta fjölbreytt viðfangsefni nemenda innan skóla sem utan. Við skólann starfar áhugasamt og metnaðarfullt starfsfólk sem leggur áherslu á að gera skólastarfið skapandi og uppbyggilegt fyrir nemendur skólans.


Aðventan hefur verið notaleg og jólaandi ríkt í skólanum. Nemendur og starfsfólk hafa gert sér ýmislegt til tilbreytingar. Auk jólaföndurs, bæjar- og kirkjuferða, jólasöngs, lesturs bóka, rafrænna rithöfundaheimsókna og hinnar árlegu jólahurðasamkeppni, svo eitthvað sé nefnt, höfum við haldið aðventustund í öllum bekkjum þar sem nemendur hafa gætt sér á kakói og smákökum og allir hafa tekið þátt í piparkökumálun sem foreldrafélagið stóð fyrir. Við þökkum þeirra framlag til skólastarfsins.


Megið þið njóta jólahátíðarinnar sem allra best og eiga notalegar stundir í ykkar jólakúlu. Við þökkum ykkur fyrir gott og gjöfult samstarf á árinu sem er að líða og hlökkum til að sjá nemendur á nýju ári mánudaginn 4. janúar.

María Pálmadóttir skólastjóri og Margrét Ólöf Jónsdóttir aðstoðarskólastjóri.

Jólahurðirnar okkar, gangið í bæinn..

Big picture
Big picture
Big picture
Big picture
Big picture

..og jólahurð ársins 2020 - unnin af strákunum í 7. SLG

Big picture

2. sæti: 6. EE - 3. sæti: 10. LÖG og 1. bekkur

Big picture

Óskum þeim til hamingju

Lesarar og jólakósý á bókasafninu

Í lok nóvember gátum við loks opnað bókasafnið, þó svo í mýflugumynd væri. Hver bekkur fékk úthlutað einum tíma á viku. Sumir nemendur komu til að skipta um bók á meðan aðrir komu og nýttu tímann í smá kósy, - enda gott að komast í nýtt umhverfi eftir alla veruna í stofunni sinni.


Desembermánuður er líka sérlega spennandi mánuður á bókasafninu þar sem „jólabækurnar“ mæta smátt og smátt í hús. Nýju bækurnar fara þó ekki í almennt útlán fyrr en eftir áramót til að skemma nú ekki fyrir mögulegum bókajólagjöfum nemenda. Í staðinn var haldið fyrsta og hér eftir árlega ,,Jólabókastefnumótið". Þar var nemendum boðið á safnið með kennara sínum og fengu þeir að skoða allar nýju bækurnar í rólegheitunum. Sumir nemendur nýttu sér að fylla út óskalista til að taka með heim fyrir ættingja og vini.

Í ár var líka hægt að skrá sig sem ,,Lesara" á bókasafninu og sækja um að fá eina af nýju bókunum heim um jólin. Í staðin fyrir að fá að vera fyrstur með nýja bók og hafa hana heima yfir jólin, fær nemandinn smá verkefni með sér. Verkefnið felst í því að segja stuttlega frá bókinni og senda bókasafnsfræðingi. Umsögnin getur verið skrifleg, sem upplestur eða myndband, allt eftir því hvað nemandanum dettur í hug. Þessar umsagnir munu svo birtast í sérstökum Bókatíðindum Setbergsskóla á nýju ári. Það er óhætt að segja að þetta verkefni hafi slegið í gegn! Þeir nemendur sem eiga umsóknir sem dregnar verða úr pokanum, munu fá bækurnar í hendur rétt fyrir jólafrí.

Bókabræður í rafrænni heimsókn

Sökum ástandsins hefur ekki verið hægt að fá rithöfunda í heimsókn í skólann til að lesa upp úr nýjum bókum sínum. Við höfum því nýtt okkur tilbúna upplestra sem rithöfundar hafa sent okkur, þar með taldir flottir upplestrar frá Bjarna Fritzsyni og Sigrúnu Eldjárn.


Ævar og Guðni Benedikssynir gerðu þó gott betur og buðust til að mæta í skólann, - rafrænt! Í lok nóvember mætti Ævar á skjáinn hjá nemendum skólans og las upp úr bók sinn Þín eigin undirdjúp og svaraði svo spurningum nemenda í lokin sem skrifaðar voru í spjallgluggann. Guðni mætti svo til nemenda í byrjun desember beint frá Skotlandi og las upp úr bók sinni Bráðum aftur. Hann svaraði líka mörgum spurningum nemenda, allt frá því hver uppáhalds bókin hans væri til þeirrar hvað kötturinn hans héti. Það voru allir sammála um að þetta hefðu verið stórskemmtilegar heimsóknir og ótrúlega skemmtilegt að kíkja fram á gang á meðan upplestrum stóð og heyra hlátrasköllin hljóma úr stofunum.

Íþróttir á tímum Covid

Þegar nemendur máttu ekki nýta íþróttahús og sundlaugar var hreyfingin úti við. Meðal annars var farið í ratleik í hrauninu þar sem nemendur notuðu smáforritið TurfHunt til að svara spurningum á leið sinni. Ef einhvern langar í gönguferð með leik gæti fjölskyldan prófað leikinn í jólafríinu.

Klukkustund kóðunar - Hour of Code

Dagana 3. - 9. nóvember var alþjóðlega Hour of Code (Klukkustund kóðunar) forritunarvikan um heim allan. Markmiðið með átakinu var að hver og einn nemandi forritaði í að minnsta kosti eina klukkustund. Átakið hefur náð til yfir 140 milljón þátttakenda í yfir 180 löndum og fyrir allan aldur. Fjölmargir bekkir tóku þátt, og nemendur í Bergi fengu meira að segja viðurkenningar fyrir verk sín.

Persónur íslendingasagnanna komnar á Facebook og Instagram

Nemendur í 10. bekk luku við að lesa Laxdælu í vikunni og hafa unnið ýmiskonar verkefni tengd sögunni. Þau hafa haldið út verkefnabók þar sem þau teikna atburði úr sögunni sem þeim þykja mikilvægir. Einnig blésu krakkarnir lífi í persónurnar með því að útbúa færslur í þeirra nafni sem litu út eins og þessar persónur ættu sér Facebooksíðu eða Instagramreikning.


Lokaverkefnið verður svo að hanna og búa til borðspil úr söguþræði bókarinnar.

Námið á tímum Covid

Í 9-MG hefur verið hefðbundið bóknám. Við höfum verið hér í okkar stofu og mjög fáir aðrir kennarar komið hér inn. Nemendur unnu meðal annars teikniverkefni í stærðfræði með hringfara og reglustiku og gerðu teiknimyndasögu í samfélagsfræði. Þá skreyttu þau hurðina af skólastofunni, allir gerðu sitt hús og eitt tré.


Á aðventunni fórum við í gönguferð í Hellisgerði þar sem við nutum þess að rölta um í fallega jólaskreyttum garðinum, gæddum okkur á heitu kakói, kleinum og smákökum. Jólastemningin fylgdi okkur heim í stofu þar sem piparkökur voru skreyttar.

Óvissuferð í Tröllaskóg

"Hó hó hó. Það eru að koma jól. Það er óhætt að segja að haustið hafi verið óhefðbundið hjá okkur í skólanum. En krakkarnir í 9. AR eru búnir að vera frábærir og standa sig ótrúlega vel. Við höfum verið á fullu að koma okkur í jólagírinn, skreyta stofuna, hlusta á allskonar jólalög og höfum reynt að hlæja saman.

Þegar fór að nálgast miðjan desember fórum við saman í óvissuferð út í Tröllaskóg. Þegar þangað var komið var boðið upp á huggulegheit og notalega jólastemningu í rjóðrinu. Krakkarnir fengu smákökur og heitt kakó, spiluð var tónlist og jólaljós lýstu okkur í skammdeginu. Frábær stund, með frábærum krökkum í frábæru umhverfi."

Fjölbreytt starf á tímum Covid

Við í 8. bekk erum búin að reyna að halda áfram að vinna að fjölbreyttum og skapandi verkefnum í Covid, sérstaklega í aðdraganda jólanna. Í náttúrufræði erum við í líffræði og erum að skoða ólíka hópa lífvera. Við gerðum tilraun þar sem við skoðuðum hvernig brauð myglar eftir 5 ólíkum íhlutunum. Það var mjög áhugavert og fram kom að snertifletir eru vel sótthreinsaðir hjá okkur. Í haust fórum við út og tókum myndir af lífverum í hrauninu við Setbergsskóla og höfum verið að nýta þær í tengslum við námsefnið.


Í stærðfræði erum við í rúmfræði og hafa þau sýnt því mikinn áhuga og unnið að fjölbreyttum verkefnum til dæmis á Desmos og Geometry.


Í íslensku er verið að vinna að lokaverkefni í Íslendingaþáttum og nemendur hafa gert flottar ritanir í ensku. Í dönsku hafa krakkarnir verið að horfa á þætti og unnu að því loknu tímalínu úr þáttunum í hópum á veggspjald. Mörg þeirra eru núna að fylgjast með danska jóladagatalinu á dr.dk.

En nú nálgast jólin og þar sem ekki verður hefðbundin jólaskemmtun eru hópar nemenda að skipuleggja jólaskemmtun sem verður 17. desember.


Þrátt fyrir óhefðbundið skólastarf höfum við náð að hafa það notalegt í desember, skreytt piparkökur, fléttað jólahjörtu, skreytt hurðina okkar og ýmislegt fleira.

Frá Bergi

Nemendur og starfsfólk í Bergi þurftu heldur betur að aðlaga sig að breyttum aðstæðum og flutti Berg aðstöðu sína út í Krakkaberg þann 2. nóvember, þar sem við höfum verið síðan þá. Nemendur tóku þessari breytingu afar vel og hefur nemendum og starfsfólki liðið vel hér á þessum skrýtnu tímum. Allir dagar voru skipulagðir upp á nýtt með það að markmiði að hafa festu og áreiðanleika í skólastarfinu.


Mikil áhersla hefur verið lögð á útiveru og hreyfingu og fengum við Huldu íþróttakennara til liðs við okkur fyrstu vikurnar. Hún var með hreyfingu bæði innandyra og úti við á hverjum degi, það gerði gæfumun fyrir andlega líðan nemenda. Sem dæmi má nefna þá fóru eldri nemendur í göngu upp á Ásfjall og Hamarinn og þá var einnig farið í skólahreystibrautina við Lækjarskóla.


Jólaundirbúningur hefur verið á fullu hjá okkur og bjuggu allir nemendur til snjókarl í glugga Krakkabergs ásamt því að föndra ýmislegt annað jólalegt. Þá höfum við einnig bakað smákökur og gert okkur dagamun með því að horfa á jólamyndir og hlusta á jólatónlist og sögur. Við fengum jólamat eins og aðrir í skólanum. Við dúkuðum upp fallegt jólaborð og nemendur og starfsfólk borðaði saman og átti yndislega stund saman.

Allt í gangi í miðdeildinni

Nemendur í 7. bekk hafa unnið að mörgum og fjölbreyttum verkefnum nú á haustönninni. Þeir sömdu draugasögu og lásu upp fyrir sinn hóp. Reynt var að gera stemninguna draugalega með því að eina birtan var dauft skin frá spjaldi þess sem las söguna hverju sinni. Nemendur áttu svo að breyta sögunni í útvarpsleikrit með því að nota ákveðið forrit til þess að fá bakgrunnshljóð. Þetta tókst mjög vel hjá þeim og hér getið þið hlustað á sögur frá nemendum - ef þið þorið.

Útvarpssögurnar: SETBERGSDRAUGARNIR, DRAUGASAGA og BÖLVUNIN.

Heimaverkefnin hafa verið fjölbreytt og skemmtileg, þess má geta að eitt verkefni þeirra var að framkvæma tilraun í náttúrufræði. Nemendur tóku myndband af sér gera tilraunina og skiluðu efninu í Google Classroom. Í myndböndunum HÉR og HÉR má sjá nemendur framkvæma tilraunina.


Á myndinni sjást nemendur vinna hörðum höndum við að skreyta hurðina af skólastofunni, en samkeppnin er hörð í skólanum.


Nemendur í 7. bekk tóku þátt í Bebras áskoruninni, en allir skólar á landinu með nemendur á aldrinum 6-18 ára geta tekið þátt í þeirri áskorun. Áskorunin kannar rökhugsun og tölvufærni með því að þátttakendur leysa krefjandi og skemmtileg verkefni. Verkefnin leystu nemendur í spjaldtölvum sínum. Nemendum okkar gekk mjög vel, og þess má geta að Halldór Ingi fékk gullverðlaun, mjög flottur árangur. Þá tóku nemendur þátt í Klukkustund kóðunar (e. Hour of Code).


Nemendur fengu fræðslu um Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna í nóvember. Farið var yfir hvað sáttmálinn þýðir, öll réttindin í sáttmálanum ásamt þeim skyldum stjórnvalda að tryggja þessi réttindi. Í framhaldi var umræða um lífið á tímum veirunnar og hvernig hún hefur áhrif á alla í heiminum. Nemendur fengu verkefni þar sem lífið á tímum Covid var teiknað og hvernig það mögulega verður eftir Covid. Margar skemmtilegar myndir sköpuðust hjá krökkunum.

Vinna með texta getur verið ansi skemmtileg. Hér fengu börnin texta sem búið var að klippa niður eftir línum og þau áttu að finna út hvaða lag þetta var. Hér má sjá myndir frá vinnu þeirra við lagið flugvélar. Þau máttu nota línur úr laginu og búa til sína útgáfu af lagi sem þau röppuðu, sungu, lásu, dönsuðu og margt fleira. Mjög skemmtilegar útfærslur hjá þeim og gaman að nokkur þeirra voru til í að deila verkefnum sínum.
Stelpurnar í 7. bekk tóku áskorun RÚV og sendu inn efni fyrir Krakkaskaupið. Það verður spennandi að sjá hvort atriðin þeirra verða fyrir valinu.
Efni í Krakkaskaupið 2020 á RÚV

Hreyfimyndir og bókagerð

Nemendur í 6. bekk hafa nýtt tímann vel, verið dugleg í stærðfræði og eins höfum við lagt áherslu á ritun. Það var fróðlegt og skemmtilegt að hlusta á rithöfunda kynna og lesa upp úr bókum sínum í streymi og fá tækifæri til að senda þeim spurningar sem þeir svöruðu um hæl. Eins fengum við hugmyndir frá höfundum um hvernig þeir byggja upp sögu og nemendur reyndu fyrir sér sumir með áherslu á texta en aðrir á myndsköpun.


Krakkarnir hafa tekið þátt í Öðruvísi jóladagatali SOS Barnaþorpa, kynnst kjörum barna víða um heim og ætla að styðja við það góða starf.


Stuttar hreyfimyndir urðu til eftir lestur og umfjöllum um lífi og starf Snorra Sturlusonar.

Fæðing Snorra Sturlusonar - hreyfimynd
Snorri Sturluson í Reykholti - hreyfimynd

Á undanförnum vikum hefur nemendum gefist kostur á að skapa marga skemmtilega hluti í smíðum og leggja metnað í jólaskreytingar undir handleiðslu smíða- og myndmenntakennara.


Við höfum reynt að temja okkur vaxandi hugarfar á þessum sérstöku tímum, unnið að því að bæta samskipti og vera góð hvert við annað.

Spjaldtölvurnar að koma

Undanfarnar vikur hafa börnin í 5. bekk undirbúið sig fyrir það að fá spjaldtölvur inn í bekk, ein á hvert barn. Þau hafa fengið aðgang að Google skólaumhverfinu, stafræna skólanum okkar, búin að skrá sig inn í íslensku skólastofuna og vinna fyrsta verkefnið í stafrænu stílabókina sína. Spjöldin hafa komið sér vel í stærðfræðitímum þar sem þau hafa notfært sér síðu með gagnvirkum verkefnum sem tengjast námsefninu.


Þau eru dugleg að hjálpa hvert öðru

og ekki síður þiggja hjálp af virðingu.

Stærðfræðitími í 5. bekk

Börnin hafa glaðst saman á aðventunni. Við erum að fylgjast með öðruvísi dagatali SOS Barnahjálpar og ákváðum að leggja okkar að mörkum með því að hjálpa þeim sem minna mega sín.


Við byrjuðum á mjög skemmtilegu jólaföndri þar sem nemendur komu með krukkur í skólann sem þau síðan skreyttu með því að límlakka servíettur utan um þær og festa steina, blúndur eða borða á þær. Ótrúlega fallegar krukkur hjá þeim sem hægt er að setja teljós eða kerti í og njóta fallegrar birtu frá þeim.


Okkur kennarana langaði að gefa nemendum tækifæri á list og verkgreinum þannig að við samtvinnuðum það jólaföndrinu og í dag byrjuðu nemendur á næsta verkefni sem felur í sér að mæla út fyrir og saga jólatré. Þetta hefur vakið mikla lukku meðal nemenda.

Lífsferlar og hringrásir í náttúrunni

Börnin í 4. bekk hafa unnið verkefni sem fjallar um lífsferla og hringrásir í náttúrunni. Það unnu þau einmitt á hring og í hring til að leggja áherslu á hringformið. Við vildum leggja áherslu á að þau ynnu þetta þannig að saman færi færni hugar og handa. Þau þurftu að lesa sig í gegnum ferlið og klippa út og líma upplýsingarnar inn í réttri röð. Þannig virkjast fleiri skilningarvit. Punkturinn yfir i-ið er síðan listræn útfærsla þeirra sjálfra í myndskreytingum. Þetta heppnaðist mjög vel.


Það var mikið líf og fjör í jólaföndrinu og trékubbar öðluðust líf sem jólasveinar og hreindýr í fallegu landslagi byggðu á mandarínukössum.

Börnin fóru í skemmtilega kirkjuferð á aðventunni þar sem við gengum saman að Fríkirkju Hafnarfjarðar og nutum þar samverustundar. Þau sungu ýmis lög og lærðu um jólahefðir kristinna manna. Við fengum kakó og piparkökur og fórum í jolaþorpið og skoðuðum fallegu jólaljósin.

Í námi og leik

Börnin í 3. bekk eru búin vinna að rúmfræði í stærðfræði og hafa notað skemmtileg gögn í það. Þau hafa skoðað hluti í kringum sig, hvaða form er að finna í skólastofunni okkar og í nánasta umhverfi. Þetta hefur vakið mikla lukku hjá þeim.


Á aðventunni höfum við brallað ýmislegt, skreytt hurðina okkar, skreytt piparkökur og drukkið heitt kakó og svo höfum við æft og sungið jólalög eins og þið getið séð í meðfylgjandi myndskeiði.

Krakkarnir í 3. bekk í Setbergsskóla

Bæjarferðir á aðventu

Við í 2. bekk eru búin að njóta aðventunnar saman og gera ýmislegt skemmtilegt. Við nutum góða veðursins og fórum tvær bæjarferðir í vikunni. Annan daginn fórum við í boðið bekkjarsjóðsins í kakó og piparkökur úti á palli hjá Súfistanum. Þar tók Hjördís á móti okkur fyrir utan kaffihúsið með risastóran pott með heitu kakói og rjóma. Við skoðuðum síðan jólaþorpið og lékum okkur þar.

Seinni daginn var tekið á móti okkur í Fríkirkjunni. Þar voru sr. Sigurvin, Örn og Erna með fræðslu um kirkjuna og sögðu jólasöguna með sögu og söngvum. Að því loknu buðu kvenfélagskonur okkur upp á ekta heitt súkkulaði og piparkökur í safnaðarheimilinu. Börnin voru stillt og prúð og spurðu margra skemmtilegra spurninga.

Hamarinn

Börnin í 1.bekk fóru í gönguferð á Hamarinn og í kjölfarið bjuggu þau til þennan glæsilega Hamar sem sjá má hér fyrir neðan.


Aðventan hefur verið notaleg í námi og leik, börnin hafa skreytt piparkökur og drukkið heitt kakó, sungið jólalög, skreytt hurðirnar á skólastofunum og ýmislengt fleira.

Big picture
Big picture

Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Jólaball í Setbergsskóla 2020