Setbergsannáll

Október 2019

Frá skólastjóra og aðstoðarskólastjóra.

Ágætu foreldrar og forráðamenn.

Nú líður senn að haustfríi og ýmis verkefni að baki. Skólastarfið hefur verið blómlegt og verkefni fjölbreytt. Meðal þess sem nefna má er Bóka- og bíódagar en 4. bekkur tók þátt í opnunarhátíð verkefnisins og Gunnar Helgason kom í heimsókn í skólann. Kristín Tómasdóttir kom í heimsókn til nemenda og starfsfólks á yngsta stigi með fræðslu um hugtökin kyn, kyngervi og kynvitund með það að markmiði að auka skilning á fjölbreytileika mannlífsins og víðsýni okkar allra. Hópur kennara á yngsta stigi sótti námskeið um stýrða kennslu sem er samvinnuverkefni nokkurra grunnskóla ásamt HÍ og fengum við sérfræðinga frá Bandaríkjunum sem fyrir nokkrum árum héldu námskeið hér í Setbergsskóla, til að standa fyrir þessu námskeiði. Þátttaka í þessu verkefni er liður í því að efla starfsfólk skólans í þeim aðferðum sem við notum við lestrarkennslu á yngsta stigi. Fræðslufundur var haldinn fyrir starfsfólk um eineltis- og forvarnarmál og kynnt endurskoðuð viðbragðsáætlun gegn einelti og andfélagslegri hegðun sem foreldrar geta skoðað á heimasíðu. Kennarar ásamt námsráðgjafa og stjórnendum eru nú byrjaðir að boða til bekkjarforeldrafunda sem eru fastur liður í starfsemi skólans. Eins og þið vitið er Setbergsskóli Olweusarskóli og eru þessir fundir liður í því að vinna eftir áætlun Olweusar. Google vinnustofur hafa verið haldnar fyrir starfsfólk auk annarrar fræðslu tengda notkun spjaldtölva í skólastarfi.


Foreldrar voru boðaðir til haustfunda í september. Allir fundir hófust á sal þar sem stjórnendur fóru yfir niðurstöður skólaþings sem haldið var s.l. vetur með góðri þátttöku starfsfólks, nemenda og foreldra. Glærur frá skólaþingi er að finna á heimasíðunni undir SKÓLAÞRÓUN. Í vetur verður unnið áfram að þeim þáttum sem fram komu á skólaþingi. Margt sem þar var nefnt er þegar í farvegi en í vetur verður áherslan á leiðsagnarnám og hugarfar vaxtar auk þess sem endurgjöf verður nýtt á markvissari hátt. Á haustdögum sótti starfsfólk námskeið um viðfangsefnið og verður því fram haldið í vetur. Fyrir áhugasama má benda á þessa slóð þar sem hægt er að kynna sér nánar um hvað þetta verkefni snýst.


Samtalsdagur var haldinn þann 9. október. Nemendur mættu ásamt foreldrum til samtals við umsjónarkennara. Eins og endranær var mjög góð mæting á samtalsdegi. Fókusinn var á námslega stöðu, líðan og félagsleg tengsl nemenda. Farið var yfir lesfimi og annað námsmat sem nú þegar liggur fyrir auk þess sem farið var yfir ástundun. Foreldrar voru hvattir til að fylgjast vel með heimanámi barna sinna og upplýsingum um nám og námsframvindu sem finna má á mentor.is.


Samstarf við foreldra er afar mikilvægt við að ná þeim markmiðum sem við stefnum að. Foreldrar taka þátt í skólastarfinu á margvíslegan hátt og viljum við sérstaklega hrósa foreldrum fyrir virka þátttöku í skólastarfinu.

Námsferð starfsfólks til Brighton.

Starfsmenn Setbergsskóla fóru í sumar í námsferð til Brighton þar sem farið var í skólaheimsóknir og á námskeið um leiðsagnarmat og hugarfar vaxtar.


Í skólaheimsóknum var meðal annars skoðað hvernig spjaldtölvur nýtast í starfi í skóla þar sem innleiðingin nær yfir nokkur ár. Þá var farið í sérskóla og fylgst með úrræðum í einstaklingsmiðuðu námi. Útikennsla í skóginum gaf kennurum hugmyndir að því hvernig hægt er að nýta frekar hið frábæra umhverfi í nágrenni skólans.

Kennarar fengu eTwinning gæðamerki fyrir verkefni með nemendum.

eTwinning er samstarf kennara í Evrópu þar sem tvö lönd eða fleiri sameinast um að vinna ákveðið verkefni.Þær Selma og Ellý í samvinnu við Hildi Ástu fengu e-Twinning gæðamerki fyrir verkefnið Polar Project sem fjallar um hlýnun jarðar. Verkefnið var unnið af nemendum í 7. bekk síðast liðið vor, núverandi 8. bekkjum.


Vakin var athygli á þeirri náttúruvá sem steðjar að umheiminum og nemendur settu upp tilraun um bráðnun jökla. Þau kynntu sér mótmæli og baráttu Gretu Thunberg og sáu að börn og unglingar geta haft rödd í málum sem varða þau og þeirra umhverfi. Við vinnslu á verkefninu notuðu nemendur m.a. rafrænar lausnir í samskiptum við nemendur í öðrum löndum og kynntu verkefnið að lokum á 30 ára afmælishátíð Setbergsskóla.

Heildstætt stuttmyndaverkefni kynnt á ýmsum stöðum.

Samþætting námsgreina - spjaldtölvur og vélmenni - lykilhæfni.


Helga og Hildur Ásta hafa víða kynnt heildstætt stuttmyndaverkefni, sem 7.HM vann á vorönn; á Vorblóti 2019 hjá Menntavísindasviði Háskóla Íslands, í smiðju á haustdögum fyrir kennara í Reykjavík og á ráðstefnunni Snjallt skólastarf - möguleikar og áskoranir nýrrar tækni sem haldin var á vegum Rannís.

Heimildarmynd sem nemendur unnu um stuttmyndaverkefnið er hér.

Fréttabréfið sem unnið var meðan á vinnunni stóð er hér.

Haustferð starfsfólks

Það var glaður hópur starfsfólks sem naut samverunnar í góðu veðri í skátaskálanum við Hvaleyrarvatn. Hulda, Karl og Steinar íþróttakennarar stjórnuðu leikjum í skóginum og fólk skemmti sér konunglega, mikið hlegið.

María skólastjóri og Margrét aðstoðarskólastjóri grilluðu hamborgara og fólk naut matarins í veðurblíðunni og spjallaði um komandi skólaár.

Google skólaumhverfið - rafræni skólinn okkar á mið- og unglingastigi.

Við innleiðingu á spjaldtölvum er nauðsynlegt að hafa stað þar sem samskipti fara fram milli kennara og nemenda, kennarar geta gefið nemendum fyrirmæli og deilt efni með þeim, og nemendur skilað inn vinnu sinni. Í Setbergsskóla erum við vel á veg komin með að innleiða Google skólaumhverfið, en það er lokað námsumhverfi með rafrænum skóla, kennslustofum og geymslurými.


Í flestum árgöngum hafa kennarar valið að láta nemendur búa til rafrænar stílabækur, en í þær er hægt að skrifa, glósa, teikna, setja inn myndir, myndskeið og hlekki á vinnu sem þau vinna í öðrum forritum.


Allir nemendur á mið- og unglingastigi eiga sinn eigin aðgang að Google skólaumhverfinu með endingunni @hfjskoli.is og eru skráðir inn í Google smáforritin í spjaldtölvunni með þeim aðgangi. Við hvetjum ykkur til að fá börn ykkar til að sýna ykkur inn í kennslustofur sínar í spjaldtölvunni. Þau geta líka farið inn í rafræna skólann í tölvunni heima, skrá sig þá inn með skólanetfanginu sínu og lykilorði.

Skapandi glósutækni í rafrænar stílabækur

Krakkarnir í 9.LÖG hafa verið dugleg að nota forritið ,,tayasui sketches school” til að teikna atburði úr köflum í Gísla sögu. Þegar þau eru búin með teikningarnar setja þau þær við spurningarnar í rafrænu stílabókina sína. Þessi minnistækni hefur reynst þeim vel.


Þessa dagana eru krakkarnir að vinna að stuttmynd um vináttu sem verður sýnd í vinavikunni í nóvember.

Rannsóknir nemenda í náttúrufræði.

Það eru spennandi hlutir að gerast í náttúrufræði hjá nemendum í 8. bekk. Þessa dagana eru þeir á fullu að vinna að rannsókn þar sem sýni eru tekin úr læknum og hrauntjörninni í grennd við skólann. Sýnin verða síðan greind og skoðuð nánar nokkrum dögum síðar og kannað hvort hægt sé að sjá í smásjá hinar ýmsu tegundir þörunga sem þar kunna að leynast. Nemendurnir hafa sýnt þessu verkefni mikinn áhuga og nú þegar hafa fundist kísilþörungar, lirfur og annað áhugavert í sýnunum. Frábærir krakkar vinna frábær verkefni.

Hornsíli skoðuð í Hamrakotslæk.

Nemendur í 6. bekk hafa unnið ýmis skemmtileg verkefni. Sem dæmi voru þeir að læra um hornsíli og fóru í framhaldi af því í útikennslu að Hamrakotslæk. Þar kepptust börnin við að veiða hornsíli, skoða þau og spekúlera.


Í ensku föndruðu nemendur flugdreka eftir leiðbeiningum á ensku. Eftir að allir flugdrekarnir voru tilbúnir fóru þau með þá út til að láta þá fljúga.

Mannslíkaminn - hjarta skoðað

Í náttúrufræði í 9. bekk erum við að læra um mannslíkamann. Núna erum við að læra um blóðrásarkerfið en þar er hjartað lykil líffæri og því fengu krakkarnir að kryfja lambshjarta.

Loftslagsmál og umhverfisvernd, kynning landvarðar.

Nú á dögum er mikið rætt um loftlagsmál og umhverfisvernd. Við fengum því Þorgerði Maríu Þorbjarnardóttur jarðfræðing, landvörð og stjórnarmann í ungum umhverfissinnum í heimsókn til 7. bekkjar. Hún fræddi bekkina í hverju starf landvarða er fólgið. Fór yfir hvar þjóðgarðar eru á Íslandi og sýndi þeim myndir af hálendinu norðan Vatnajökuls. Hún fór yfir hvernig eftirlit er á hálendinu á sumrin. Hún ræddi einnig við börnin um hvert markmið ungar umhverfissinna og fyrir hverju samtökin standa.

Björgunaræfing um borð í Herjólfi.

Það er ekki á hverjum degi að nemendur taka þátt í björgunaræfingu í skipi. Börnin í 7. bekk fengu boð frá foreldri í bekknum um að koma og taka þátt í björgunaræfingu um borð í Herjólfi. Þau fóru öll í björgunarvesti og fengu að hoppa inn í rennu og ofan í björgunarbát, þannig að öllum var bjargað. Eftir þetta var þeim boðið í veislu, pizza, franskar og nóg af kakói.

Það voru glaðir krakkar sem héldu heim á leið eftir skemmtilegan dag.

Kynning á Mamma klikk

Gunnar Helgason kom á dögunum og las upp úr bók sinni Mamma klikk sem verið er að setja upp í Gaflaraleikhúsinu. Þetta er hluti af verkefninu Bóka- og bíódagar sem Hafnarfjarðarbær stendur fyrir.

Krakkarnir sátu spennt yfir tilþrifamiklum flutningi og mikið hlegið.


Klassísk tónlist í Hörpu

Nemendur í 5. bekkjum fór á dögunum í Hörpu þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti dagskrána Tímaflakk í tónheimum.

Þetta voru mjög skemmtilegir tónleikar og fróðleg kynning milli atriða. Flutt voru verk eða brot úr verkum frá mismunandi tímum.

Krakkarnir skemmtu sér vel og ferðin með strætó gekk að óskum.

Okkarínur búnar til í myndmennt.

Krakkarnir í 8. bekk hafa unnið með leir að undanförnu og bjuggu til okkarínur. Þegar leirinn er orðinn þurr er oxíð penslað ofan á okkarínuna sem svo er brennd í ofni við 1060° .

Það er ótrúlegt hve vel þeim tókst að spila á hljóðfærin sín og hér eru tvö tóndæmi, annað með bjartari tónum og hitt með dýpri.

Tónlist og leiklistarval

Nú er allt komið á flug í leiklistar- og tónlistarvalinu. Að þessu sinni er leiklist og tónlist samtvinnað í eitt val og gengur vel. Nemendur valsins eru 10 talsins og hafa fjölbreyttan áhuga á ýmsum sviðum er tengjast tónlist, leiklist, eftirvinnslu, ljósastýringum og upptökum.


Stefna valsins í ár er að efla hæfileika nemenda á fjölbreyttum sviðum sem ná inn á leiklist og tónlist. Stefnt er á að fara á sýninguna Velkomin heim í Þjóðleikhúsinu í október ásamt heimsókn í Borgarleikhúsið, þar sem nemendur fá að kynnast ýmsum hliðum leikhússins og þeim störfum sem þar er að finna. Í nóvember heimsækjum við Stúdentaleikhúsið, þar sem nemendur fá að fylgjast með og taka þátt í spunaæfingum og leikferli.

Verkefni sem bíða nemenda er tónlistarmyndband, þar sem nemendur spreyta sig í að búa til tónlistarmyndband við frumsamið lag eða uppáhalds lög þeirra.


Síðar verður sett upp leiksýning eða tekin upp stuttmynd, sem lokaverkefni námskeiðsins. Við vonum að nemendur njóti sín og efli hæfileika sína á þessu viðamikla sviði.

Big picture

Smíðar

Í smíðastofunni er lögð áhersla á að nemendur vinni úr eigin hugmyndum, eða aðfengnum af neti og / eða hvaðanæfa eftir efnum og ástæðum innan ramma námsskrár. Það má því segja að lögð sé mikil áhersla á einstaklingsmiðað nám þar sem tekið er fullt tillit til áhuga og getu hvers og eins. Efniviðurinn getur verið tré, málmar, plast eða hvað það efni sem nemanda dettur í hug að nota og þar með horft til endurvinnslu á ýmsum hlutum svo sem gömlum reiðhjólum, dóti úr „skúrnum“ af „lóðinni“ eða úr fjörunni ef svo ber undir.

Inn í hið hefðbundna verknám svo sem notkun hinna ýmsu handverkfæra og véla fléttast svo stærðfræði og íslenska þar sem bæði þarf að reikna út og teikna hina ýmsu gripi og læra þau fjölmörgu hugtök sem þvi tengist.

Smíðisgripirnir eru því fjölmargir og jafnvel sinn úr hverri áttinni og þannig öðlast nemendur innsýn í fjölbreytt vinnubrögð því hverju verki fylgir sitt lag eins og þar stendur.

Textíl - prjónað og saumað

Það er notalegt andrúmsloft í textílstofunni þar sem nemendur prjóna og sauma undir dyggri handleiðslu Lindu. Hér er stutt myndskeið. Ásamt því eru nemendur í 6. árgangi að búa til rafrænar ferilbækur þar sem þau skrá ferlið t.d. af því hvernig garn verður að húfu.

Útivist sem valfag

Útivistin hefur farið mjög vel á stað í haust. Nú þegar hefur hópurinn þvæls um hvippinn og hvappinn, meðal annars höfum við farið í hjólatúr í Nauthólsvík þar sem ylströndin tók á móti okkur í frábæru veðri. Einnig fór hópurinn í mikla æfintýraferð á Helgafell og skemmt sér konunglega.


Dagskráin í vetur er samsett af fjölbreyttum ferðum þar sem nemendur fá að kynnast útivist og útivistarmöguleikum í nærumhverfi Hafnarfjarðar, með áherslu á dugnað, heilsu og ýmiskonar fræðslu hjá Huldu og Atla.

Hraunberg

Starfið hjá okkur í Hraunbergi hefur gengið vel það sem af er hausti. Við byrjuðum á að koma okkur fyrir á nýjum stað, erum nú í stofu 200 og erum að smám saman að venjast því.


Við erum að vinna að hinum ýmsu verkefnum og allir leggja sig fram við vinnuna. Þegar verkefnum hverrar kennslustundar er lokið fá nemendur hvíld sem þeir geta notað að eigin vali. Legókubbarnir er mjög vinsælir og hinir ýmsu hlutir byggðir. Einnig er vinsælt af fá stundum að kíkja á yotube.


Nemendur í Hraunbergi eru mjög listrænir og nota því frítímann mikið til að skapa. Þeir eru góðir teiknarar og teikna ýmsar fígúrur eða teiknimyndasögur. Einn drengjanna er mikill listamaður með leir. Þá nota þeir spjaldtölvurnar stundum til að búa til tónlist eða til að teikna og gera hreyfimyndir.


Við nýtum okkur fallegt umhverfi skólans til útikennslu, sérstaklega þar sem veðrið er búið að vera einstaklega gott.

Sólberg

Starfið hefur farið vel af stað í Sólbergi. Í samfélagsfræði höfum við verið að vinna með ánamaðka annars vegar og krumma hins vegar. Strákarnir hafa allir mikinn áhuga á því efni, eru afar áhugasamir og taka vel eftir.


Við höfum einnig verið að vera vinna með Osmo sem er kennslusmáforrit með fylgihlutum. Börnin þjálfast í hreyfifærni, sköpun, rökhugsun, hljóðkerfisvitund, orðaforða, stærðfræði, samvinnu og samskiptum. Það sem gerir þetta svo frábært, er að á meðan börnin eru að læra þá upplifa þau það eins og þau séu bara að leika sér.

Bókasafnið

Eitt af því besta sem til er, er að sökkva sér niður í bók og hverfa inn í annan heim þar sem hverdagslegir hlutir gleymast um stund. Bókasafnið gegnir því mikilvæga hlustverki að hjálpa nemendum að komast inn í þennan heim, þar eru bækur við allra hæfi og hægt að fá aðstoð við leitina.

Á safninu er hægt að láta fara vel um sig ef það er eyða í stundatöflunni, eða ef nemendur þurfa á hvíld að halda. Margir koma til að tefla og alltaf eru til litir og blöð til að teikna á. Safnið er einnig notað fyrir nemendahópa. Þá gefst tækifæri til að skoða allar stóru bækurnar sem eru ekki til útláns, bækurnar um Valla, heimsmetin, álfkonurnar og sjóræningjana, Andrés Önd, Lifandi vísindi og ýmis önnur tímarit.

Safnið á margar bækur á ensku, og það getur verið tilvalið fyrir einhverja að fá sömu bók bæði á ensku og íslensku og æfa þannig lestur og skilning. Skúli skelfir er til dæmis til á báðum tungumálum. Einnig eru til eitthvað af bókum á dönsku og þýsku.

Bekkjarsettið af spjaldtölvum er geymt á safninu og þangað koma nemendur á yngsta stigi og sækja spjöldin. Þar eru einnig geymdir allir aukahlutir tengdið spjöldunum, svo sem hljóðnemar, vélmenni, lyklaborðin og OSMO fylgihlutirnir.


Í október er hvatningarleikur í gangi fyrir nemendur. Fyrir hverja bók sem þeir lesa fá þeir pappírsdraug í verðlaun. Þetta hefur vakið mikla lukku meðal yngri nemenda.


Allar uppástungur um kaup á nýjum bókum eru vel þegnar, hafið þá samband við Áslaugu.

Skólaráð Setbergsskóla.

Gengið var frá kosningu fulltrúa foreldra í skólaráði á aðalfundi foreldrafélagsins þann 10. október. Skólaráð er vettvangur samráðs og samstarfs milli skólastjóra og skólasamfélags. Því er m.a. ætlað að fjalla um skólanámsskrá, starfsáætlun og rekstraráætlun skóla auk þess sem skólaráð fær til umsagnar fyrirhugaðar meiriháttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla og fylgjast almennt með öryggi, aðbúnaði og almennri velferð nemenda. Hlutverk og verkefni skólaráða eru tíunduð í grunnskólalögum og reglugerð um skólaráð. Skólaráð er skipað skólastjóra og aðstoðarskólastjóra, tveimur fulltrúum kennara og einum fulltrúa annars starfsfólks. Þá sitja í ráðinu tveir fulltrúar úr hópi nemenda og tveir fulltrúar foreldra. Því til viðbótar er fulltrúi grenndarsamfélags en formaður foreldrafélagsins gegnir því hlutverki. Þannig nást góð tengsl milli skólaráðs og foreldrafélags. Fulltrúar í skólaráði eru skipaðir til tveggja ára í senn.


Núverandi skólaráð fundaði fimm sinnum á síðasta skólaári. Mönnun skólans var rædd, starfsáætlun, samræmd próf, námsskrá, Olweusarkannanir, afmæli skólans og Skólapúlsinn (nemenda, foreldra og starfsmanna). Verkefni sem var talsvert rætt var Skólaþingið sem haldið var síðasta vetur og úrvinnsla þess sem stóð fram eftir vori og stendur enn, enda viðamikið. Við þökkum öllum sem hafa lagt hönd á plóginn og tekið þátt í vinnunni. Skýrsla skólaráðs Setbergsskóla fyrir skólaárið 2018 – 2019 er að finna á heimasíðu skólans undir FORELRASAMSTARF. Þar eru einnig fundargerðir ráðsins.


Fulltrúar í skólaráði Setbergsskóla skólaárið 2019 – 2020 eru:

o Jökull Mar Pétusson, foreldrafulltrúi

o Katrín Ásta Hafsteinsdótti, foreldrafulltrúi

o Ellý Erlingsdóttir, kennarafulltrúi

o Linda Ösp Grétarsdóttir, kennarafulltrúi

o Erla Jónsdóttir, fulltrúi annarra starfsmanna

o Andri Steinar Johansen, nemendafulltrúi

o Sigríður Soffía Jónasdóttir, nemendafulltrúi

Lilja Helgadóttir er varafulltrúi foreldra í skólaráði.


Skólastjóri gerir starfsáætlun fyrir skólaráð, boðar og stýrir fundum. Aðstoðarskólastjóri situr fundi ráðsins og ritar fundargerð. Starfsáætlun og fundargerðir skólaráðs er að finna á heimasíðu fundir FORELDRASAMSTARF.

Aðalfundur foreldrafélagsins.

Aðalfundur foreldrafélags Setbergsskóla var haldinn þann 10. október. Anna Lilja Björnsdóttir frá KVAN flutti fræðsluerindi um samskipti, vináttu og sjálfsmynd barna. Hún fjallaði um mikilvægi félagsfærni og að í breyttu samfélagi fái börn ekki eins mikla félagsfærniþjálfun og áður. Börn geta staðið frammi fyrir vináttuvanda og getur ákveðin hegðun aukið líkur á því að börn lendi í slíkum vanda. Að mati Önnu Lilju er auðvelt að kenna börnum leiðir til að forðast þetta vandamál. Eftir fyrirlesturinn fjallaði Vala Steinsdóttir, formaður foreldrafélags Setbergsskóla, um mikilvægi bekkjarfulltrúa í því að styrkja samstarf foreldra og nemenda og samband heimila og skóla en bekkjarfulltrúar mættu vel til fundarins og það fyrirkomulag að halda haustfund með bekkjarfulltrúum samhliða aðalfundi foreldrafélagsins gefst vel.

Að lokum var haldinn formlegur aðalfundur foreldrafélagsins þar sem Vala Steinsdóttir flutti skýru stjórnar og Jökull Mar Pétursson flutti skýrlu fulltrúa foreldra í skólaráði. Áshildur Hlín Valtýsdóttir bar árssreikning foreldrafélagsins til samþykktar og kosið var í stjórn fyrir skólaárið 2019 – 2020.

Eftirtaldir aðilar voru kosnir í stjórn foreldrafélagsins á aðalfundi: Lára Hafberg, Haukur Agnarsson, Vala Steinsdóttir og Benedikt Gudmundsson sitja áfram. Nýjar í stjórn eru þær Halla Thoroddsen og Tinna Hrund Gunnarsdóttir og við bjóðum þær velkomnar.


Við viljum þakka Áshildi Hlín Valtýsdóttur og Kötlu Sigurðardóttur kærlega fyrir samstarfið síðasta vetur!

Í skólaráð voru kosin þau Katrín Ásta Hafsteinsdóttir og Jökull Mar Pétursson. Varamaður er Lilja Helgadóttir.

Fundargerð aðalfundar er að finna á heimasíðu skólans undir FORELDRAR. Við minnum einnig á facebook síðu foreldrafélagsins og hvetjum foreldra til að fylgjast vel með á þeirri síðu. Hér er slóðin á síðuna.

Framundan í Setbergsskóla:

Vinavika

Lestrarsprettur

Ýmislegt annað spennandi.