Fréttabréf Brekkuskóla

Ágúst 2019

Kæru nemendur og foreldrar

Nú er skólastarfið hafið og að venju byrjuðum við á samtölum nemenda, foreldra og umsjónarkennara. Í næstu viku verður kennsla samkvæmt stundaskrá en nemendur í 1. bekk mæta þó kl. 9 á mánudagsmorgun.


Í sumar hafa staðið yfir framkvæmdir við húsnæði skólans og er þeim senn að ljúka. Síðustu dagar hafa farið í þrif og frágang og verður skólinn okkar enn fínni fyrir vikið:-)


Eins og staðan er í dag þá eru 506 nemendur í skólanum, 78 starfsmenn og hver veit hve margir forráðamenn:-) Við bjóðum nýja nemendur, foreldra og nýtt starfsfólk velkomið í hópinn okkar. Við erum fjölmennt samfélag sem þarf að standa vörð um skólastarfið og það gerum við m.a. með því að hafa einkunnarorð skólans í huga.


MENNTUN - GLEÐI - UMHYGGJA - FRAMFARIR


Með von um gott samstarf í vetur,

starfsfólk Brekkuskóla

Á döfinni fyrstu vikuna

Í Brekkuskóla er hefð fyrir því að fyrstu dagarnir einkennist af útveru og hópefli þar sem árgangar gera margt skemmtilegt með sínum kennurum.


27. ágúst 6. bekkur á Húna

28. ágúst 6. bekkur á Húna

29. ágúst úivistardagur - allur skólinn.

Forleldrar fá nánari upplýsingar frá umsjónarkennurum þegar nær dregur.

Brekkuskóli hnetulaus skóli

Í vetur verður Brekkuskóli hnetulaus skóli. Það gildir bæði fyrir nemendur og starfsfólk.

Hér að neðan er slóð inn á síðu Astma og ofnæmisfélags Íslands þar sem eru frekari upplýsingar.

https://ao.is/index.php/utgefidh-efni/28-fraedsla/ofnaemi/faeduofnaemi/292-leidhbeiningar-til-skola-leikskola-og-adhila-i-fristundastarfi

Umferðaröryggi

Það er alltaf við hæfi að huga að umferðaröryggi barna og sérstaklega við upphaf skóla þegar svo mörg börn fara á sama tíma út í umferðina. Brekkuskóli er staðsettur við stórar og fjölfarnar umferðargötur og nauðsynlegt að sýna aðgát og kenna börnunum öruggustu leiðina á milli skóla og heimilis.

Einnig þarf að huga að ferðamátanum en það er um að gera að hvetja þau börn sem það geta að ganga eða hjóla í skólann. Það er bæði gott fyrir heilsuna og umhverfið.


Samkvæmt 40. grein umferðarlaga er börnum yngri en 7 ára óheimilt að vera á reiðhjóli úti í umferðinni nema í fylgd með 15 ára og eldri.

Samkvæmt lögum eru öll börn undir 15 ára aldri skylduð til að nota hlífðarhjálma við hjólreiðar.