Fréttir úr Varmahlíðarskóla

1. sept. 2020

Kæra skólasamfélag

Skólastarf hefst prýðilega og vonir standa til að það sé gott skólaár framundan. Kennsla samkvæmt stundaskrá hófst í morgun eftir vel heppnaða hreyfidaga. Í upphafi skólaárs er ekki úr vegi að rifja upp almennar skólareglur Varmahlíðarskóla. Það er mikilvægt að sofa vel, borða hollan mat og hreyfa sig. Leggja sig fram við námið, gæta að stundvísi og vinna vel. Með því næst betri árangur og bætt líðan. Við þurfum að koma vel fram við hvert annað, sýna tillitssemi og hrósa. Ganga vel um skólann og eigur hans og hvers annars. Við göngum rólega innan dyra og göngum frá eftir okkur. Við sitjum til borðs í matsal og sýnum rósemi. Förum í biðröð við skólabíl, spennum öryggisbelti og sitjum kyrr í sætum okkar á meðan bíllinn er á ferð. Skólalóð má ekki yfirgefa á skólatíma án leyfis. Á hverju hausti rifja umsjónarkennarar upp skólareglurnar og almennar umgengnisvenjur en samstillt samtal heimila og skóla stuðlar að betri vellíðan allra í skólasamfélaginu.


Hreyfidagar tókust vel

Að venju hófum við skólaárið á hreyfidögum. Á fimmtudag í síðustu viku var boðið upp á hreyfistöðvar af ýmsu tagi í nágrenni skólans. Félagar úr björgunarsveitinni í Varmahlíð aðstoðuðu eldri nemendur við sig og klifur á Hestavígshamri. Öllum nemendum var boðið upp á sápubolta og sápurennibraut, einnig var farið í sund og ýmsa leiki uppi á íþróttavelli.

Á föstudaginn var Ólympíuhlaup ÍSÍ. Þá hlupu nemendur 2,5, 5 eða 10 km og fóru í sund. Í gær mánudag fóru svo allir nemendur og starfsfólk skólans í göngu- og hjólaferð. Ferðalagið hófst með rútuferðum að Skeljungshöfða. Þaðan var lagt af stað á hjólum eða fótgangandi eftir Norðurárdalnum að Heiðarlandi. Á leiðinni var stoppað við Kotárgil þar sem nesti var borðað. Síðan var haldið af stað aftur og þegar komið var að gangnakofa Akrahrepps biðu grillaðar pylsur og drykkir eftir þreyttum ferðalöngum. Þegar allir höfðu nærst vel var sögustund þar sem Trostan sagði öllum hópnum söguna af Skeljungi. Síðan var haldið heim.

Við viljum færa foreldrum þakkir fyrir þeirra framlag, skutl með hjól og þess háttar til þess að ferðin gæti orðið að veruleika. Einnig viljum við þakka Línu og Bryndísi fyrir gott skipulag hreyfidaga þetta árið.


Farsímar og snjalltæki

Við vekjum sérstaka athygli á að öll notkun farsíma er óheimil á skólatíma í yngri bekkjum Varmahlíðarskóla, það er í 1.-7. bekk.


Á unglingastigi, í 8.-10. bekk, hefur ákvörðun verið tekin um takmarkaða notkun eða snjalltækjalausan september fyrir hádegi. Það á bæði við um síma og önnur snjalltæki.

Í almennum skólareglum Varmahlíðarskóla segir: “Við notum snjalltæki (síma/spjaldtölvur) í samráði við kennara og starfsfólk.” Hvort tækjalaus september verður framlengdur eða gerðar frekari breytingar á unglingastigi verður endurskoðað í september í samvinnu við nemendaráð og aðra hagsmunaaðila.


Með öðrum orðum þá viljum við tryggja að vinnutími nemenda og starfsfólks sé virtur og leggja upp með að nemendur læri sjálf að virða sinn vinnutíma. Frímínútur og frjálsar stundir á síðan að nýta sem mest og best til félagslegra samskipta og leikja af ýmsu tagi.


Við biðlum til ykkar foreldra og forsjáraðila að standa með okkur í þessum ákvörðunum og hringja ekki til barna eða senda þeim boð á meðan á skólatíma stendur. Sé nauðsynlegt að koma boðum má hringja á skrifstofu skólans í síma 455 6020.


Við viljum sérstaklega árétta að nemendum í 1.-7. bekk er ekki heimil nein notkun farsíma á skólatíma, hvorki í kennslustundum, frímínútum eða á öðrum tímum. Séu aðstæður þannig að nauðsynlegt þyki að barn hafi meðferðis síma vegna annarra verkefna að loknum skóladegi að þá ætlumst við til þess að síminn sé geymdur í töskunni og slökkt á símanum á skólatíma. Æskilegast er að símar séu geymdir heima eins og því er við komið.

Varðandi tölvupóstasamskipti - úr skólanámskrá:

  • Tölvupósta ætti eingöngu að nota til að senda upplýsingar til að spyrjast fyrir um hagnýt mál.

  • Til að ræða viðkvæm, persónuleg mál er betra að biðja um fund eða hringja.

  • Ekki er gert ráð fyrir að kennarar opni tölvupóst né svari í síma/farsíma í kennslustundum. Slíkum erindum er sinnt eftir kennslu.

  • Ekki er gert ráð fyrir að kennarar og/eða skólastjórnendur svari tölvupósti á kvöldin og um helgar.